17 september 2012

Frímánudagur

Ég var að vinna alla síðustu viku -- bara einsog vant er -- og vann svo um helgina. Það er nú stundum nóg út af fyrir sig. Nema laugardagurinn var allur á flugi og gærdagurinn var.. erfiður. Ég var í vondu skapi þegar vaktinni lauk og kom þreyttur heim, mundi svo eitt sem ég átti eftir að gera um miðnætti og þurfti að klára, þannig að ég sat hérna og pikkaði aðeins lengra inní nóttina.

En ég var búinn að ákveða þegar ég fór heim í gær að taka mér frí þennan mánudag. Gera eitthvað annað. Þegar ég vaknaði í morgun og leit á klukkuna var hún korter yfir tólf. Ég vissi ekki að þetta væri hægt lengur. Í alvöru talað, þetta kom mér á óvart.

Þannig að ég var hissa, dálítið spældur. En ósköp fljótur að sleppa hugmyndinni um daginn sem ég hafði haft í hausnum kvöldið áður. Ég tek hérna aðeins til, fæ mér rúnstykki. Þvæ þvott. Spila Skyrim.

Mamma er komin heim frá BNA, í heilu lagi. Pakkinn sem ég bað hana fyrir kom með henni, ég er feginn því líka.

Efnisgreinarnar verða sífellt styttri. Einsog lífið! Eh. Já já.

Það fer sennilega eftir því hvernig maður lítur á það. Styttist sífellt í því eða verður það sífellt lengra? Horfir maður fram eða aftur? Sennilega ætti maður ekki að kasta eign sinni á minningar sem eru ekki til ennþá, ekki frekar en að taka út veð á fisk sem er enn í sjónum. Og ég er ekki sannfærður um að maður auki við minningar að neinu viti, það hlýtur alltaf eitthvað að mást í burtu um leið. Ég reyni að muna íslenska þýðingu á 'palimpsest'.

Þvottavélin var að spóla niður. Ég hef verk að vinna - hó hó.

-b.

13 september 2012

Núllta: Geymdu titla þar til síðast

Fyrsta: Aldrei byrja á því að tala um hversu sjaldan þú skrifar eitthvað, eða hversu oft þú gleymir því að hér sé blað til að skrifa á.

Annað: Aldrei segja eitthvað án þess að segja það, með því að segjast aldrei ætla að gera það sem þú ert að gera.

Þriðja: Aldrei lesa Morgunblaðið.

Fjórða: Aldrei sjá eftir því að lesa samt Morgunblaðið.

Fimmta: Óákveðinn greinir er alltaf fyndnari en ákveðinn greinir.

Sjötta: Aldrei hefja setningar á „Persónulega“.

Áttunda: Aldrei ganga um í lausreimuðum háum hælum.

Níunda: Alhæfingar um þjóðflokka eru í lagi svo lengi sem maður alhæfir á báða bóga. Dæmi: Þjóðverjar eru indælari manneskjur en Frakkar, en Frakkarnir eiga hinsvegar fallegra tungumál.

Tiunda: Enginn á tungumál.

Það er auðveldara að telja hluti upp en að berja þá saman í efnisgrein. Allt það sem myndi ekki passa saman við hitt getur bara verið númer eitthvað á listanum. Ef ekki væri fyrir stigveldið sem felst í ofar/neðar á lista, og númeruðum einingum, einsog hér fyrir ofan, gæti maður kallað þetta ektafínan póstmódernisma.

Shift+Home, backspace.

Um daginn kom hér út blað sem hét Miðbærinn eða eitthvað í þá áttina. Það var nákvæmlega eins og hver annar Mónitor eða Fókus. Eða hvert annað stúdentablað. Ég varð allavega fyrir dálitlum vonbrigðum, það hlýtur að vera góðs viti? Á síðunni knúz skrifar einhver mannvitsbrekkan að það sé „engin leið til að tryggja að Linda hafi ekki verið mjókkuð í auglýsingaskyni.“ Það er ekki hægt að vera viss um að eitthvað hafi ekki verið gert. Eigum við að gera ráð fyrir því að það hafi verið gert, eða eigum við bara að gefa það í skyn?

Á auglýsingastofu í 104 reynir einhver að segja mér að 98% Íslendinga á aldrinum 13-67 ára séu notendur á Facebook.

Heimurinn er bæði stærri og minni en ég skil, landið bæði ríkara og fátækara.

Vefmiðlar auglýsa app sem segir mér hvenær eftirlaunaþegi skrifar þúsundustu bloggfærsluna sína. Léleg vinnubrögð þeirra sjálfra eru ástæðan fyrir því að hann skrifar megnið af því sem hann skrifar. Hann skrifar þá þúsundustu og þá þúsundustu og fyrstu án þess að ég taki eftir því. Næstu þar á eftir skírir hann óvart „númer 2002“. Sennilega innsláttarvilla, eða gæti það hafa gerst einhverntíman á bilinu 1-1000? Tók einhver sig til og taldi?

Vaknað í Brussel fagnar tíu ára afmæli í ár. LoveStar kom út á sama tíma. Hvorugur höfundurinn hefur sent frá sér skáldverk síðan.

-b.