30 september 2008

Ég er (fjármála/ríkisstjórnar)snillingur

Hei ég veit. En ef við byggjum virkjanir og seljum þær síðan, og svo þegar þær eru orðnar gjaldþrota, þá getum við keypt þær aftur?

Við getum notað peningana til að byggja sendiráð og halda stólapartí í Sameinuðu þjóðunum.

-b.

Kreppan er hálfviti

Ég hafði ekki áhyggjur af peningunum mínum fyrr en Davíð sagði í sjónvarpinu að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af peningunum mínum. Stjórnmála-Davíð, ekki alvöru Davíð.

...

En DV sagði að sparifé landsmanna væri tryggt upp að þremur milljónum, ef ég skildi það rétt. Á haus sko, ekki í heildina.

Nýi DVD spilarinn virkar fínt. Hann lá við hliðina á sjónvarpinu heima á Heiðarvegi og hafði aldrei verið notaður, svo hún móðir mín vissi til. Hún hafði keypt hann handa strákunum í jólagjöf, en þeir héldu áfram að nota ps2-inn sinn.

Blöðin eru full af fréttum og fréttaskýringum um Íslandsglitni en ég nenni ekki að lesa um það.

Það sem ég nenni að lesa er tímaritið mitt, í septemberblaðinu af The Believer er viðtal við Tim og Eric, lesendabréfadálkur með Bob Odenkirk og nokkuð bitastæð grein um sjálfið í non-fiction. Ég er ekki búinn með hana ennþá en mig hálflangar að henda upp nokkrum bútum úr henni. Seinna.

Núna bendi ég á Fyrsta tölublað veftímaritsins Tíu þúsund tregawött, þarsem lesa má tvo kafla úr Áræði, bókinni sem tíminn gleymdi. Og gleymdi síðan aftur.

Ég bakaði pítsu í gær og Davíð kom að borða með okkur og svo bara fór hann ekki..? Alvöru Davíð, ekki Stjórnmála-Davíð.

En ef ríkið kaupir Glitni, getum við þá látið Ólaf Ragnar hafa hann og notann til að leysa úr ágreiningsmálum þjóðarinnar? Eða er það brandari sem fáir fatta og engum finnst fyndinn.

Það eru bækur í töskunni minni sem koma aldrei uppúr henni.

-b.

Þessi þungu kíl

Ég kem heim örþreyttur þrjú kvöld í viku, dæsi einsog ég fái borgað fyrir það og bíð eftir að vera spurður. Síðan, þegar ég er ekki spurður, þá segi ég við sjálfan mig en samt nógu hátt til að heyrast framí eldhús ,,djöfull tók ég mörg kíl" eða ,,á ég að segja þér hversu mikið við tókum á því? Við tókum geðveikt á því."

Og þá segja stelpurnar eitthvað í líkingu við ,,kíl? hvað er það?" og ég útskýri língóið, en ég vil frekar halda áfram og kafa dýpra oní aðalmálið, sem er hversu mikið við tókum á því það kvöldið.

Svona ganga dagarnir fyrir sig.

Þeir fluttu Símsenhúsið á staðinn sinn í dag, eða ég býst við að þeir hafi gert það; það var búið að ryðja öllu úr Grófinni þegar ég lagði af stað heim. Ljósastaurar og umferðarskilti, keðjur og keðjustaurar, bílar sem voru lagðir í götunni og nokkrum bílastæðum við Sæbrautina, allt var þetta fjarlægt. Tveir massívir kranabílar komnir í startholurnar.

Á föstudaginn var málþing starfsmanna í safninu, á laugardaginn skrapp ég austur og endaði á einhverju soraballi í Hvíta húsinu, í gær horfði ég á einn eða tvo West Wing þætti og í morgun keypti ég og allir hinir Íslendingarnir bankann minn.

Svo settumst við Davíð og Ingibjörg niður eftir pítsuát og horfðum á The King of Kong, sem er algert æði.

-b.

19 september 2008

Eitthvað sem ég skrifaði og gleymdi að birta

Ég komst að því um daginn að ég get ekki bixað DVD-drifið í tölvunni minni svo ég geti horft á myndir frá öllum mögulegum svæðum. Matshita er víst hundleiðinlegt þegar kemur að svoleiðis. Þetta er eitthvað sem ég þarf að hafa í huga næst þegar ég kaupi mér tölvu.

Þetta er náttúrulega ekkert stórmál en ég á samt nokkra Reg2 diska sem mig langar að kíkja á, þætti sem mig langar til að liggja yfir einn en ekki sitja undir í sjónvarpi.

Og svo hætti spilarinn minn að svara mér um daginn. Við Ingibjörg vorum búin að velja okkur bíó fyrir kvöldið en svo kviknaði ekki á Elfunk. ,,Elfunk, hvað er að?" sagði ég. ,,Ertu búinn að missa taktinn?" ... Ekkert svar.

En hann var orðinn fimm ára gamall, eða rúmlega það. Ég hlýt að þakka honum fyrir góða þjónustu og sleppa honum lausum í Sorpu við látlausa athöfn.

-b.

17 september 2008

Byrjum á stafarugli

Eða ég gæti líka sagt að þessar tvær línur séu stafarugl hvor af annarri:

A DREAM WITHIN A DREAM

og

WHAT AM I, A MIND READER

Mér þótti þetta sniðugt. Ég heyrði það í þessum útvarpsþætti, sem hægt er að hlusta á á netinu. Þessi tiltekni þáttur fjallar um spurningaþætti og annarskonar þrautir. Nýjasti þátturinn heitir ,,Enforcers" og fjallar um fólk sem sér til þess að aðrir fylgi settum reglum, hvort sem það hefur löglegt umboð til þess eður ei. Svo var þessi hérna, ,,Tough Room", þarsem við heyrum m.a. hvað gengur á í ritstjórnarskrifstofu The Onion.

Og þátturinn ,,The Giant Pool of Money", sem fjallar um tilurð húsnæðislánakrísunnar í BNA. Það er gaman að heyra skiljanlega útskýringu á því hvernig ástandið gat orðið einsog það er í dag, og að hlusta á sögur frá gaurum sem tóku þátt í dæminu, hvort sem þeir vinna á Wall Street, fyrir lánasjóði eða hjá eftirlitsstofnunum ríkisins, eða bara fólk sem tók lán og er nú í djúpum skít. Og hvernig í helvíti þetta fer að hafa áhrif á okkur hér fyrir austan.

Gaman af þessu semsagt. Svona til að sjóða þetta alltsaman niður í fjögur orð.

Ég reyndi að hringja í Víði núna rétt í þessu. Í augnablikinu næst ekki í farsímann. Kannske er slökkt á honum, hann utan þjónustusvæðis eða eigandinn kominn á þriðja bjór suður í London og ekki farinn að spá í að kaupa sér nýtt símanúmer.

Önnur vikan í ræktinni hálfnuð og ég er með smá hálsríg. Ég ætti að teygja betur eftir átökin. Hvílík átök! En við þurfum að fara að skrifa niður hvað við gerum hverju sinni, ég man aldrei kílóafjölda vikna á milli.

Þeir sem elska mig og dá, og muna allt sem ég hef nokkurntíman sagt eða skrifað, vita að ég hef unun af góðri sturtu, en sturturnar í Laugum eru æðisgengnar. Ég ýti á takka og alltíeinu er ég umlukinn mátulega heitu vatni. Vatnsflæðið minnir ekki á sturtuhaus heldur úrhellisdembu, en ég stend þá útí rigningunni á adamsklæðum og opna sjampóbrúsa og á erfitt með að bera hendurnar uppað höfðinu, mikið er það góð tilfinning. Þannig að ef ég ætti að segja nokkrum hvað mér finnst best við þennan stað þá eru það sturturnar. Og handklæðin sem maður fær í tækjasalnum, og þarf þessvegna ekki að taka með sér að heiman.

Þarna er komið allt það sem ég vil: Að þurfa ekki að taka drasl með mér, og að fá góða sturtu.

Og að hlæja lágt og kurteisislega að kjöthrúgum sem öskra þegar þær lyfta 220 kílóum í hnébeygju.

Ég hef ekki spilað civ í vikunni, en hef hinsvegar horft tvisvar á Gone Baby Gone og þrisvar á Zodiac. Já þrisvar vegna þess að það eru jú tvær commentary-rásir á þeirri síðarnefndu. Nemahvað.

David Foster Wallace hengdi sig um daginn. Ég hef aldrei lesið neitt eftir hann. Það er ekkert til á safninu eftir hann.

Tveir kaflar úr Áræði verða birtir í veftímariti Tíuþúsund tregawatta núna bráðum. Nota þeir enn gömlu slóðina? Hér er allavega eitthvað.

Á mánudaginn komst ég að því að yfirmaður minn, ritstjórinn, var farinn til Danmerkur. Það vissu allir af þessu nema ég. Lét hún mig vita og ég gleymdi að muna eftir því? Sú næsta henni er nýhætt, og í gær fór þriðja vef-konan í vikulangt frí. Þannig að núna er ég eini gaurinn með vefina. Það er ekki beint brjálað að gera, en ég er ykkar gó-tú gæi.

Gaman af þessu semsagt.

Hei já og sjáið þessa mynd af Agli og Hafsteini, úr afmælisrúntinum sem við tókum með þeim síðarnefnda:-b.

10 september 2008

Ég er ekki að lesa Leyndarmálið, sama hvað hann skrifaði um hana í Lesbókinni núna síðast

Ég kenni einkirningssóttinni um! Og Warren Ellis!

Skor í dag, fékk How to be an Artist eftir Campbell fyrir slikk. Hversvegna vill enginn lesa þessar bækur nema ég?

Og í kvöld ætla ég að henda í pítsu, því pítsur eru góðar og það geta margir borðað eina svoleiðis. Eftir að við höfum borðað pítsuna þá kíki ég kannske á vídjó? Ég á ennþá eftir að horfa á Zodiac, direkktors köttið.

Entourage byrjaði nokkuð vel, kannske bara besta leiðin til að grafa strákana uppúr holunni sem endirinn á síðustu þáttaröð var. Eða öllu heldur byrja að grafa. Og hvar annarstaðar en í Entourage: allt í volli, engin vinna og engir peningar, en samt fer hálfur þátturinn í að skvera baðstrandagellur og grilla banana.

Dexter fór líka nokkuð vel af stað. Ekki alveg sami krafturinn í þessum byrjunarþætti einsog fyrri tveimur, en það er eitthvað við þessa þætti sem tengir.

Annar dagurinn í ræktinni í gær. Lappir. Og ég er ekki ónýtur í bakinu, mér líður þvert á móti þrælvel. Hvílíkar ógeðis dásemdir. Við erum hinsvegar að sjá að vinnan er lengri á föstudagskvöldum og við þurfum líklega að sleppa þeim. En þrír dagar í viku eru ágætis byrjun.

Lifum drauminn krakkar.

-b.

09 september 2008

Danskar karamellur og sjór

Mér finnst undarlegt hvað ég er latur við að skrifa. Það hefur ekkert breyst nema bara það. Jæja.

Þessa dagana spyrja allir hvernig sambúðin gangi, ég veit ekki hvort veröldin er að bíða eftir því að sjóði uppúr og allt brenni í átökum og vitleysu. En það er ekkert sem bendir til þess, enn sem komið er. Hún Ingibjörg kom heim frá Danmörku í gær (í annað skiptið síðan við fluttum inn) og færði okkur karamellur frá Bornholm.

Hafsteinn átti afmæli á föstudaginn og fékk okkur í Laugar með sér á laugardeginum, okkur Egil og Bjarka. Ég var að vinna til rúmlega fimm, komst loks af stað klukkan hálfsex en var kallaður tilbaka útaf einhverju helvítis rugli í öryggiskerfinu, bölvaði, keyrði heim og sótti bjór og stuttbuxur, náði strákunum þegar þeir voru að fara að skrá sig inn. Við dembdum í okkur einum bjór og fórum í sturtu, þaðan í gufu. Á dagskránni var semsagt að fara í rúmlega 60gráðu heita gufu í korter og þaðan beint í kar fullt af ísköldum sjó (eða söltu vatni). Helst í kaf. Ég átti ekki von á að ég kæmist lengra en rétt með tærnar oní, en hafði það af.. ég veit ekki í hversu margar sekúndur ég hélt út en náði að minnsta kosti þessum tíu fimmtán sem miðað var við.

Undarleg tilfinning, að halda niðrí í sér andanum og þurfa um leið að halda fyrir nefið vegna þess að líkaminn bregst við kuldanum með því að taka andköf, eða reynir það a.m.k. Þetta gerðum við tvisvar, og fórum svo á barinn við hliðina. Þennan við hliðina á gufunni á ég við. Svo í einhverja aðra gufu, þaðan í boltaleik oní lauginni og á leiðinni uppí búningsklefa eftir leikinn.. já, ég veit ekki alveg hvort ég má segja hvað gerðist en það reddaðist allt og við vorum enn kátir. Víðir hitti okkur í búningsklefanum og við pöntuðum bíl á Vitabar.

Þar hafði Hafsteinn aldrei borðað, en mamma hans var að vinna þar svo við fengum bjór og hambó og svona, fórum svo í karókí á Frakkastíg, þaðan í partí í Samtúni. Áfengið okkar kláraðist og okkur var ekki boðið úr flöskum hússins, eða kannske var ekki tóm til þess vegna þess að við vorum beðnir um að yfirgefa pleisið eftir að Víðir stóð uppá stofuborði og fékk viftuna í hausinn. Við stigum útfyrir og réðum ráðum okkar, Hafsteinn sagðist þurfa að skreppa aftur í húsið og kom svo ekki aftur. Við röltum niður í bæ og ég kvaddi strákana fyrir utan Celtic.

Það tók mig óeðlilega langan tíma að komast heim.

Ég var að vinna á sunnudaginn líka, nett þunnur en aðallega ósofinn. Ég skreið í rúmið einhverntíman á bilinu átta og níu um kvöldið og svaf til ellefu daginn eftir. Eða í gær. Tók mér semsagt frí á mánudegi, fór í skólann og sótti strætókortið mitt, notaði það til að komast uppí Laugar og sækja bílinn minn, dólaði framá kvöld og kíkti svo með Davíð í ræktina í Laugum (enn og aftur). Nú á semsagt að byrja á því aftur. Guði sé lof.

Bamm daramm.

En það er kominn nýr gaur hingað í safnið á móti okkur Finni, og hann tekur aðeins fleiri tíma en Ólafur gerði, þannig að núna er ég bara niðri á fyrstu hæð fimmtudagsmorgna og föstudagskvöld, og fjórðu hverja helgi. Vinnuhlutfallið er þannig komið uppí 80/20 (eða niður í 80/20, eftir því hvernig á er litið).

Hvað annað? Spooks: Code 9 og NewUniversal (eftir Ellis) byrja bæði hrikalega illa, og á nákvæmlega sömu línu einhvernvegin: Einhver hrikalegur heimsviðburður verður til þess að slatti af unglingum verður að hetjum. Hversvegna fara unglingar í heimsenda-poppkúltúr svona mikið í taugarnar á mér? Ég entist a.m.k. ekki út fyrsta þáttinn/heftið. Dexter er að byrja aftur (jei), Entourage er byrjaður aftur (jei?). Ég er með þrjár bækur hérna á borðinu mínu sem mig langar til að lesa eða ætla að lesa: Ultimate X-Men, vol. 1 eftir Mark Millar, sem virðist vera tóm froða; I Shall Destroy All the Civilized Planets! eftir Fletcher Hanks, sem er forvitnileg; og The Strongest Man in the World eftir Louis Cyr og Nicholas Debon, sem ég veit ekkert um.

Mig hálflangar í X-Box bara til að geta spilað Bionic Commando.

Og endurreisn bókmenntavefsins gengur vel.

Mikið er tíminn annars fljótur að líða. Hafiði tekið eftir þessu?

-b.

03 september 2008

We're in the money

Ég er alveg dottinn í Civ. Þessar viðbætur bera nafn með rentu, þarna er heilmiklu bætt við.. Mér fannst einmitt alltaf dálítið skrýtið að maður skyldi ekki geta þjálfað og gert út njósnara fyrren komið væri inní 20. öldina, en þarna er komið helvíti skemmtilegt system og það byrjar með stafrófinu takk fyrir.

Mér finnst ég vera í endalausu veseni með peninga þessa dagana. Þá á ég ekki við að ég rambi á barmi gjaldþrots og sultar, heldur bara að það er einsog allar stofnanir sem ég skipti við vilji annaðhvort rukka mig um peninga eða gefa mér peninga. Skatturinn, bankinn, gagnaveitan, orkuveitan, pósturinn, verkalýðsfélagið.. Þetta gæti ært óstöðugri mann en mig.

En ég er klettur í hafinu. Ef hafið er skrifborðsstóllinn minn og hann er fyrir framan tölvuna og í tölvunni er Civ IV. Einsog ég hef áður snert á.

Hei og amasón pakki kom í dag. Gleði?

-b.

02 september 2008

Um buxur og skort á buxum

Það eru svona hnappar á gallabuxunum mínum, nema að þeir eru ekki beint hnappar. Meira svona einsog boltar sem ganga í gegnum efnið á ákveðnum stöðum, þar á meðal við hvorn endann á vösunum að framan. Og aftari boltarnir, þessir sem liggja nær mjöðminni en ekki maganum, hafa krækst utaní hluti einsog hurðarkarma og svoleiðis, og beyglast uppávið. Þannig að núna eru tvær beittar járnskífur utaná gallabuxunum mínum, þarsem hendurnar eru helst að þvælast, við framanávasana. Ég er búinn að skera mig nokkrum sinnum á þessum andskotum. Ekki alvarlega, en þetta er dálítið þreytandi.

Ég er að hugsa um að rífa þá úr. Detta buxurnar í sundur? Hver veit.

Ég veit hinsvegar að í morgun var gengið inná mig þar sem ég var að stíga uppí sturtuna heima. Það var nett óþægilegt. Hann Frikki benti á að það hefði líklega verið óþægilegra hefði stöðunni verið snúið við, og ég gengið inná viðkomandi. Ég held það sé nokkuð til í því.

Auðvitað var þetta trassaskapur í mér að læsa ekki dyrunum, en ég hef einhvernvegin aldrei vanist því, ég veit ekki hvers vegna. Þá hugsaði ég með mér að eitthvað í þessa veru hlyti að koma fyrir fyrr eða síðar.. Svona einsog þegar franski herinn hefur vetursetu í Moskvu: það skiptir minnstu máli hvað veldur, borgin brennur áður en vorar. Þá er kannske fínt að koma því frá, taka því sem víti til varnaðar (fyrir þá sem muna svoleiðis) og snúa sér að öðru.

Hei vinnudagurinn er úti. Hjóla heim Björn.

-b.

01 september 2008

Halló vinnuheimur

Mikið hef ég verið latur við þetta undanfarið. Þó hef ég verið í sumarfríi, og hefði faktískt getað blaðrað og blaðrað í netið endalaust og botnlaust og aldrei þurft að líta uppúr tölvunni nema til að sofa og drekka kaffi. Er þetta þá ástæðan fyrir því að fólk hættir að blóka og vefsíður þorna upp? Að manneskjurnar hafi ekki lengur nóg að gera og hætta að slæpast?

Ég meina, ég hef alveg hangið í tölvunni í þessu sumarfríi, ég hef bara verið að gera eitthvað annað. Glápti á Studio 60 aftur og nei, þótt það hafi verið ljósir punktar hér og þar þá voru þættirnir sem slíkir aldrei góðir. Generation Kill náði aldrei neinu hámarki en kannske var það heldur ekki meiningin. Svo spilaði ég smá Civ IV. Hlakka til að prófa Beyond the Sword viðbótina.

Ég fór ekki á Súganda. Hugmyndin hafði verið að fara til að vera einn útaf fyrir mig, og mér leist ekki á blikuna þegar ég komst að því að hann Bjössi yrði þarna á sama tíma. Mér er allsekkert illa við hann, þvert á móti, en ég fór að hugsa útí það sem myndi sitja á hakanum á meðan ég væri í burtu og hvað ég gæti gert hérna heima. Og ég ákvað að fara ekki fet. Svo hringdi hún Mamma í mig morguninn eftir og sagði að karlinn hefði líka hætt við. Jæja.

En ég setti fötin mín í þvott og braut saman í rólegheitunum, eldaði kjúkling, kíkti austur og hitti fólk, kíkti til Keflavíkur og sá nýju íbúðina hans Óskars bróður. Sem hann keypti af pabba sínum, sem hann hafði áður keypt af Sigga bróður. Við borðuðum bakkelsi og ég drakk mjólk á meðan Óskar raðaði í ísskápinn. Hann er farinn að vinna á KFC í Keflavík, býr með konunni og tveimur pínulitlum hundum, borgar minna af tveggja herbergja íbúð en ég geri í leigu af 1/3 af fjögurra herbergja íbúð, en hann er jú í Keflavík.

Reykjanesbrautin er reyndar nokkuð góð. Það breytir ótrúlega miklu að geta tekið framúr sleðunum án þess að bíða og kíkja í korter á undan.

Annað sem gaman er að taka fram fyrir Björn framtíðarinnar: Núna áðan gekk ég endanlega frá skattaveseninu (góða veröld gefi að það standist). Í þetta sinnið strandaði það á verktakagreiðslu frá bókasafninu, en ég borga bara þann gaur og fæ síðan endurgreitt það sem ég hef þegar greitt umfram rétta upphæð. Þá ætti ég að vera í nokkuð góðum málum um næstu mánaðarmót.

Skólinn byrjar núna rétt bráðum. Ég þarf að hætta í kúrsinum sem ég er skráður í og fá einhvern til að hafa umsjón með rannsóknarverkefninu mínu.

Ég byrjaði aftur að vinna í dag og á sama tíma kemur nýr gaur í staðinn fyrir hann Ólaf, sem er fluttur á Reyðarfjörð. Nú kem ég bara til með að vinna eina kvöldvakt á viku og fjórðu hverja helgi. Hvílíkt næn tú fæv.

Ég ætla að byrja í ræktinni aftur. Reyna að endast aðeins lengur í þetta skiptið?

Ég setti nokkrar myndir inná flickr, eina tvær úr innflutningspartíinu (hei takk fyrir komuna þið sem mættuð), nokkrar úr keilu og eitthvað. Hér er ein:þarsem ég fagna eftir fellu.

En ég ætla að kíkja út í hádegismat núna.

-b.