15 október 2006

ÓðinsvélarHérna var ég í dag.

Þar smakkaði ég 'Odense Classic', sem er barasta fínn lager.

Lestarmiðinn kostaði meira en 'stúdentastrætið' hjá hórunum á Istegade. Talsvert meira. Við erum að tala um það að gaurinn tók alla peningana úr veskinu mínu og gaf mér eitt klink tilbaka. Og minntist ekki einusinni á það að maður gæti pantað sæti, til að geta sest niður í lestinni. Ég settist bara einhverstaðar, var rekinn úr því sæti, settist í næsta klefa, var rekinn úr því (sorrí, fyrsta farrými melur), stóð hálfa ferðina útá gangi með fullt af öðru fólki (þunguðum konum og gamlingjum, meðal annars) en fékk loks að setjast þegar einhver fór út einhverstaðar. Það var allt í lagi.

Gekk um Óðinsvé, hitti Ívar og tók strætó með honum á kollegíið hans. Partí um kvöldið þarsem ég lærði nokkur dönsk orð og sannfærði 19 ára gamla íslenska stelpu um að hún væri í raun og veru 28 ára í 'stelpu-árum'.

Í morgun tókum við til. Ég ákvað að fara heim, við röltum á strætóstoppið og lentum þar á sama tíma og strætóinn. Ég sagði bless í flýti, hugsaði um perlur og eðlur á leiðinni á lestarstöðina, fór uppá aðra hæð, tók númer og fékk að vita að 14:06 lestin færi til Köben, en að hún yrði sirka 25 mínútum of sein. Ég pantaði sæti í þetta skiptið. Það kostaði mig 20 krónur.

Lestin fór beinustu leið til Köben og það angraði mig enginn. Á HBG fékk ég lest til Nörreport undireins, og þar metró til Örestad undireins. Þetta var hið fullkomna lestarferðalag.

Svo kem ég heim, kveiki á tölvunni, opna itunes og hann fer sjálfkrafa að hala niður nýjustu poddköstunum sem ég er áskrifandi að. Hversu svalt er það? Ég gapi yfir því hversu lengi ég var að komast inná þann gaur. Poddkastaáskrift er algert smjör.

Poddkastið sem um ræðir er kommentaríið hans Ronalds Moore fyrir Battlestar þátt gærdagsins. Þátturinn er að hlunkast inná tölvið einsog er. Eini sjónvarpsþátturinn sem ég horfi á tvisvar í hverri viku, vegna þess að kommentaríið hans Moores er helvíti gott. Allt annað en ruslið sem þeir gefa út fyrir Family Guy.. En hvað um það. Gott að vera kominn heim.

-b.

Engin ummæli: