29 október 2006

Marklaust raus

Hérna er eitthvað vídjó sem ég man ekki lengur hvað er.

Ég skellti tenglinum niður í performancing gluggann og fór svo að sofa. Eða eitthvað svoleiðis. En þarna er hann.

Á morgun ætla ég að hitta Gunnar Marel á þessum stað, en mér skilst að hann hafi verið vinsæll meðal íslenskra sveina á öldum áður og síðar. Ég kíkti þarna inn með honum Grím um daginn og við drukkum einn bjór. Einn bjór hvor. Það stóðu tveir gaurar við dyrnar, við völdum okkur sæti og annar þeirra kom og tók pöntun, færði okkur bjórinn og rukkaði okkur við borðið.

Öðruvísi. En þægilegt. Í dýrari kantinum, en þetta er jú á Kongens Nytorv. Hlýlegur staður.

Seinni hluta dagsins hef ég eytt í að horfa á The West Wing. Það er gott að geta spólað fram og tilbaka án mikillar fyrirhafnar, því það kemur oftar en einusinni fyrir að ég þarf að hlusta á samtöl í annað og þriðja sinn til að skilja hvað fólkið er að tala um. Og mér finnst það síður en svo óþægilegt, bara meira gaman. Og ég spóla framávið þegar þeir sýna brot úr fyrri þáttum (,,previously on The West Wing...") vegna þess að þeir gætu allteins sagt mér hvað er að fara að gerast í þættinum sem ég er að horfa á. Og ég vil ekki vita það, það er að hluta til þessvegna sem ég horfi á sjónvarp og les bækur; að fylgjast með sögunni og komast að því hvað gerist næst.

Battlestar Galactica er einstaklega erfiður hvað þetta varðar, en hann sýnir atriði úr fyrri þáttum til að setja atburði viðkomandi þáttar í samhengi (og upplýsir þannig hvaða þræði þátturinn tekur upp) og skeytir auk þess brotum úr þættinum inní titilsenuna. Mig langar ekki að vita að þetta og þetta geimskip verði sprengt í tætlur afþví þá veit ég strax hverskonar þáttur er framundan. Mig langar ekki að sjá þennan og þessa fyrir framan aftökusveit af nákvæmlega sömu ástæðu. Ég hafði fyrir því að verða mér úti um þessa þætti, eða að kveikja á sjónvarpinu á réttum tíma, þannig að við skulum gefa okkur að ég viti hvað er í gangi.

Og það er mitt álit.

Annað er að almannatengslastelpan Mandy í The West Wing hvarf sporlaust á milli atburða fyrstu og annarar seríu, og enginn hefur minnst á hana síðan. Var hún viðriðin skotárásina sem gerði allt vitlaust í síðasta þætti fyrstu þáttaraðar? Var hún blóðguð bakvið skemmuna til að friða hefndarofsa forsetans? Var henni grafin ómerkt gröf, voru eigur hennar brenndar, var nafn hennar strokað útúr gagnabönkum merkurinnar? Var vinum hennar og fjölskyldu ráðlagt að gleyma því að hún hefði dregið andann ella sæta viðbjóðslegri misnotkun í leynilegu neðanjarðarfangelsi?

Flestir myndu stinga uppá einhverju einfaldara, einhverju sem viðkemur leikurum og framleiðendum og samningum og bla bla bla, en mér finnst mín hugmynd skemmtilegri.

Og talandi um Battlestar, síðasti þáttur (,,Collaborators") var heelvíti góður. Hann bætti fyrir síðustu tvo, sem voru hættulega nálægt því að vera rusl. En Moore segir að sumir sem hafa séð alla þættina í þriðju þáttaröð segi þetta vera besta þáttinn af öllum, svo ég vona að þetta fari ekki versnandi héðan í frá. Því þetta var ekki það gott.

Síðasti þáttur annarar seríu sprengdi heiminn og það er auðvitað erfitt að fylgja því eftir, en þetta virkar nokkurnvegin einsog þeir séu að koma sér fyrir í sömu stöðu og við sáum í byrjun annarar þáttaraðar. Sem væri lélegt. En vonandi hafa þeir vit til að gera eitthvað frumlegt við það sem þeir hafa í höndunum..

Ég kláraði Foucault's Pendulum um daginn og ég man ekki hvort ég var búinn að minnast á það núþegar. Ég þyrfti að skrifa eitthvað um hana fyrr en síðar, þarsem ég er að vonast til að geta lokkað ritgerð uppúr henni.

Já og ég var að tékka á þessu vídjói, þetta er heimildaþáttur einhverskonar um Blade Runner. Ekki um gerð myndarinnar eða þannig heldur bara um myndina.. Nokkrir góðir viðtalsbútar og sagan af því hvernig hún rataði á tjaldið. Helvíti gaman að þessu. Þyrfti að sjá myndina aftur, sá hana síðast á VHS frá Suðurlandsvídjó.. Hvað ætli sé orðið langt síðan?

-b.

2 ummæli:

[Davíð K. Gestsson] sagði...

Æði að sjá þessa heimildarmynd um Blade Runner. Ennþá æðislegra er að það er búið að greiða úr lagaflækjunum og það kemur loksins mannsæmandi dvd útgáfa á næsta ári.

Björninn sagði...

Já ókei.. ekki vissi ég af því. Partí partí.