28 febrúar 2012

Þrátt fyrir helgi og það allt

Ég fékk hugmynd um daginn, brotabrot af hugmynd. Opnun á einhverju sem ég myndi svo þurfa að þróa áfram, en það gerist jú ekki nema maður geri það. Ég stóð í sturtunni og var að hugsa um eitt og annað. Ég hafði nýlega séð myndband í símanum mínum, af samræðum sem ég mundi ekki eftir. Þar vorum við Davíð, Hallur og Víðir að tala um nýlega skáldsögu eftir höfund sem ég ætla ekki að nefna því ég vil ekki að það komi upp í gúgúl-leit. En bókin hefur að gera með mat og það að breyta umhverfinu í mat, að næra sig og þjóðina á landsins gæðum. Falleg bók. Ég las hana fyrir jólin en fann einhvernveginn ekki leið til að koma mér inní skrif um hana. Jæja, allavega. Í þessu myndbandi erum við að kokka upp atlögu að þessari bók. Og í lokin dreg ég mína bjórvaxta meiningu saman í þessu: "Þannig að: Matur, lundar, Davíð."

Þetta síðasta var grín: Ég myndi sennilega ekki nota Davíð sem persónu í umfjöllun um bókina. En það sem ég röflaði um lundana og matinn, þarna í Nýlenduverzluninni eitthvert kvöldið, fannst mér að gæti gengið.

Ég hafði semsagt nýséð þetta vídjó, og mín eigin ræða hafði komið mér á óvart því ég hafði ekki heyrt hana áður, í mínum huga var hún týnd í drykkju. Þannig má segja að ég hafi sjálfur sett bókina í ákveðið samhengi fyrir sjálfan mig, sem mér hafði þar til ekki dottið í hug. Eða atlöguna að þessu samhengi, öllu heldur. En já, ég hafði nýséð þetta vídjó.

Auk þess hafði ég nýverið rekist á sjálfan höfund bókarinnar. Við erum ekki málkunnugir en ég hafði séð hann í ríkinu. Það var á laugardegi rétt fyrir lokun, í Austurstrætinu, og hann hafði komið inn um það leyti sem ég valdi mér stæði í röð. En raðirnar riðluðust til og gengu mishægt og runnu saman, það endaði þannig að hann lenti á eftir mér í röð. Ég var með einhverja bjóra -- ég var einmitt á leiðinni í annað nokkurskonar geim ásamt Davíð, Víði og Halli, auk annarra -- og hann var með tvo pela að mig minnir, eða kannske einn pela og litla rauðvínsflösku, eitthvað svoleiðis. Nú fara allir í ríkið, það er ekkert sérstakt við það að rekast á mann í ríkinu, en þarsíðasta bókin sem hann sendi frá sér var flæðandi í áfengi. Botnlaust fyllerí endanna á milli. Og það sem ég hef séð af bókinni þar á undan bendir til þess að áfengi skipi þar stóran sess, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Af sjálfum mér, þar sem ég fletti í gegnum hana þarna eitt skiptið.

En þarna varð til einhver mynd af rithöfundinum í höfðinu á mér, þar sem hann stóð á einhvern hátt fyrir drykk eða drykkju. Ekki hann sjálfur í eigin lífi heldur hann sem lesa má úr textunum sem hann lætur frá sér. Og þar sem ég stóð í sturtunni rifjaðist myndbandið upp fyrir mér, þar sem ég sjálfur (í þriðju persónu) lýsi bókinni sem hugleiðingu um mat, eldamennsku, það að neyta og vera til á jörðinni, með öðrum orðum sköpun með aðstoð matreiðslu og átu. Neyslu. Allt í einu finnst mér eins og ég sjái einhvern þráð þarna á milli þessara tveggja verka, sem eru annars um það bil eins ólík og hægt er að hugsa sér. Í því liggur þetta brotabrot af hugmynd, að tengja þessar bækur saman á þennan máta. Sennilega án þess að rekja allt þetta framangreinda, þess vegna geri ég það hér.

Neysla á jákvæðan máta, eins og ég segi, á skapandi máta að einhverju leyti. Drykkjan í fyrri bókinni er eyðileggjandi en það er vegna þess að sumar persónur nota hana þannig, á meðan aðrar gera það ekki. Hann er að skoða sóknina í mat og drykk, og með öfugum formerkjum í síðari bókinni miðað við þá fyrri: Þar er neyslan alvarlegum takmörkum háð: það er ekki til nóg af mat og drykk á landinu. Hið stóra ævintýri bókarinnar er að sýna fram á gnóttina sem fer framhjá landanum, að koma auga á veisluna sem deyr annars úr dauða og myglu og rennur í hafið.

Fyrri bókin, sem snertir oggupons á Hruninu, hefur e.t.v. eitthvað að segja um ofsókn í landsins gæði, en kannske er punkturinn sá sami þegar allt kemur til alls, þ.e.a.s. nýtni. Gleðin og hamingjan sem felst í því að nýta og neyta. Frekar en að sóa eða misnota. Eða ofnota.

(Sem á rétt á sér líka, stundum.)

..ég á erfitt með að setja 'neyslu' í jákvætt samhengi, en ég held að honum takist það ágætlega.

Þannig að ég stend í sturtunni og mér dettur þetta í hug: "Ég stóð í röð fyrir framan rithöfund um daginn. Klukkan var korter í sex á laugardegi, þetta var í Ríkinu við Austurstræti og sjoppan var stöppuð af hófsömum neytendum að sækja eina rauðvín með kvöldmatnum."

Og svo heldur maður bara áfram.

-b.

20 febrúar 2012

Og svo eru pítsur

Hérna er uppskrift að pítsusósu sem ég rakst á um daginn.

1 dós af niðursoðnum tómötum
2 msk tómatpúrra
1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
2 tsk timian, þurrkað
2 tsk oregano, þurrkað
2 tsk basil, þurrkað
1 tsk salt
1/2 tsk pipar

Tómatarnir maukaðir í blandara eða þvíumlíkt, restin hrærð samanvið.

Ég prófaði þetta núna áðan og hún var nokkuð góð. Ekkert eitthvað svakalegt en samt eitthvað sem mig langar að halda áfram að gera. Hingað til hef ég keypt tilbúnar niðursoðnar pastasósur (pítsusósurnar sem eru seldar sem slíkar eru verri en ekkert), en þær sem mér finnst skástar eru seldar í það stórum pakkningum að ég á alltaf nóg á þrjár pítsur. Frysti þá rest í tveimur boxum. Sem er fínt. En með þessari uppskrift er ég bara með nóg á tvær pítsur, þá þarf ég að frysta minna. Heimilisráð!

Pítsugerðin hefur breyst talsvert hjá mér nýverið. Ég fékk pítsustein í afmælisgjöf og fór að fikta við hann. Þá varð algert möst að nota durum-hveiti með, því venjulega hveitið sauð bara í mauk á milli botnsins og steinsins. Með steininum varð eiginlega stökkbreyting í pítsunni, hún er heeelvíti góð.

Versta tilraun sem ég hef gert í seinni tíð var með gerlaust pítsudeig, sem innihélt bjór í stað vatns. Það var ógeðslegt og ég henti henni.

Það er til endalaust af greinum á netinu um það að búa til hina fullkomnu pítsu. Megnið af þessu liði notast við sama deig og ég, eða nánast það sama. Aðalatriðið virðist vera hitastigið, að geta haldið miklum og jöfnum hita á pítsunni, hvort sem maður er með þartilgerðan ofn, hitar á steini eða jafnvel forhitaðri pönnu. Þannig að steinninn er mikill plús.

Ég er að drekka vatn.

Og lesa í bók.

Í dag var frí.

-b.

18 febrúar 2012

Bjóreiðar

Sumarið 2007, síðsumarið 2007, var 'sumar pilsners og hjólreiða'. Þá bjó ég í íbúð sem Helgi tvíburi var enn með á leigu en ekki að nota, á Stúdentagörðum, ég vann á Ægisíðunni og frístundunum eyddi ég í miðbænum. Ég hjólaði allt sem ég fór. Fyrst á 'Græna demantinum', litlu grænu hjóli af Diamond-gerð (ég man ekki vörumerkið) sem maður að nafni Hjalti hafði gefið mér; og síðan á Mongoose Threshold hjólinu sem ég fékk gefins á Ægisíðunni. (Demanturinn var að detta í sundur og var auk þess heldur lítill fyrir mig, ég skildi hann eftir í hjólageymslunni á Stóra garði að lokum. Þröskuldinn nota ég ennþá.)

Ég hafði eitthvað hjólað áður en ég fór út til Kaupmannahafnar en það var ekki mikið. Mér fannst því að þetta sumar væri ég að enduruppgötva hjólreiðarnar sem samgöngumáta.

Vaktirnar á Ægisíðunni voru fáránlegar. Ég var að vinna tvær af hverjum þremur helgum. Það kom því fyrir oftar en einu sinni að ég komst á snoðir um einhvern gleðskap á meðan ég var á kvöldvakt á föstudegi eða laugardegi, og langaði að kíkja en hafði ekki tök á að fara í ríkið. Þá lét ég mér nægja að taka með mér nokkra léttbjóra úr sjoppunni, eitthvað svipað því kannske og að naga blýant í stað þess að kveikja í sígarettu.. En mér fór að þykja pilsnerinn góður. Eða hann hætti a.m.k. að vera hlægilegur í mínum huga. Kannske ekki síst vegna þess að ég var þá hættur að drekka gos, en ég man reyndar ekki hversu nýskeð það var.

Þannig að eitthvert skiptið renndi ég niður á Austurvöll að hitta Inga Björn eða Frikka eða Davíð, með þrjá ískalda pilsnera í poka eftir morgunvakt, og ég áttaði mig á því (sem hljómar betur en að ég hafi ákveðið að mér þætti það sniðugt) að þetta væri sumar pilsners og hjólreiða.

Pilsner á Austurvelli, í partíi á Bergþórugötu, á ljóðahátíð Nýhils eða bara uppí dívan.

Tæpum fimm árum seinna snýst ennþá heilmikið um bjór og hjólreiðar. Í gær (ég byrjaði að skrifa þetta á laugardag) sótti ég hjólið mitt úr viðgerð og betrumbótum. Nýjar bremsur (v-bremsur, sem ég hef ekki notað áður), nýir bremsuarmar, nýir vírar í allt; hnakkurinn lagaður og festingin fyrir luktina; og nýr og stöndugur bögglaberi festur oná allt saman. Það stóð til að kaupa tösku til að festa á þennan bögglabera en það verður að bíða betri tíma - bíllinn var líka að koma úr viðgerð og LÍN ber á dyrnar. En jeminn hvað það er gott að hjóla á svona nýyfirförnu. Svo er ég á leiðinni niður Breiðholtsbrekkuna núna í hádeginu þegar festingin fyrir afturbrettið, plaststykki sem skrúfast í boddíið, smellur í sundur. Armarnir slást utaní pílárana og tómt vesen. Ég þurfti að beygja þá alveg út á hlið og hjóla restina með brettið utaní afturdekkinu.

Þannig að það þarf að laga það. Sennilega þarf að skipta um tannhjól að framanverðu líka, keðjan helst varla á því.. ég var að vona að það hefði bara verið slakinn í vírnum, en svo virðist ekki vera. En þegar það er búið! Þá! Þá verður nú gaman.

Og á föstudag setti ég hafra porter á flösku. 20 lítrar. Þar með hef ég farið í gegnum ferlið þrisvar sinnum, maður má fara að kalla sig byrjanda. Ég kann þetta orðið nógu vel til að búa til tékklista til að fara eftir, sem er ekki ónýtt. Hann smakkaðist alveg ágætlega, greinilega dökkur og sætur, ekki of sterkur. FG alveg 1,018 samt, það hefði alveg mátt fara aðeins neðar. Bíðum í nokkrar vikur og sjáum til.

Annars á ég pilsner inní ísskáp.

-b.

16 febrúar 2012

Eitt enn

Ég mundi allt í einu eftir þessu.

Fyrir svona þremur, fjórum vikum síðan var ég að hjóla niður í Ögurhvarf. Það var ennþá hellingur af snjó og færðin allt í lagi en ekkert sérstaklega góð. Ég samt á nöglum. Ég hjóla niður að brú og kem að bekknum sem er þarna hálfa leiðina niður. Þar situr maður, úti að viðra hundinn, sem stendur á stígnum. Þegar ég nálgast fer hundurinn að gelta og ég sé að hann er laus.

Bara þetta, að fólk skuli láta hundana sína ganga lausa, fer meira en lítið í taugarnar á mér. Þetta er fyrir það fyrsta bannað með lögum (nema á tilteknum svæðum innan Reykjavíkur og þar er Elliðaárdalurinn ekki með talinn) en auk þess svo mikil vanvirðing við alla þá sem deila götunni eða gangstéttinni með viðkomandi, og hafa ekki áhuga á að fá upp um sig ókunnugan hund.

Jæja. Ég gef í frekar en hitt, hundurinn heldur áfram að gelta. Maðurinn verður mín var og hrekkur við, ég horfi á hann þegar ég renn fram hjá og spyr hvort hann 'sé að grínast'. Ekkert ofboðslega frumlegt, og ekki sérlega dannað heldur. En ég var á ferðinni niður brekkuna og langaði ekki að staldra við hjá þessum hundi. En svipurinn á manninum varð til þess að mér leið hálfilla á eftir. Hann hafði svo auðsjáanlega ekki gert ráð fyrir því að neinn kæmi þarna aðvífandi, eða nokkur yfirhöfuð í þessari færð, hefði e.t.v. hamið hundinn ef hann hefði orðið einhvers var, ég veit það ekki. Í öllu falli fannst mér ég sjá á honum að þetta kæmi illa við hann.

Mér varð hugsað til þessa nokkrum sinnum síðan, ekki síst vegna þess að maðurinn býr hérna í hverfinu og ég hef séð honum bregða fyrir.

Fyrir viku síðan var ég á leiðinni í strætó, aftur er laugardagur, og ég sé manninn á gangi með hundinn. Ég mæti honum ekki, en mig hálflangar til að staldra við og biðja hann afsökunar á því að hafa hreytt svona í hann þá um daginn. Nú fer ég að gera þessum manni upp einhverjar meiningar, en það gæti allt eins verið að þeir séu tveir einir á báti og að hann leyfi hundinum sínum að komast upp með ýmislegt sem hann ætti ekki að gera, vegna þess að honum þykir vænt um hann. Auk þess er það hálfvitaskapur að hreyta einhverju (sama hversu geldu og tilgangslausu) í fólk þar sem maður brunar framhjá því. Líklega getur það átt rétt á sér í einhverjum tilvikum en sennilega ekki þarna. Hugsa ég.

En ég vík mér auðvitað ekki að honum, ég held áfram í strætó.

Í gær er ég svo á leiðinni heim (í þetta sinnið úr strætó) og ég mæti manninum með hundinn í Suðurfellinu. Nú gef ég mér að þar sem ég er hvorki á hjóli né í hjólagallanum þá þekki hann mig ekki fyrir sama fólið, ef svo vill til hann muni yfirhöfuð eftir mér síðan í dalnum. (Sennilega ekki, en hvað veit maður.) Nú er ég nokkurnveginn búinn að loka þessu máli fyrir sjálfan mig en mér líður ennþá dálítið illa yfir því sem ég gerði. En áður en ég fatta það almennilega að þarna sé sami maðurinn á ferð, þá fer hundurinn að gelta á mig. Maðurinn togar hann nær sér og lætur frekar ræfilslega en hundurinn heldur áfram. Við mætumst og ég er allt í einu kominn á sama stað og í dalnum, skil hreinlega ekki hvað þessi maður er að gera með þennan hund. Ég horfi ekki framan í hann, greikka sporið og set upp einhverskonar vandlætingarsvip.

Sem er það aumingjalegasta, mesta heigulshæli sem maður getur sveipað um sig, að stilla upp einhverri vanþóknun án þess að horfa á viðkomandi eða segja orð. En þetta geri ég. Ég er svo ekki kominn lengra en að næstu gatnamótum þegar ég fatta hvað ég er að gera, og hvernig ég er að endurtaka sjálfan mig síðan úr dalnum. Hversu mikið þarf ég að leggja á mig til að brosa og bjóða góða kvöldið, svo að manninum líði ekki illa útí á gangstétt með hundinn sinn? -- sem hann kann kannske ekki að siða en hefur þrátt fyrir allt stjórn á. Það er ekki eins og ég sé hræddur við þennan hund, eða hunda almennt. Ég er allt í einu orðinn fastur í þessari ákveðnu viðbragðsstöðu gagnvart öllum þeim sem veita hundunum sínum of mikið frelsi, og ég gleymi því að ég get líka slappað af og hagað mér eins og maður. Það er að segja: í vandlætingu minni gagnvart þeim sem mér finnst sýna grönnum sínum vanvirðingu, sýni ég þessum tiltekna manni síst minni vanvirðingu.

Þetta viðbragð er náttúrulega komið af því að þorri þeirra, sem kunna ekki að fara með hunda, er skítsama hvaða áhrif lausagangur og botnlaust gelt hafa á fólkið í kring. En ég þekki líka þær týpur og ég sé að það er ekki tilfellið hér. Og það sem meira er, ég sé það og ber kennsl á það á meðan ég læt eins og fífl. Þarna er kominn maður sem þykir vænt um hundinn sinn og gerir sér grein fyrir því að þegar hann geltir á fólk þá geti það verið óþægilegt, svo hann reynir að sýna að hann hafi stjórn á honum. Ekki ætlast ég til þess að hann hætti að ganga með hundinn sinn í Breiðholtinu? Nei, ég æpi bara og sný upp á nefið. Og nú líður mér eins og hálfvita. Mátulega.

-b.

Í vinnslu

Ljóðaslammið var haldið á föstudaginn, ég tók allt saman upp. Í gær setti ég upptökurnar af fyrstu þremur sætunum á vefinn. Það er ekkert ofboðslega langur tími sem líður þarna á milli, ekki miðað við fyrri ár.

Nú skrifaði ég reiðinnar býsn um vandamálin sem hafa skapast í kringum þetta síðustu ár, en sennilega kemur það ekki umheiminum við, svo ég stroka það aftur út. Sorrí, umheimur.

Almennt séð þá höfum við reynt ýmsar leiðir í þessu hingað til og það hefur aldrei gengið alveg nógu vel. Nú er þetta í fyrsta sinn gert algerlega innanhúss. Við eigum vélina, ég sé sjálfur um upptöku, vinnslu og dreifingu. Hljóðið er tekið beint inn á vélina. Og við erum bara með eina vél, sem þýðir að vinnslan kallar ekki á neinar klippingar fram og til baka. Reyndar er framsetningin ósköp mínímalísk, í flestum tilfellum er fókusinn á keppandanum eða keppendunum allan tímann, órofið. Mér líst vel á það, það er ákveðinn veruleiki í því sem endurspeglar upplifunina af keppninni sjálfri.

Við Canon og ffmpeg ráðum við það.

Hinsvegar er dálítið leitt að við getum ekki hýst upptökurnar sjálf, heldur vörpum þeim út í heim svo fólk hér geti sótt þær þangað. Það væri náttúrulega ekkert mál að hlaða þessu upp á vefþjóna borgarinnar -- og ég kem sjálfsagt til með að dreifa þessu til keppendanna með því móti -- en til þess að geta fellt afspilunina inn í vefina svipað og hægt er að gera með YouTube (eða Vimeo, en það er ástæða fyrir því afhverju við notum það ekki frekar) þá þarf að vera gert ráð fyrir því, það þarf að vera einhver fídus til þess að birta upptökurnar. Je minn eini þetta er hundleiðinlegt, af hverju í ósköpunum er ég að röfla um þetta.

Hugsandi upphátt. Á skjá.

Eníhú. Þetta er eitthvað sem kemur til með að verða fyrirferðameira hérna hugsa ég, og eitthvað sem ég þarf að læra betur.

Heyrirðu það, ég?

-b.

11 febrúar 2012

Farsímaprufa

Ég sit á Laundromat. Kíkti í ríkið hérna á móti og langaði í eitthvað í svanginn. Svanga magann þ.e.a.s. Svanginn? Um svangann o.s.frv. væntanlega. Vtnl.

En ég borðaði eitthvað og datt í hug að skrifa hér á htc lyklaborðið. Það sem ég pantaði var kúbönsk samloka og Úlfur, nema að Úlfurinn var ekki til. Mér var boðinn Bjartur eða Surtur í staðinn. Svartur eða offwhite í staðinn fyrir grænan? Kannske er það ósanngjörn samlíking. Í öllu falli fékk ég ekki humlana mína, en það var í góðu þegar allt kom til alls því þetta kúbanska var síður en svo bragðsterkt. Hvítur Erdinger var fínn í þetta.

Meira en lítið uppgefinn eftir vikuna. Hún endaði semsagt í 14 tíma manískum föstudegi og ég með grjót í mjóbakinu, en allt gekk vel, svo það var mikill léttir. Konjak með dómnefndinni í lok kvöldsins linaði ýmislegt...

Í kvöld verður þrennskonar samanburður í gangi: Surtur og Lava; Gæðingur þorrabjór og Móri; 8 vikna Bee Cave og 1 viku Bee Cave. Ég er allavega spenntur.

Ég er enn á Laundromat og bakpokinn er þungur af bjór, kannske ráð að leggja á Laugaveginn. Upp, upp, upp, upp, alla leið á hlemm!

-b.

10 febrúar 2012

Þetta kemur allt, föstudagur

Jæja þar fór sú hugmynd. Eða nei, hugmyndin er ennþá á lífi, en eftirfylgnina vantaði. Hei það var mikið að gera í gær. Bætir það eitthvað fyrir að ég hafði aldrei orðað hugmyndina sérstaklega? Má ég segja að loforð sem aldrei er nefnt sé ekki hægt að svíkja?

Æ hverjum er ekki sama um loforð. Á netinu í það minnsta. Frá fólki sem maður þekkir ekki. Fyrir langa langa löngu síðan?

Núna er semsagt allt að nálgast suðupunkt hérna í vinnunni. Keppnin er að fara af stað eftir rúma tvo tíma, prufurnar eftir tæpan klukkutíma. Það er ekki svo ýkja margt sem þarf að gerast áður en þær hefjast. Ég held að við séum nokkuð seif.

Eins og Páll Óskar.

Talandi um tónlist. Núna heyri ég sömu línurnar úr Pixies laginu þarna aftur og aftur. I can see this lady, it is shady, I am leaving tomorrow tomorrow tomorrow. Þetta hlýtur að vera Surfer Rosa? Ég hef ekki heyrt þessa plötu í háa herrans tíð. Hvar varst þú úti að svalla í nótt, undirmeðvitund?

Annars leiðist mér Surfer Rosa. Maður þarf allavega að vera mjög akkúrat stemmdur til að hafa gaman af henni. (Stemning / stemndur? Það gengur ekki?) Neibb, ég fíla Doolittle best. Ég man eftir einhverju viðtali við Kidda (?) í Hljómalind eða Kanínunni eða hvað þetta hét alltsaman, þar sem hann var að rifja upp þegar hann heyrði Smells Like Teen Spirit. Til þess að setja söguna í samhengi talaði hann aðeins um það hvernig liðið á Tunglinu (?) var geðveikt að fíla Pixies en svo hafði Doolittle komið út og þá fíluðu þá allir, og þá var það ekkert gaman lengur.

Hipsterar.

Ég held hann hafi verið að tala um Tunglið. Var það ekki eini skemmtistaðurinn á jarðríki fyrir fimmtán árum síðan? Einhverntíman sat ég slasaður á heilsugæslustöð á Hvolsvelli og las í endemis gömlu Mannlífsblaði grein um Tunglið og 'íbúa' þess. Þetta hefði allt eins getað verið fyrir þrjátíu árum síðan, mín vegna. Ég minntist á þetta við kærustuna þegar ég kom til Reykjavíkur daginn eftir, þá hafði hún farið á Tunglið í denn. Fljótt að gerast. Og stelpur, þær eru svo bráðþroska!

!

Svo brann það eða eitthvað. Sennilega var það fínt, allir hættir að fíla Pixies. Tími til kominn að einkavæða allskonar.

-b.

08 febrúar 2012

Nítján hundruð sjötíu og níu

Ég er með sömu lögin á heilanum og allir aðrir. Það er eins og það á að vera; við erum manneskjur úr sömu kolefnisatómum og sama þjóðfélagsgrunni, meira og minna. Ég velti því samt fyrir mér hvort lögin staldri lengur við hjá mér en öðrum, þar sem ég er latur neytandi tónlistar. (Eða njótandi tónlistar? Nei, sennilega nýt ég þess alveg eins mikið og aðrir að neyta tónlistar, ég bara neyti ekki sama magns.) Lag sem ómar í dag dúkkar sennilega upp aftur á morgun, og þess vegna daginn þar á eftir, vegna þess að það kemur ósköp lítið til að hrinda því úr sessi.

Þetta er hanaslagurinn í höfðinu.

Það var það fyrsta sem mér datt í hug en líkingin er skemmtileg vegna þess að það er einmitt bara eitt í gangi í einu. Hversu svakalegur njót-neytandi sem maður er, þá eru varla nokkurntíman fleiri en eitt lag í gangi í einu höfði á sama tíma? Út frá minni eigin reynslu er það ómögulegt. - Reyndar eins og svo margt annað.

En hanaslagurinn semsagt. Það er auðveldara að standa í hásætinu í lengri tíma, raula og hafa það kósí þegar áskorendurnir eru færri. Ef maður hlustar lítið á músík þá hangir sama lagið kannske í manni í fleiri, fleiri frímínútur. Og það að maður sé á toppnum segir þá ennþá minna um það hvað maður sé góður slagari.

Um daginn fékk ég lagið '1979' á hausinn. Það er með Smashing Pumpkins, af plötunni Mellon Collie and the Infinite Sadness. (Titill plötunnar sýnir, bæ ðe bæ, að Corgan hafi haft miklu meiri húmor fyrir sinni eigin svartsýni og þunglyndi heldur en textarnir hans gefa til kynna. 'Depurðin endalausa' er nógu absúrd yrðing í sjálfri sér, en þarna verður hún eins og hluti af plotti í barnabók, eitthvað sem rekur áfram ærslafulla leit en skiptir engu máli í neinu stærra samhengi: Hin fjögur fræknu og Hvíthattaklíkan, Ástríkur og grautarpotturinn.. Og melankólían sjálf er þá aðalpersónan, persónugerð í melónu-voffa. Titillinn í heild er svo náttúrulega tvítekning, sem er með einfaldari leiðum til að blikka áhorfandann: 'Depurðin og depurðin endalausa'. Aftur og að eilífu, ó við erum svo döpur. Þetta minnir mig að nokkru leyti á Smiths, sem fara samt öfuga leið: textarnir gera grín að sjálfum sér en titlar platnanna eru háalvarlegir.)

En já, '1979'. Það sem ég var með í höfðinu, þegar ég fattaði að það var þarna, var melódía úr þessu lagi. Ég las einhverstaðar myndbandinu lýst svo að það væri 'pure, unfiltered nostalgia' og það er sennilega ekki hægt að orða það betur. Þarna er Corgan að syngja um það hvað það var gaman í den, þegar hann var ungur. Það er meira en lítil kátína og lífsgleði í þessu lagi, hann minnist að vísu á það að beinin þeirra vina hans fari oní jörðina að þeim látnum en þó aðallega til að sýna fram á að honum sé sléttsama akkúrat núna. Eða þá, öllu heldur.

'Þá' var semsagt árið 1979. Þegar Mellon Collie kemur út, árið 1995, eru sextán ár liðin. (Hvað ætli Corgan sé gamall þá? Ég neita að gá á Wikipediu. Sextán plús svona fimmtán, sextán, sautján samasem kannske 32? Gæti passað.) Hann teygir sig aftur í áttunda áratuginn, rétt svo, en leiðin er ekki óskaplega löng. Þetta rann upp fyrir mér (segi ég eins og ég hafi uppgötvað eitthvað merkilegt) þegar ég mundi hvaða ár er nú. Það eru semsagt sautján ár liðin frá því lagið kom út. Þrjátíu og þrjú ár frá því Corgan var ungur og sæll árið 1979, en það skiptir harla litlu máli. Heldur það að lagið sjálft, hljómarnir sem hanga í höfðinu á manni og textarnir sem rifjast upp ef maður sönglar, er orðið sautján ára gamalt. Það tengir mann afturábak, tengir mig afturábak, á svipaðan máta og það gerði fyrir Corgan áður.

Þáþráin elur af sér þáþrá, eða hún verður hluti af 'þá'-inu sem maður þráir. -- Ekki svo að skilja að ég þrái árið 1995. Þeir sem vilja vera þrettán ára aftur þurfa að hugsa sinn gang. En ég meina þetta á svona almennari máta.

Ég nefndi þetta við Nönnu og henni fannst það vægast sagt ekki merkilegt. Lög eldast, sagði hún og yppti öxlum. Það sem hankaði mig í þessu var samt það að tímabilið þarna á milli er jafn langt, en það virkar svo alls alls ekki þannig í tilfinningunni. Nítján hundruð sjötíu og níu? Það er óralangt síðan. En ég man 1995 eins og það hefði gerst fyrir örfáum árum síðan. Og svo framvegis. 'Þá'-ið var 1979, 'þá'-ið var 1995, 'þá'-ið var 2012.

Eða er 2012.

Er 2012?

-b.

07 febrúar 2012

Númer næsta

Mér dettur í hug að reyna þetta aftur, ég hlóð meira að segja niður Firefox viðbót til að prófa. Hérna er hún, hylur hálfan skjáinn.

Á netinu er talað um morðhótanir. Sennilega ætti maður ekki að telja með þetta þegar strákar segja hver við annan „ég drep þig“, það eru meinlausar ýkjur.. dálítið eins og þegar talað er um að einhver sé að „nauðga“ tilteknu lagi. Einhverstaðar skrifaði Siggi pönk hugvekju um það. En látum svoleiðis liggja á milli hluta.

Semsagt morðhótanir þegar einhver segist ætla að drepa þig, og þú hefur enga ástæðu til að ætla að þar sé um ýkjur eða myndhvörf að ræða.

Ég hef haft dálítið gaman af því, eftir á, að eina morðhótunin sem ég hef nokkurntíman fengið – sem fellur undir þessa skilgreiningu – hafi komið frá æstum aðdáanda Sigur Rósar. Ég var að vísu ekki eina andlag þessarar hótunar, það vorum við Már báðir. „Ég drep ykkur“ var það sem hann sagði blessaður. Kannske er það helsta sem situr eftir nokkurskonar nostalgísk minning um tíma þegar það tók því að rífast um Sigur Rós.

En morðhótunin sem kemur útúr nafnlausu tómi. Við Már slógum þessu upp strax í kjölfarið. Tilfinningin var ónotaleg en það var ekkert annað að gera en að búa til einhverja þekkjanlega stærð úr þessu. Ekki meðvitað held ég, sem taktík, en það eina sem okkur datt í hug að gera með græjurnar sem við vorum með í höndunum: að fagna því að við værum nú „gengnir í klúbbinn“, eins og Davíð kallar það.

Það hlýtur að vera ansi sorrí klúbbur. Breiður hópur af allskonar vitleysingum sem hafa einhverntíman sagt eitthvað sem einhverju vanstilltu símtóli mislíkaði. Og nær langt aftur í aldir sjálfsagt; hérna í gamla daga skrifaði fólk nú bréf. Eða ætli maður þurfi að endurnýja áskriftina með reglulegu millibili? Hugsa sér napurlegri mælikvarða á frægð.

Mér finnst einsog ég hafi ætlað að tala um eitthvað skemmtilegra. Ég skal gera það næst. Ekki drepa mig.

-b.

06 febrúar 2012

Númer 1334

Ég er ekki kominn aftur.

Ég er ekki kominn aftur.

Ég fór aldrei í burtu, en ég var samt ekki hér og ég verð ekki hér.

Það er betra að ræskja sig með því að segja nokkur orð upphátt, svipað því að lesa áletrunina á veggnum fyrir ofan dyrnar á hellinum: The way is shut...

Maður er ekki að festa sig í neitt, þannig séð. Það málar sig enginn inn í horn með aðfararorðum. Maður getur alltaf gangið á bak svoleiðis. Þau eru hluti af heildinni en stand um leið utanvið. Látum það vera til merkis um menntun mína og hugmyndaleysi að ég skuli undir eins vera kominn inn í einhverskonar staðlaða hugmynd um póstmódernisma. En þetta snýst ekki um mig!

Auðvitað snýst þetta um mig.

Það er ég sem er ekki kominn aftur.

Það að skrifa er leið til að hugsa um hlut. Með því að hætta að skrifa hættir maður ekki að hugsa en maður hugsar öðruvísi, maður hættir að hugsa á þann hátt. Ég dreg óhjákvæmilega hliðstæðu á milli þess og að hætta að hreyfa sig á ákveðinn máta. Ég get hjólað eins og ég vil en ef ég hætti að lyfta í eitt og hálft ár þá hætti ég að geta lyft. Af hverju vill maður lyfta?, spyr veröldin. Tjah. Svo maður hætti ekki að geta lyft..?

Það væri kannske ráð að gefa spyrjandanum einhverskonar identítet. Einhverra hluta vegna dettur mér „tjöldin“ í hug. Ég veit ekki neitt um Kundera en hann hefur eitthvað að segja um áhorfendur og þá sem velja sér áhorfendur. Eða er punkturinn sá að allir velji sér áhorfendur, bara á misjafna vegu, eða með misjöfnu markmiði?

Maður hættir ekki bara að hugsa um heiminn utanvið mann sjálfan heldur líka sína eigin ævi, svona eins og hún líður dag frá degi. Sennilega er stærsti áhrifavaldurinn að þessu slútti sá að ævin tekur meira pláss en áður. Það mætti kalla það kaldhæðni. Sennilega bara einföldun samt.

Köllum þetta alltsaman aðfararorð. Númer 1334; rétt að byrja.

-b.