31 ágúst 2006

Já maður, símanúmer

Takk fyrir Atli. Ég vissi ég gæti treyst á þig.

En já ég er kominn með danskt símanúmer. Það fyrsta sem ég gerði eftir að ég slökkti á tölvunni í gær og rölti útaf bókasafninu var að banka uppá hjá Sonofon og kaupa startpakka.
Sem var eins gott því þar á eftir fór ég í IKEA, keypti rúmdjöful og setti í heimsendingu, en þegar gaurinn lenti á götunni minni fann hann ekki húsið, og gat þá hringt í númerið sem ég skráði á heimsendingarseðilinn. Allt eftir prótókóli sko.

En númerið er semsagt:

(00 45) 25 61 19 90

Og nú er ég kominn með rúm. Hversu glaður er vor Björn.

-b.

30 ágúst 2006

I Denmark (400)

Meira vesenið.

Nú er ég búinn að vera hérna í tæpa viku, og eftir smá stund er ég loksins að komast á netið. Ef allt gengur upp.. ef allt gengur ekki upp þá býst ég við að það verði meir bið á þessu, og enginn les þessi orð fyrren seint og síðarmeir. Ég finn að fingurnir eru komnir úr æfingu, fjandinn hafi það. Vélrita einsog í ryðguðum danssporum, hreyfingarnar of meðvitaðar til að leyfa frelsi annars huga.

Lenti á föstudag. Ása tók á móti mér, leigari heim til hennar og svo tók ég lestina (aleinn, sko mig) frá henni til Lyngby, með einni skiptingu í Hellerup. Tvær ferðatöskur, bakpoki og plastpoki. Mér reiknast til að þetta hafi verið tæp 50 kíló, án gríns. Ég pakkaði þeirri stærri niður þannig að hún rétt slefaði yfir 20 kíló (hún skyldi á bandið á flugvellinum), en sú minni var alveg jafn þung. Ég myndi taka hana í handfarangur og vona að hún yrði ekki vigtuð, sem gekk eftir. Bakpokinn hélt í sér tölvunni og allskonar drasli sem ég treysti töskunum ekki fyrir, og seig í.

Allavega.

Þetta er það sem ég var að bera með mér í gegnum lestirnar. Og útúr lestarstöðinni, þarsem ég fattaði að ég vissi ekki hvert ég átti að fara. Ég mundi að íbúðin var einhverstaðar fyrir norðan lestarstöðina, á vegi sem héti Rævehojvej, en sá hann ekki á neinum kortum. Gekk að einhverju sem virtist vera miðbær fyrir plássið og hringdi í Ými. Hann hafði gerst svo hjálplegur að búa til kort handa mér, hvaða strætó ég ætti að taka frá Norrebro og hvenær ég ætti að stoppa - sá færi beint á staðinn. En ég tók lestina en ekki strætóinn, og var þess utan ekki með kortið - gleymdi því í prentaranum heima á Heiðarveginum.

Ýmir benti mér á strætóstopp sem var í nokkurra metra fjarlægð. 300s hét sá. Draslaði draslinu uppí hann, sat, draslaði því út aftur og bar það síðan yfir brú niður þennan Rævehojvej (sem virtist nær endalaus þegar þangað var komið). Þegar ég loksins fann herbergið var ég búinn að skemma handfangið á stóru töskunni hennar mömmu. Settist niður og sofnaði.

Þegar ég vaknaði daginn eftir fannst mér einsog ég væri þunnur, en það var bara vegna þess að ég hafði ekkert drukkið síðan í flugvélinni. E-coli sýkingin í vatnsbólinu sem þetta kollegí notar hélt mér frá því að svolgra kranavatnið, svo ég þurfti að gjöra svo vel og rölta eitthvað að kaupa mér vatn.

Laugardagur og sunnudagur voru ekki merkilegir. Ég skoðaði mig um.

Á mánudeginum tók ég lestirnar niður til Orestad, bankaði uppá í skrifstofunni og fékk lyklana með furðu litlu veseni. Ég hafði samt ekki tekið töskurnar með mér, því ef eitthvað hefði komið upp, þá hefði ég þurft að taka þær með mér tilbaka. Flutti loksins inn í gær, en var ekki kominn með rúm í staðinn ennþá svo ég svaf á fötunum mínum. Vaknaði í hvert skipti sem ég bylti mér, en maður hefur vissulega þolað það verra. Og ég ætlaði sko ekki að fara aftur til Lyngby, sama hversu lítið drasl ég kæmist upp með í þetta skiptið..

Íbúðin er galtóm. Það eru tvö önnur nöfn á hurðinni (þriðja er á leiðinni, býst ég við) en enginn fluttur inn ennþá. Þetta er líka dálítið einsog Stóri Garður þegar fólk byrjaði að flytja þar inn, allstaðar verið að byggja í kring og ekki allt klárt í húsinu sjálfu. Það liggja svalir utanum hverja hæð fyrir sig. Gaurinn útskýrði fyrir mér (á dönsku) að þetta væru jú mínar svalir, en ég mætti samt ekki henda neinum stórum hlutum þar út, því þetta væri líka brunastiginn.

Herbergið mitt á víst að vera 12 ferimetrar, en þetta er ekkert beisikk 3x4 neitt. Það lítur svona út:



Ég nenni ekki að teikna restina af íbúðinni.

Og ég nenni eiginlega ekki að röfla mikið meira í bili, þetta net-drasl hlýtur að vera dottið inn núna.. tékkum.

-b.

24 ágúst 2006

Tókst!

Jæja, búinn að pakka. Fékk þessa risa ferðatösku maður, tróð í hana öllu sem ég ætlaði að taka með, svona fyrir utan tölvuna og eitthvað smotterí. Ekkert mál, þetta small sem glófi um lófa. Vigtaði kvikindið og það voru um þrjátíu kíló. Mér skilst það séu tíu kílóum meira en leyfilegt er hjá icelandexpress.

Hnikaði aðeins til, færði þetta þyngsta í litla hjólatösku sem ég tek í handfarangur og sjá! Allt innan marka.

Creative compliance vil ég kalla það.

Annars ætla ég að henda tölvunni niður í bakpoka og vera reddí. Borða, reykjavík og þá út. Hér kem ég.

-b.

Að fara

Ég á ennþá eftir að pakka.

Það er eitthvað vesen að redda ferðatösku handa mér, eitthvað sem mér datt ekki í hug að yrði neitt vandamál.. Allt draslið er hérna, það þarf bara að koma því niður einhvernvegin.

Ég flýg klukkan hálfátta. Lendi hálfeitt. Búinn að vera að skoða þetta á gúgúlmaps og hérna er íbúðarkomplexið mitt. Ég kem til með að gista í Lyngby fyrstu helgina, í íbúð sem skólafélagi hans Ýmis leigir þarna úti. Hvað maður gerir svo þegar út er komið.. það er annar handleggur.

Jæja taski task.

-b.

22 ágúst 2006

Örvænting!

Þetta gætu verið tvær bestu hugmyndir sem ég hef lesið í dag.

Here's an amusing game for all you coal-hearted misanthropes out there. Next time you find yourself lurking in the corner at a party, watching the disgusting fun unfold around you, start saying the word "despair" out loud. Begin the incantation at conversational level, then increase the volume incrementally until someone asks you to leave. I guarantee you'll be bellowing at the top of your lungs before anyone even notices. If you're lucky, someone else'll join in, and then you've made a new friend. I know; I've tried it myself.

[...]

The only solution, as I see it, is to swap the fun/no fun balance in everyday life. I'd prefer it if the entire year consisted of one long party, punctuated by bursts of compulsory stony-faced toil, preferably doled out in the most fascistic manner possible: two hours of serious work a week, overseen by jack-booted stormtroopers who'll thrash you into a coma if you so much as chuckle before the all-clear sounds. Global efficiency levels would sky-rocket. Better still, our quality of life would improve dramatically. And that'd give everyone real cause to celebrate. Not party. Celebrate.


-b.

Myndasaga

20mb, HI-net.

21 ágúst 2006

Alveg satt

Ég var einusinni í vetur að leysa einhvern af í Háholtinu, sem er bensínstöð í Mosfellsbæ. Var að fikta við einhvern fjandann og hallaði mér yfir afgreiðsluborðið, tölvan pípti og upp komu þessi skilaboð:
Strikanúmer ekki á skrá:
0066686000062


Þarsem engin önnur hreyfing var í gangi fyrir framan skannann hlýtur hún að hafa átt við mig.. þósvo ég hafi aldrei fengið þessi skilaboð aftur, sama hversu oft ég hef farið fyrir geislann.

Ég hripaði númerið niður á reikningsblað, stakk því í vasann og tók á móti næsta kúnna. Fann blaðið áðan og mundi eftir þessu.

Blaðið sjálft er númerað 0308062.

-b.

Hann Davíð, þið vitið

Úr gamalli stílabók:

Á íslensku má alltaf finna svar
þá inntur ert'að hví og hver og hvar,
því dafna ennþá djöfuls hálf-lygar
og Davíð fær sér meiri kavíar.


Rakst á þessa bók þegar ég setti í kassa um daginn. Las í gegnum hana núna áðan. Hún er keypt tíu dögum áður en ég fer út í heimsókn til Halls í Quimper árið 2004. Ég man sosum nógu vel eftir ferðinni, en ekki endilega hvernig ég upplifði hana á þeim tíma.. svo það er gaman að líta yfir þetta.

Rímar skemmtilega við það sem er í gangi núna því það eru þrír dagar rúmir í brottför og ég veit ekki alveg hvernig mér líður. Það saxast á listann sem merktur er ,,það sem ég þarf að gera áður en ég fer út" og ég vona að ég sé ekki að gleyma neinu.. núna á eftir ætla ég að pakka niður því sem ég get, sækja og skila því sem ég á eftir að sækja og skila, og þá fer þetta að verða komið.

Til þess að fá lyklana að íbúðinni þarf ég að hringja í umsjónarmann íbúðanna í þessari tilteknu byggingu a.m.k. þremur dögum áður en ég ætla að flytja inn, og arrangera fund. Ég verð að hafa með mér undirritaðan samning og kvittun fyrir innlegginu. Ég hef enga kvittun fyrir innlegginu, en vonandi duga ljósritin af tékkanum.. danske bank sendir víst enga pappíra hingað vestur fyrir svona löguðu.

Ég hringdi í morgun og það var á tali. Það var á tali næstu tuttugu mínúturnar og þá var símatíma hjá téðum umsjónarmanni lokið. Á morgun er semsagt síðasti séns ef ég ætla að hitta hann á föstudaginn, eftir að ég lendi.

Það væri gott að hafa eitthvað bakköpp.. en vonandi gengur þetta bara. Það fara tugir íslenskra námsmanna útí lönd á hverju ári, og einhvernvegin virðist þetta ganga upp. Afhverju ætti það ekki að vera fyrir mig líka?

-b.

Alltaf á mánudögum

Hvað ef ég segði þér að ég væri búinn að setja ellefta þátt í þriðju seríu af Entourage á netið? Er það eitthvað sem þú hefðir áhuga á?

[Viðbætt:] Jú og svo hef ég hérna Deadwood, ellefta í þriðju líka..

-b

Gun Porn



ps. SAW stendur fyrir Semi-Automatic Weapon.. bara svona ef þið voruð að spá.

-b.

17 ágúst 2006

Pláss og svona

Í gær fór ég hingað og pantaði mér box undir harða diskinn sem ég skrúfaði úr gamla lappanum, áður en hann fór í kassa og uppá háaloft. Hér er diskurinn:



Renndi síðan og sótti gaurinn í dag. Það var í herbergi á annarri hæð í húsi á landamærum Reykjavíkur og Kópavogs. Gaukurinn var í símanum þegar ég kom þangað, eitt skrifborð, lappi, prentari, posi og heftari og tölvudrasl útum allt. Mér fannst það soldið hjákátlegt, og á þess utan frekar slæma reynslu af svona tölvuþjónustugaurum sem reka skrifstofu útúr einu herbergi á annarri hæð.. en hann var mjög almennilegur. Sagði að þetta myndi örugglega allt passa, ég ætti ekki að lenda í neinum vandræðum en ef það kæmi eitthvað uppá þá skyldi ég bara hafa samband.

Ég fór með draslið heim og tók til við að púsla þessu saman. Það ætlaði sko ekki að ganga upp. Ég sneri þessu á allar hliðar og mátaði hingað og þangað en það virtist aldrei smella. Þá datt mér í hug að skrúfa þetta drasl af karlinum:



Og þá rann þetta saman einsog bjór og salsa. Alltíeinu er ég með 30 gígabæt af aukaplássi.. ekkert svakalegt, en það hjálpar. Það er líka bara eitthvað við það að nýta þetta sem maður á til finnst mér. Annars hefði þetta farið í ruslið með tölvunni. En þessi diskur er einmitt það nýjasta við hana, blessunina. Fjárfesti í honum þegar tölvan var þriggja ára, og fimmfaldaði þarmeð geymsluplássið. Upprunalegi diskurinn var 6 gig. Sem væri fyndið ef það væri ekki svona satt.

..eða er það fyndnara því það er svo satt?

Hér er allavega diskurinn einsog hann lítur út núna.



-b.

16 ágúst 2006

Í bið

,,Det er stadigt optaget. Du stár i kö som nummer.. [hægt lækkandi númer]. Vent venligt."

Núna er það komið niðrí ,,et". Ég er númer eitt. Kominn tími til.. ég er búinn að vera að bíða í röð í.. ja ég veit ekki hversu lengi, ég sé það ekki á skjánum lengur því þar er tilkynning um sms - þessi sem maður fær þegar maður er nýbúinn að fylla á frelsið, en ég þorði ekki annað en að fara á glitni punkt is og kaupa þúsundkall eftir að ég hafði beðið í röð ansi lengi.

En þetta er kominn dálítill tími. Og mig grunar að það hafi fleiri fallið frá en fengið samband. Ég hljóp á heilum tölum. Næstum því.. Tíu tíu níu átta átta átta átta átta átta sex sex sex fjórir tveir tveir tveir tveir tveir tveir tveir...

Hei ég er kominn í samband. Nú veit hún hvaða íbúð ég á að leigja og ég hef verið settur í bið aftur. Jei.

Og ég er þannig séð orðinn seinn niðrá Ægisíðu. Tók tóbaksk

---

Þarna þurfti ég að rjúka út. Nú er ég kominn heim. Vaktstjórinn á morgunvaktinni hringdi og vildi í fyrsta lagi fá tóbakslykilinn og í annan stað afleysingarmann. Var eitthvað veik í mallanum. Svo ég hljóp til. Fínt mál.. þá þurfti ég ekki að hanga þarna til miðnættis.

Kom við í bankanum og fékk að vita að ávísunin sem ég sendi leiguliðunum þarna úti hefur verið leyst út. Þannig að greiðslan er amk. komin í þeirra hendur. Þá er að vona að það gangi betur að fá svör frá þessum kónum.

Þegar ég var aftur tekinn í tólið (þarna þarsem ég hætti áðan) margendurtók ég hvaða íbúð ég væri að tala um, en hún fann engan samning merktan mér. Sagði mér að hringja eitthvað annað. Ég fékk það númer, en þurfti að drífa mig í bensínið.

En þetta er allavega að silast inn. Vona ég. Klára þetta á morgun með leyfi veraldar og vænnar lukku.

-b.

ps. Þegar ég loksins skellti á Danmörku hafði símtalið staðið yfir í þrjátíu mínútur og nokkrar sekúndur. Good times.

Þátturinn sjálfur

Gleymi síðan að henda aðaldæminu á netið.. Hér er þá Deadwood, tíundi þáttur þriðju seríu.

-b.

15 ágúst 2006

Neysla

Ég er ennþá að gera það upp við mig hvað mér fannst um Powers: Forever. Góð bók í sjálfri sér, en var þetta nauðsynlegt fyrir söguna í heild? Mér fannst þetta einhvernvegin ekki flútta.. en bíðum og sjáum.

Besta myndasagan sem ég hef lesið á undanförnum vikum hlýtur samt að vera Why Are You Doing This? eftir Jason. Það er svo rólegt yfir henni og stíllinn svo skýr og líðandi að maður veit ekki fyrren sagan rífur mann í sig á síðustu metrunum. Stutt en alveg svakalega sterk saga.

Ég sá The Kid Stays in the Picture í gær. Hún var nú ekki beint það sem maður myndi búast við af Patton Oswalt að dæma, en hann var að vísu að tala um bókina.. það má vera að versta stöffið hafi verið sniðið af fyrir bíóið. Gaman af henni samt.. meira en mig hefði grunað, þarsem þetta er í sjálfu sér bara aldinn fauskur að láta gamminn geysa yfir gömlum ljósmyndum.

Talandi um gamlan fausk: Góður Entourage þáttur. Það er samt einsog það vanti eitthvað, ef maður ber þessa þáttaröð saman við þá sem kom á undan.. það var stærri saga í gangi, fannst mér.

Samurai Executioner [Ekki Assassin! Sjís. Lagað daginn eftir] kom mér líka á óvart. Fljótt á litið sýndist mér hann vera að endurtaka Lone Wolf and Cub, og ég held það sé vel skiljanlegt: aðalpersónan er sláandi lík Ogami Itto. En þarna er allt öðruvísi saga á ferðinni. Fyrsta bókin er a.m.k. bara að skoða japanska réttarkerfið á þessum tíma.. vísar til þekktra sakamála og fer útí athyglisverð smáatriði varðandi prótókóla innan kerfisins. Einskonar procedural með svona ofur-samúræja tvisti.

Las líka Orbiter og Switchblade Honey eftir Ellis í dag. Og ég þreytist víst seint á að segja það, en það skásta við megnið af sögunum hans Ellis eru inngangarnir hans. Miðað við það hversu mikið hann blaðrar um strúktúr og þessháttar í aragrúa af póstlistasendingum og blókfærslum, þá er merkilega lítið af viti að gerast í bókunum hans. Hann átti góða lotu í Transmetropolitan og það er helvíti gaman af NextWave, en ég hef fengið það á tilfinninguna að í öllum tilfellum hafi nöfnin komið fyrst, og síðan sagan í kringum þau. Sem gæti alveg virkað.. en gerir það ekki alltaf.

Það gerir manni hinsvegar ljóst að hann er allavega góður nafnahöfundur. Og það skemmtilegasta við Switchblade Honey voru einmitt nöfnin á geimskipunum. Fyrir utan skipið sem sagan dregur nafn sitt af, auðvitað. Eða öfugt.

Er líka búinn með slatta af Mike Carey-lotunni af Hellblazer. Hann er sko með sína mýtólógíu á hreinu, og þetta yfirnáttúrulega er algerlega hans tebolli (enda er hann vel settur í Lucifer). Hann skrifar meira að segja djöfull svalan Constantine.. en fjandinn, Azzarello var einhvernveginn meira spennandi.

Ég man ég las einhverstaðar í viðtali við Eddie Campbell að hann hefði verið fenginn til að skrifa fjögur fimm blöð af Hellblazer, og að þeir hjá Vertigo hefðu verið lítt hrifnir af því sem hann gaf frá sér vegna þess að það vantaði svona og svona mikið meiri mannvonsku í söguna. Ég fæ þessa tilfinningu í samanburði á Carey og Azzarello. Constantine sjálfur var ekki endilega mikið meiri bastarður, en heimurinn í kringum hann var mun svæsnari.

Núna er ég að lesa JLA: Earth 2 aftur og síðan er það Black Hole.. Og ég veit að ég er að gleyma einhverju góðu dóti, en mig langaði að koma þessu niður áður en ég gref þetta undir öðru.

-b.

ps. Jú, The Warning með Hot Chip er að virka einmitt núna. Ipod fóður og partísnakk, hei-jó. (Beint í bakaríið.)

Deadwood dagsins

Þessi samantekt er ekki tiltæk. Smelltu hér til að skoða færsluna.

Bið

Entourage, tíundi þáttur þriðju seríu.

Deadwood ennþá á leiðinni. Get ekki beðið.

-b.

13 ágúst 2006

Gátan

Hann Helgi lagði þessa gátu fyrir mannskapinn yfir matnum í gær. Ég mundi eftir henni af vísindavefnum en fattaði ekki svarið þá, og tékkaði aldrei á lausninni þegar hún var birt. En viti menn, ég leysti gaurinn þarna á staðnum! Eftir dálítinn tíma reyndar.. en það kviknaði á perunni. Djöfull var ég góður með mig, sérstaklega eftir að hafa staðið ráðþrota yfir þessari hérna (og borið við eina lélega lélega afsökun):

5 + 5 + 5 = 550

Bætið við einu striki til að rétta dæmið.. hvar sem er nema ekki á samasemmerkið. Danni hafði þessa.. helvíti góður.

Á morgun ætla ég að reyna að flytja drasl austur. Það er planið. Góðanótt í bili.

-b.

12 ágúst 2006

Listi

yfir tuttugu og fimm hluti sem þú ættir ekki að gera fyrsta mánuðinn eftir að þú flytur inn til gaurs. Megnið af þessu er dálítið leim og dálítið fyndið, en númer sjö er nákvæmlega ekkert fyndið og lýsir væntanlega biturri reynslu höfundar:
7. Get drunk on your own and refuse to do anything other than sob inconsolably and fight off his attempts at consolation once he gets home.

Þetta er innan um reglur einsog 'ekki skilja eftir sokkabuxur á ofninum' og 'ekki bjóða mömmu í heimsókn'. Kreisí.

Í gær borðuðum við á Hereford steikhúsi og líkaði ekkert sérstaklega vel. Ég held að allir hafi verið sammála um að maturinn væri ekkert spes. Já og litlir skammtar (einsog Allen djókaði forðum). Gott og vel, maður er að borga fyrir ákveðið stóra steik, en má maður ekki búast við meiru en fingurbjörg af baunum og gulrótum þegar það stendur ,,steikt grænmeti" á matseðlinum?

Það kostar nánast ekki neitt en munar mikið um að veita vel af meðlæti þegar kjötið er óspennandi og diskurinn dýr. Það held ég nú.

Síðan fórum við hingað heim og drukkum. Síðan niðrá bar í sporið. Mjög gaman, held ég.. við hittum eitthvað fólk sem ég bið að heilsa.

Í morgun tók við mesta þynnka þessa heims. Hún lá á mér frameftir degi, fór að ókyrrast um fjögur, setti svo á sig fararsnið og rauk útum dyrnar um sexleytið. Nú hef ég engan að tala við. Sjónvarpið henti mér aftur um sjö ár með Get ekki varla beðið og núna situr Föðurlandsvinurinn á kassanum og fleygir títuprjónum í augun á mér. Gibson að gera það sem hann gerir best: Að hika og sjá á eftir hlutunum. Og svo hikar hann aðeins meira.

Hvernig er það, á að vera menningarnótt í gangi núna?

-b.

08 ágúst 2006

Besta besta

besta besta besta lokun á Deadwood þætti nokkurntíman.

Og með betri þáttum yfirhöfuð.

Vá.

07 ágúst 2006

Sjóngarp

Entourage, níundi þáttur þriðju seríu.. og Deadwood, níundi þáttur þriðju seríu.

-b.

Jesus Camp

The kids are around 9 or 10 years old, recruited from various churches, and are pliant willing receptacles. They are instructed that evolution is being forced upon us by evil Godless secular humanists, that abortion must be stopped at all costs, that we must form an “army” to defeat the Godless influences, that we must band together to insure that the right judges and politicians get into the courts and office and that global warming is a lie. (This last one is a puzzle — how did accepting the evidence for climate change and global warming become anti-Jesus? Did someone simply conflate all corporate agendas with Jesus and God and these folks accept that? Would Jesus drive an SUV? Is every conclusion responsible scientists make now suspect?)

Awareness of the rest of the world is curtailed — one can only view or read that which agrees with the agenda.

Naturally, the kids being so young, there is no questioning of any kind — they simply accept what grownups Fischer and the others say — they get pumped up, agitated, they memorize right wing and Jesus slogans and shout them back obediently. They become part of a support group — a warm, safe, comfortable feeling for anyone, for any social animal, for you and me. No one strays or gets out of line even the slightest bit. (More on peer pressure later.)

[...]

They want to turn the U.S. into the "Christian" version of Iran or Saudi Arabia. A theocracy. The separation between church and state, already shaky with Bush in charge, is under full frontal assault by this bunch — and they are well organized, too. The megachurches tell their parishioners who to vote for, what judges to support, letters to write, and where they should stand on the issues. Well, we all do this to some extent — even in casual chats with friends we attempt to deduce and arrive at a consensus of opinion; a sloppy democratic give-and-take on any number of subjects often gives way to agreement. But this is top-down messaging — no discussion allowed. There’s a scene in the Colorado Springs megachurch run by the Preacher who talks with Bush once a week — same deal as with the kids, only most of the attendees are pliant adults.


Já ég hefði vísast allteins getað kvótað allt heila dæmið.. en þetta er skuggalegt maður. Djís.

Það er frí í vinnunni á morgun. En það eru ekki allir eins heppnir. Tíu ellefu hérna niðri er t.a.m. opið, og mér skilst það sé opið þar alla daga nema jóladag. Vegna þess að stúdentarnir veslast að öllum líkindum upp ef þeir fá ekki kók og appelsínur á mánudegi, hvað sem hann kallast á dagatalinu..

Hallur hringdi og ætlar að kíkja í heimsókn á eftir. Er eitthvað á kenderíi niðrí bæ víst. Síðan kem ég til með að skutla ömmu og Hafliða niðrá BSÍ í nótt.. ég er víst að fá bíl til afnota í einhvern tíma. Gæti verið gaman.

-b.

05 ágúst 2006

01 ágúst 2006

Sannlega

If you have a cool moustache, the world is a totally different place!

Hjalti spyr hvort ég vilji skrifa nokkur orð um In the Shadow of No Towers. Já, er það ekki bara? Það er nú samt ár og dagur síðan ég las bókina.. Sé til.

Mamma var að koma með kassa. Ég ætla að fylla þá af drasli og troða inní bílinn og fara með það austur. Nnnnnúna!

-b.

..og ég setti teljara þarna í hornið.

Það er sko drasl að gerast í báðum þessum þáttum sem ég minntist á hérna áður í dag. Sjúkks.

Og ég held ég hafi slegið persónulegt aðsóknarmet. Fimmtán manns á einum degi? Með aðstoð myspace hef ég reyndar komist að raun um að ég þekki þó rúmlega tuttugu manns, en engu að síður þykja mér undarleg púsl koma til grafar.

Verst þykir mér hversu margir keyra á internetexplorer, en mér skilst að tengladálkurinn birtist þar á botni síðunnar, og ég hef ekki haft nennu til að laga það.
Só bí itt.

Og einhver valsar inn á Windows '98! Mér finnst það barasta nokkuð svalt. Svipað og að ganga á Snæfellsjökul klæddur í smokk og gömul þjóðlög.

Í gær kenndi Morrison mér að galdra og á morgun flyt ég drasl austur á Selfoss með hjálp græna jeppans. Helgina eftir verslunarmannahelgi (þ.e.a.s. þarnæstu helgi) langar mig að henda upp teiti fyrir alla þá sem ég skil eftir hérna á Íslandi. Ætli einhver mæti?

Best að auglýsa þetta á Vitlaranum á morgun. Ég veit samt ekki hversu mikið verður eftir af sætum og svoleiðis hérna heima þegar þangað dregur, þannig að það væri kannske ráð að finna annan völl.

Þótt mér sé það þvert um geð. Ég hef ekki gestgefið leiðinlegt partí í þessari íbúð, að mínu mati.

-b.