Firefox 2.0 kom út í dag. Opinberlega. Engar svaka breytingar í gangi, allavega af því sem ég hef séð. Helvítið rembist núna við að benda mér á stafsetningarvillur í textanum mínum, en það er eitthvað sem lagast við næstu ræsingu. Ég virðist ekki geta fjarlægt litla x-ið af virka flipanum, en náði þeim af þeim óvirku. Ef ég fjarlægi GO-hnappinn hverfur veffangs-glugginn með, sem fer dálítið í taugarnar á mér.. það fyrsta sem ég geri þegar ég hleð inn svona forritum er að fjarlægja óþarfa takka og drasl. Google-leitarglugginn hypjaði sig hinsvegar.
Og slatti af viðbótunum sem ég hafði komið mér upp virka ekki lengur.
Ég hef annars verið að nota eldrefinn góða í tvö ár og fjóra mánuði, rétt tæplega. Um daginn datt mér í hug að reyna Operu, en hún vildi ekki hlýða skrun-takkanum mínum svo ég henti henni aftur útí kuldann. Eldrefurinn átti reyndar við sama vandamál að stríða til að byrja með, en ein pínulítil viðbót reddaði því; færði skrunið yfir á hægri músarhnappinn. Núna þarf þess ekki lengur.. ég man ekki hvenær hann fór að hlýða þessum sértilgerða takka. Skiptir ekki máli.
Klukkan er að slá þrjú og ég hef gert ansi lítið í dag. Það var rigning á tímabili og ég keypti mér núðlur, en það var flóknara en það kann að hljóma. Eða kannske ekki. Ég fer að hugsa um fólk sem er heima á Íslandi og ég veit að það er ekki fólkið sem ég ætti að vera að hugsa um. En þessvegna heldur maður einmitt áfram að hugsa. Hugs hugs hugs.
(Stafsetningarvillu-undirstrikarinn er enn í gangi og eitt af því fáa sem hann lætur í friði er þessi síðasta lína. Ef ekki væri fyrir það hefði ég vísast ekki velt því fyrir mér hvað hún þýðir á ensku. Og þó er ég mjög hlynntur faðmlögum - svo lengi sem þau eru ekki kristin.)
Einusinni þekkti ég gaur sem hét Kristinn. Ég hugsaði oft um það hvað nafnið hans var skrýtið. Alveg satt. Annað alveg satt: ég var einusinni of seinn í vinnuna því ég stóð á rólóvellinum heima og horfði á norðurljós. Tengingin á milli þessara staðreynda er of einföld til að ég gefi henni orðið.
Hvert var ég kominn? HBO ætlar að framleiða 12 þætti af John From Cincinnati, sem er nýja hugarfóstrið hans David Milch. Einhverstaðar sá ég því lýst sem 'surfer noir'. Hann vonast til að geta byrjað tökur á fyrri Deadwood sjónvarpsmyndinni í sumar, en það kemur mér dálítið á óvart að hann skuli ekki hafa alla leikarana sólid ennþá.
Ég er að horfa á The West Wing, kominn inní aðra þáttaröð og fíla það bara betur og betur.
Í gær tók ég lestina heim frá Holte nokkuð seint og lenti ekki á Nörreport fyrren metróið var hætt að ganga. Tók þá í fyrsta skipti regional-lestina (minnir mig að hún heiti) sem gengur held ég frá Österport og niðrá flugvöll. Stundum heldur hún áfram til Malmö, en ekki í þetta skiptið. Þegar ég settist niður fattaði ég að ég mundi ekki kennitöluna mína. Þurfti ekkert á henni að halda, en maður hugsar þúveist. Var það 3597? Endar ekki á 9 minnir mig. Ég skrifaði það hérna niður (eða kannske á vitleysingum) en ég hef það ekki í hausnum lengur.
Jæja.
Sú gamla virkar ennþá fínt.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli