13 september 2013

Planið fyrir státinn

Planið er semsagt þetta.

Ég er með malað korn og allar græjur hérna inni í geymslu. Næst á dagskrá í bjórgerðinni er að leggja í stát. Ég hef gert það tvisvar áður (plús einusinni þegar ég gerði sterkan kaffi/súkkulaðistát sem er sennilega svona þriðji versti bjór sem ég hef gert) og mér þykir gott að eiga stát til reiðu. Í fyrsta skiptið gerði ég uppskrift beint eins og hún kom fyrir í Brewing Classic Styles, fyrir þurran (írskan) stát. Í annað skiptið skipti ég virtinum í tvennt og gerjaði með tveimur mismunandi gerjum, það var mjög fróðlegt.

Sér í lagi vegna þess að þegar það kom í ljós að "hitt" gerið var betra en það sem ég hafði notað áður, þá var ég löngu búinn að henda því. Hefði getað geymt eina krukku og notað áður, en það gengur svona.

Í þetta skipti er ég að hugsa um að skipta á milli tveggja gerja aftur: Að nota hefðbundna gerið, Irish Ale, og svo annað breskt ölger, afbrigði sem er til sölu í takmarkaðan tíma eitthvað eitthvað.

Enn fremur bætti ég við uppskriftina heilum 60gr af sýrumalti, sem ætti að gefa öörlítið súran keim.

Og svo eru það byggflögurnar. --

Ég tók þátt í bjórgerðarkeppninni sem haldin var í vor. Bjórarnir mínir fengu fínar einkunnir, ég bjóst satt best að segja ekki við mjög miklu. Státinn var orðinn pínu gamall og IPA-inn kom einfaldlega ekki nógu vel út hjá mér. En ein athugasemd kom upp oftar en einu sinni hjá dómurunum sem smökkuðu státinn, og hún var sú að bjórinn væri vatnskenndur. Það gæti verið að hann hafi bara verið borinn fram of kaldur -- og þar með nánast flatur, en það er lítil kolsýra í honum til að byrja með. En ég fór að hugsa hvort þetta væri samt eitthvað sem ég gæti fiffað.

Byggflögurnar sem ég hef notað eru þær einu sem ég hef fundið hér til sölu. Nema að þær eru ekki eins og þær sem talað er um í uppskriftinni sem ég fór eftir, eða í neinni af þessum bandarísku uppskriftum. Þar eru byggflögunum lýst svo að þær séu flattar út með glóandi heitum völsum, svo að sykrurnar í korninu hlaupi eða gelist (?). Byggflögurnar sem ég hef notað eru hins vegar kaldvalsaðar, og ætti því frekar að tala um grófmalað bygg.

Það hefur einhver umræða skapast um þetta á Fágunarspjallinu, og flestir á því að láta bara vaða. En enginn hefur sagst hafa gert nokkurn samanburð, og ég leyfi mér að efast um að nokkur hafi nennt því. Það er að segja samanburð á því annarsvegar að meskja flögurnar einsog þær koma fyrir, og hinsvegar að elda flögurnar fyrir meskjunina. Þannig að ég ætla að prófa það.

Þetta er örlítið meira vesen en normal mesking en mér sýnist þetta gæti bara verið gaman. Það helsta er að ég veit hreinlega ekki hvort þetta skiptir nokkru máli. Flögurnar eiga að bæta áferðina á bjórnum, en hvað er það í flögunum sem á að sjá til þess? Eru það prótínin, sykrurnar eða vatnsleysanlegu trefjarnar? Ef það eru trefjarnar þá á þetta sennilega ekki eftir að breyta nokkrum hlut. Ef það er eitthvað annað, þá kannske.

Skemmir varla fyrir samt.

Og ég á enn þrjár, fjórar flöskur af fyrri uppskriftinni til að bera saman við.

Þannig að ég þarf bara að ná mér af þessari flensu og þá er þetta gó.

... Og ég fatta það núna að ég hef ekkert hugsað bjórgerðina umfram þennan stát. Hvað gerist næst?

-b.

Hleð myndum

Ég hef á tilfinningunni að án mynda séu orðin ekki sjáanleg lengur. Að lesa efnisgrein einsog þessa er svipað og að setjast til borðs með hníf en engan gaffal. Hér er myndatextinn, já, ég sé hvar hann byrjar og endar, og ég renni yfir hann þegar ég hef skoðað myndina, en hvar er myndin? Það er eitthvað að þessari síðu, eða tengillinn á myndina ónýtur. Imgurl liggur niðri.

Hvað á ég nú að lesa?

Ég ætlaði bara að skima yfir eitthvað meðan Ási sækir gaffla upp til sín.

Spyr hann hvort netið sé ekki í lagi þegar hann kemur.

Og svo framvegis.

Ég fór að hugsa um þetta því mig langaði að skrifa niður eitthvað um fyrirhugaða bjórlögun. Eðli málsins samkvæmt get ég ekki birt myndir af einhverju sem hefur enn ekki gerst, og skrifin eru því tví-ómerkileg: Fyrst vegna þess að þau lýsa einhverju sem hefur ekki gerst og á sennilega ekki eftir að gerast einsog því er lýst, og svo vegna þess að það fylgja engar myndir.

Aftur á móti skýrist myndaleysið af því að umfjöllunarefnið er óorðið.

Ja, ég ætti ekki að ofmetnast; ég hefði sennilega gleymt að taka myndir hvort eð er.

...

Að hugsa sér að ég skuli bölva The Glass Bead Game fyrir að vera eintómt forspjall og koma sér aldrei að efninu, eða snúa sér aldrei að neinu sem skiptir máli. Aftur á móti hef ég ekki fengið Nóbelsverðlaun fyrir ras mitt. Ennþá.

En málið er semsagt þetta. Ahemm. Ég ætla bara að byrja upp á nýtt.

-b.

12 september 2013

Það sem ég ræddi

Ég sit heima með flensu.

Það gæti verið að ég hafi ýtt sjálfum mér útúr eigin höfði. Það gæti líka verið að þetta hafi gerst fyrir löngu síðan, og að það sem hefur hringlað þar inni uppá síðkastið sé minningin um röddina einsog hún hljómaði þar áður. Bergmálandi meðfram taugaboðum sem hugsa eitthvað allt annað.

Mér dettur í hug að skrifa nokkur orð. Ég gerði það síðast fyrir helgina sem leið; mér var sett það verkefni að skrifa og flytja ræðu en mér datt ekkert í hug. Það eina sem sá til þess að ég gerði það sem ég hafði sagst ætla að gera var skilafresturinn. („Banalínan“ segir mjólkurfernan, notar það nokkur? Mér finnst það ekki alslæmt.)

Það er sena í West Wing þar sem forsetinn þarf að flytja skálarræðu við afmælisveislu konu sinnar. Veislan er hafin og hann bregður sér út til að flytja ræðuna fyrir aðstoðarmann sinn. Ræðan er að uppistöðu saga af þeim hjónum, eða brandari öllu heldur, sem hljóðar svo: Þau er á ferðalagi; festa bílinn í skurði; forsetinn (þá fylkisstjóri) getur ekki losað hann; lókal gaur kemur til bjargar; forsetinn (þá fylkisstjóri) spyr konuna sína hvort hún hefði frekar viljað giftast lókal gaurnum; konan segir „pah, hefði ég gifst honum væri hann fylkisstjóri.“

Aðstoðarmaðurinn hefur heyrt söguna áður, forsetinn spyr hann einfaldlega hvort hann ætti ekki að segja „söguna af skurðinum“. Aðstoðarmaðurinn segir að það sé fín saga, en hún fjalli samt aðallega um hvað forsetinn sé sniðugur. Forsetinn jánkar því.

Í skálarræðunni segir hann söguna samt sem áður.

Hver er þá tilgangurinn með því að spyrja aðstoðarmanninn álits? Mögulega sá að þegar við heyrum forsetann segja söguna, seinna í þættinum, hafi þessi gagnrýni þegar komið fram og broddurinn þannig brotinn af henni. Og sá að jafnvel þó maður heyri gagnrýni og sé sammála henni þá sé stundum einfaldlega komið að banalínu (!) og maður verði að láta vaða.

Þetta kann líka að vera einhverskonar viðurkenning á því að athygli þeirra, sem yfirleitt hafa sig út í það semja svona ræður og flytja, sé gjarnan bundin þeirra eigin tilveru og að stundum verði bara að hafa það.

Einhverstaðar segir að mikilmenni ræði hugmyndir, meðalmenn ræði atburði og að smáborgarar ræði fólk. Neðar þeim öllum standa þeir sem semja svona bon mot.

Í öllu falli skáldaði ég sögu og sagði hana upphátt. Það var alveg gaman, mér fannst samt lélegt af mér að hafa ekki getað skrifað eitthvað raunverulegt.