16 apríl 2014

Veðrið fyrir 100 árum. Úr Árbókum Reykjavíkur. #krap #stórrigningar #hörkunorðanveður #textagram


Wanderlust

Wanderlust er spil í Magic: The Gathering. Það er grænt enchant creature, kostar minnir mig eitt grænt, kannske eitt grænt plús eitt. Áhrifin eru þau að skepnan getur hvorki tekið þátt í árás né vörn.

Undarlegt. Þetta var ansi fjarri lagi hjá mér: Ég fletti spilinu upp og þetta er alls ekki það sem Wanderlust gerir.

Wanderlust er spil í Magic: The Gathering. Það er grænt enchant creature en það kostar eitt grænt plús tvö. Og áhrifin eru þau að skepnan heggur eitt líf af stjórnanda sínum í byrjun hverrar umferðar hans.

Þetta er talsvert frábrugðið því sem mig minnti. Er ég að rugla saman spilum eða er þetta það sem ég vildi að þetta ákveðna spil gerði? Mér varð hugsað til þessa spils nokkrum sinnum í Amsterdam og nágrenni. Myndin af grænklæddri mannverunni með hattinn sinn, bakpokann, rýting og göngustaf, að horfa yfir kjarrið og engin fyrir neðan hæðina, ána sem liðast niður dalinn. Í minningunni horfir hún til vinstri en á spilinu til hægri, en það sem skiptir máli er baksvipurinn. Ef hún veit af okkur yfir höfuð þá hefur hún ekki áhuga; hún áir undir tré, kastar mæðinni í smá stund en maður veit að hún leggur bráðum af stað niðureftir.

Á sama hátt sá ég sjálfan mig fyrir mér, í baksvip með húfuna mína, bakpokann og vasahnífinn. Reyndar ekki útí germanskri sveit enda hef ég ekkert þangað að sækja. Villileitin getur eins blossað upp „í siðmenningunni“, hún þéttist bara aðeins. Hugsaði ég.

Ég veit ekki hvort það var spilið sem kom fyrst upp í hugann eða orðið sjálft, wanderlust. Ég lærði það mikið í ensku af því að spila þetta blessaða spil að þau eru ansi mörg orðin sem eru beintengd einhverskonar tilfinningu eða verkan sem hönnuðir MTG skálduðu upp á milli kynsvalla. En nú er myndin sem ég hafði af spilinu ekki rétt. Öllu heldur: ég hef breytt henni til að passa við þá mynd sem ég hef af orðinu eða því sem orðið stendur fyrir að mínu viti.

Skv. MTG er villileitin skaðleg eigandanum eða hverjum þeim sem ber ábyrgð á þeim sem villist. Ekki mjög: mínus einn í hverri lotu er ekki svo hrikalegt. En stingurinn kemur af því að það er ekki andstæðingurinn, ekki skepnurnar hans, ekki einusinni sjálft spilið Wanderlust sem vinnur þetta síendurtekna mein, heldur er það skepnan þín sem særir þig. Og í MTG einsog víða annarstaðar hefur maður minni varnir gagnvart sínum eigin skepnum en annarra.

Í mínum huga var skepnan einfaldlega tekin úr umferð. Hún gat vel að merkja ennþá gert allt annað en að slást: manaálfarnir gætu útvegað mana, Soldier of Fortune gæti enn neytt e-n til að stokka o.s.frv. En þegar kæmi að þessum endalausa barningi sem árásirnar eru þá væri hún einfaldlega úr leik. Þótt það gæti jafnvel ollið eigandanum meira tjóni en að fá á sig mínus einn í hverri lotu, þá er skaðinn óbeinn og sök skepnunnar fyrirgefanleg.

Athyglisvert líka að ég vildi hafa kostnaðinn aðeins minni. Ekki þrjú mana heldur tvö eða jafnvel eitt. Ég hefði viljað koma þessu út fyrr í leiknum.-b.

Nýja vegabréfið var að skila sér. Ó, ef umslög gætu mælt..