29 febrúar 2008

Að dansa eða ekki að dansa

Ég keypti bókina Reader's Block eftir David Markson um daginn. Hún er mjög svipuð This is Not a Novel, sem er náttúrulega besta mál. Þarna eru efnisgreinarnar ein, tvær eða þrjár línur, æviatriði skálda, fræðinga og listamanna í bland við lýsingar á persónunni Reader, bókatitlar án frekari útskýringa og tilvitnanir án heimilda og stundum án höfunda.

Ein af þessum tilvitnunum er svohljóðandi:

,,Only a lunatic would dance when sober, said Cicero."

(Og svo ég leggjist nú ekki í sömu póstmódern gryfju og Markson þá er þetta semsagt héðan: Markson 2007 (1996), bls. 22.)

Þetta er flott lína. Mig langaði að vita hvaðan hún kemur svo ég gúglaði hana. Tilvitnunin er náttúrulega ensk þýðing úr latínu, svo að hún er til í nokkrum myndum. En sú langalgengasta var þessi:

,,No sane man will dance."

Má maður þá ekki gerast drukkinn lengur eða hvað? Línan er náttúrulega stutt og laggóð, fimm skoppandi atkvæði. Ég fékk reyndar svo fáar niðurstöður þegar ég sló absolút kvótinu hans Marksons upp að mig grunar að hann hafi fundið sína eigin orðaröð og hrynjandi. Það er ekki hægt að segja hlutina bara svona hinsegin, ég er viss um að Síseró hefið verið sammála því. No sane man will dance. En þá spyr maður sig hverju Markson sleppi. Varla skrifaði Síseró þessi orð á blað og setti í möppu sem barst svo til okkar í gegnum aldirnar..

Eftir smá orðabókahjakk fann ég latínuna:

,,Nemo enim fere saltat sobrius, nisi forte insanit."

Eftir meira hjakk fann ég hvaðan hún kemur, en það er úr Pro Murena (enska). Þar mælir Síseró fyrir Lucius Murena, sem var ákærður fyrir mútuþægni. Eða mér sýnist það hafa verið fyrir mútuþægni, frekar en að múta öðrum.. ég játa að ég nenni ómögulega að kynna mér málavöxtu nokkuð frekar.

En já. Semsagt. Þá getum við lesið efnisgreinina sem línan er tekin úr:

VI.[13] Cato calls Lucius Murena a dancer. If this be imputed to him truly, it is the reproach of a violent accuser; but if falsely, it is the abuse of a scurrilous railer. Wherefore, as you are a person of such influence, you ought not, O Marcus Cato, to pick up abusive expressions out of the streets, or out of some quarrel of buffoons; you ought not rashly to call a consul of the Roman people a dancer; but to consider with what other vices besides that man must be tainted to whom that can with truth be imputed. For no man, one may almost say, ever dances when sober, unless perhaps he be a madman, nor in solitude, nor in a moderate and sober party; dancing is the last companion of prolonged feasting, of luxurious situation, and of many refinements. You charge me with that which must necessarily be the last of all vices, you say nothing of those things without which this vice absolutely cannot exist: no shameless feasting, no improper love, no carousing, no lust no extravagance is alleged; and when those things which have the name of pleasure, and which are vicious, are not found, do you think that you will find the shadow of luxury in that man in whom you cannot find the luxury itself?

(Héðan. Áherslan er mín.)

Þá sýnist mér að Kató hafi sagt Murena vera dansara, og reynt þannig að rægja hann eða láta hann líta illa út. Og Síseró slengdi þessu svona aftur í fésið á honum. Meiningin er þessi, ef mér skjátlast ekki:

Þú segir Lúsíus Murena vera dansara, en allir vita að menn dansa ekki nema vel fullir eða geðveikir, og þá gjarnan á hápunkti hömlulausra partía. Með því að nefna dansinn gefur þú í skyn allskyns lesti og syndir, án þess að nefna þær beint á nafn, og það hæfir varla málfærslumanni af þínum kalíber.

Maður spyr sig þá hvort þeir Kató og Síseró gefi sér báðir að dans sé fylleríissport, það þurfi ekki að ræða það neitt frekar, og að Síseró sjái þannig hverju Kató er að ýja að. Eða er þessi tenging ekkert viðtekin, er Kató að vísa til lægstu hvata mannsins á óbeinni hátt? Þá á ég við þetta: Er Síseró, með þessum orðum sínum um dans og drykkju og brjálæði, að endurtaka viðtekinn sannleik, eða er hann að færa lúmskar árásir Katós í orð, án þess að taka undir meininguna?

Það má vera að þessu sé auðsvarað fyrir þá sem hafa í raun og veru lesið málsvörnina. En ég nenni því ekki svo ég læt mér nægja að kasta fram spurningunni.

Rosalega er gaman að skrifa á netið.

...

Markson minnist líka á að það séu enn til skrár yfir sigurvegarana í allra fyrstu ólympíuleikunum, árið 776 fyrir Krist, og áfram næstu níuhundruð árin! Og maður hugsar. Þessu nenntu þeir að halda til haga, blessaðir.

-b.

Sumir keyra til Keflavíkur, aðrir fljúga til Parísar

Hallur kom heim í Skaftahlíðina í gær með tösku og flugmiða. Við gláptum á tvo X-Files þætti og fórum svo í bælið. Hver í sitt bæli, vitaskuld. Hvað er þetta. Útúrsnúningar og dylgjur eru þetta alltaf. Ég á ekki eitt aukatekið o.s.frv.

Annars hafði ég gaman af því að velja góða X-Files þætti. Það gæti verið lítið verkefni fyrir mig að katalóga þessi ósköp, hvað virkar og hvað ekki, stýra vongóðum glápurum framhjá hrikalegu þáttunum (sem eru þónokkrir) og vekja athygli á æðislegu þáttunum (sem eru líka nokkrir, þó það nú væri). Það er spurning.

En Hallur var semsagt kominn til að leggja sig um nóttina og fara svo með Inga Birni á Leifsstöð, en ég var búinn að lofa því að keyra þá niðreftir. Við lögðum af stað um fimm og vorum komnir á fínum tíma. Ég tók í hendur og kvaddi strákana og jafnvel þótt það væri strangt til tekið ekki hægt að miða út gönguleiðir þarna á staðnum - þá taka við blindgötur, snarpar beygjur og snúningar í innskráningu og öryggisleit - þá þóttist ég sjá að þeir stefndu beina leið á barinn.

Ég heyrði annars í Inga Birni áðan og þeir voru kátir, í metróinu á leiðinni til Montparnasse. Í kvöld opnar sýningin þeirra Frikka og félaga. Það verður partí, hugsa ég.

Ég keyrði heim frá Leifsstöð, sofnaði kaldur og þreyttur og svaf yfir mig. En það kom ekki að sök. Nú stend ég vaktina niðrá safni, sjoppan lokar eftir rúma fjóra tíma. Hvað er að heyra, er strax komin helgi?

Það eru annars þrjár vikur í mína utanlandsferð. Ég bíð rólegur.

-b.

28 febrúar 2008

Ennþá Grettir

Hérna er skrítla sem er kölluð Arbuckle, en þar eru línurnar hans Grettis fjarlægðar og strípan teiknuð uppá nýtt. Sumt gott. Þessi hérVerður þessi hér:Þetta er göfugt framtak, og langt í frá að vera tímaeyðsla, hvorki fyrir hlutaðeigandi né mig, lesandann.

Grettir, Jón og Marvin

Fyrir tæpu ári benti ég á gaur sem klippti línurnar hans Grettis útúr Grettis-skrítlum og gerði þær talsvert fyndnari fyrir vikið. Þá sjaldan sem ég les Gretti síðan hef ég haft þetta bakvið eyrað. Og tíðin var góð.

Nú sé ég að einhver hefur fjarlægt Gretti allan. Sem er mjög rökrétt framhald, og bráðsnjallt. Skrítlurnar eru enn fyndnari. Og manni dettur í hug myndhöggvarinn, sem heggur burt allan óþarfa þartil myndin - sem var alltaf til staðar inní berginu - kemur í ljós. Jim Davis og co. henda grjóti í mannfólkið og betri menn höggva úr því brandara. Myndhverfingin er gölluð en samt svo rétt.Ég veit ekki hvort það er beint samband á milli þessarra Grettis-fiktara. Það skiptir ekki öllu máli.

Og nú kemur tenging: Þessar Grettislausu Grettis-skrítlur sýna geðsjúklinginn Jón, sem talar við sjálfan sig og eyðir stundum fleiri en einum ramma í þögla vanlíðan. Þarna er verið að búa til absúrd húmor úr hefðbundu formúlugríni, sem er meira og minna það sem Steve Martin segist hafa reynt að gera þegar hann var að þróa sitt uppistand.

Ég var einmitt að klára Born Standing Up eftir Steve Martin núna rétt í þessu, sem er nokkurskonar ævisaga. Mér þykir hálfóþægilegt að lesa ævisögu þarsem ég hef verið svo hneykslaður á ævisögulestri fólks í kringum mig.. en þessi bók renndi á vissan hátt frekari stoðum undir þessa fordóma mína. Ég las bókina vegna þess að ég hef gaman af uppistandinu hans, og það var oft áhugavert að lesa um það hvernig hann byrjaði í geiranum, með hverjum hann var að túra, hvernig hann þróaði settið sitt o.s.frv. En jafnvel þótt yfirlýst markmið hans með bókinni hafi verið að skoða þetta æviskeið sitt nánar þá kemst hann ekki hjá því að ræða um fjölskyldumál og kærustur. Sem mér finnst engan veginn áhugavert.

Það er deginum ljósara að þetta blandast allt saman, uppistandarinn er mótaður af samskiptum sínum við foreldra sína allt einsog því hvað hann les eða sér útum gluggann. En einsog gamanmálin hans eru framúrstefnuleg og spennandi þá er fjölskyldudramað eitthvað sem mér finnst ég hafa séð í sjónvarpinu tíu sinnum áður: Ofbeldisfullur og afskiptinn faðir sem er ómögulegt að gera til geðs, systkini sem talast varla við og móðir sem verslar og segir ekki orð. Og allt leysist á endanum, allir skilja sem vinir.

Ég ímynda mér staðlaðan ævisögukúnster sem hrópar ,,En þetta gerðist í alvörunni! Þetta upplifði maðurinn!"

Og hvað með það?

En það má vel vera að ég sé að snúa þessu á hvolf, og að sagan sé höfuðatriði fyrir þá sem helst vilja lesa ævisögur, ekki sannindin. Plebbinn sem gólar í hausnum á mér um alvöru og staðfestar heimildir er e.t.v. hugarburður einn.

Hvað sem því líður þá er sagan frekar mistæk. Ég myndi samt mæla með henni fyrir áhugamenn um uppistand Martins eða uppistand almennt. Sögurnar af götunni og klúbbunum eru oft kostulegar. En bókin útskýrir a.m.k. hversvegna Martin er svona tregur til að veita viðtöl sem hverfast ekki útí sketsa: Einkalíf kómíkerans er ekkert sérlega fyndið, einsog hann tekur fram oftar en einusinni. Sjóið er sjó, og rjóminn er skilinn eftir á sviðinu.

...

Föruneyti hringsins er að klárast, en það er nóg af sögu eftir í eyrun. Ég fékk nýja amazón sendingu um daginn og á þessvegna nóg á skjáinn líka. Hinsvegar vantar mig eitthvað að lesa. Æ mig auman.

-b.

27 febrúar 2008

Sjá leiðina sem ég keyri bráðum


Sjá á stærra korti

Þetta er semsé leiðin frá Kastrup til Ölsremmu. Ef allt gengur að óskum þá fer ég þessa leið á bíl eftir flugferð og allskonar.

-b.

26 febrúar 2008

There Will be Old Men

Við Davíð og Sævar kíktum á There Will Be Blood sunnudagskvöldið síðastliðna. Hún er þrælmögnuð maður.. Svo kom þessi spurning upp einhverstaðar, hvor er nú betri, hún eða No Country for Old Men. Betri og verri er voða erfitt finnst mér. Eða. Barton Fink er betri en The Flintstones, en er hún betri en Miller's Crossing? Það er einhvernvegin sanngjarnara að bera saman myndir þarsem sama fólkið kemur að, eina Cohen mynd við aðra eða tvær Anderson myndir.. Er TWBB betri en Boogie Nights? Báðar eru betri en Hard Eight.

Betri verri er voða erfitt og varla þess virði að rausa um það.

Og það hlýtur að skipta máli hvernig maður horfir á myndirnar, hvar maður sér þær, með hvaða fólki. Ég sá TWBB með tveimur vinum mínum í þéttum bíósal, en NCFOM einn míns liðs á tölvuskjá. Og ég vildi eiginlega óska þess að hafa séð þær báðar í kvikmyndahúsi. Ég var að hugsa útí þetta og ég hugsa að ég hefði horft á There Will Be Blood á tölvunni ef ég hefði komst í hana áður, en að sama skapi hefði ég væntanlega farið á No Country for Old Men í bíó hefði hún komið í hús á skikkanlegum tíma. Ég vil hluti núna, ekki seinna. Netið lætur yfirleitt allt eftir mér, ég er spilltur. En svona er það bara.

Er No Country betri en Fargo betri en Big Lebowski betri en Miller's Crossing? Þær eru allar bestar. Sú síðastnefnda er samt mitt uppáhald. Sjitt hún er æði. Og aldrei sá ég hana í bíó.

En myndin er snar. Við Sævar sáum báðir Jóakim Aðalönd við varðeldinn, sem var gaman. Var það þetta sem ég vildi segja um hana? Feh, vinnan er búin í dag. Ég verð að kíkja eitthvað og gera hlut.

-b.

Skrifaði þetta upp áðan

Ég kann ekki þýsku þannig að ég var að skrifa upp slatta sem ég skil ekki. Eða ég næ orði og orði en það stendur ekki orð oná orði. Og þetta er úr þýskri þýðingu á íslenskri smásögu. Þýska nafnið er Der lebende Freund, sem þýðir.. hvað, ,,ástríki vinurinn"? Er þetta um ofurhugana í Gaulverjabæ?

............

Es waren einmal im 20. Jahrhundert fünf Freunde, die hoch und heilig gelobt hatten, sich am Heiligen Abend des Jahres 2002 im Botanischen Garten in Reykjavík zu treffen. Sie rechneten damit, dass sie vor diesem Termin das Zeitliche gesegnet haben würden, und sicherheitshalber hatten sie sich verabredet, da es passieren könnte, dass sie getrennt würden. Im jenseitigen Gewühl wäre es bestimmt nicht angenehm, jemanden ausfindig zu machen.

Als es so weit war, lebte Vernhard immer noch. Er war unschlüssig, ob er zu diesem Stelldichein gehen sollte, weil seine Freunde ihn wohl kaum erwarteten. Andererseits war er ein wenig gespannt sie zu treffen, und dies war ja im Augenblick die einzige Gelegenheit. Vernhard entschied sich nach einigem Hind-und-her-Überlegen, in den Botanischen Garten zu trotten und abzuwarten, was geschehen würde. Er wohnte ja schließlich ganz in der Nähe auf dem Sunnuvegur, und es lag kein Schnee.

Er packte die Thermoskanne mit Kaffee und ein Brot mit geräuchertem Lammfleisch in seine Badetasche, die schon so betagt war, dass noch Loftleidir darauft stand. Falls er warten müsste. Es war unbedacht gewesen, keine genaue Zeit zu vereinbaren. Außerdem war es ja auch gar nicht sicher, ob die Freunde abkömmlich waren.

Der alte Mann machte die rote Lichterkette an, als er aus dem Haus ging. Er hatte sie wie alle Jahre weider Mitte Dezember in die Eberesche gehängt. Schwer zu sagen, wie ein Mann, der so schwach auf den Beinen war, es schaffte, auf eine Leiter zu steigen. Er dachte auch nicht darüber nach, wie ohne die rote Lichterkette vor dem Wohnzimmerfenster ganz einfach undenkbar. Undenkbar war es auch, jemanden um Hilfe zu bitten. Er war zu der Erkenntnis gekommen, dass es nicht der schlimmste Tod wäre, daneben zu treten und von der Leiter zu fallen.

.............

-b.

23 febrúar 2008

Húmblúm

Ég sagði ,,góðan dagara" við safngest áðan.

Hann kýldi mig á kjaftinn.

-b.

Þeir eru báðir bestir

riotclitshave er best í heimi í vinnunni á laugardegi.

22 febrúar 2008

Dagar víns og tilhlökkunar

Ég setti svona lítinn teljara hingað á hliðina. Hérna til vinstri. Ekki að ég sé neitt að fara framúr klukkunni af eftirvæntingu og vilji spóla mig niður, heldur er þetta nú meira til að setja smá stemmara í blandið.

Það eru komin ár og dagur síðan ég taldi niður að einhverju. Svona er lífið nú skemmtilegt.

Já og Slayer voru að tilkynna komu sína. Ég hugsa að ég verði ekki eini gaurinn sem tekur lúft-Guitar Hero&trademark; sóló í tilefni af því.

-b.

Einróma lof gagnrýnenda

Doktor Sævar Öfjörð, ljóðunnandi og ljóðgagnrýnandi til margra ára** hefur nú birt umfjöllun um nýútkomna ljóðabók mína, Ljóðskáld eru hálfvitar. Þar kemur Sævar fram af mikilli næmni og innsæi, sýnir leiftrandi snilld í meðförum tyrfinna texta og brýtur jafnvel þéttustu ljóðmúra á bak aftur. Hann brýnir penna sinn og ræðst til atlögu, skilur að endingu líkingavirkin eftir í rústum og sýnir lesendum sínum hvað hýrist bakvið sleipa veggi ljóðlínanna.

Og umfram allt þá er auðséð að hann skilur ljóð rétt. Sem er meira en að segja það.

Mér þykir gaman að sjá framtakssemi þessa tiltekna gagnrýnanda og ég vona að fleiri af hans sauðahúsi sjái sóma sinn í því að sækja til mín ljóðabók og skrifa lofsamlega um hana í hvívetna.

...

Og þá er víst rétt að varpa hulunni ofan af þessari síðu. Kæru lesendur, þessi blóksíða hefur allan tímann verið dulin auglýsingaherferð fyrir þessa æðislegu ljóðabók. Með þessu móti hefur mér tekist að lokka til mín hálfan annan tug lesenda, og geri aðrir betur. Héðan í frá munu öll skrif mín hér miða að frekari dreifingu á þessu bókmenntaverki, allt þangað til ég kýs að gefa frá mér næstu ljóðabók, sem ber nú vinnuheitið Gagnrýnendur eru hálfvitar (en ekki hvað?).

Takk fyrir.

-b.

**Athugasemd: Sævar Öfjörð er ekki ljóðagangrýnandi til margra ára og er ekki með doktorspróf. Hann er tölvunarfræðingur og meðleigjandi undirritaðs.

21 febrúar 2008

Ónáttúra / Ó-náttúra / Ó! Náttúra!

Fyrst ég setti textann hans á netið þá get ég víst líka smellt þessu vídjói inn, Gísli Hvanndal les ljóð:Hérna má sjá fyrsta til þriðja sætið, en þeir sem fylgjast með fréttum og svoleiðis hafa e.t.v. séð hana Halldóru í kastljósinu núþegar.

Ég á líka til vídjó af öllum hinum lesurunum, dönsurunum, spilurunum. Þetta gæti allt farið á jútúb, þessvegna.

Þess má einnig geta að sólin skín. Fimm vikur í Svíþjóð og þaðan fjórtán vikur í Hróarskeldu. Sjibang.

-b.

Watchmen ðe múví

18 febrúar 2008

Sumarfríið í ár

Ég á bókað flug til Kaupmannahafnar annan júlí næstkomandi. Og ég á líka bókað flug heim þann áttunda júlí næstkomandi. Glöggir lesendur hafa þegar komið auga á þá staðreynd að utanferðin faðmar fyrstu helgina í júlí, þegar tónlistarhátíð er haldin í Hróarskeldu ár hvert. Þeir vita einnig að Kaupmannahöfn er steinsnar frá Hróarskeldu, og draga þá ályktun að þessi skreppitúr minn hafi eitthvað með téð festival að gera.

Og svona ykkur að segja, glöggu lesendur, þá er það alveg rétt.

Við Davíð og Egill erum allir þrír búnir að panta okkur flug með sömu vélum og ætlum á tónlistarhátíð. Hversu svalt er það á skalanum einn til tveir?

Einsog sjá má á heimasíðu hátíðarinnar þá eru rétt rúmir 132 dagar í herlegheitin. Þar má einnig skoða heldur stuttan lista af böndum sem eru þegar búin að skrá sig á svið, en hann lengist þegar nær dregur.. Ég hef aldrei verið yfirmighrifinn af Chemical Brothers og það virðast allir fíla Band of Horses nema ég og Jakob í skemmunni, en nú skal karlinn sjá Radiohead. Fokk já. Sjö ár síðan síðast beibí, von að mann sé farið að klæja.

Þá er bara að fara að skoða tjöld, versla fána, sauma búninga, bæta stígvélin, kaupa batterí, pakka teipinu..

Uppfært um kvöld sama dags: Nú er ég kominn með miða á Kelduna sjálfa. Þeir fást í Skífunni. Allt á pappírum maður, skjalfest og staðfest og kom nú snart fest.

-b.

15 febrúar 2008

Hrynjið þið vitar

Ég læt það fara í taugarnar á mér þegar Íslendingar skrifa enskar línur á íslensku. Ég er farinn að halda að ég sjái þennan tendens í skrifum sem innihalda ekkert slíkt, að ég sé beinlínis farinn að leita að þessu. Á móti kemur síðan að ég les miklu meira á ensku heldur en íslensku, og óttast að gerast sekur um þetta sjálfur. Sumt kann að hljóma einsog íslenska fyrir mér vegna þess eins að ég tjúna jafnvel betur inná enskuna en íslenskuna, og tiltekin lína virkar á báða bóga.

En ,,Ég vinn heimavinnuna mína" er skelfing. Ég rakst á þetta í ónefndri bók núna áðan og rauk upp til handa og fóta einsog áramótaspaugsgamlinginn.

,,I do my homework" er dara-daradda.

,,Ég vinn heimavinnuna mína" er dara-daraddaddadda-dadda.

Þetta er ekki flókin stærðfræði. Díses.

-b.

X-Files um árin

Ég var að horfa á einn X-Files þátt í gær og á sama tíma var ég að tala við Inga Björn á msn. Ég fer að skrifa um hana Scully, einsog maður ætti alltaf að gera þegar X-Files er í gangi, og Ingi Björn vissi ekki hvað ég átti við en það minnti mig á þetta hér:

Sköllí.. með rauða hárið þitt á skjánum
og greitt afturfyrir eyra öðrum megin og með gulleyrnalokk
Sköllí komdu til mín þegar þú ert í vandræðum
la la la tí da daí..

...

Þetta var fyrir tveimur árum síðar. Hún eldist ósköp lítið á DVD disknum, blessunin.

-b.

14 febrúar 2008

Helgin

Ég er að spá í að fara austur á morgun eða hinn. Það gæti verið ljúft plan.

-b.

,,He's right, you know.."

Sometimes I'm a little stupid, maybe, a little slow in the head, so I'm wondering if you can help me get something straight. Maybe you can help me understand one fucking thing right now, America, and explain to me what in the Christ is going on here. 'Cause, unless I'm missing something, this country is in the middle of a motherfucking shitstorm, and I have no fucking idea what you're gonna do to get out of it. I mean, are you seriously considering voting for one of these shitbags you got here in '08? Fat fucking chance.

Way I see it, America needs a president who's gonna somehow un-royally screw up the Middle East, do some serious cleaning up after you dropped your pants and took a steaming dump all over the fucking environment, and—boom!—restore dignity, honor, and all that shit to these United States.

See, I got solutions to all your problems—I got 'em right here in my big, hairy ballsack. ...

Tími fyrir zan zan

Einsog ég sagði við vinkonu mína um daginn: Maður (eða ég, í það minnsta) er í raun og veru þrjár persónur, ef ekki fleiri. Að minnsta kosti þrjár. Það er þessi sem veit hvað klukkan er og er þreyttur en nennir samt ekki að fara að sofa. Svo er þessi sem heyrir í vekjaraklukkunni en nennir ekki á fætur alveg strax og snúsar og er viss um að ná alveg í vinnuna þótt hann hvíli sig í fimm mínútur í viðbót. Og svo er það þessi sem mætir of seint í vinnuna, er að leka niður í stólnum klukkan hálftvö og skilur ekkert í hinum tveimur, hvernig þeir fá það af sér að eyðileggja daginn fyrir honum trekk í trekk.

(Og sjá fjórði sér um að skrifa einhliða samtöl á netið.)

(Sá fimmti heitir -b.)

13 febrúar 2008

Egill gítarhetja

Sorrí til þeirra sem sjá ekki alla myndina á skjánum sínum en hún bara vill ekki láta minnka sig, þessi.

Egill hetja

12 febrúar 2008

Terpentína 2008 - týndu upptökurnar

Nú geta neytendur alnetsins loksins lifað sig inní bústaðarferðina síðustu, með því að hlusta á týndu upptökurnar sem ég fann á sama stað og ég setti þær þegar ég kom heim úr bústaðarferðinni. Alls tók ég upp rúmlega fimm klukkustundir (líklega nær sex), en þar af voru fjórar eintómar hrotur og myrkur þegar ég gleymdi tækinu í gangi og sofnaði uppá lofti á föstudagsnótt. Ég klippti út svoleiðis vitleysu, sem og allt tal um lauslátar stelpur, ólöglegt athæfi og húmor sem gæti brennt mannorð okkar niður fyrir núllpunkt.

Byrjunin (4:40, tæp 4mb)
Björn opnar - Egill kveður - Davíð telur sig hljóma asnalega, og segir sögu - Víðir ræðir eiturlyf og ferðin er nefnd.

Kynning (3:15, 3mb)
Davíð skiptir um tónlist - Björn segir fimmaurabrandara - menn kynna sig og sitt

Menn vilja vita osfrv. (2:01, tæp 2mb)
Rætt um rokkballöður - upprifjun á lagi sem gerði allt brjálað í Skaftahlíðinni - þögn til að gefa til kynna týndan tíma í bústað - tilfinningar sem brutust fram þegar áðurnefnt lag heyrðist óvænt í útvarpinu á leiðinni heim

Lagið tekið (3:53, tæp 4mb)
Let us die young or let us live forever - öllum líður vel og færðin er of góð fyrir suma - strákarnir taka lagið - var þetta ekki bústaðurinn eða?

Lagið tekið aftur (6:44, rúm 6mb)
Enn taka strákarnir lagið - það vilja allir bara lifa að eilífu, grátandi í fjólublárri rigningu - færðin þyngist - hvar er þessi bústaður maður? - Davíð lýkur laginu með stæl

Gamansögur (3:49, tæp 4mb)
Egill les úr Íslenzkri fyndni - menn gantast sín á milli um höfuð og kynfæri

Hlutaðeigandi láta mig náttúrulega bara vita ef þeir vilja láta fjarlægja eitt eða annað.. annars held ég, einsog ég kom inná áðan, að ég hafi fjarlægt allt sem gæti orsakað hjónaskilnað, útskúfun og dauða.

-b.

11 febrúar 2008

Hringadróttinssaga byrjuð

Ég er byrjaður á Hringadróttinssögu, hún er að komast í gang. Það eru sirka tíu ár síðan ég byrjaði að lesa hana síðast.. ég held ég hafi gert þrjár atlögur, síðast komst ég inní miðja aðra bók. En eitt sem ég var (náttúrulega) búinn að gleyma er umræðan um tilurð sögunnar í byrjun bókarinnar. Að þessi saga, líkt og Hobbitinn, sé fengin úr ,,Rauðu bókinni". ,,Rauða bókin" er ekki til lengur, en það voru gerð mörg afrit og þessi saga er afrituð úr nákvæmustu afrituninni sem gerð var. Þannig að skv. inngangnum er þessi saga afrit af afriti af skrásetningu á munnlegri heimild. - Eða, ef ,,Rauða bókin" var skrifuð af Bilbó og Fróða - einsog mér skilst að komi síðar fram - þá er bókin að minnsta kosti afrit af afriti.

Þetta er náttúrulega vel þekkt minni, að ræða það sérstaklega hvernig textinn kemst í hendur lesenda. Mig minnir að það sé brugðið á leik með þetta í Don Kíkóta, þarsem textinn á að vera spænsk þýðing á arabískri þýðingu á spænsku sögunni um Don Kíkóta. Til grundvallar þessu er spurning um sannleiksgildi og hluttekningu: Höfundarnafnið er hefðbundin trygging fyrir sannleiksgildi sögunnar, en við upphaf bókarinnar er höfundurinn ókunnur. Við þetta bætist að sagan hefur verið afrituð af álfi og þareftir af ókunnum þriðja manni - sem maður gæti ætlað að sé Tolkien sjálfur.

Bókin reynir hinsvegar að tryggja sig gegn ásökunum um óáreiðanlegan sögumann með umfjöllun sinni um hobbita, í formálanum. Bókmenntir þeirra samanstanda af löngum, leiðinlegum frásögnum af hinu og þessu í lífi gamalla hobbitaætta, með ættartölum og -tengslum og þessháttar rausi. Skv. sögumanni er krafa þeirra ekki sú að sagan sé spennandi eða skemmtileg, heldur að hún sé sönn og helst að þeir hafi heyrt hana áður. Tilgangurinn með því að heyra eða lesa sögur er semsagt sá að staðfesta sannleika sem þeir hafa þegar meðtekið, og öll tilfinningaleg viðbrögð framar því koma málinu svo að segja ekki við.

Lesandinn hlýtur þá að ætla, eftir að höfundar ,,Rauðu bókarinnar" hafa verið kunngjörðir, að hann hafi sagt satt og rétt frá - það er það sem hobbitarnir vilja skrifa um og heyra. Nú vill bara svo til að sagt er frá stríðum og ævintýrum en ekki uppskerubresti og ættartengslum.

Hinsvegar segir líka í formálanum hvernig Bilbó laug um það hvernig hann fann hringinn, og að í afritum ,,Rauðu bókarinnar" sé að finna ýmist lygasögu Bilbós og sönnu söguna sem hann játaði síðar fyrir Gandálfi. Þar sem sannleikurinn hafði komið í ljós ritaði Fróði hann samviskusamlega ásamt öllu öðru sem viðkom sögunni, en lét fyrri sögu Bilbós óhreyfða. Það er tvennt í þessu, held ég. Annarsvegar það að lyginni er haldið fram sem heimild, eingöngu vegna þess að hún var áður gerð fræg í sögu Bilbós. Hún er orðin hluti af sögunni og seinni ritarar reyna ekki endilega að stroka hana út. Hinsvegar það að eina lygasagan sem Bilbó segir, og eftirrennarar hans láta óhreyfða, snýst um það hvernig hringurinn kemst í hendur hans.

Ég veit ekki alveg hvað það þýðir.

En þetta ber alltsaman hingað: Upprunalegu höfundar Rauðu bókarinnar, hvaðan allar sögurnar eru teknar, eru tvær af örfáum persónum sögunnar sem þurfa að bera hringinn í lengri tíma og hljóta að láta spillast að einhverju leyti - og þeir eru að skrifa sögur sem snúast meira og minna um hringinn þeirra. Og síðan eru þessar sögur endurritaðar og endurritanirnar þýddar. Á hinn bóginn spyr maður hvaða helvítis máli það skipti, maður er sosum ekki að leita að neinum Sannleika með stóru S-i í bókum um risaerni og draugaher. En er þetta eitthvað sem liggur til grundvallar textanum, í innri lógík sögunnar?

Ætli það. Ég fæ það á tilfinninguna að svona grundvallar-fantasíubókmenntir láti svona (póst-)módernískar pælingar um sannleika framhjá sér fara. Módernískar pælingar snúast um hvort heimurinn sé einsog maður skilur hann og póstmódernískar um það hvort heimurinn sé sá sami og maður þekkti hann í gær eða síðan maður blikkaði síðast augum. Það er hinsvegar grundvallaratriði fyrir fantasíuna að maður skilji heiminn sem hún setur fram og að maður kaupi hann. Um leið og þú gefur persónunum leið inní hversdagslega Reykjavík þá ertu farinn að skrifa eitthvað annað en fantasíu.

Þetta er eitthvað sem fór dálítið í taugarnar á mér við allra fyrstu Discworld-bókina, og ég hef varla verið einn á báti vegna þess að flugvélaratriðið í henni hefur ekki verið endurtekið í bókunum, svo ég viti til.

En já. Þetta er semsagt raus sem ég gleymdi að klára hérna á föstudaginn eða eitthvað.. og ég er að reyna að binda það saman einhvernvegin en ég nenni því eiginlega ekki lengur. Þetta var upphaflega smá pæling um tilurð Hringadróttinssögu, samkvæmt Hringadróttinssögu. Ég veit ekki hvað ég á að segja um það frekar.

-b.

Afmæliskveðjur

Bræður mínir áttu afmæli um daginn. Siggi varð 21. árs gamall þann 8. febrúar og Þorri varð 10 ára þann 7. febrúar. Ég talaði við hvorugan þeirra. Þorra ekki vegna þess að hann er tíu ára og ég veit ekki hvernig maður á að tala við börn í síma til annars en að biðja um foreldra þeirra. Sigga ekki vegna þess að hann er ekki með síma þarsem hann er akkúrat núna.

En ég mundi samt dagana. Til hamingju strákar.

-b.

08 febrúar 2008

Úr Njálu

Síðan kvað hann [Mörður Valgarðsson] svo að orði: "Þórodd nefndi eg í vætti, annan Þorbjörn nefndi eg í það vætti að eg lýsti lögmætu frumhlaupi á hönd Flosa Þórðarsyni á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson hljóp lögmætu frumhlaupi til Helga Njálssonar þá er Flosi Þórðarson særði Helga Njálsson holundarsári eða heilundar eða mergundar því er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Taldi eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Taldi eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti eg til fjórðungsdóms þess sem sökin á í að koma að lögum. Lýsti eg löglýsing. Lýst eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar. Hafði eg þau orð öll í lýsingu minni sem nú hafði eg í framsögu sakar minnar. Segi eg svo skapaða skóggangssök þessa fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem eg kvað að þá er eg lýsti."

Mörður mælti: "Þórodd nefndi eg í vætti, annan Þorbjörn nefndi eg í það vætti að eg lýsti sök á hönd Flosa Þórðarsyni um það er hann særði Helga Njálsson holundarsári eða heilundar eða mergundar því sári er að ben gerðist en Helgi fékk bana af á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson hljóp til Helga Njálssonar áður lögmætu frumhlaupi. Taldi eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Taldi eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti eg til fjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsti eg löglýsing. Lýst eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar. Hafði eg þau orð öll í lýsingu minni sem nú hefi eg í framsögu sakar minnar. Segi eg svo skapaða skóggangssök þessa fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem eg kvað að þá er eg lýsti."

Lýsingarvottar Marðar gengu þá að dómi og kváðu svo að orði að annar taldi vætti fram en báðir guldu samkvæði "að Mörður nefndi sér Þórodd í vætti en annan mig en eg heiti Þorbjörn" - síðan nefndi hann föður sinn - "Mörður nefndi okkur í það vætti að hann lýsti lögmætu frumhlaupi á hönd Flosa Þórðarsyni er hann hljóp til Helga Njálssonar á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson veitti Helga Njálsson holundarsár eða heilundar eða mergundar það er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Taldi hann Flosa eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Taldi hann sekt fé hans allt, hálft sér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti hann til fjórðungsdóms þess er sökin átti í að koma að lögum. Lýsti hann löglýsing. Lýst hann í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti hann nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti hann handseldri sök Þorgeirs Þórissonar. Hafði hann þau orð öll í lýsingu sinni sem hann hafði í framsögu sakar sinnar og við höfum í vættisburð okkrum. Höfum við nú rétt borið vætti okkart og verðum báðir á eitt sáttir. Berum við svo skapað lýsingarvætti þetta fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem Mörður kvað að þá er hann lýsti."


Þetta er náttúrulega stórmerkilegt og bráðnauðsynlegt innan veggja sögunnar. En þegar maður eru að hlusta á bókina á rúntinum, missir úr eitt og eitt orð og svona, þá hlýtur maður að spyrja sig hvort græjan sé eitthvað farin að hiksta.

Drekki tíma í bensíni

38/401=0,0947.

Ergó: Bifreiðin eyðir níu og hálfum lítra á hundraðið innanbæjar.

Einn bensínlíter er á hundrað þrjátíu og eitthvað, sem þýðir að það kostar mig rúman tólfhundruðkall að keyra hundrað kílómetra. Sem er nú slatti.

-b.

Ljóðaslamm í gær: annað sætið

Svokallað ljóðaslamm var haldið hérna á safninu í gær, í tengslum við vetrarhátíð í Reykjavík. Það var þrælskemmtilegt, slatti af fínum atriðum. Gaurarnir í öðru sæti skildu eftir annan textanna sinna í púltinu og mér datt í hug að henda honum hingað upp, þarsem mér fannst persónulega að þeir hefðu átt að fá fyrsta sætið:

....

Við sprautum sílíkoni í konur svo þær seljist
Við sprautum hormónum í homma svo þeir kveljist
Við sprautum grænsápu í Geysi svo hann gjósi
Við sprautum genum í spenana útí fjósi
Við sprautum brundi yfir börnin yfir jólin
Við sprautum kolum útí loft svo skærar skíni,
rauðar setjist og heitar brenni sólin.
Grillveður um miðjan vetur!

Við sjúgum allt úr þessu lífi sem við getum
Við sjúgum sjúkdóma úr skítnum sem við étum
Við sjúgum líka seiðkarlinn sem okkur yngir
Við sjúgum hann með kokinu sem sæðið kyngir
sjúgum lífstóru úr liðinu í Asíu
og alla regnbogans litina úr fólksins fantasíu. VAÁ mar

Við seljum sálu okkar kölska fyrir fegurð
við seljum heilsu okkar Kröfum fyrir megurð
við seljum mömmu okkar Mammoni og frama
og ömmu í kaupbæti - hverjum er ekki sama?
seljum litlu systur okkar fokking drullusokkum
við seljum alla fyrir ekkert, aðeins fyrir okkur

Kaupum hamingju í niðursuðudósum
við kaupum varanlegar varir og við pósum
við kaupum banana og borgum barnabana
við kaupum margt en bara ekki marijúana
við kaupum sæti í krafna-maraþonhlaupi
við kaupum kæti í taflnaglasi og staupi

Við sprautum, við sjúgum, við kaupum, við seljum,
við sprengjum og reisum, við elskum og hötum
x2
Instrúmental

Við sprengjum Japana í tætlur fyrir friðinn
sprengjum milljarða fyrir mistökin og tímann sem er liðinn
og kransæðina í okkar skrokkaskrípi
og blæðum út inní okkur - drukknum í hjartans dýpi
sprengjum Araba fyrir gyðinga og uppdiktaðan guð
og fjöll og fallvötn fyrir háspennusuð
sprengjum meirihluta í minnihluta fyrir meiri völd
og ég sprengi hlustir ykkar hér í kvöld

Við reisum glerhallir og metorðastiga
við reisum mannorðið og byggjum við það lygar
við reisum vopnabúr og kvennabúr og blóðfyllta reðra
og heimsveldi í nafni okkar rasísku feðra
reisum helvíti á jörð sem enginn lifandi má sjá
og Karon upp frá dauðum þegar Amnesty fer á stjá
já nálgast hina forboðnu Akkaron-á.

Við hötum glyngrið í friðuðum hrafnalaupi
og allt sem ekki kaupa má með svartamarkaðskaupi
við hötum borgarstjórann, forsetann og Dorrit
og boð og bönn og forstjárhyggjuklámvarnarforrit
við hötum hið óþekkta og fólk sem er framandi
afætur á samfélaginu - hættulegar og lamandi

Ísland fyrir Íslendinga!

Við elskum alla nema alla nema okkur
og rennblaut ballarhöfin ef við sleppum smokknum
við elskum verkjalyf og andvana áramótaheit
við elskum herta fitu og stelpufrasann: ,,Ég er alltof feit!"
við elskum smiðinn fyrir viðinn - Ó! Gálgastokkur
við elskum engan nema engan nema okkur.

Við sprautum og sjúgum og kaupum og seljum,
sprengjum, reisum, elskum, hötum.

.....

Þetta hefði sjálfsagt þolað einhverja yfirferð, en það er margt gott þarna, fullt af fínum hendingum. Og flutningurinn ekki verri. Þetta var annars allt tekið upp og mér skilst að þrjú efstu sætin verði sett uppá netið. Sem er gaman.

Í kvöld er svo vetrarhátíð, og það þýðir að ég verð ekki laus úr vinnu fyrren um tíuleytið. En það er sosum í lagi því það er ekkert annað á dagskrá í kvöld..

-b.

07 febrúar 2008

Og lúkum vér þar _______ sögu.

Ég kláraði Laxdælu núna í morgun. Hún var svona svona.. Njáluyfirferðinni fer að ljúka. Ætli það sé ekki Hringadróttinssaga næst? Það er nú eitt fyrirtæki.

Nóg að gerast í vinnunni líka. Ljóðaslamm í dag, hljóðprufur í gær, myndlistaropnun á morgun og vetrarhátíð með meiru. Ég fæ víst nóg að vinna.

Hróarskeldan hækkar hægt og rólega í verði eftir því sem nær dregur og krónan lækkar. Og Svíþjóðarferð gæti verið gó vikuna eftir páska. Sævar segist vera að fara til Kína um miðjan apríl til að vera í fimm vikur. Davíð hefur talað um að fara til útlands. Ég sem er nýkominn heim og ætti að geta unað við mitt, ég væri alveg til í að kíkja eitthvað og vera.

Danmörk heldur áfram að senda mér tölvupóst. Hún saknar mín.

Það er kalt úti. Og snjór. Ég fékk þá flugu í hausinn í morgun að vera ekkert að moka af bílnum og taka bara strætó í vinnuna. Það gekk þrusuvel. Ég hef einhvernvegin komist inná það hugarfar að ég verði annaðhvort að keyra eða hjóla í vinnuna.. En í þynnkunni núna á sunnudaginn hugkvæmdist mér að taka strætó heim. Svona geta timburmennirnir verið ráðagóðir.

Og ekki spillir að ég á svona frítt-í-strætó-fyrir-stúdenta kort, jafnvel þótt ég hafi ekki setið einn kúrs svo vel megi kalla í vetur.

05 febrúar 2008

Tylli þessu hér því ég man ég minntist á það í einhverjum samræðum einhverntíman.. Að búa til stóla úr kampavínstöppum.

-b.

Nei sko

Á síðunni hans Bendis má finna þrjár fyrstu Powers bækurnar (og inní þá fjórðu). Það er hér. Þeir hafa víst verið að færa þetta á netið eina síðu í einu í nokkurn tíma.. Kannske ekkert sérstaklega þægilegt að lesa þetta svona, en skárra þó en að gera það ekki.

-b.

02 febrúar 2008

Um Gunnar og Hár og Lykil

Ég er að lesa Lykilinn að Njálu eftir Kristján Jóhann Jónsson. Hann er stórskemmtilegur. Einsog ég var sáttur við hljóðbókina Njálu þá hlýtur alltaf eitthvað að fara framhjá manni, hugurinn reikar í smástund og lesarinn heldur áfram í eyrunum án þess að maður taki eftir. Þessvegna er gott að geta farið yfir helstu atriðin í þessum Lykli, sérstaklega þarsem hann er svo skýr og leikandi aflestrar.

Ég fellst nú ekki á allt sem karlinn hendir fram, en sumar þessarra skýringa eru margt sniðugar. Samband Skarphéðins Njálssonar við föður sinn lítur t.a.m. allt öðruvísi út núna heldur en þegar ég las bókina.. Eins furðar hann sig á því að fólk geti tekið Gunnar á Hlíðarenda alvarlega þegar hann segir konu sinni og móður að vefja bogastreng úr hárlokk þeirrar fyrrnefndu. Mér sýnist það ekkert ólíklegra en að fleygja manni af spjótsoddi yfir stórfljót, en hvað gengur Gunnari þá til ef hann veit að verkið er óvinnandi? Kristján vísar í ljóð eftir Sigurð Breiðfjörð að nafni ,,Hallgerður Langbrók", þarsem skáldið heldur uppi vörnum fyrir blessaða húsfreyjuna. Ég fletti þessu ljóði upp. Þar segir mælandi:

Hún þó væri hefndargjörn
og hjartað nokkuð baldið,
flestu held ég finnist vörn
ef fallega á er haldið.

Þegar dæma einhvern á,
oss það fræðin letra,
fallegt er að færa þá
flest á veginn betra.


Og nokkru seinna:

.Boginn þegar brostinn er,
býður hann fljóði sínu
fýlulega: ,,Fá þú mér
flygsu úr hári þínu".

Meingjörð slíka man hún þá
og mótsögn þessu veitir.
Svo réð Gunnar falla frá,
frægasti maður um sveitir.

Eg um það í efa geng,
aðsóknin þó biði,
að brúðir hefðu bogastreng
búið til af liði.

Hefði Gunnar hlíta þótt
höfuðs snúi reyfi,
lokkinn mundi hann sjálfur sótt
og sýslað fátt um leyfi.


Sem er náttúrulega alveg rétt. Sigurður dregur þá ályktun að einhver hafi bætt þessu inní söguna til þess að sverta Hallgerði en það er voða einföld afgreiðsla einhvernvegin. Kristján telur að orðaskiptin hjónanna séu svartasti gálgahúmor: Þau viti bæði að maður getur ekki vafið bogastreng úr mannshári, en megi nú til með að djóka aðeins hvort í öðru rétt áður en Gunnar verður skorinn niður. Sem er miklu skemmtilegri textaskýring. Hér er hans rökstuðningur:

Hetjur eiga að segja eitthvað kaldhæðnislegt á dauðastundinni til þess að sýna að þær kæri sig kollóttar um gang örlaganna. Þá loksins ná Gunnar og Hallgerður saman þegar aðstæðurnar þvinga hann til þess að sýna gráglettinn hálfkæring með því að syrja hvort ekki sé bara hægt að flétta einhvern spotta úr hárinu á henni! Hún svarar með því að leika leikinn með honum og fyrirgefur honum kinnhestinn þar með. Hún ,,hefnir" með öðrum orðum kinnhestsins með því að neita honum um eitthvað sem kemur ekki að gagni hvort sem er. Sé lesið á þennan hátt liggur auðvitað ljóst fyrir að Rannveig gamla er steinhætt að skilja yngra fólkið. Það er líka erfitt fyrir hana að taka kaldhæðnislega afstöðu til dauða sonarins.

[...]

Að mínu mati er þessi spurning [Hallgerðar: ,,Liggur þér nokkuð við?"] hrein írónía. Það er flokkur manna á hlaðinu á Hlíðarenda. Þeir eru búnir að gera hverja tilraunina af annarri til þess að brjótast inn og drepa Gunnar, bónda hennar, og þar að auki búnir að vinda þakið ofan af skálanum. Sé litið til þess hvernig umhorfs er á sviðinu þá er miklu frekar ástæða til þess að telja að hér sé um gráglettinn hálfkæring að ræða.


Það sem mér finnst mest bera í móti þessu er að Gunnar er ekkert sérlega fyndinn gaur. En kannske er þetta einmitt rétti tíminn til að slaka aðeins á?

Myndasöguaðlögunin í Hetjunni eftir Emblu Ýr Bárudóttur og Ingólf Örn Björgvinsson, sem kom út fyrir jólin, gengur ekki svona langt, en þar eru greinilega engin illindi á milli þeirra þegar hún segir honum að fara í rassgat og mæta dauða sínum. Þau eiga voða fallegt móment saman og bókin sleppir orðum Rannveigar um að skömm Hallgerðar ,,muni lengi uppi". Það er líka fín nálgun, þannig. Myndasagan leysir margt helvíti vel þykir mér..

Augnablikið þegar Gunnar ákveður að ,,fara hvergi" er sérstaklega áhrifaríkt, bæði vegna þess hvernig það er uppsett og eins vegna þess að hann segir ekki orð. Engir bleikir akrar, engin slegin tún. Hann snýr baki í bróður sinn, horfir tilbaka og maður veit alveg hvað hann ætlar án þess að heyra Línuna enn einu sinni.

En þá er ég kominn útí allt annað. Rausa bara um Njálu.. það er sosum hægt að rausa um margt ómerkilegra.

-b.

Hún fer óðum að fyllast þessi æðislega ljóðabók

Krummi tekur krunkarann,
kallar á nafnara:
,,Ég fann hrútahöfðara,
hrygg og gærara.
Komdu og taktu kropparann með mér
Krummi nafnari.
Komdu og taktu kropparann með mér
Krummi nafnari."

(Heyrt í sjálfum mér á Kaffibarnum í gær.)

-b.