29 nóvember 2008

handinga

Hann Ingi Björn á afmæli í dag, ég fékk The Smiths til að syngja afmælissönginn fyrir hann á jútúb:



Afmælissöngur Smiths tengist afmælum að vísu samasem ekki neitt, en það er þessvegna sem þeir eru snillingar.

-b.

28 nóvember 2008

Look at what they make you reeshoot

Skemmtó samanburður á einni og sömu senunni í Bourne Ultimatum/Supremacy:



Ég var að leita að línunni sem ég minntist á um daginn, úr Bond: Quantum, og þá kemur í ljós að hún er ekki alveg einsog mig minnti, og merkir a.ö.l. eitthvað annað. En leim.

Föstudagur og ég er eitthvað slappur, að fá kvef kannske, þurfti að bakka útúr ræktinni í gær afþví ég fékk skringlega í bakið.. Svona þvert yfir það, í olnbogahæð sirka. Veit ekki hvað í fjandanum það getur verið, ætli maður reyni ekki að taka því rólega næstu daga bara.

Annars erum við búnir að vera í rétta þrjá mánuði núna, ég er búinn að bæta mig um rúmlega 20 kíló í bekknum og Davíð tekur rétt um eigin þyngd. Gaman gaman.

Mig langar í jólafrí.

-b.

26 nóvember 2008

Dragðu!

..nei, ég meina Stokkaðu!



-b.

Laxness hvergi heima

Þeir segja það í fréttunum að enginn vilji kaupa Laxness vegna þess að enginn þykist geta selt hann aftur. Og þeir sem vilja selja hann núna til að byrja með vilja selja hann allan alltaf en ekki bara að hluta til hér og þar. Og þeir sem eru að selja hann keyptan núna akkúrat einsog er, þeir mega ekki selja hann lengur því þeir eru með yfirburðastöðu á markaði. Umfram þá sem vilja ekki kaupa Laxness, þessa sem ég minntist á í byrjun.

Nú eru rúm tíu ár síðan skáldið dó. Hann er því löngu hættur að rukka útgefendur sína. Ég legg til að útgáfurétturinn verði gefinn frjáls. Ekki laus heldur frjáls.

Forlagið getur þá haldið áfram að gefa karlinn út því þeir sitja ekki lengur einir að honum. Minni forlög (sem eiga ekki efni á stóru F-i) geta gefið hann út ef þau vilja, hugsanlega myndu þau einbeita sér að því sem Forlagið nennir ekki að prenta, og þá í minni upplögum. Og afkomendurnir geta haldið áfram að skrifa í blöðin, leikstýra kvikmyndum og gefa út sínar eigin bækur.

Nú þekki ég ekki höfundaréttarlög svo gjörla en hugsanlega mætti setja einhverskonar varnagla sem tekur til erlendra þýðinga, nokkra aura sem erlendir útgefendur greiða til Gljúfrasteins til dæmis.

Málið er leyst.

Og í anda lausnarinnar mun ég ekki krefja neina lifandi sálu um úrlausnarþóknun. Kannske handaband frá skáldinu þegar ég sé hann handan.

-b.

25 nóvember 2008

GO!

Aðeins um bækur

Dómur: Fjall og aftur fjall, og meira fjall. Ég var ánægður með bækurnar en ekki nógu ánægður með dóminn. Mér fannst hann bæði of langur og ekki nógu innihaldsmikill.

Las myndasögu í dag! Hún heitir Lex Luthor: Man of Steel, bara nokkuð fín. Azzarello mætti alveg slappa af í orðaleikjunum og endirinn er heldur snubbóttur (ég er reyndar enn að velta því fyrir mér, kannske virkar hann best þannig) en þetta er stutt og fín lesning.

Einhver minntist á árslista um daginn. Best of. Jeminn. Töggin sem ég bætti hérna inn áttu að hjálpa mér að muna hvað ég hafði lesið yfir árið en nú veit ég ekki hvort ég vil fara í gegnum það alltsaman?

Ég reddaði mér fríi helgina milli jóla og nýárs en þarf þess í stað að vinna næstu tvær helgar. Seinni helgina kemur Víðir í heimsókn. Þannig að verður næsta helgi ekki rólegheit og vesen? Fór einn í ræktina í gær og hlustaði á Snow Crash. Það er ekki eins gaman og ég var bara pínulítið fljótari.

Snow Crash er samt alveg að gera sig. Það er náttúrulega ósanngjarnt að bera hana saman við aðrar bækur bara afþví báðar hafa verið stimplaðar sæberpönk, en hún er endalaust skemmtilegri lesning en The Neuromancer.

Ég fór að hugsa um þetta í gær, þarsem ég sat og gerði magaæfingar og hlustaði á samtal Hiro og bókavarðarins, þeir tala lengi lengi um súmerskar mýtur og heimspeki, Thoruna, herpes og gagnaflutning -- þarna er bara verið að uppfræða lesandann, það er gersamlega ekkert aksjón í gangi, púra expósisjón. En samt virkar þetta svo miklu miklu betur heldur en samskonar senur í daVinci Code eða Sólkrossi. Má vera að áherslan á keyrsluna, að allt gerist á innan við sólarhring eða hvernig sem þetta er nú hugsað hjá þeim, grafi ennþá frekar undan köflum þarsem miklum tíma er eytt í útlistun á sagnfræði? Snow Crash gerist ekki á löngum tíma sýnist mér, en framrásin er afslappaðri. Og þessar sagnfræði/guðfræði-senur í bókinni gerast inní sæber-bókasafni, utanvið söguna í kjötheimum.

Ég held það sé eitthvað til í þessu.

Adventures in Exposition: Putting the 'thought' back into "..he explained thoughtfully."

-b.

18 nóvember 2008

Ingi Björn skikkaði mig til að lesa Atómstöðina:

Fátækum sakleysíngja tekst með hörkubrögðum að brjótast inní smáverslun og stela skóreimum og maltextrakti, sagði organistinn; eða hafa burt gamlan frakka úr fordyri; eða smjúga inn bakdyramegin í mjólkurbúð og ná lausu aurunum sem urðu eftir í kassanum í gærkvöldi, taka veskið af fullum sjómanni eða fara ofaní ferðakoffort hjá sveitamanni og hirða sumarkaupið hans. Tinkoppunum okkar er kanski hægt að stela, þó ekki nema fyrir sérstaka tilverkan guðs náðar. En það er ekki hægt að stela gullkoppunum okkar, ekki einusinni silfurkoppunum: þeir eru varðir. Nei, það væri gaman að lifa ef maður gæti geingið út og stolið miljón hvenær sem maður er blánkur.


Á þetta við? Þetta á við.

-b.

Ég fór á Bond í gær

En ég skemmi ekkert hérna held ég.

Quantum of Solace línan ,,we forgive each other" og eiginlega öll sú sena er ,,look at what they make you give" senan úr Bourne Identity. Nema að senan úr Bourne átti sér síðan hliðstæðu í Bourne Ultimatum, og þau samskipti urðu þungamiðjan í trílógíunni að mínu mati, eitt peð til annars. Ég er ekki viss um að Bond sé maður í svoleiðis.

Senan í Bond var samt sterk ein og sér. Það er náttúrulega ekki svona sem hann hugsar um vini sína (hann á enga vini), heldur er það svona sem hann hugsar um sjálfan sig.

Það er mjög mjög margt í Quantum sem er ofboðslega ofboðslega ýkt en það gengur allt upp vegna þess að Bond er Bond og maður hugsar bara ,,hva!" Það eina sem mér fannst ekki alveg virka var þessi makró-pólitíska sena á milli M og yfirmanns hennar.. mér fannst það ekki falla inní mítólógíuna. Er það vitleysa í mér? Ég hugsaði allavega bara að svoleiðis ætti heima í Queen and Country, ekki Bond.

Bond sjálfur var frekar litlaus í þessari mynd.. voru þeir að stóla á að maður myndi alveg eftir honum síðan síðast, og að hans persónulega saga í myndinni væri eðlilegt framhald þess sem kom á undan? Mér þætti það í sjálfu sér ekkert svo slæmt, framhaldsmyndir eru bara lélegar ef þær eru lélegar.. en ég hef ekki séð Casino Royale síðan hún var í bíó.

Mig langar að horfa á Casino Royale aftur.

-b.

16 nóvember 2008

Að eignast --viðbætt

Ég hugsa að það hafi verið um síðustu jól eða áramót, að ég spjallaði við Pál Þórarinsson niðrí Þingborg. Við vorum í jakkafötum einsog aðrir á staðnum, hann tók í nefið, ég ekki. Þetta var þessi gamli góði ,,hvar ertu að vinna, hvar býrðu?", það kemur fyrir að ég tala ekki um neitt annað í svona boðum, það er ágætt stundum.

En ég sagðist vera að leigja íbúð í Skaftahlíðinni með tveimur félögum mínum, það var gott og blessað en Páll vildi vita hvort ég ætlaði ekki að fara að kaupa. Ég held ég hafi talað eitthvað um að ég ætti ekki peninga og að fasteignamarkaðurinn væri heldur erfiður. Það væri varla hægt annað fyrir mig en að leigja, og mér þætti það í sjálfu sér ágætt. Jú, sagði Páll, en þú ert náttúrulega ekki að eignast neitt á meðan.

Ég man sérstaklega eftir þessu annarsvegar vegna þess að þetta var hárrétt hjá honum og ég hafði í rauninni aldrei hugsað út í það þannig. Ég vissi af fólki á mínum aldri sem var að borga mánaðarlegar afborganir af íbúðum sem það átti, eða var þannig að eignast, og að þær afborganir voru jafnvel lægri en það sem ég borgaði í leigu. Fyrir þeim (og Páli og mörgum öðrum býst ég við) voru þeir peningar að nýtast, en leiguféð mitt alls ekki. Ég gæti allteins fleygt þeim útum gluggann.

En hinsvegar kviknaði á því hjá mér að ég hafði aldrei lagt neitt sérstaklega mikið uppúr því að eignast fasteign. Mér þótti nóg að hafa þak yfir höfuðið, hvaða máli skiptir hvort ég á þakið eða einhver annar?

Þetta kemur náttúrulega líka inná þessa fóbíu mína gagnvart skuldum: Þegar ég leigi þá borga ég einhverja ákveðna summu í byrjun hvers mánaðar og þá erum við leigusalinn kvitt fram að næstu mánaðarmótum, ég er ekki að greiða niður einhverja gígantíska skuld í pínulitlum mánaðarlegum þrepum. Og svo er ég svo góðu vanur, ég held það hafi aldrei verið raunhæfur möguleiki í mínum huga að ég lenti á götunni.

En ég fór að hugsa um þetta þegar ég var fyrir austan síðustu helgi og Sigþór, bróðir hans Páls, spurði mig hvort ég ætlaði ekki að fara að kaupa (eða byggja!). Ég held ég hafi talað um það að ég ætti ekki pening o.s.frv. Hann þóttist nú halda að maður gæti fengið lán, ,,vilja ekki allir lána núna í dag?" Ég sagði að ég vildi hreint ekki fá lán hjá neinum sem vildi ólmur lána mér peninga.

Ég fattaði ekki fyrren ég hafði sagt þetta að þarna hafði ég súmmað upp mína afstöðu til þessarar lántökuvitleysu. Og nú er ég að reyna að hljóma ekki einsog dramblátur besservisser. En ef einhver bankar uppá hjá þér og vill endilega lána þér fullt af peningum, dettur þér engan veginn í hug að það sé maðkur í mysunni? Það á að vera erfitt að fá lánaða peninga, þannig veit maður að það eru alvöru peningar.

,,Everybody needs money. That's why they call it 'money'."

-b.

ps. Víðir gerir athugasemd og minnir mig á námslánin mín, þar tók ég ansi stórt lán sem ég kem til með að borga í litlum skrefum. En þarsem mitt svar var orðið frekar langt þá set ég það inn hér frekar en í athugasemdirnar:

Jújú, það var heldur alls ekki auðveld ákvörðun. Ég ætlaði á tímabili að seinka því að fara í háskólann þannig að ég gæti unnið í nokkra mánuði og átt peninga yfir veturinn svo ég þyrfti ekki að fá lán - og vinna þá væntanlega með skólanum líka. En fólk sem ég tek mark á sannfærði mig um að námslánin væru þau öruggustu og hagstæðustu sem ég ætti völ á. Og ég er feginn því að ég reyndi ekki að vinna fyrir skólagöngunni jafnóðum vegna þess að ég efast um að það hefði hafist. Ég er ekki nógu duglegur í því að leggja fyrir.

En það er tvennt í þessu: Í fyrsta lagi það að námið mitt, það sem ég keypti fyrir þessa lánspeninga, verður ekki tekið af mér. Annað en segja má um bíla eða íbúðir sem eru keyptar fyrir lánsfé. Þarna er ég ekki að ,,eignast" eitthvað sem fellur svo í verði á sama tíma og lánsafborganirnar hækka, og ég get með engu móti selt uppí kostnaðinn því það vill enginn kaupa.

Í öðru lagi að það er alls ekki auðvelt að fá námslán. Það er auðvelt að sækja um og það er ekkert mál að fá yfirdrátt útá umsóknina hjá bankanum, en til þess að fá lánsféð frá LÍN þá verðuru að sýna fram á námsárangur. Þetta er vegna þess að lánasjóðurinn er ætlaður til þess að fólk læri og klári sitt nám, ekki til þess að græða á því að lána krökkum peninga.

Þetta er það sem ég held að einkavæðingasinnar fatti ekki: Ríkisstofnanir af þessu tagi eru ekki settar á laggirnar með það að markmiði að berja einkaframtakið niður í svaðið. Þær eru ríkið, fólkið, að hjálpa sjálfu sér. Sú er hugsjónin að minnsta kosti. Og ég treysti þeim frekar sem lána mér peninga, varlega, af hugsjónarástæðum heldur en hinum sem vilja ólmir lána mér fé til þess eins að fá það aftur með vöxtum.

-b. (aftur)

13 nóvember 2008

Maður deyr

Ég var að lesa það núna áðan að afinn sem ég þekkti ekki dó fjórða september síðastliðinn. Og sannast þar hið fornkveðna að fólk sem maður þekkir ekki skiptir mann engu máli.



-b.

11 nóvember 2008

Þriðjudag fyrir þúst þaddna

Það er ekki svo langt síðan að ég hélt að annar Björgólfsfeðga héti Björgúlfur, en ég mundi ekki hvor það var þannig að þegar ég sagði nafnið/nöfnin þeirra upphátt þá lagði ég bara litla áherslu á ó/ú-ið, nema einhver annar hefði þegar sagt -ólfur og þá notaði ég sama staf, en gleymdi síðan við hvorn var átt.

Ég keyrði austur um helgina og spilaði Call of Cthulhu með Halli, Gunnari og Danna. Helvíti var það gaman. Við ætlum að reyna að gera þetta aftur sem fyrst.. verst að ég er að vinna næstu helgi. Í gær, mánudag, vaknaði ég heldur slappur og tilkynnti mig veikan í vinnuna. Ég er með einhvern sting í hálsinum sem leiðir uppí haus, ég held ég hafi klemmt eitthvað í ræktinni á laugardaginn.

Hafsteinn setti okkur á nýtt prógramm þá, það þriðja á frekar skömmum tíma. En það er líklega ekki mjög sniðugt að hanga í sama farinu mjög lengi. Dóttir hans átti afmæli um daginn, einsog sonur hans Ívars. Börn börn börn. Svo vildi ég fara í ræktina í gær einsog alla mánudaga, en Davíð vildi ekki. Í svoleiðis tilvikum ætti ég náttúrulega að deila við hann, fyrst rólega, þá hatrammlega, og rjúka síðan út með þjósti og fara einn í laugar. En ég var hálffeginn.. þetta var þá alger frídagur. Við förum í kvöld hvorteðer.

Það er ekki svo langt til jóla. Á ég að vera að hugsa um jólagjafir? Mamma gaf mér aur í afmælisgjöf, kannske ég noti hann til að kaupa jólagjafir.

Eða jólaskyrtu svo ég fari ekki í jólakött.

Ég held ég hafi fattað hvað það er við Sólkross Abrahams sem fer svona í taugarnar á mér. Sem er plús. Verst að maðurinn tók undir sófa með mér í haust, það eru ekki þægileg hagsmunatengsl.

-b.

03 nóvember 2008

Má ég kynna nýjan gamlan vin



Hún amma mín gaf mér þennan bangsa í afmælisgjöf. Hann heitir Nyarlathotep. Hann segist hafa risið uppúr tuttugu og sjö alda svartnætti, og að hann heyri skilaboð frá stöðum sem liggja utan við þessa plánetu. Hann sankar að sér allskonar furðulegum tækjum og tólum úr járni og gleri, og smíðar úr þeim enn skrýtnari hluti. Það fer hrollur um þá sem mæla nafn hans, og síðan ég kom með hann heim höfum við varla sofið: við gerum ekki annað á næturnar en að öskra uppúr martröðum okkar.

Við köllum hann Teppa.

-b.