29 september 2007

Our particles are in motion

Ég sit inná tölvuherbergi í Öskju, hlusta á Interpol. Ég hef ekki komist inní nýju plötuna þeirra. En hann syngur um fólk sem heldur á kertum. Eða kannske bara eina manneskju sem heldur á kerti.

Heyrðu ég var annars fenginn í vinnu. Ég mætti á semínar í Nýja garði í gær og hann Benedikt plataði mig til að aðstoða við málþing í dag og á morgun. Við erum tveir, ég og gaur úr listfræðinni. Málþingið ber yfirskriftina ,,Avant garde and violence." Fjórða árlega málþing áhugamanna um framúrstefnu á norðurlöndum, eitthvað svoleiðis. Þetta byrjar ágætlega. Ég mætti hingað klukkan níu í morgun, rétti bæklinga og nafnspjöld, hellti vatni í könnur. Núna er liðið í hádegismat, það kemur aftur um tvöleytið. Þá eigum við að útbúa kaffihlaðborð klukkan rúmlega fjögur, og svo er eitthvað svipað prógramm á morgun.

La tí da.

En já við fórum semsagt á semínar, við Ingi Björn. Þaðan litum við á opnun myndlistasýningar í galleríinu Lost Horse á Skólastræti. Frikki, Mundi og Skæler (það er ekki stafað svona en við látum þetta duga) voru að sýna samstarfstússportrettkollasj-myndir. Gaman að því. Svo sótti ég Davíð á Miklubraut og við kíktum með Sævari í partí til Bjartmars í Hátúninu. Bjartmar á heima hinumegin við hæðina. Rétt handan við ásinn, einsog þar stendur. Helvíti snotur íbúð. Ég drakk bjór en fór snemma heim.

Þegar ég var að leggja af stað hingað niðreftir hitti ég Víði, en hann var þá að koma sér í bælið.

Og núna er það Godspeed You Black Emperor.

Á síðustu opinberu vaktinni minni á stöðinni gerðist tvennt næstum því markvert. Í fyrsta lagi var ég í einnar krónu mínus á kassanum. Það er alltaf einhver mínus eða plús þarsem við rúnum kassann að næsta fimmhundruðkalli, en núna var salan 37.001króna og féð í pokanum 37.000krónur sléttar. Ég hef aldrei lent á sléttu, það gerist einusinni á öld, að ég held. Næstum því þarna samt.. hefði ég ekki farið eina krónu yfir á bensíni í eitthvað skiptið þá hefði ég lent á núllinu. Vá. Við hefðum sett upp hatta og dansað í kringum nammibarinn.

Í öðru lagi var ég að klára vaktina, búinn að gera upp og var að setja peningana og kassann inní öryggisskápinn, þegar ég set skúffuna ekki alveg nógu vel inná hillu svo öll skiptimyntin hellist niður á gólf. Þetta voru mistök sem ég hef aldrei gert áður. Svona geta mistökin blundað í manni í mörg ár.

Mikið var þetta óáhugavert. Og það er ennþá hálftími í að ég eigi að mæta í hurðina aftur. Kannske ég fái mér bara kríu.

-b.

25 september 2007

Maður til sýnis

Ég fór og sótti z-brautina í dag niðrí Z-brautir. Búðin heitir þetta semsagt. Hún er í sama húsi og Bónus í Skeifunni. Ég hjólaði þarna niðreftir fyrir helgi og lagði inn mál á glugganum og svona. Svo hringdu þau í morgun og sögðu mér að pikka þetta upp vinsamlegast. Ég gerði það bara á hjólinu. Og sannaðist þá hið fornkveðna að maður þarf ekki bíl til að flytja tveggja og hálfs meters plastplanka á milli staða.

Ég er hinsvegar ekki búinn að koma brautinni upp því til þess þarf ég að bora göt í vegginn og ég hef ekki svoleiðis græjur. Ekki akkúrat núna. En ég hlýt að geta reddað því.

Í Kaupmannahöfn var ég lengst af gluggatjaldalaus. Með öllu. Einn af fjórum veggjum í herberginu mínu, sá stærsti, var nakið gler. Ég sá allt og allt sá mig. Á efstu hæðum Fields behemotsins var fólk að vinna óræða skrifstofuvinnu og skimaði ekki yfir götuna til að sjá nakinn skiptinema staulast á fætur eftir fimmtudagskenderíið. Eða, ef einhver gerði það þá tók ég aldrei eftir því.

Reyndar gerðist það aldrei að fólk kæmi labbandi eftir svölunum akkúrat þegar ég var á adamsklæðum. Hvað kallar maður tilviljun þegar tilviljunin er sú að eitthvað gerist ekki?

Nóg um gardínur.

Svo fórum við Víðir til Bjarta og þaðan með Bjarta í gömlu íbúðina hans og við fengum þar örbylgjuofn. Sá heitir Jens. Nú getum við ölbað. Ég fékk líka náttborð. Og Ýmir kom og tók eitt Karkasonn svona rétt fyrir flugið.

Ég veit ekki afhverju z-brautir heita z-brautir. Ég veit hinsvegar hversvegna pund eru skammstöfuð lbs í enskunni. Það er stytting á orðinu ,,libra", sem er latína og þýðir ,,vigt". S-ið í endann er þá fleirtölu-s, ,,libras". Sem er á gráu svæði málfræðilega, en hver nennir sosum að deila við Englendingana?

-b.

24 september 2007

Hann er kindin Einar

Ég fékk vinnuna.

Djöfull er ég sáttur við það.

60% reyndar á móti einhverri stelpu. En hei. Gó ég.

Byrja á mánudaginn.

-b.

,,Imagine if the whole town was a gift shop!"

Ég er að horfa á Slings & Arrows. Maður sér lítið af kanadísku sjónvarpi.

Á morgun kemur víst mánudagur og ég er ekki alveg að nenna honum. September að klárast? Hvað er málið með það?

Amazon sendingin ætti að berast til mín núna bráðlega. Mmmm.

Partíið var þrusufínt. Við höfðum svo sannarlega gaman af því. En ég hugsa að við verðum að slaka aðeins á næstu helgar, fyrir nágrannana. Það fór allt vel fram, engin læti og enginn óþarfa hávaði í græjunum o.s.frv. en þegar við fórum út að bíða eftir leigubíl þá hallaði ónefndur gaukur sér utaní bjöllurnar og vakti væntanlega alla blokkina klukkan rétt rúmlega eitt eftir miðnætti.

Ég vona að við þurfum ekki að flytja út strax. Mér líkar vel við þetta pleis.

Og það eru örugglega fínar partímyndir á vélinni hans Sævars. Ég skal reyna að skella einhverju upp bráðlega.

-b.

21 september 2007

Sögur af Guðmundi kíki

Ég sótti bókina Setið við sagnabrunn niður í Borgarbókasafn um daginn. Ég hafði hugsað mér að skrifa hérna upp nokkrar af þessum sögum sem okkur fannst svo frábærar hérna í þynnkunni í den. Við Sölvi og Hallur lágum í krampa einhvern laugardags- eða sunnudagsmorguninn með þessa bók í höndunum, að lesa sögurnar af Guðmundi kíki. Bestar eru nú Komið í fjós (en sá titill er á frekar gráu svæði við annan lestur), Blótneytið og Sláttumorgunn. Það eru nokkrar þarna sem ég skrifaði ekki upp, en kannske maður geri það síðar. Mér fannst þær bara ekki eins góðar.

Orðsmíðin er rosaleg og karakterinn sem kemur þarna fram á engan sinn líka. Hann er bara að segja sögur af því þegar hann var að vinna (á við nokkra menn og/eða eldsnemma að morgni) og eitthvað gerðist svo hann nennti ekki að vinna lengur. En sögurnar eru góðar fyrir því. Það er einhver spes týpa sem sér vinnumanninn dröslast niðrá völl við sólarupprás og hreytir þá úr sér að þarna fari kaupasnápurinn með sláttuþvöruna reidda um öxl.

En ókei. Gó Gvendur.

...

Guðmundur Kíkir

Guðmundur Guðmundsson frá Nýjabæ í Meðallandi (1840 - 1928) hefur af sumum verið nefndur síðasti flakkarinn og þó naumast með réttu. Fælestir þekktu hann undir nafninu Gvendur kíkir. Víða kom hann við á langri ævi og flestir Sunnlendingar kunnu á honum meiri eða minni skil á löngu tímabili. Ferðir hans voru tímavissar. Tvær voru aðalferðir hans á hverju ári. Með vordögum reið hann sunnan frá Faxaflóa austur til átthaga sinna og átti dvalir á vissum bæjum. Lengst var farið austur í Fljótshverfi. Þar átti hann bestheimili inni á Seljalandi hjá Þórarni Þórarinssyni og gekk þar að heyskap að eigin vild í vinakynnum. Að hausti hélt hann til baka og fór hægt yfir. Reiðhross hans var löngum folaldsmeri og hnýtti hann folaldinu aftan í hana til öryggis. ,,Það er úr henni," sagði Gvendur er um var rætt. Hann var stærilátur og reyndist ýmsum erfitt að gera honum til hæfis. Orð var gert af góðri frásagnargáfu Guðmundar og segja mátti að hann kynni margar fornar sögur utanbókar. Páll Þorgilsson frá Svínafelli í Öræfum þekkti Guðmund vel og kunni margt frá honum að segja. Rödd hans náði hann svo vel að blekkt gat ókunnuga. Hann hafði yfir við mig kvæðalag hans og færðist um leið í annan ham svo að Guðmundur virtist þar kominn með lífi og sál. Ein vísa öðrum fremur var Guðmundi oft tiltæk:
Vinir horfnir virðast mér
völt er þeirra hylli.
Lýðir fáir leika sér
lífs og dauða milli.

Mikil festa var í öllum frásögnum Guðmundar og Páll Þorgilsson kunni margar þeirra orði til orðs. Nokkrar þeirra fara hér á eftir:

...

Komið í fjós

Einu sinni var það þar sem ég var næturgestur á bæ að ég gekk út nokkru fyrir mjaltir um kvöldið og varð reikað út í fjós. Þar hitti ég fyrir fagra konu og hóf þegar við hana samræður sem hún tók með mikilli blíðu. Eftir stundarþögn sem á varð segir hún upp úr eins manns hljóði: ,,Fallegur maður ertu, Guðmundur." Ég svara: ,,Fríður hef ég aldrei verið en gæfusvipinn hef ég borið." Í þeim töluðu orðum vafði ég hana örmum og settist með hana í auðan fjósbás. Þegar unaður okkar stóð í algleymingi kemur stelpulæða í fjósdyrnar og hleypur hrópandi út: Mamma, mamma, hann Gvendur er að fljúgast á við hana ömmu úti í fjósi. Það þarf að hj´lapa henni, hún hefur dottið." Þegar ég sá hvað verða vildi, lét ég kné fylgja kviði af miklu snarræði og sáust engin verksummerki er að var komið.

...

Á Landakotsspítala

Einu sinni kom það fyrir mig að ég var fluttur sjúkur og þjáður á Landakotsspítalann. Þegar inn kom birtust tvær engilhvítar abbadísir. Þær rétðust umsvifalaust að mér og drógu af mér hverja einustu spjör. Eftir þá afhjúpun líkama míns steypa þær mér í baðkerald mikið með logheitu vatni. Þar taka þær til að þvo allan minn auma kropp, lim fyrir lim, allt um kring af móðurlegri nákvæmni. Þar var enginn eftirskilinn. Ekki varð ég var við að meydómsandi þeirra sypi hveljur yfir nekt minni en það sló fölva á helgisvipinn þegar þær að síðustu taka föt mín upp með fýldum grönum og segja: ,,En lýsin, lýsin, lýsin, Guðmundur."

...

Blótneytið

Eitt sinn var ég úti árla morguns við slátt. Heyri ég þá ógurlegar drunur og dynki í fjarlægð. Stafar þetta af jarðeldum? hugsaði ég og litaðst um. Sé ég þá reykjarmekki mikla þyrlast í loft upp og nálgast þeir mig með ofsahraða. Fer ég þá að hafa mig til vegs og hleyp sem mest ég má og næ við illan leik hesthúskofa sem stóð þar í túninu og fer þar inn og upp í stall. Í því kemur ófreskjan og verður föst í dyrunum. Hvað haldið þið að þetta hafi verið? Það var ógurlega stór, grár uxi. Þegar hann loks hafði fjarlægt sig skreið ég út aftur. Slátt lét ég niður falla þann daginn en rímur kvað ég mér til hugarhægðar.

...

Gist á Kolviðarhóli með Einari stopp

Eitt sinn sem oftar kom ég að Kolviðarhóli síðla kvölds og baðst gistingar. Í sama mund birtist ásjóna Stopparans í gættinni og það varð að ráði að við sænguðum saman. Þó upphófst svo mikið rifrildi og ræðuhald að engum varð vært. Því linnti ekki fyrr en flysjungur austan af Bakkabæjum kvaddi sér hljós og mælti: ,,Setjið þið nú Stopparann á Kíkirinn." Allir hlógu nema Stopparinn. Hann venti sínu kvæði í kross, tók tötra sína í skyndi, kvaddi garðinn með blóti og formælingum og hefur hann ekki drepið þar á dyr síðan.

...

Sjóferðin

Eitt sinn réðst ég hjá Hákoni hinum ríka í Stafsnesi. Eins og lög gera ráð fyrir, kom ég þar daginn fyrir kyndilmessu. Til allrar óhamingju var sjóveður daginn eftir. Þá var hinn ríki árla á fótum með miklum fyrirgangi og vígamóði. Hann tekur glerharðan leðurbambara ofan úr eldhúsi, þeytir fram á gólfið og skipar hinum fílelfda jötni, Jóni Nikulássyni að norðan, að binda á mig sjóskóna. Hann kvað nei vi ðog mælti að drambhrottarnir austan úr sveitum væru ekki of góðir til að skinnklæða sig sjálfir. síðan rerum við til miða og renndum. En veistu hvað? Þá dregur óvinurinn fyrstur fisk. Hann leggur hann fram á bitann og mælti: ,,Þekkirðu þennan, Guðmundur?" Hvað heldur þú að hann hafi meint, ætli hann hafi ekki hitt á það. Hann var einsýnn eins og ég en sá er munurinn að ég er blindur borinn en þorskurinn hafði fengið áfall til sjós. Síðla dags var hankað upp, mastrað og undin upp segl. Þegar fór að hvína í rá og reiða, hrópar sá mikli Jón: ,,Staflið nú öllum ræflum í skut og barka," og þar var ég einn. Að síðustu rerum við þöglir til lands og lentum með frægð og hamingju. Í fjörunni var afla skipt með makt og veldi. En þá dró til stórra tíðinda: Sá ríki hvessir augun á mig og segir: ,,Hirtu nú hlut þinn, Guðmundur." En ég svara og segir: ,,Ekki húki ég lengur undir háði þínu, Hákon," og tek poka minn, labbaði af stað og lofaði að koma þar aldrei framar. Þar kom ég þó ári síðar og þá tók höfðinginn mér með mestu sæmdum.

...

Sláttumorgunn

Um sólarupprás í ágústmánuði var ég eitt sinn sem oftar fyrstur manna kominn á teig og renndi yfir fen og foræði og ljáhljóðið kvað við sem mjúkur þytur í lofti. Á eftir mér kom svo kaupasnápurinn með sína sláttuþvöru reidda um öxl. Hann byrjar við hliðina á mér og slær um sig með háum vindhöggum og hjakk krukki. Ég gætti mín ekki og vissi ekki fyrri til en hann skammskælir sinni ryðskófu þvert yfir minn spegilfægða eggtein. Mér varð að orði: ,,Ógæfumaður ertu að eyðileggja minn góða eggtein." Af slætti varð ekki meira hjá mér þann daginn.

...

Báruball

Einu sinni barst ég með straumnum inn á ball í Bárunni. Þar sat nikódemarinn í landsuðurshorni og þandi djöfulinn. Á eftir mér komu tvær stelpuglennur sem slógu á lær þegar inn kom og sögðu: ,,Drall drall, ball i aften." Það hitti svo sem naglann á höfuðið. Dólgarnir kepptust um að hremma bráðina og þurftu ekki lengi eftir henni að ganga.

...

-b.

Ég sé inní framtíðina, og enn lengra en það

Ég hugsa að ég verði með harðsperrur á morgun.

Hvað varðar hitt, þetta sem er hinumegin við framtíðina.. tja. Við deyjum öll. Fyrr eða síðar. Sko hvað ég er mikill spámaður.

-b.

19 september 2007

Dag frá degi

Í gær sagði ég ,,ég ætla í ræktina á morgun!"

Og í dag gerði ég það.

Og á morgun fer ég í atvinnuviðtal.

Fleira var það nú ekki.

-b.

Spurning hérna

úr Skaftahlíðinni. Ef maður gekk í Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES), er maður þá.. BESefi?

Og hefði Móse rakið á land á Eyrarbakka fremur en að bökkum Nílar, hefði hann þá fundist í.. be-sefinu?

Nei okkur fannst það allvega skondið.

-b.

..ræða það eitthvað?

Get ég annað en skrifað um Næturvaktina?

Ég hafði gaman af þættinum. Það var engin saga í gangi þarna til að byrja með, meira svona runa af sketsum. En það getur líka virkað. Helst fer Jón Gnarr í taugarnar á mér, því þarna er hann einsog hann er alltaf.. Það dugar ekki bara að raka hausinn á sér til að búa til karakter. Þessi vaktstjóri hljómar einsog allir þessir miðaldra kverúlantar sem Jón hefur leikið í gegnum tíðina, í sjónvarpi og útvarpi.

Hinir tveir voru samt fínir. Pétur kemur mér dálítið á óvart, og ætti maður að reikna gildi gamanþátta útfrá katsfrösunum þá heldur hann sjóinu uppi.

Mér hefði þótt gaman að kannast við umhverfið, að sjá einhvern spes húmor í þessu þar sem ég hef unnið á bensínstöð í dálítin tíma, en það var alls ekki. Það eina sem snýr að þessum tiltekna bissness er það hvernig á að dæla bensíni og rútínan sem kortaviðskipti eru: renna korti, láta kvitta, bjóða afrit, þakka fyrir. En nú dælir megnið af fólki bensíni á bílana sína sjálft, og því þekkja það flestir. Það sama má segja um kortaviðskiptin, hver hefur ekki farið í gegnum þessa athöfn þúsund sinnum?

Munurinn á því að vera fyrir framan kassann og að vera bakvið hann er sá að þar gerir maður þetta þúsund sinnum á einum og sama deginum. Einsog í Clerks þarsem félagarnir eru að selja sígarettur allan daginn, og Randall selur loks smástelpu pakka af rettum vegna þess að hann er einfaldlega hættur að hugsa um hvað hann er að gera. Ég ætla ekki að stilla þessu tvennu saman, Clerks og Næturvaktinni, en þarna er brandarinn sagður frá sjónarhóli þess sem afgreiðir, og það er verið að segja manni eitthvað um þennan bissness sem maður hefði ekki endilega getað sagt sér sjálfur.

Í Næturvaktinni, í stað þess að gera grín að endurtekningunni, firringunni sem fylgir því að láta fólk kvitta á seðla og þakka því fyrir án þess að vita hvað það heitir eða muna hvernig það lítur út, þá snýst brandarinn í kringum eitt óþægilegt skipti. Og jafnvel þótt áhorfandinn sé leiddur inní stöðina með nýja starfsmanninum þá sjáum við þetta atriði frá sjónarhorni kúnnans. Mér sýnist það sama eiga við um restina af þættinum.

Hver einasti viðskiptavinur sem kemur inná stöðina er grunlaust fórnarlamb. Daman er að flýta sér og má ekki vera að því að bíða eftir kvittun; karlinn þarf að komast á klósettið og má ekki vera að því að kaupa neitt til að geta talist viðskiptavinur; gaurinn þarf að klára að þrífa bílinn sinn, vantar bara vatn í smástund í viðbót og má ekki vera að því að bíða framá morgun. Það er í raun ekki verið að sýna manni neitt nýtt: Hver kannast ekki við að vera að flýta sér á bensínstöð, lenda á einhverjum þurs bakvið afgreiðsluborðið og standa í veseni?

Ég veit náttúrulega ekki hvernig þeir halda áfram á næstu vikum, en þessi fyrstu þáttur fjallar ekki um það að vinna á bensínstöð, heldur það að versla við bensínstöð.

Það er ekki þarmeð sagt að mér þyki þátturinn lélegur, ég hafði gaman af honum. Mín reynsla af þessu umhverfi er hinsvegar sú að sama hversu skrýtnu liði maður þarf að vinna með þá eru kúnnarnir, þegar þeir eru uppá sitt versta, ótal mörgum sinnum skrýtnari, dónalegri, heimskari og þar af leiðandi fyndnari.

Má kannske vera að allir þessir kúnnar vilji ekki sjá bölvað afgreiðslufólkið, leikið af Jóni Gnarr og Pésa úr Strákunum, gera grín að sér í sjónvarpinu?

-b.

Áræði10Geðveikt.

-b.

17 september 2007

Heimurinn árið 1989 - Úr A Gentleman's Game eftir Greg Rucka

Ég fór á bókasafnið áðan og henti inn pappírum. Skilaði bókum. Tók nýjar bækur. Í myndasöguhorninu fann ég innbundna skáldsögu, A Gentleman's Game eftir Greg Rucka. Hún kom út árið 2004. Mér fannst nógu undarlegt að sjá hana á þessu bókasafni, en að einhver skuli hafa verið það hugulsamur að skilja hana eftir hjá hinum Rucka bókunum - sem við dáum öll og elskum - smyr sólargeislum í kalt hjartað mitt.

Ég settist í rauða stólinn hérna heima og las. Þessi efnisgrein finnst mér áhugaverð.

The Pit was aptly named, a cube of a room, dead-white cinderblock walls with no windows and poor ventilation, gray carpet that utterly failed to diminish the cruelty of the concrete floor beneath it. Each Minder's desk faced out from the three walls, so that the Minder Two desk faced the door from the hall, and the Minder One desk, on the left as one entered, faced Minder Three's. The remaining space was occupied with two metal filing cabinets, a coat stand by the door, and a file safe, on top of which sat the go-bags, one for each agent. Inside each small duffel were the bare essentials - toiletries and clean underwear and socks. The only decorations were, above Minder Two's desk, an old dartboard, and above Minder Three's, a map of the world that had been printed in 1989.

Fjórir gluggalausir veggir, pappír í skúffum, tannbursti og nærföt í poka oná skáp. Þetta er eins praktískt, hversdagslegt og órómantískt og hugsast getur, en það hefur löngum verið yfirlýst markmið hjá Rucka, að skrifa um tannhjólin í vélinni frekar en James Bond**. Það væri hægt að líkja þessu við fyrstu þáttaröð af Spooks, áður en sá missti taktinn, eða Tinker, Tailor, Soldier, Spy fyrir seinni tíma, þegar stelpurnar fá að vera memm.

Lýsingin á skrifstofunni gefur til kynna hverskyns spæjarasögu næstu blaðsíður hafa að geyma og um hvað starfið snýst í raun og veru, skv. Rucka. En þá eru það kannske veggjaskreytingarnar sem segja meira en hitt, þótt lýsingin á þeim virki helst einsog glettileg viðbót við dauflega innanstokkslýsingu.

Um leið og þú kemur inní skrifstofuna blasir við þér, á veggnum beint á móti, píluspjald - en það hefur sýnt sig oftar en einusinni í Queen and Country bókunum sem á undan koma að Minder nr. 2 er sá sem lendir í skítlegustu verkunum og mestri lífshættu. Nr. 1 er nokkurskonar yfirmaður og nr. 3 er jafnan óreyndur eða einfaldlega dauður sökum þess að vera sendur óreyndur í hættulegt djobb. Þannig að þegar einhver kemur neðan úr skrifstofunum með skipanir handa teyminu þá beinast spjótin jafnan að Minder nr. 2, þessum með skotmark yfir skrifborðinu sínu.

Heimskortið (sem nr. 3 þarf ekki að hafa fyrir augunum því hann er svo grænn hvorteðer) er sérlega skemmtileg viðbót, því það er prentað fyrir eða um það leyti sem Berlínarmúrinn er rifinn. Maður sér fyrir sér Austur- og Vestur-Þýskaland, USSR lengra í austur, landamæri sem eru ekki til lengur og nöfn sem hafa jafnvel breyst nokkrum sinnum síðan kortið var prentað. Það þjónar varla praktískum tilgangi, en hverju þá? Er þetta eitthvað í líkingu við skrítlur úr dagblöðum, sem vinnudýr í saklausari bissness festa upp í básum eða á hurðum kaffistofa? Heimsmynd sem er svo fjarstæð deginum í dag að maður getur varla annað en glottað, en ber þó með sér grjótharðan raunveruleika njósna og launmorða sem áttu sér stað þegar kortið var fyrst hengt á vegg. Manni dettur í hug rússneska máltækið um ,,gömlu góðu vondu dagana", sem hefur verið komið fyrir í einræðum spæjara og hermanna í Hollywood seinni tíðar, þarsem kalda stríðið er séð í hillingum, ,,einfaldari tími þegar menn vissu hver óvinurinn var." Og svo framvegis.

Fyrr í kaflanum hefur verið snert á því að hverskonar skreytingar á veggjum séu illa liðnar, en landakortið er nógu kalt og ríkisstyrkt til að fá að vera í friði. Það stendur bæði fyrir þessa James Bond-kaldastríðs-nostalgíu og sem gagnrýni á hana: Undir kortinu situr græninginn í spæjaraleik, en þeir sem sjá það úr hæfilegri fjarlægð eru þeir sem vita um hvað málið snýst, og þeir sem ná brandaranum. Heimurinn breytist og kortin breytast, en djobbið er alltaf það sama. Þetta er litli kettlingurinn sem hangir á þvottasnúrunni, Hang in there fyrir kaldlynda, fátæka og léttklikkaða tannhjólaspæjara í svona óskaplega raunverulegum raunveruleika.

-b.

**Það væri reyndar gaman að lesa Bond með það fyrir augum að hann sé bara viljalaust númer oní kassa. Væri það yfir höfuð hægt?

15 september 2007

Sungið við Bonnie Tyler lagið Total Eclipse of the Heart (800)

Víðir Örn, hvernig er að vera einsog fiskimaður sem að fer barasta aldrei í land?
Víðir Örn, hvernig veistu svona margt um átján hluti sem að enginn hefur hugsað mikið um?
Víðir Örn, hvernig ertu aldrei í sjónvarpinu þótt þú búir svona nálægt Sigga Hall?
Víðir Örn, hvernig skegg er þetta sem að hangir á veggnum því ég hef held ég aldrei séð það áður?
Víðir Örn, gaukur, hvernig er að ganga ekki við staf?
Víðir Örn, gaukur, hvernig er að ganga ekki við staf!

12 september 2007

Þarmeð bless

En svona að hækum slepptum þá sit ég inná bókhlöðu í augnablikinu og sé hvar rigningin hrynur oná lóðina fyrir utan í sirka 45° halla. Ég þakka mínum sæla fyrir að hafa haft þessa vitleysu í bakið á leiðinni niðreftir. Svo er spurning hvernig staðan verður í nótt þegar ég fer aftur heim.

Ég er að taka nokkrar vaktir til að eiga fyrir næstu leigu. Fokk helvítis ég ætlaði að vera að setja saman starfsumsókn í dag.

-b.

Hæka fyrir vandláta

Rigningarandskot
i dettur svo maður blotn
ar allur saman.

-b.

10 september 2007

Ég lifði helgina af

Og það ætti í sjálfu sér að vera nóg. Netið hrökk í gang í gær. Sævar reddaði því.

Ég drakk helling af bjór, borðaði helling af rusli, las X-Men en veit ekki hversvegna. Gaf bækur sem afmælisgjafir.

Í dag vaknaði ég eldsnemma fyrir hádegi og fékk mér staðgóðan morgunverð. Planið var að við Víðir færum austur, hann að gera við bílinn sinn og ég að kíkja til læknis, og að sækja um húsaleigubætur. En svo birtist Már í dyrunum og ég fékk bara far með honum í staðinn. Læknirinn sagði að ég væri nærsýnn, -0,5. Á báðum. Það væri víst betra fyrir mig að fá gleraugu, svona til að fara með í bíó og á rúntinn.

Svo kannske hver veit, kannske fengjum við okkur nokkra kokteila á Hressó, ég myndi bjóðast til að borga taxa heim, eitt leiddi af öðru. Það að ganga með gleraugu þyrfti ekki að vera kvöl og pína.

Ég hitti Gunnar Marel þarsem ég stóð og beið eftir rútunni aftur í bæinn. Hann ætlar að fara til Kaupmannahafnar og vill koma í veg fyrir að Pakkhúsið verði rifið. Getur hann gert bæði í einu? Fylgist með í næsta þætti?

-b.

06 september 2007

Moggabloggið mitt, djöfull er maður vakandi

Og djöfull gleyptu fréttastofurnar við þessari 3g auglýsingu frá Símanum. Þessi kirkjugaukur mætti í Kastljósið og Ísland í dag sama kvöldið og sagði nákvæmlega ekki neitt. Honum fannst hún smekklaus, en kirkjan ætlar ekki að kæra. Nei er það virkilega? Jóni Gnarr finnst ekkert athugavert við auglýsinguna, en það var jú hann sem samdi hana. Þetta er and-frétt.

Fólkið á Símanum er ekki alveg glórulaust. Þetta er haugur af ókeypis auglýsingu. Nógu mikið hefur það kostað að búa til þessa auglýsingu, þá er ekki verra að fá hana sýnda í fréttatímum trekk í trekk.

Það er ekki einsog nokkrum detti í hug að það verði neitt úr neinu. Einstaka hálfvitum, sem er ekki skítsama um hvernig fólk notar biblíusögur, kann að láta í sér heyra en það dettur engum í hug að gera neitt í því.

(Það situr hérna tíu manna MR hópur og talar um það hvað hann sé skemmtilegur. Hver um sig og allir í heild. Og liðið talar hærra og hærra og þá hækkar einhver í músíkinni og svo gengur það áfram. Maður var blessunarlega aldrei í þessari vatnsgreiddu SUSeldishöll en ég er þó feginn því að vera ekki alveg svona ungur ennþá.)

Önnur and-frétt: Þú getur ekki átt einkaleyfi á nafninu ,,skyr". Ekki frekar en ,,mjólk" eða ,,smjör". Hálfvitar.

-b.

Hvaða læti eru þetta?

Ég kíkti í tíma í íslenskum sjálfsögum hjá Jóni Karli í gær. Kúrsinn virðist mjög áhugaverður. Það vorum semsagt við tveir, ég og kennarinn, og svo tíu ellefu stelpur og konur. En hann er kenndur innan íslenskuskorar svo ég er ekki viss um að ég geti fengið hann metinn, þarsem ég hef tekið svo lítið innan bókmenntafræði proper.

En það er hinsvegar ekkert að gerast þar. Einsog Ingi hafði á orði, þá er varla hægt að skella á mann einhverjum kvóta og bjóða síðan ekki uppá neitt til að fyll'ann.
Eða, hann sagði það ekki alveg svona. Þetta var meira svona inntakið.

Ég er orðinn þreyttur á að borða ekki heima hjá mér. Fáum væntanlega ísskáp á morgun. Sævar reddaði honum. (Annað gott innskot!)

Og ég er kominn með auðkennislykil.

Og Prikið er stútfullt af MRingum og túristum. Ég veit sveimér ekki hvort er verra.

Fór og breytti aðsetri, fékk vottorð fyrir því. Fékk útprentun á skattskýrslu síðasta árs. Nú þarf ég bara að grafa upp launamiða síðustu þriggja mánaða og þá get ég sótt um styrk frá sveitarfélaginu mínu til að greiða niður 8,3% af leigunni sem við borgum.

Las House of M í gær. Þetta var víst einhver svaka crossover atburður hjá Marvel núna um árið. Það var þessi tiltekna saga og svo tengdust bókstaflega allir ofurhetjutitlarnir þeirra inní þetta, ef mér skjátlast ekki. Svona ofursögubatterí virka alltaf frekar feik og fyrir-salti-í-grautinn, en þessi saga var fín. Þannig. Enda Bendis.

Hún minnir sterklega (og meðvitað) á Crisis on Infinite Earths: Gamli heimurinn hverfur í hvítu leiftri, útvaldar hetjur kippa málunum í liðinn en þó verður heimurinn aldrei samur. Fyrren eftir nokkra mánuði.

-b.

04 september 2007

Dóterí sem ég skrifa niður um dóterí sem ég skrifaði ekki

Æ fokk. Maður er að neyta.

Fyrsta sería af Sleeper Cell er miklu betri en ég þorði að ætla. Ég nixaði þetta undireins þegar ég sá bút á Skjá einum þarna um árið, þarna væri hræðsluáróður í dramalíki. En það er kannske frekar manni finnist of mikið um jákvæða umræðu um islam. Fólk að ræða túlkunaratriði í Kóraninum við undarlegar aðstæður.. En þetta eru bara þéttir þættir. Mjög gott.

The King eftir einhvern byrjar vel. Það er ákveðinn blær yfir þessu Fantagraphics dóti.. frekar misjafnt hvernig það virkar en maður kannast strax við hann. Finnst mér. En ég hef ekki lesið mjög mikið af því.

The Pulse, hafði ég ekki minnst á það? Bendis góður. Bækur eftir Bendis góðar.

Minntist ég á Udaku eftir Bendis? Líka fín.

Og mér skilst að næsta Powers bók sé að koma út. Eða komin út? Cosmic held ég að hún heiti.

Rant eftir Palahniuk kom mér á óvart. Og svo varð hún bara undarlegri. Hann kann að skrifa, hann kann að fletta utanaf sögu þannig að hvert skref verður að skoða aftur í ljósi þess sem kemur á eftir, og þegar hann gerir það vel þá virkar það ekki einsog bara eitthvað gimmikk. Það gengur upp hérna. Og mér finnst gaman að því hvernig sveitasagan verður sæfæ. Ég veit ekki, endirinn virkaði skringilega á mig, en það hæfir sögunni kannske að slútta svona, frekar en að meika fullkomlega sens.

Þetta er ekki bók sem ég myndi mæla með fyrir hvern sem er, en ef þú fílaðir Palahniuk áður en hann gróf sér gröf í lélegum hryllingi þá má tékka á henni. Hýper-yfirborðshugleiðing um dreggjar samfélagsins í óræðri framtíð? Það held ég.

The Bourne Ultimatum: Helvíti fín. Sjáið fyrri myndina áður en þið sjáið þessa samt. Þá fyrstu líka, ef þið eruð á þeim buxunum, en það er ekki nauðsyn. Ég ætla að sjá þær allar í einu núna bráðum. Ekki að þetta sé nein epík, þessar myndir eru alls ekki að reyna neitt slíkt. En bara afþví ég hefði gaman af því.

Blargh. Heim að borða. Ekkert net.

-b.

Pantekki borga

Ég var að panta dvd á amazón?

Það kostar mig helling, þegar að því kemur?

-b.

Hark!

En þetta situr næst mér núna. Þrír spánverjar (held ég) komu að mér þarsem ég hokraði við að læsa hjólinu mínu fyrir utan Glitni á Lækjargötu. Afsakið, geturðu sagt okkur hvar við getum fengið íslenskan mat, sem er ekki of dýr? Tja. Í fyrsta lagi, og þetta sagði ég þeim, þá er enginn staður hérna niðrí miðbæ ódýr. Í öðru lagi, en ég sagði þeim þetta ekki, þá veit ég ekki hvað íslenskur matur er. Eitthvað sumarið vildu vegasjoppurekendur meina að þjóðarrétturinn væri kjötsúpa.. en kjötsúpa er aldrei kjötsúpa nema hún sé borðuð heima hjá manni.

Ég benti þeim á fiskihlaðborðið í þessa þarna átt. Þeir höfðu jú séð það, voru víst að leita að einhverju öðru. Sorrí, segi ég, ég borða sjaldan sem aldrei hérna því það kostar allt pening. Takk takk sögðu þeir og gengu leið sína.

Svo gengu þeir hérna inná Prik þegar ég var að koma mér fyrir. Pöntuðu sér steikarsamlokur, ef mér skjátlast ekki.

...

Annars er ég búinn að vera að flytja í nýja íbúð. Ég hef bæði gaman af listum og tímalínum, þannig að hérna er listatímalína fyrir ferlið.

Föstudagur:
Ég fæ að taka jeppann að láni, fylli hann af bókakössum og öðru drasli, kaupi nokkra bjóra og keyri til Reykjavíkur. Við Davíð kíkjum á Eldsmiðjuna, en hún er full af fólki. Við kíkjum á Reykjavík pizza company, og þar er líka allt fullt, en við fáum borð eftir smá stund. Borðum. Svo förum við heim til Davíðs að drekka bjór. Víðir kemur. Gunnar og Stefán koma. Við drekkum og ég er ógeðslega lélegur í Gears of War.

Eða ég er allavega handónýtur á svona fjarstýringum. Ég stend fastur á því að mér hefði gengið betur með mús og lyklaborð. Xbox foj.

Við byrjum að horfa á The Big Lebowski en ákveðum fljótt að fara í keilu í staðinn. Við drekkum bjór og keilum í Öskjuhlíðinni. Ég dett einusinni hálfur inná brautina, einusinni allur inná hana. En ber samt sigur úr býtum. Leyndarmálið, segi ég sjálfum mér: horfa á keilurnar.

Svo förum við niðrí bæ og ég týni sjálfum mér þar einhverstaðar, en man þó eftir að hafa tekið ákvörðun um að koma mér í bælið. Vaðið mannhaf útað dyrum Kaffibarsins og andað svo bæjarmyrkri niður Njarðargötuna.

Laugardagur:
Því ég þurfti að vakna snemma. Sturta og vatnsglas, hálfur subway og útá hjólið. Má ekki vera þunnur, allavega ekki svo sjái á manni. Keypti treo-stauk í Lyfju, skoðaði bækur og mætti um það bil korteri of snemma á fund uppí Rentus. Las yfir húsaleigusamninginn, beið eftir eigandanum. Hún mætti stuttu síðar með karlinum sínum, þau nýkomin frá íbúðinni og segja að fólkið þar sé enn ekki flutt út.

Þessir jólasveinar sem voru í íbúðinni, og höfðu nú verið reknir út vegna kvartana frá nágrönnum, ætluðu að skila lyklunum að íbúðinni á föstudaginn klukkan fimm. Gerðu það ekki. Ætluðu svo að skila klukkan ellefu á laugardaginn. Gerðu það ekki heldur. Eftir að við undirrituðum samningana rúllaði ég með eigandanum til að gá hvernig gengi, og við fundum þar tvær stelpur sem dunduðu við að sópa, sögðu að strákarnir hefðu farið eitthvað á sendibílnum. Nú ætluðu þau að skila lyklunum klukkan fimm.

Eitt herbergjanna var samt laust og þrifið, svo ég henti kössunum mínum þangað inn og keyrði á Selfoss. Gunnar og Stefán hjálpuðu mér við kassaburð, blessaðir.

Þynnkan hellist yfir mig þegar ég lendi á Heiðarveginum, en mig langar að klára flutninginn. Eigandinn hringir rétt að verða fimm og segist hafa lyklana en að það sé hræðilega illa þrifið. Ég segi að við séum að stóla á að geta flutt inn í dag, svo hún segist ætla að gera einsog hún getur. Gott og vel. Ég fæ Óskar bróðir til að hjálpa mér að ferma kerruna og bílinn og við keyrum til Reykjavíkur. Fleygjum þar inn rúmi og allskonar. Förum svo á garðana þarsem ég á ennþá nokkra kassa og dót (blikk). Fermum, keyrum, affermum og þarmeð er ég alfluttur. Víðir kemur með dýnu og eitthvað dót. Ég fer með Óskari á Grillhúsið og svo heim að sofa. Sævar kom með nokkra kassa.

Sunnudagur:
Ég svaf frameftir. Uu. Sótti hjólið mitt niðrí Rentus. Það var lokað í Góða hirðinum. Mágur eigandans kom til að skipta um ljósaperur á baðinu, og við sáum hversu illa var þrifið þar inni. Spilaði Baldur's Gate. Við kíktum til Davíðs í vídjó um kvöldið, ætluðum að horfa á Slacker en hún var leiðinleg svo við slökktum. Ég lét mig hverfa, fór að sofa.

Mánudagur:
Ég hjólaði niðrí Þjóðskrá en þurfti að hafa skólavottorð til að breyta um aðsetur, ef ég vildi ekki að skipta um lögheimili um leið. Víðir skutlaðist með mig til Sýslumanns og þar borgaði ég rúman tólfhundruðkall fyrir stimpil. Þinglýsing á leigusamning sem ég þarf að sækja á morgun. Svo fórum við í Rúmfatalagerinn, Góða hirðinn og Bónus. Ég keypti stofustól, bleikan náttslopp og grænt te. Ég leitaði árangurslaust að ísskáp á netinu og fór svo á fund með Víði. Sævar kom með stofustól.

Þriðjudagur:
Æ ég nenni engu. Ætla að kíkja í einn tíma í skólanum á morgun, tala við Gottskálk á mánudaginn kemur. Sækja skólavottorð, sækja þinglýstan samning, skipta um aðsetur, sækja um húsaleigubætur. Fara að vinna?

-b.