31 desember 2012

Best ársins 2012

Þetta var annað árið sem ég hélt sérstaka lestrardagbók. Þetta er lítil svört stílabók, ekki sérútbúin lestrardagbók með fyrirfram ákveðnum dálkum eða slíkt. Ég fékk hana að gjöf frá Þorra bróður, fyrsta færslan er frá 6. september 2010. Ég man ekki lengur við hvaða tilefni ég fékk þessa bók.. mögulega var hún jólagjöf sem sat svo uppí hillu þar til mig vantaði bók.

Þannig að síðasta ár gat ég litið yfir neysluárið 2011 frekar auðveldlega og mér þótti það ekki leiðinlegt. Það sem kemur mér á óvart í ár -- og ég held það hafi átt við um árið áður líka -- er hversu fljótt það fennir yfir. Bækur sem ég las fyrstu þrjá mánuði ársins hefði ég annars svarið að tilheyrðu 2011. Ég er líka hissa á því hversu fáar kvikmyndir ég sá á árinu, og í sama vetfangi hversu ofboðslega mikið sjónvarpsefni ég horfði á.

26 kvikmyndir tel ég, þar með talið myndir sem ég hafði séð áður og eina sem ég sá tvisvar á árinu, þ.e.a.s. hún er talin tvisvar. Af sjónvarpsefni hinsvegar tel ég 28 þáttaraðir. Raðir! Fyrir utan þætti sem ég rétt kíkti á, horfði á einn eða tvo og nennti síðan ekki meir.

Ég hlustaði á böns af hljóðbókum en mér fór að þykja erfitt að finna eitthvað sem ég entist yfir. Speaker for the Dead var orðin hálfgerð kvöl undir lokin, ég datt strax út úr The Mote in God's Eye og The Naked and the Dead. Beer in the Middle Ages and Renaissance var mjög áhugaverð til að byrja með en ég hætti að geta fylgst með öllum tölunum. Það er bók sem maður myndi þurfa að hafa í höndunum, til að geta flett yfir allar töflurnar. Um mitt árið fannst mér ég ekki finna neitt sem ég hafði áhuga á svo ég bakkaði í það sem ég hafði áður hlustað á, renndi í gegnum The Diamond Age og Barrokk sveiginn hans Neal Stephenson. DA var betri í seinna skiptið en Barrokk sveigurinn ekki. Eða, það var misjafnt eftir bókum: The Confusion, sem mér þótti sú lakasta í fyrra skiptið, þótti mér nú skemmtilegust. Ég held að hún líði minnst fyrir það að maður viti hvernig sagan fer, eða endar. Þó ég hafi ekki munað allan söguþráð The System of the World frá því síðast þá mundi ég nógu vel hvernig allt fór, og nennti ekki að fylgjast með því aftur.

Þannig að ég fór að hlusta meira og meira á hlaðvörp. Eða hlaðvarp? Varla hlustar maður á útvörp. Hlaðvarpsþætti, þá? Ég hef áður dottið svona út, hætt að nenna að hlusta á bækur í nokkra mánuði. Þá hef ég kannske fundið einhverja músík til að hafa í eyrunum en nú er það alveg frá. Ég hlustaði á tvo nýja diska á árinu (ég held ég sé ekki að ýkja), það voru nýir diskar frá böndum sem ég kynntist fyrst fyrir a.m.k. sex árum síðan. Hvorugur kveikti sérlega mikið í mér.

Þannig að, hér er það sem ég fann og mér fannst best.

Skáldsögur, íslenskar:
Illska eftir Eirík Örn Norðdahl

-- Ég las sáralítið af íslenskum skáldskap á árinu en Illska var stærst og best. Umfjöllunin sem ég skrifaði um bókina var sennilega of jákvæð, þ.e.a.s. ef meiningin hefði verið að lýsa lestrarreynslunni allri. En hún sat í mér, bæði vel og illa, og ég reyndi að koma því frá mér. Ritdómari Víðsjár, nafni minn, sýndi meiri yfirvegun en ég var ósammála öllu því sem hann fann bókinni til vansa -- jafnvel þó mér hafi alls ekki þótt hún fullkomin. Það er e.t.v. klisja en mér fannst hann fara villu vegar (eða önnur og betri þýðing á missing the point) í því að segja of litla tengingu milli Helfarar-frásagnarinnar og sögunnar úr nútímanum. Tengingin er í uppstillingunni, þetta versus hitt. Og eins í þeirri túlkun að illskan eigi rætur að rekja til Helfararinnar, þegar skáldsagan gefur sterklega í skyn að hún sé bara viðkomustaður. Loks er það einfaldlega ósatt að rasisma Arnórs sé fundin skýring í tráma úr barnæsku. Að öðru leyti fannst mér hann fjalla af miklu meira viti um bókina en ég, sem segir mér svo aftur að hefði ég reynt að ballansera umfjöllunina einhvernveginn með því að finna aðfinnsluatriði þá hefði ég sennilega dottið í dýpri gryfjur en hann.

En ég þarf varla að halda uppi vörnum fyrir Illsku, henni hefur gengið ágætlega.

Skáldsögur, enskar:
The Map of Time eftir Felix J. Palma
Hyperion eftir Dan Simmons
Ender's Game eftir Orson Scott Card

-- Þetta er allt vísindaskáldskapur. MOT sá ég á árslista fyrir 2011 en vissi annars ekkert um hana þegar ég byrjaði. En hún er einstaklega skemmtilegt sæfæ og um leið meta-sæfæ því hún kannar allar mögulegar útfærslur á tímaflakkssögunni með því að henda inn hinum og þessum sjónarhornum, mismunandi blekkingum og skáldskap, svindli, endurskipulagningu og óhugsandi ósköpum. Hún flakkar á milli þess að vera mjúkt og hart sæfæ, eða hún blekkir mann stöðugt fram og tilbaka. Æðisleg bók.

Hyperion á það sameiginlegt með The Map of Time að sögumennskan skiptir höfuðmáli, eins það að hugmyndin um tíma virðist mjög á reiki. Annars eru þær eins ólíkar og hugsast getur. En hún er jafn frábær og framhaldið, The Fall of Hyperion, er ömurlegt.

Og Ender's Game er langt frá því að vera fullkomin en hún fjallar svo einstaklega vel um grimmd, og á einfaldan og snöggan hátt. Stutt bók og einföld saga, á allt sitt hæp skilið.

Myndasögur:
Habibi eftir Craig Thompson
Vampíra eftir Sirrý og Smára

Habibi fékk ég í útskriftargjöf 2011 og kíkti aðeins í hana þá en las hana svo í ár. Sérlega metnaðarfull og á allt öðrum skala en Blankets, en einsog þar þá er tilfinningalegi kjarninn alveg gegnheill, þó þær séu báðar stundum kjánalegar.

Og Vampíra kom mér hreinlega mikið á óvart. Alveg merkilega akkúrat íslensk myndasaga sem ætlar sér ekki of mikið en tekst það frábærlega.

Nonfiksjón:
The Code Book eftir Simon Singh
Rekferðir eftir Guðna Elísson
I Am Alive and You Are Dead eftir Emmanuel Carrère

Þessar bækur eiga það allar sameiginlegt að ég átti erfitt með að leggja þær frá mér, mig langaði alltaf að vita meira og þær gefa alltaf meira og meira. Hvert einasta sögusvið eða hver einasta tækni sem Singh fjallar um mætti sennilega fá bók út af fyrir sig, en The Code Book dregur fram svo rosalega spennandi atriði við hvert og eitt, og leiðir mann í gegnum söguna. Rekferðir samastendur auðvitað af endurbirtum pistlum en þeir eru svo leikandi vel skrifaðir og heilsteyptir í hugsun að það skiptir engu máli þótt margir hverjir séu andsvar við það sem var að gerast þá vikuna fyrir öllum þessum árum síðan. Og IAAYAD er sennilega skáldskapur af miklum hluta en þrátt fyrir það gapir maður eiginlega yfir lífshlaupi Dicks. Og hún rak mig í að lesa meira eftir hann, sem er best allra markmiða.

Sjónvarp:
Sherlock 1. og 2. þáttaröð
Breaking Bad, 1.-5. þáttaröð
Game of Thrones, 2. þáttaröð
Louie, 3. þáttaröð
Community, 1.-3. þáttaröð

Í þessari röð: Besta endurgerð ársins; besti krimmi ársins; besta aðlögun ársins; besta "hvað dettur mér í hug þessa vikuna" ársins; og besti sjónvarpsþáttur ársins.

Leiðinlegasta sjónvarp ársins var Walking Dead, 2. þáttaröð. Ég gafst upp í þriðja þætti minnir mig. Það var einsog þættirnir væru bæði skrifaðir og leiknir í gegnum plastpoka.

Bíó:
Shame
Another Earth
The Cabin in the Woods
The Dark Knight Rises
Looper


Röðin er tímaröð, held ég. Tvær sæfæ, metahrollvekja, ofurhetjumynd og McQueen. Passlegt. Í þessari sömu röð: Besta fjölskyldusaga ársins; besta mjúka sæfæ ársins; besti endir ársins (og sennilega besta mynd ársins); besta framhald ársins; og besta harða sæfæ ársins.

Hlaðvarp:
Comedy Bang Bang
Harmontown
The Pod F. Tompkast
WTF w/ Marc Maron


Ég á erfitt með að segja eitthvað frekar um þessa þætti. CBB er oftast skemmtilegt, stundum frábært og stundum beinlínis leiðinlegt. En þátturinn er vel yfir meðallagi og Paul F. Tompkins kemur oft við. Sem er gott. Hans eigin þáttur, PFTkast, er það besta sem er að gerast í þessum hlaðvarpsgeira. Harmontown eru upptökur af vikulegum (sirka) samkomum sem höfundur Community heldur ásamt vinum sínum, þarsem fólk mætir í lítinn sal og horfir og hlustar á hann drekka og tala. Mjög losaralegt og mistækt en ég hef oft mjög gaman af því. Liam Neeson eftirherman hans í þriðja þætti innsiglaði dæmið fyrir mér. Og WTF er besti viðtalsþáttur sem ég hef heyrt. Bryan Cranston, Gilbert Gottfried, Tom Kenny, Tim Heidecker, Todd Solondz, Pauly Shore, Dylan Moran -- þetta eru þeir bestu sem ég heyrði bara frá ágúst til dagsins í dag. Þættirnir með David Cross, Bob Odenkirk, Conan O'Brien, Chris Rock, Gallagher og einmitt Dan Harmon, góðir líka. Þeir eru sennilega orðnir það gamlir að þeir kosta orðið pening, en annars er þetta allt frítt. Sem er náttúrulega plús.

Ókei þetta er orðið ansi langt. Ég ætlaði að skrifa eitthvað svipað um bjórgerðina og annað sem ég hef dundað við á árinu, geymi það sennilega til betri tíma. Þarf að fara í sparifötin og svona.

Gleðilegt nýtt ár ég og þið hin!

-b.

21 október 2012

Að kokka

Ég var að framkvæma tilraun í eldhúsinu og nú ilmar heimilið einsog súrsæta með vott af kanil. Ekki þessi oddhvassa súrsæta sem maður fær úr appelsínugulu flöskunni með drekanum á; ef sú er lækur þá er þessi frekar flói. Ég veit ekki hvernig ég get lýst því öðruvísi samt. Ilmurinn er sætur en líka sýrður, og það er eitthvað flæmi af allskonar bakvið.

..og uppskriftin er reyndar tekin af allskonar.is. Völundur eða frú Völundur, ef þú lest þetta einhverntíman á referrer-vappi: þú átt inni hjá mér eitthvað fallegt.

Nú er ég nefnilega allur í undirbúningi fyrir veislu sem á að hefjast eftir tæpa viku og ljúka eftir rétt rúma viku. Ég á ekki við að ég sé allur á kafi í vinnu, en það er einmitt meiningin: ég ætla að gera þetta jafnt og þétt yfir vikuna frekar en í flýti síðustu dagana á undan. Hingað til gengur það vel, en sjáum til hvernig vikulokin líta út.

Flest af því sem ég kem til með að bjóða upp á ætla ég að búa til sjálfur. Mér finnst hugmyndin heillandi og ég hef sérstaklega gaman af því. Ég hef líka verið dálítið iðinn við það upp á síðkastið, að búa til hitt og þetta í eldhúsinu sem ég hefði annars keypt tilbúið eða raða saman úr tilbúnu efni. Svo ég minnist ekki á bjórinn. (Og það kom mér reyndar dálítið á óvart um daginn, þegar ég var spurður hversu mikið ég hefði bruggað frá því ég byrjaði, að ég hafði lagt í 10 sinnum frá því í nóvember á síðasta ári, næstum því einu sinni á mánuði.) Útkoman hefur verið pínu misjöfn, en alltaf drekkandi og stundum mjög góð.

Og núna áðan fór ég að tengja þetta í huganum saman við það að skrifa eitthvað út frá sjálfum mér og senda áfram út í heiminn, eins og flösku af bjór eða krukku af salsa. Ég hef verið öllu latari við það.

Ég renndi í gegnum bloggsafnið á vitleysingar.com um daginn og það var ekki beint til þess að stappa í mig stálinu; ég var vissulega iðinn við kolann en jeminn hvað þetta var mikil þvæla oft og tíðum. Það er sosum ekki hægt að sakast við sjálfan mig fyrir tæpum tíu árum síðan, mig hefði bara ekki grunað að það skildi svona mikið á milli okkar. (Og svo er sú sýn e.t.v. sjálfsblekking af minni hálfu, já já.) Mér þótti þetta a.m.k. ekki neitt sérstaklega merkilegt.

En ég rakst líka á próförk fyrir Ljóðskáld eru hálfvitar stuttu seinna og las þar "Lesist ekki" í fyrsta sinn í lengri tíma. Það var eitthvað þar sem ég kannaðist við í sjálfum mér, einhver tilfinning fyrir veröld og rými og samsemd**. Þetta ljóð er einmitt það persónulegasta af öllum í bókinni (bókinni segi ég eins og það sé tilfellið; þessi þrjú a4 blöð) og það sem ég var hvort í senn ánægðastur með og skammaðist mín mest fyrir. Titillinn átti allra helst við mig: ég las það einusinni upphátt á blindafylleríi sem einhverskonar yfirlýsingu um rythma í prósaljóðum og svo aldrei aftur. Jæja, fyrr en um daginn.

Og í vikunni var ég að fara yfir umfjallanir á Bókmenntavefnum og leit á pistilinn minn um Radley fjölskylduna eftir Matt Haig. Ég var alltof lengi að berja honum saman, eða að byrja á honum fyrir alvöru, og þoldi ekki hversu flókið ég vildi gera þetta alltsaman. En hann er þokkalegur. Ég man það þegar ég les hann hvað það var við bókina sem fór svo endalaust í taugarnar á mér, og það má sosum rífast um það en mér fannst það nokkuð skýrt þarna. Aumustu punktarnir eru svo þegar ég lýg og segist hálfpartinn dást að bókinni fyrir að vera svo furðulega ónýt. Mér fannst ég þurfa að gera það þá.

Ég veit ekki hvert ég ætlaði með þetta. Að búa eitthvað til heima í eldhúsi og bera fram fyrir aðra. Mér finnst það gaman, ekki síður þega það er erfitt, og það lukkast stundum vel. En það er sennilega sama með annað einsog hitt að ég veit ekki fyrren eftirá hversu langt ég átti í land, eða hversu mikið ég var að gera útfrá ímynduðum öðrum frekar en sjálfum mér.

-b.

** Notar einhver þetta orð yfir 'identity'?

17 september 2012

Frímánudagur

Ég var að vinna alla síðustu viku -- bara einsog vant er -- og vann svo um helgina. Það er nú stundum nóg út af fyrir sig. Nema laugardagurinn var allur á flugi og gærdagurinn var.. erfiður. Ég var í vondu skapi þegar vaktinni lauk og kom þreyttur heim, mundi svo eitt sem ég átti eftir að gera um miðnætti og þurfti að klára, þannig að ég sat hérna og pikkaði aðeins lengra inní nóttina.

En ég var búinn að ákveða þegar ég fór heim í gær að taka mér frí þennan mánudag. Gera eitthvað annað. Þegar ég vaknaði í morgun og leit á klukkuna var hún korter yfir tólf. Ég vissi ekki að þetta væri hægt lengur. Í alvöru talað, þetta kom mér á óvart.

Þannig að ég var hissa, dálítið spældur. En ósköp fljótur að sleppa hugmyndinni um daginn sem ég hafði haft í hausnum kvöldið áður. Ég tek hérna aðeins til, fæ mér rúnstykki. Þvæ þvott. Spila Skyrim.

Mamma er komin heim frá BNA, í heilu lagi. Pakkinn sem ég bað hana fyrir kom með henni, ég er feginn því líka.

Efnisgreinarnar verða sífellt styttri. Einsog lífið! Eh. Já já.

Það fer sennilega eftir því hvernig maður lítur á það. Styttist sífellt í því eða verður það sífellt lengra? Horfir maður fram eða aftur? Sennilega ætti maður ekki að kasta eign sinni á minningar sem eru ekki til ennþá, ekki frekar en að taka út veð á fisk sem er enn í sjónum. Og ég er ekki sannfærður um að maður auki við minningar að neinu viti, það hlýtur alltaf eitthvað að mást í burtu um leið. Ég reyni að muna íslenska þýðingu á 'palimpsest'.

Þvottavélin var að spóla niður. Ég hef verk að vinna - hó hó.

-b.

13 september 2012

Núllta: Geymdu titla þar til síðast

Fyrsta: Aldrei byrja á því að tala um hversu sjaldan þú skrifar eitthvað, eða hversu oft þú gleymir því að hér sé blað til að skrifa á.

Annað: Aldrei segja eitthvað án þess að segja það, með því að segjast aldrei ætla að gera það sem þú ert að gera.

Þriðja: Aldrei lesa Morgunblaðið.

Fjórða: Aldrei sjá eftir því að lesa samt Morgunblaðið.

Fimmta: Óákveðinn greinir er alltaf fyndnari en ákveðinn greinir.

Sjötta: Aldrei hefja setningar á „Persónulega“.

Áttunda: Aldrei ganga um í lausreimuðum háum hælum.

Níunda: Alhæfingar um þjóðflokka eru í lagi svo lengi sem maður alhæfir á báða bóga. Dæmi: Þjóðverjar eru indælari manneskjur en Frakkar, en Frakkarnir eiga hinsvegar fallegra tungumál.

Tiunda: Enginn á tungumál.

Það er auðveldara að telja hluti upp en að berja þá saman í efnisgrein. Allt það sem myndi ekki passa saman við hitt getur bara verið númer eitthvað á listanum. Ef ekki væri fyrir stigveldið sem felst í ofar/neðar á lista, og númeruðum einingum, einsog hér fyrir ofan, gæti maður kallað þetta ektafínan póstmódernisma.

Shift+Home, backspace.

Um daginn kom hér út blað sem hét Miðbærinn eða eitthvað í þá áttina. Það var nákvæmlega eins og hver annar Mónitor eða Fókus. Eða hvert annað stúdentablað. Ég varð allavega fyrir dálitlum vonbrigðum, það hlýtur að vera góðs viti? Á síðunni knúz skrifar einhver mannvitsbrekkan að það sé „engin leið til að tryggja að Linda hafi ekki verið mjókkuð í auglýsingaskyni.“ Það er ekki hægt að vera viss um að eitthvað hafi ekki verið gert. Eigum við að gera ráð fyrir því að það hafi verið gert, eða eigum við bara að gefa það í skyn?

Á auglýsingastofu í 104 reynir einhver að segja mér að 98% Íslendinga á aldrinum 13-67 ára séu notendur á Facebook.

Heimurinn er bæði stærri og minni en ég skil, landið bæði ríkara og fátækara.

Vefmiðlar auglýsa app sem segir mér hvenær eftirlaunaþegi skrifar þúsundustu bloggfærsluna sína. Léleg vinnubrögð þeirra sjálfra eru ástæðan fyrir því að hann skrifar megnið af því sem hann skrifar. Hann skrifar þá þúsundustu og þá þúsundustu og fyrstu án þess að ég taki eftir því. Næstu þar á eftir skírir hann óvart „númer 2002“. Sennilega innsláttarvilla, eða gæti það hafa gerst einhverntíman á bilinu 1-1000? Tók einhver sig til og taldi?

Vaknað í Brussel fagnar tíu ára afmæli í ár. LoveStar kom út á sama tíma. Hvorugur höfundurinn hefur sent frá sér skáldverk síðan.

-b.

24 júní 2012

Adventures in High Gravity

Eftirfarandi atriði fóru úrskeiðis í gær, þegar ég lagði í stout:

Ég gleymdi að kaupa hafra. Fattaði það þegar ég var langt kominn með að hita meskivatnið. En það reddaðist, gáði upp í skáp og þar var til stór krús af þeim. Slapp líka fínt, uppskriftin vildi 620gr, allir hafrarnir á hæðinni töldu 610gr.

Ég byrjaði meskinguna á alltof háum hita. Ég vildi hitta á 67 gráður en byrjaði í rúmum 69. Sem betur fer var ég nýbúinn að redda mér þessum fína grillspaða, svo ég gat hrært í öllu saman án þess að brenna á mér puttana einsog áður. (Það er alls ekki hlaupið að því að finna 60cm gataskeið í svonefndum sérverslunum með eldhúsáhöld.)
Samt þurfti ég að hræra ansi lengi áður en ég hafði nóg pláss til að bæta köldu vatni útí. Ég var með 7,8kg af korni og 21 lítra af vatni, svo hrostinn náði nánast upp á brún á kæliboxinu. Eftir svona tíu mínútur af stanslausum hræringi gat ég sett tæpan líter í viðbót af ísköldu vatni og hóf meskingu í svona 67,3 eða svo.Ég gleymdi að festa fléttuna í botninn á meskitunnunni. Þetta voru sennilega tímafrekustu mistökin. Fattaði þetta þegar meskingin var hálfnuð og ég var að hræra í henni til að jafna hitann. Þetta kennir manni að nota tékklistann.
Þá þurfti ég að sækja stóra kæliboxið (sem ég átti þó til, sem betur fer), hita það aðeins upp með 80 gráðu heitu vatni þannig að hrostinn myndi ekki snöggkólna í því, og moka svo hrostanum yfir líter fyrir líter. Þegar meskitunnan var svo gott sem tóm festi ég fléttuna í botninn og mokaði yfir aftur. Ég veit ekki hversu miklum hita ég tapaði þarna, en það er nokkuð öruggt að eitthvað korn hefur setið eftir í gegnumtakinu því bæði fyrsta afrennslið og skolunin gengu ofboðslega hægt.

Ég gleymdi að það er búið að girða fyrir svefnherbergisgluggann (út af köttunum), svo ég gat ekki leitt rafmagnið út um hann. Þá ætlaði ég að láta annað elementið í tunnunni duga, sem fær rafmagn úr þvottahúsinu. Það tók eilífð. Á endanum gafst ég upp, leiddi þvottahúss-rafmagnið í annað elementið með tveimur fjöltengjum og notaði löngu framlengingarsnúruna til að leiða úr eldhúsinu. Suðan kom upp svona fimm mínútum seinna, nema hvað.(Áður en ég skipti þá sló öðru elementinu út, ég veit ekki hvers vegna. Veit líka ekki hversu lengi það var dautt, sennilega ekki mjög lengi.. svo fór það aftur í gang þegar ég tengdi bæði, en var þá búið að hvíla aðeins.)

Ég gleymdi að setja kælispíralinn í suðuna til að sótthreinsa hann. Fattaði það þegar 2 mínútur voru eftir af suðu og lét hann bara flakka.. Ekki alveg nógu sniðugt. Sennilega hefði ég frekar átt að demba honum oní starsanið og láta liggja í svona fimm mínútur, starta kælingunni aðeins seinna. Það hefði líka verið í góðu lagi því súkkulaðið og kaffið þurftu smá tíma í heitri virt, en það fór alltsaman útí á núlli.

Og kaffið. Ég hefði betur græjað þessa blessuðu síu aðeins betur . Ég var með svona bómullarefni, 50x25cm. Lét það liggja í sótthreinsi lengi vel, setti svo kaffið í miðjuna og tók endana upp í hnapp. Nema að þegar það var komið oní og ég var að draga það til yfir suðutunnunni þá fór ég að missa niður hluta og hluta, svo endarnir voru einhvernveginn alltaf komnir oní tunnuna. Frekar furðulegt í rauninni, maður ætti að geta haldið í klút? Ég held það hafi sloppið samt, þetta var allt blautt og fallið saman.Eitt óvissuatriði: Ég hefði mögulega getað sett kakónibburnar út í suðuna svona einni mínútu fyrir lok, í staðinn fyrir á núlli. Þær bráðnuðu ekki svo glatt. En kannske bráðna þær ekki yfirhöfuð? Mælisýnið var stútfullt af kaffi en lítið af súkkulaði.. Kaffið á samt sennilega eftir að dofna, annað við súkkulaðið. Skv. uppskriftinni þá er öðru eins af kaffi bætt við við flöskun, en ég er ekki viss um að hann þurfi þess með.

Annars gekk þetta mjög vel! Þetta var svona allskonar dulítið vesen en ekkert hrikalegt. Það sem skipti mestu máli var að ná réttu magni, sem ég gerði, og að OG væri á réttum stað, sem það var. 1,084 takk fyrir, þetta verður gaman að sjá. Reikna með FG 1,020. Nýtnin var svona sirka 67%, sem ég held að sé ekki svo slæmt fyrir þetta stóran bjór. Ég reiknaði með 60% til að vera öruggur, þannig að amk. á þann kant gekk þetta fínt.


 (Myndin sýnir 1,082 en ekki 84, en þar er ég búinn að leiðrétta m/v hitastig.)

Hann er kominn af stað inní geymslu. 2 pakkar af S-04 (átti víst að vera US-05 en ég átti þetta til) og ég þarf að reyna að halda honum dálítið köldum. Það er alltof gott veður fyrir þetta dót.

-b.

13 júní 2012

Fyrst núna

Jei, ég valdi nýtt standard lúkk af blogger.

Nú mega jólin koma.

-b.

05 júní 2012

Hérna, það er búið að loka á HI heimasvæðið mitt og ég man ekki hvernig .css skráin leit út. Þannig að þetta er ósköp litlaust þessa dagana. Kannske er það bara ágætt. Eða ég gæti prófað að finna eitthvað lúkk af lager. Nema ég var eitthvað búinn að fikta í blogger-templatinu líka. Hér er moli: Það var hætt að jarða fólk í Fógetagarðinum í lok ársins 1838. Það eru næstum því tvö hundruð ár síðan. Samt er ennþá reimt þar, úúúú. Þetta síðasta var ekki hluti af fróðleiksmolanum, heldur bara ályktun sem ég dreg af áralangri reynslu. -b.

23 mars 2012

Orð stóðu

Við Nanna fórum á Orð skulu standa í gærkvöld, í Þjóðleikhússkjallaranum. Það var mjög gaman. Skemmtileg stemning, einn lítill, bjór, krossgátuþrautir og kveðskapur og svona.

Í byrjun kvöldsins gaf stjórnandinn fyrri part:

Elskulega kæra króna,
við komumst ekki af án þín.


Ég man ekki hvað keppendurnir gerðu við þetta nákvæmlega, annað en að Guðmundur og Valgeir áttu einn, kannske tvo góða botna hvor en stilltu sig þó ekki um að lesa færri en fimm á mann.

Hér er það sem ég barði saman:

Elskulega kæra króna,
við komumst ekki af án þín.
Þú klyfjabykkja kaldra dóna
– kóna sem að sárir góna
austur e ess bé til zóna –
en auðnast ekki evran fín.

Þetta fer í þar-þar-þarnæstu ljóðabókina mína: Vísur hvorki tækar né færar.

21 mars 2012

Sally Fields bjargar jólunum

Mér finnst eins og Brothers and Sisters sé alltaf í sjónvarpinu. Þetta er vegna þess að það er á dagskrá þau kvöld sem ég kem seint heim úr vinnunni og Nanna er inní stofu að horfa á sjónvarpið. Önnur kvöld er ekki kveikt á sjónvarpinu þegar ég kem heim, og svo fer ég að gera eitthvað annað.

Það er ekki svo langt síðan mér fannst Ugly Betty alltaf vera í sjónvarpinu. Sennilega var ég á öðrum kvöldvöktum þá? Eða eru þeir kannske ekki í gangi lengur?

Jæja.

Brothers and Sisters var semsagt í sjónvarpinu um daginn þegar ég kom heim. Það var jólaþáttur. Og þar sem þetta var jólaþáttur þá voru þau að stæla A Christmas Carol. Mamman fer eitthvað í burtu með kærastanum sínum í staðinn fyrir að halda jólin með börnunum. Börnin rífast um það hvert þeirra fær að halda jólin "einsog mamma" og það er fyndið af því að annað þeirra er kona og hitt er hommi. (Þriðja er einhver gaur þannig að honum er alveg sama.) Mamman fær móral yfir því að börnin fái ekkert að éta o.s.frv. en lendir síðan á þeirri skoðun að hún hefði átt að kúpla sig útúr lífi þeirra fyrir löngu síðan. Svo dreymir hana Christmas Carol-drauminn sinn. Hann er svona:

Draumurinn sýnir það hvernig börnin hennar myndu vera í dag, ef hennar hefði ekki notið við. Stelpan sem annars er þvengmjór pólitíkus er í draumnum síétandi sófabarn sem muldrar oní bringuna á sér. Homminn er enn í skápnum, með konu og tvö börn, en káfar á viðhaldinu inní eldhúsi. Gaurinn er stefnulaus bytta og kvennabósi. Þau hata öll mömmu sína, sem flúði til Flórída (eða eitthvað) fyrir löngu síðan, og eru í miklu betra sambandi við stjúpmömmu sína. Svo halda þau jólaboð þar sem mamman, hún sjálf, ætlar að mæta, og þau ætla að drepa hana.

Þannig að þau eru morðingjar oní allt saman.

Þetta er allt dálítið yfirdrifið og húmorískt, þátturinn spilar það upp. En hádramatíkin er alltaf til staðar, ó hvað það er erfitt að vera manneskja.

En það er eitthvað rotið við þessa sýn: Mamman sér þarna hversu miklu máli hún skiptir í lífi barnanna sinna, jólakraftaverkið hennar er að hún sannfærir sjálfa sig (í draumi) um að hún hafi ekkert nema jákvæð áhrif á fólkið í kringum sig. En ekki nóg með það, heldur sér hún (hugsar hún, trúir hún) að ef hennar nyti ekki við þá myndi veröldin meira og minna hrynja til grunna. -- Vegna þess að veröld þáttanna er þessi tiltekna fjölskylda. Og eins og áhorfandinn fylgist með þeim frá viku til viku er mamman þarna hlutverki áhorfandans, þar sem hún fylgist með börnunum sínum frá stofu í stofu án þess að þau taki eftir henni.

Semsagt: Skilrúmið á milli fullkomnu fjölskyldunnar annarsvegar, sem Brothers and Sisters sýnir í hverri viku, og klikkuðu fjölskyldunnar hinsvegar, sem einkennist af sundrung, ýmisskonar fíkn og misnotkun, leyndarmálum, hatri, ofbeldi og morðtilræðum, er mamman. Það er að segja áhorfandinn, ég. Ef mín nyti ekki við þá væri mín fjölskylda einsog hyskið á forsíðu DV.

Kannske er þetta meira og minna það sem Capra segir í It's a Wonderful Life, en það er á stærri skala, það er (finnst mér) meiri eða sannari ljómi yfir því að vilja hysja bæjarfélagið upp úr svaðinu heldur en að líta á sjálfan sig sem bjargvætt fjölskyldunnar. -- Fyrir nú utan það að engillinn er sannarlega til í veruleika myndarinnar, á meðan draumur mömmunnar í Brothers and Sisters er ímyndun sem kemur til af sektar- og minnimáttarkend.

Fyrir nú utan það: jólaþáttur um miðjan mars. Hvað á það að þýða? Er ekki hægt að bíða með hann þar til í júní einsog í gamla daga?

-b.

20 mars 2012

Ég var búinn að gleyma þér

Ekki lengi. En samt alveg. Ekki bara smá.

Að gleyma smá. Speisað!

En ég er semsagt búinn að vera slappur og orkulaus í nærri mánuð, sennilega mest líklegast útaf vírus sem Nanna var með á undan mér. Ég hef ekkert getað reynt á mig án þess að gefast strax upp.

Kollegi minn í vinnunni spurði mig hvernig þetta lýsti sér, ég sagði að þetta væri alls ekki einsog að verða þreyttur eftir átak, heldur einsog að vera ekki alveg vaknaður. Þarna þegar maður er að fara á fætur og er ekki kominn með kraft í útlimina ennþá, vaknaður af svefni. Tilfinningin er ekki svo sterk, en hún er meira í ætt við það en annað. Máttleysi.

Og svo heldur maður að maður sé bara ekki búinn að borða nóg, en svo verður maður enn þreyttari af því að borða.. Sem er furðulegt útaf fyrir sig. Að meltingin geri mann örendan.

Eitthvert skiptið var ég að tala við Hall í síma og hann spurði mig hvað væri að gerast, ég sagðist vera með kvef, og hann stoppaði mig af. Nei nei nei nei, sagði hann, við erum ekki orðnir gamlir karlar sem hringjast á og tala um það hvað þeir eru veikir. Þannig að við fórum að tala um annað.

Nú sit ég fyrir framan internetið og tala um það í staðinn. Röflið vill út!

Á morgun fer ég í viðtal hjá Víðsjá til að tala um myndasögusamkeppnina.

Í gær var ég í vondu skapi og fór að fara í gegnum gamla pappíra og drasl, sortera, henda, geyma. Það væri færsla útaf fyrir sig, eða nokkrar. Þar á meðal var dagblað sem ég mundi ekki eftir, eða skildi ekki afhverju ég hafði viljað geyma. Aftarlega í því fann ég mynd af okkur Agli og Ými á Halló Akureyri 1999. Við erum ungir. Rosalega ungir.

Á netinu finn ég 'blaðaklippu' frá því þegar ég var aðeins eldri, að ausa vatni yfir busa. Er ég með augnskugga?

-b.

06 mars 2012

Topp fimm atburðir sem ég missti af þar sem ég lá veikur heima alla síðustu viku og þar til í dag

- Keiluspil ásamt vinum þarsíðustu helgi.

- Námskeið í verkefnastjórnun hér í vinnunni.

- Bjórhátíð á Kex, fimmtudag til laugardag síðastliðinn.

- Ráðstefna um rafbækur í gær, mánudag.

- Síðasta helgi yfirhöfuð.

-b.

28 febrúar 2012

Þrátt fyrir helgi og það allt

Ég fékk hugmynd um daginn, brotabrot af hugmynd. Opnun á einhverju sem ég myndi svo þurfa að þróa áfram, en það gerist jú ekki nema maður geri það. Ég stóð í sturtunni og var að hugsa um eitt og annað. Ég hafði nýlega séð myndband í símanum mínum, af samræðum sem ég mundi ekki eftir. Þar vorum við Davíð, Hallur og Víðir að tala um nýlega skáldsögu eftir höfund sem ég ætla ekki að nefna því ég vil ekki að það komi upp í gúgúl-leit. En bókin hefur að gera með mat og það að breyta umhverfinu í mat, að næra sig og þjóðina á landsins gæðum. Falleg bók. Ég las hana fyrir jólin en fann einhvernveginn ekki leið til að koma mér inní skrif um hana. Jæja, allavega. Í þessu myndbandi erum við að kokka upp atlögu að þessari bók. Og í lokin dreg ég mína bjórvaxta meiningu saman í þessu: "Þannig að: Matur, lundar, Davíð."

Þetta síðasta var grín: Ég myndi sennilega ekki nota Davíð sem persónu í umfjöllun um bókina. En það sem ég röflaði um lundana og matinn, þarna í Nýlenduverzluninni eitthvert kvöldið, fannst mér að gæti gengið.

Ég hafði semsagt nýséð þetta vídjó, og mín eigin ræða hafði komið mér á óvart því ég hafði ekki heyrt hana áður, í mínum huga var hún týnd í drykkju. Þannig má segja að ég hafi sjálfur sett bókina í ákveðið samhengi fyrir sjálfan mig, sem mér hafði þar til ekki dottið í hug. Eða atlöguna að þessu samhengi, öllu heldur. En já, ég hafði nýséð þetta vídjó.

Auk þess hafði ég nýverið rekist á sjálfan höfund bókarinnar. Við erum ekki málkunnugir en ég hafði séð hann í ríkinu. Það var á laugardegi rétt fyrir lokun, í Austurstrætinu, og hann hafði komið inn um það leyti sem ég valdi mér stæði í röð. En raðirnar riðluðust til og gengu mishægt og runnu saman, það endaði þannig að hann lenti á eftir mér í röð. Ég var með einhverja bjóra -- ég var einmitt á leiðinni í annað nokkurskonar geim ásamt Davíð, Víði og Halli, auk annarra -- og hann var með tvo pela að mig minnir, eða kannske einn pela og litla rauðvínsflösku, eitthvað svoleiðis. Nú fara allir í ríkið, það er ekkert sérstakt við það að rekast á mann í ríkinu, en þarsíðasta bókin sem hann sendi frá sér var flæðandi í áfengi. Botnlaust fyllerí endanna á milli. Og það sem ég hef séð af bókinni þar á undan bendir til þess að áfengi skipi þar stóran sess, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Af sjálfum mér, þar sem ég fletti í gegnum hana þarna eitt skiptið.

En þarna varð til einhver mynd af rithöfundinum í höfðinu á mér, þar sem hann stóð á einhvern hátt fyrir drykk eða drykkju. Ekki hann sjálfur í eigin lífi heldur hann sem lesa má úr textunum sem hann lætur frá sér. Og þar sem ég stóð í sturtunni rifjaðist myndbandið upp fyrir mér, þar sem ég sjálfur (í þriðju persónu) lýsi bókinni sem hugleiðingu um mat, eldamennsku, það að neyta og vera til á jörðinni, með öðrum orðum sköpun með aðstoð matreiðslu og átu. Neyslu. Allt í einu finnst mér eins og ég sjái einhvern þráð þarna á milli þessara tveggja verka, sem eru annars um það bil eins ólík og hægt er að hugsa sér. Í því liggur þetta brotabrot af hugmynd, að tengja þessar bækur saman á þennan máta. Sennilega án þess að rekja allt þetta framangreinda, þess vegna geri ég það hér.

Neysla á jákvæðan máta, eins og ég segi, á skapandi máta að einhverju leyti. Drykkjan í fyrri bókinni er eyðileggjandi en það er vegna þess að sumar persónur nota hana þannig, á meðan aðrar gera það ekki. Hann er að skoða sóknina í mat og drykk, og með öfugum formerkjum í síðari bókinni miðað við þá fyrri: Þar er neyslan alvarlegum takmörkum háð: það er ekki til nóg af mat og drykk á landinu. Hið stóra ævintýri bókarinnar er að sýna fram á gnóttina sem fer framhjá landanum, að koma auga á veisluna sem deyr annars úr dauða og myglu og rennur í hafið.

Fyrri bókin, sem snertir oggupons á Hruninu, hefur e.t.v. eitthvað að segja um ofsókn í landsins gæði, en kannske er punkturinn sá sami þegar allt kemur til alls, þ.e.a.s. nýtni. Gleðin og hamingjan sem felst í því að nýta og neyta. Frekar en að sóa eða misnota. Eða ofnota.

(Sem á rétt á sér líka, stundum.)

..ég á erfitt með að setja 'neyslu' í jákvætt samhengi, en ég held að honum takist það ágætlega.

Þannig að ég stend í sturtunni og mér dettur þetta í hug: "Ég stóð í röð fyrir framan rithöfund um daginn. Klukkan var korter í sex á laugardegi, þetta var í Ríkinu við Austurstræti og sjoppan var stöppuð af hófsömum neytendum að sækja eina rauðvín með kvöldmatnum."

Og svo heldur maður bara áfram.

-b.

20 febrúar 2012

Og svo eru pítsur

Hérna er uppskrift að pítsusósu sem ég rakst á um daginn.

1 dós af niðursoðnum tómötum
2 msk tómatpúrra
1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
2 tsk timian, þurrkað
2 tsk oregano, þurrkað
2 tsk basil, þurrkað
1 tsk salt
1/2 tsk pipar

Tómatarnir maukaðir í blandara eða þvíumlíkt, restin hrærð samanvið.

Ég prófaði þetta núna áðan og hún var nokkuð góð. Ekkert eitthvað svakalegt en samt eitthvað sem mig langar að halda áfram að gera. Hingað til hef ég keypt tilbúnar niðursoðnar pastasósur (pítsusósurnar sem eru seldar sem slíkar eru verri en ekkert), en þær sem mér finnst skástar eru seldar í það stórum pakkningum að ég á alltaf nóg á þrjár pítsur. Frysti þá rest í tveimur boxum. Sem er fínt. En með þessari uppskrift er ég bara með nóg á tvær pítsur, þá þarf ég að frysta minna. Heimilisráð!

Pítsugerðin hefur breyst talsvert hjá mér nýverið. Ég fékk pítsustein í afmælisgjöf og fór að fikta við hann. Þá varð algert möst að nota durum-hveiti með, því venjulega hveitið sauð bara í mauk á milli botnsins og steinsins. Með steininum varð eiginlega stökkbreyting í pítsunni, hún er heeelvíti góð.

Versta tilraun sem ég hef gert í seinni tíð var með gerlaust pítsudeig, sem innihélt bjór í stað vatns. Það var ógeðslegt og ég henti henni.

Það er til endalaust af greinum á netinu um það að búa til hina fullkomnu pítsu. Megnið af þessu liði notast við sama deig og ég, eða nánast það sama. Aðalatriðið virðist vera hitastigið, að geta haldið miklum og jöfnum hita á pítsunni, hvort sem maður er með þartilgerðan ofn, hitar á steini eða jafnvel forhitaðri pönnu. Þannig að steinninn er mikill plús.

Ég er að drekka vatn.

Og lesa í bók.

Í dag var frí.

-b.

18 febrúar 2012

Bjóreiðar

Sumarið 2007, síðsumarið 2007, var 'sumar pilsners og hjólreiða'. Þá bjó ég í íbúð sem Helgi tvíburi var enn með á leigu en ekki að nota, á Stúdentagörðum, ég vann á Ægisíðunni og frístundunum eyddi ég í miðbænum. Ég hjólaði allt sem ég fór. Fyrst á 'Græna demantinum', litlu grænu hjóli af Diamond-gerð (ég man ekki vörumerkið) sem maður að nafni Hjalti hafði gefið mér; og síðan á Mongoose Threshold hjólinu sem ég fékk gefins á Ægisíðunni. (Demanturinn var að detta í sundur og var auk þess heldur lítill fyrir mig, ég skildi hann eftir í hjólageymslunni á Stóra garði að lokum. Þröskuldinn nota ég ennþá.)

Ég hafði eitthvað hjólað áður en ég fór út til Kaupmannahafnar en það var ekki mikið. Mér fannst því að þetta sumar væri ég að enduruppgötva hjólreiðarnar sem samgöngumáta.

Vaktirnar á Ægisíðunni voru fáránlegar. Ég var að vinna tvær af hverjum þremur helgum. Það kom því fyrir oftar en einu sinni að ég komst á snoðir um einhvern gleðskap á meðan ég var á kvöldvakt á föstudegi eða laugardegi, og langaði að kíkja en hafði ekki tök á að fara í ríkið. Þá lét ég mér nægja að taka með mér nokkra léttbjóra úr sjoppunni, eitthvað svipað því kannske og að naga blýant í stað þess að kveikja í sígarettu.. En mér fór að þykja pilsnerinn góður. Eða hann hætti a.m.k. að vera hlægilegur í mínum huga. Kannske ekki síst vegna þess að ég var þá hættur að drekka gos, en ég man reyndar ekki hversu nýskeð það var.

Þannig að eitthvert skiptið renndi ég niður á Austurvöll að hitta Inga Björn eða Frikka eða Davíð, með þrjá ískalda pilsnera í poka eftir morgunvakt, og ég áttaði mig á því (sem hljómar betur en að ég hafi ákveðið að mér þætti það sniðugt) að þetta væri sumar pilsners og hjólreiða.

Pilsner á Austurvelli, í partíi á Bergþórugötu, á ljóðahátíð Nýhils eða bara uppí dívan.

Tæpum fimm árum seinna snýst ennþá heilmikið um bjór og hjólreiðar. Í gær (ég byrjaði að skrifa þetta á laugardag) sótti ég hjólið mitt úr viðgerð og betrumbótum. Nýjar bremsur (v-bremsur, sem ég hef ekki notað áður), nýir bremsuarmar, nýir vírar í allt; hnakkurinn lagaður og festingin fyrir luktina; og nýr og stöndugur bögglaberi festur oná allt saman. Það stóð til að kaupa tösku til að festa á þennan bögglabera en það verður að bíða betri tíma - bíllinn var líka að koma úr viðgerð og LÍN ber á dyrnar. En jeminn hvað það er gott að hjóla á svona nýyfirförnu. Svo er ég á leiðinni niður Breiðholtsbrekkuna núna í hádeginu þegar festingin fyrir afturbrettið, plaststykki sem skrúfast í boddíið, smellur í sundur. Armarnir slást utaní pílárana og tómt vesen. Ég þurfti að beygja þá alveg út á hlið og hjóla restina með brettið utaní afturdekkinu.

Þannig að það þarf að laga það. Sennilega þarf að skipta um tannhjól að framanverðu líka, keðjan helst varla á því.. ég var að vona að það hefði bara verið slakinn í vírnum, en svo virðist ekki vera. En þegar það er búið! Þá! Þá verður nú gaman.

Og á föstudag setti ég hafra porter á flösku. 20 lítrar. Þar með hef ég farið í gegnum ferlið þrisvar sinnum, maður má fara að kalla sig byrjanda. Ég kann þetta orðið nógu vel til að búa til tékklista til að fara eftir, sem er ekki ónýtt. Hann smakkaðist alveg ágætlega, greinilega dökkur og sætur, ekki of sterkur. FG alveg 1,018 samt, það hefði alveg mátt fara aðeins neðar. Bíðum í nokkrar vikur og sjáum til.

Annars á ég pilsner inní ísskáp.

-b.

16 febrúar 2012

Eitt enn

Ég mundi allt í einu eftir þessu.

Fyrir svona þremur, fjórum vikum síðan var ég að hjóla niður í Ögurhvarf. Það var ennþá hellingur af snjó og færðin allt í lagi en ekkert sérstaklega góð. Ég samt á nöglum. Ég hjóla niður að brú og kem að bekknum sem er þarna hálfa leiðina niður. Þar situr maður, úti að viðra hundinn, sem stendur á stígnum. Þegar ég nálgast fer hundurinn að gelta og ég sé að hann er laus.

Bara þetta, að fólk skuli láta hundana sína ganga lausa, fer meira en lítið í taugarnar á mér. Þetta er fyrir það fyrsta bannað með lögum (nema á tilteknum svæðum innan Reykjavíkur og þar er Elliðaárdalurinn ekki með talinn) en auk þess svo mikil vanvirðing við alla þá sem deila götunni eða gangstéttinni með viðkomandi, og hafa ekki áhuga á að fá upp um sig ókunnugan hund.

Jæja. Ég gef í frekar en hitt, hundurinn heldur áfram að gelta. Maðurinn verður mín var og hrekkur við, ég horfi á hann þegar ég renn fram hjá og spyr hvort hann 'sé að grínast'. Ekkert ofboðslega frumlegt, og ekki sérlega dannað heldur. En ég var á ferðinni niður brekkuna og langaði ekki að staldra við hjá þessum hundi. En svipurinn á manninum varð til þess að mér leið hálfilla á eftir. Hann hafði svo auðsjáanlega ekki gert ráð fyrir því að neinn kæmi þarna aðvífandi, eða nokkur yfirhöfuð í þessari færð, hefði e.t.v. hamið hundinn ef hann hefði orðið einhvers var, ég veit það ekki. Í öllu falli fannst mér ég sjá á honum að þetta kæmi illa við hann.

Mér varð hugsað til þessa nokkrum sinnum síðan, ekki síst vegna þess að maðurinn býr hérna í hverfinu og ég hef séð honum bregða fyrir.

Fyrir viku síðan var ég á leiðinni í strætó, aftur er laugardagur, og ég sé manninn á gangi með hundinn. Ég mæti honum ekki, en mig hálflangar til að staldra við og biðja hann afsökunar á því að hafa hreytt svona í hann þá um daginn. Nú fer ég að gera þessum manni upp einhverjar meiningar, en það gæti allt eins verið að þeir séu tveir einir á báti og að hann leyfi hundinum sínum að komast upp með ýmislegt sem hann ætti ekki að gera, vegna þess að honum þykir vænt um hann. Auk þess er það hálfvitaskapur að hreyta einhverju (sama hversu geldu og tilgangslausu) í fólk þar sem maður brunar framhjá því. Líklega getur það átt rétt á sér í einhverjum tilvikum en sennilega ekki þarna. Hugsa ég.

En ég vík mér auðvitað ekki að honum, ég held áfram í strætó.

Í gær er ég svo á leiðinni heim (í þetta sinnið úr strætó) og ég mæti manninum með hundinn í Suðurfellinu. Nú gef ég mér að þar sem ég er hvorki á hjóli né í hjólagallanum þá þekki hann mig ekki fyrir sama fólið, ef svo vill til hann muni yfirhöfuð eftir mér síðan í dalnum. (Sennilega ekki, en hvað veit maður.) Nú er ég nokkurnveginn búinn að loka þessu máli fyrir sjálfan mig en mér líður ennþá dálítið illa yfir því sem ég gerði. En áður en ég fatta það almennilega að þarna sé sami maðurinn á ferð, þá fer hundurinn að gelta á mig. Maðurinn togar hann nær sér og lætur frekar ræfilslega en hundurinn heldur áfram. Við mætumst og ég er allt í einu kominn á sama stað og í dalnum, skil hreinlega ekki hvað þessi maður er að gera með þennan hund. Ég horfi ekki framan í hann, greikka sporið og set upp einhverskonar vandlætingarsvip.

Sem er það aumingjalegasta, mesta heigulshæli sem maður getur sveipað um sig, að stilla upp einhverri vanþóknun án þess að horfa á viðkomandi eða segja orð. En þetta geri ég. Ég er svo ekki kominn lengra en að næstu gatnamótum þegar ég fatta hvað ég er að gera, og hvernig ég er að endurtaka sjálfan mig síðan úr dalnum. Hversu mikið þarf ég að leggja á mig til að brosa og bjóða góða kvöldið, svo að manninum líði ekki illa útí á gangstétt með hundinn sinn? -- sem hann kann kannske ekki að siða en hefur þrátt fyrir allt stjórn á. Það er ekki eins og ég sé hræddur við þennan hund, eða hunda almennt. Ég er allt í einu orðinn fastur í þessari ákveðnu viðbragðsstöðu gagnvart öllum þeim sem veita hundunum sínum of mikið frelsi, og ég gleymi því að ég get líka slappað af og hagað mér eins og maður. Það er að segja: í vandlætingu minni gagnvart þeim sem mér finnst sýna grönnum sínum vanvirðingu, sýni ég þessum tiltekna manni síst minni vanvirðingu.

Þetta viðbragð er náttúrulega komið af því að þorri þeirra, sem kunna ekki að fara með hunda, er skítsama hvaða áhrif lausagangur og botnlaust gelt hafa á fólkið í kring. En ég þekki líka þær týpur og ég sé að það er ekki tilfellið hér. Og það sem meira er, ég sé það og ber kennsl á það á meðan ég læt eins og fífl. Þarna er kominn maður sem þykir vænt um hundinn sinn og gerir sér grein fyrir því að þegar hann geltir á fólk þá geti það verið óþægilegt, svo hann reynir að sýna að hann hafi stjórn á honum. Ekki ætlast ég til þess að hann hætti að ganga með hundinn sinn í Breiðholtinu? Nei, ég æpi bara og sný upp á nefið. Og nú líður mér eins og hálfvita. Mátulega.

-b.

Í vinnslu

Ljóðaslammið var haldið á föstudaginn, ég tók allt saman upp. Í gær setti ég upptökurnar af fyrstu þremur sætunum á vefinn. Það er ekkert ofboðslega langur tími sem líður þarna á milli, ekki miðað við fyrri ár.

Nú skrifaði ég reiðinnar býsn um vandamálin sem hafa skapast í kringum þetta síðustu ár, en sennilega kemur það ekki umheiminum við, svo ég stroka það aftur út. Sorrí, umheimur.

Almennt séð þá höfum við reynt ýmsar leiðir í þessu hingað til og það hefur aldrei gengið alveg nógu vel. Nú er þetta í fyrsta sinn gert algerlega innanhúss. Við eigum vélina, ég sé sjálfur um upptöku, vinnslu og dreifingu. Hljóðið er tekið beint inn á vélina. Og við erum bara með eina vél, sem þýðir að vinnslan kallar ekki á neinar klippingar fram og til baka. Reyndar er framsetningin ósköp mínímalísk, í flestum tilfellum er fókusinn á keppandanum eða keppendunum allan tímann, órofið. Mér líst vel á það, það er ákveðinn veruleiki í því sem endurspeglar upplifunina af keppninni sjálfri.

Við Canon og ffmpeg ráðum við það.

Hinsvegar er dálítið leitt að við getum ekki hýst upptökurnar sjálf, heldur vörpum þeim út í heim svo fólk hér geti sótt þær þangað. Það væri náttúrulega ekkert mál að hlaða þessu upp á vefþjóna borgarinnar -- og ég kem sjálfsagt til með að dreifa þessu til keppendanna með því móti -- en til þess að geta fellt afspilunina inn í vefina svipað og hægt er að gera með YouTube (eða Vimeo, en það er ástæða fyrir því afhverju við notum það ekki frekar) þá þarf að vera gert ráð fyrir því, það þarf að vera einhver fídus til þess að birta upptökurnar. Je minn eini þetta er hundleiðinlegt, af hverju í ósköpunum er ég að röfla um þetta.

Hugsandi upphátt. Á skjá.

Eníhú. Þetta er eitthvað sem kemur til með að verða fyrirferðameira hérna hugsa ég, og eitthvað sem ég þarf að læra betur.

Heyrirðu það, ég?

-b.

11 febrúar 2012

Farsímaprufa

Ég sit á Laundromat. Kíkti í ríkið hérna á móti og langaði í eitthvað í svanginn. Svanga magann þ.e.a.s. Svanginn? Um svangann o.s.frv. væntanlega. Vtnl.

En ég borðaði eitthvað og datt í hug að skrifa hér á htc lyklaborðið. Það sem ég pantaði var kúbönsk samloka og Úlfur, nema að Úlfurinn var ekki til. Mér var boðinn Bjartur eða Surtur í staðinn. Svartur eða offwhite í staðinn fyrir grænan? Kannske er það ósanngjörn samlíking. Í öllu falli fékk ég ekki humlana mína, en það var í góðu þegar allt kom til alls því þetta kúbanska var síður en svo bragðsterkt. Hvítur Erdinger var fínn í þetta.

Meira en lítið uppgefinn eftir vikuna. Hún endaði semsagt í 14 tíma manískum föstudegi og ég með grjót í mjóbakinu, en allt gekk vel, svo það var mikill léttir. Konjak með dómnefndinni í lok kvöldsins linaði ýmislegt...

Í kvöld verður þrennskonar samanburður í gangi: Surtur og Lava; Gæðingur þorrabjór og Móri; 8 vikna Bee Cave og 1 viku Bee Cave. Ég er allavega spenntur.

Ég er enn á Laundromat og bakpokinn er þungur af bjór, kannske ráð að leggja á Laugaveginn. Upp, upp, upp, upp, alla leið á hlemm!

-b.

10 febrúar 2012

Þetta kemur allt, föstudagur

Jæja þar fór sú hugmynd. Eða nei, hugmyndin er ennþá á lífi, en eftirfylgnina vantaði. Hei það var mikið að gera í gær. Bætir það eitthvað fyrir að ég hafði aldrei orðað hugmyndina sérstaklega? Má ég segja að loforð sem aldrei er nefnt sé ekki hægt að svíkja?

Æ hverjum er ekki sama um loforð. Á netinu í það minnsta. Frá fólki sem maður þekkir ekki. Fyrir langa langa löngu síðan?

Núna er semsagt allt að nálgast suðupunkt hérna í vinnunni. Keppnin er að fara af stað eftir rúma tvo tíma, prufurnar eftir tæpan klukkutíma. Það er ekki svo ýkja margt sem þarf að gerast áður en þær hefjast. Ég held að við séum nokkuð seif.

Eins og Páll Óskar.

Talandi um tónlist. Núna heyri ég sömu línurnar úr Pixies laginu þarna aftur og aftur. I can see this lady, it is shady, I am leaving tomorrow tomorrow tomorrow. Þetta hlýtur að vera Surfer Rosa? Ég hef ekki heyrt þessa plötu í háa herrans tíð. Hvar varst þú úti að svalla í nótt, undirmeðvitund?

Annars leiðist mér Surfer Rosa. Maður þarf allavega að vera mjög akkúrat stemmdur til að hafa gaman af henni. (Stemning / stemndur? Það gengur ekki?) Neibb, ég fíla Doolittle best. Ég man eftir einhverju viðtali við Kidda (?) í Hljómalind eða Kanínunni eða hvað þetta hét alltsaman, þar sem hann var að rifja upp þegar hann heyrði Smells Like Teen Spirit. Til þess að setja söguna í samhengi talaði hann aðeins um það hvernig liðið á Tunglinu (?) var geðveikt að fíla Pixies en svo hafði Doolittle komið út og þá fíluðu þá allir, og þá var það ekkert gaman lengur.

Hipsterar.

Ég held hann hafi verið að tala um Tunglið. Var það ekki eini skemmtistaðurinn á jarðríki fyrir fimmtán árum síðan? Einhverntíman sat ég slasaður á heilsugæslustöð á Hvolsvelli og las í endemis gömlu Mannlífsblaði grein um Tunglið og 'íbúa' þess. Þetta hefði allt eins getað verið fyrir þrjátíu árum síðan, mín vegna. Ég minntist á þetta við kærustuna þegar ég kom til Reykjavíkur daginn eftir, þá hafði hún farið á Tunglið í denn. Fljótt að gerast. Og stelpur, þær eru svo bráðþroska!

!

Svo brann það eða eitthvað. Sennilega var það fínt, allir hættir að fíla Pixies. Tími til kominn að einkavæða allskonar.

-b.

08 febrúar 2012

Nítján hundruð sjötíu og níu

Ég er með sömu lögin á heilanum og allir aðrir. Það er eins og það á að vera; við erum manneskjur úr sömu kolefnisatómum og sama þjóðfélagsgrunni, meira og minna. Ég velti því samt fyrir mér hvort lögin staldri lengur við hjá mér en öðrum, þar sem ég er latur neytandi tónlistar. (Eða njótandi tónlistar? Nei, sennilega nýt ég þess alveg eins mikið og aðrir að neyta tónlistar, ég bara neyti ekki sama magns.) Lag sem ómar í dag dúkkar sennilega upp aftur á morgun, og þess vegna daginn þar á eftir, vegna þess að það kemur ósköp lítið til að hrinda því úr sessi.

Þetta er hanaslagurinn í höfðinu.

Það var það fyrsta sem mér datt í hug en líkingin er skemmtileg vegna þess að það er einmitt bara eitt í gangi í einu. Hversu svakalegur njót-neytandi sem maður er, þá eru varla nokkurntíman fleiri en eitt lag í gangi í einu höfði á sama tíma? Út frá minni eigin reynslu er það ómögulegt. - Reyndar eins og svo margt annað.

En hanaslagurinn semsagt. Það er auðveldara að standa í hásætinu í lengri tíma, raula og hafa það kósí þegar áskorendurnir eru færri. Ef maður hlustar lítið á músík þá hangir sama lagið kannske í manni í fleiri, fleiri frímínútur. Og það að maður sé á toppnum segir þá ennþá minna um það hvað maður sé góður slagari.

Um daginn fékk ég lagið '1979' á hausinn. Það er með Smashing Pumpkins, af plötunni Mellon Collie and the Infinite Sadness. (Titill plötunnar sýnir, bæ ðe bæ, að Corgan hafi haft miklu meiri húmor fyrir sinni eigin svartsýni og þunglyndi heldur en textarnir hans gefa til kynna. 'Depurðin endalausa' er nógu absúrd yrðing í sjálfri sér, en þarna verður hún eins og hluti af plotti í barnabók, eitthvað sem rekur áfram ærslafulla leit en skiptir engu máli í neinu stærra samhengi: Hin fjögur fræknu og Hvíthattaklíkan, Ástríkur og grautarpotturinn.. Og melankólían sjálf er þá aðalpersónan, persónugerð í melónu-voffa. Titillinn í heild er svo náttúrulega tvítekning, sem er með einfaldari leiðum til að blikka áhorfandann: 'Depurðin og depurðin endalausa'. Aftur og að eilífu, ó við erum svo döpur. Þetta minnir mig að nokkru leyti á Smiths, sem fara samt öfuga leið: textarnir gera grín að sjálfum sér en titlar platnanna eru háalvarlegir.)

En já, '1979'. Það sem ég var með í höfðinu, þegar ég fattaði að það var þarna, var melódía úr þessu lagi. Ég las einhverstaðar myndbandinu lýst svo að það væri 'pure, unfiltered nostalgia' og það er sennilega ekki hægt að orða það betur. Þarna er Corgan að syngja um það hvað það var gaman í den, þegar hann var ungur. Það er meira en lítil kátína og lífsgleði í þessu lagi, hann minnist að vísu á það að beinin þeirra vina hans fari oní jörðina að þeim látnum en þó aðallega til að sýna fram á að honum sé sléttsama akkúrat núna. Eða þá, öllu heldur.

'Þá' var semsagt árið 1979. Þegar Mellon Collie kemur út, árið 1995, eru sextán ár liðin. (Hvað ætli Corgan sé gamall þá? Ég neita að gá á Wikipediu. Sextán plús svona fimmtán, sextán, sautján samasem kannske 32? Gæti passað.) Hann teygir sig aftur í áttunda áratuginn, rétt svo, en leiðin er ekki óskaplega löng. Þetta rann upp fyrir mér (segi ég eins og ég hafi uppgötvað eitthvað merkilegt) þegar ég mundi hvaða ár er nú. Það eru semsagt sautján ár liðin frá því lagið kom út. Þrjátíu og þrjú ár frá því Corgan var ungur og sæll árið 1979, en það skiptir harla litlu máli. Heldur það að lagið sjálft, hljómarnir sem hanga í höfðinu á manni og textarnir sem rifjast upp ef maður sönglar, er orðið sautján ára gamalt. Það tengir mann afturábak, tengir mig afturábak, á svipaðan máta og það gerði fyrir Corgan áður.

Þáþráin elur af sér þáþrá, eða hún verður hluti af 'þá'-inu sem maður þráir. -- Ekki svo að skilja að ég þrái árið 1995. Þeir sem vilja vera þrettán ára aftur þurfa að hugsa sinn gang. En ég meina þetta á svona almennari máta.

Ég nefndi þetta við Nönnu og henni fannst það vægast sagt ekki merkilegt. Lög eldast, sagði hún og yppti öxlum. Það sem hankaði mig í þessu var samt það að tímabilið þarna á milli er jafn langt, en það virkar svo alls alls ekki þannig í tilfinningunni. Nítján hundruð sjötíu og níu? Það er óralangt síðan. En ég man 1995 eins og það hefði gerst fyrir örfáum árum síðan. Og svo framvegis. 'Þá'-ið var 1979, 'þá'-ið var 1995, 'þá'-ið var 2012.

Eða er 2012.

Er 2012?

-b.

07 febrúar 2012

Númer næsta

Mér dettur í hug að reyna þetta aftur, ég hlóð meira að segja niður Firefox viðbót til að prófa. Hérna er hún, hylur hálfan skjáinn.

Á netinu er talað um morðhótanir. Sennilega ætti maður ekki að telja með þetta þegar strákar segja hver við annan „ég drep þig“, það eru meinlausar ýkjur.. dálítið eins og þegar talað er um að einhver sé að „nauðga“ tilteknu lagi. Einhverstaðar skrifaði Siggi pönk hugvekju um það. En látum svoleiðis liggja á milli hluta.

Semsagt morðhótanir þegar einhver segist ætla að drepa þig, og þú hefur enga ástæðu til að ætla að þar sé um ýkjur eða myndhvörf að ræða.

Ég hef haft dálítið gaman af því, eftir á, að eina morðhótunin sem ég hef nokkurntíman fengið – sem fellur undir þessa skilgreiningu – hafi komið frá æstum aðdáanda Sigur Rósar. Ég var að vísu ekki eina andlag þessarar hótunar, það vorum við Már báðir. „Ég drep ykkur“ var það sem hann sagði blessaður. Kannske er það helsta sem situr eftir nokkurskonar nostalgísk minning um tíma þegar það tók því að rífast um Sigur Rós.

En morðhótunin sem kemur útúr nafnlausu tómi. Við Már slógum þessu upp strax í kjölfarið. Tilfinningin var ónotaleg en það var ekkert annað að gera en að búa til einhverja þekkjanlega stærð úr þessu. Ekki meðvitað held ég, sem taktík, en það eina sem okkur datt í hug að gera með græjurnar sem við vorum með í höndunum: að fagna því að við værum nú „gengnir í klúbbinn“, eins og Davíð kallar það.

Það hlýtur að vera ansi sorrí klúbbur. Breiður hópur af allskonar vitleysingum sem hafa einhverntíman sagt eitthvað sem einhverju vanstilltu símtóli mislíkaði. Og nær langt aftur í aldir sjálfsagt; hérna í gamla daga skrifaði fólk nú bréf. Eða ætli maður þurfi að endurnýja áskriftina með reglulegu millibili? Hugsa sér napurlegri mælikvarða á frægð.

Mér finnst einsog ég hafi ætlað að tala um eitthvað skemmtilegra. Ég skal gera það næst. Ekki drepa mig.

-b.

06 febrúar 2012

Númer 1334

Ég er ekki kominn aftur.

Ég er ekki kominn aftur.

Ég fór aldrei í burtu, en ég var samt ekki hér og ég verð ekki hér.

Það er betra að ræskja sig með því að segja nokkur orð upphátt, svipað því að lesa áletrunina á veggnum fyrir ofan dyrnar á hellinum: The way is shut...

Maður er ekki að festa sig í neitt, þannig séð. Það málar sig enginn inn í horn með aðfararorðum. Maður getur alltaf gangið á bak svoleiðis. Þau eru hluti af heildinni en stand um leið utanvið. Látum það vera til merkis um menntun mína og hugmyndaleysi að ég skuli undir eins vera kominn inn í einhverskonar staðlaða hugmynd um póstmódernisma. En þetta snýst ekki um mig!

Auðvitað snýst þetta um mig.

Það er ég sem er ekki kominn aftur.

Það að skrifa er leið til að hugsa um hlut. Með því að hætta að skrifa hættir maður ekki að hugsa en maður hugsar öðruvísi, maður hættir að hugsa á þann hátt. Ég dreg óhjákvæmilega hliðstæðu á milli þess og að hætta að hreyfa sig á ákveðinn máta. Ég get hjólað eins og ég vil en ef ég hætti að lyfta í eitt og hálft ár þá hætti ég að geta lyft. Af hverju vill maður lyfta?, spyr veröldin. Tjah. Svo maður hætti ekki að geta lyft..?

Það væri kannske ráð að gefa spyrjandanum einhverskonar identítet. Einhverra hluta vegna dettur mér „tjöldin“ í hug. Ég veit ekki neitt um Kundera en hann hefur eitthvað að segja um áhorfendur og þá sem velja sér áhorfendur. Eða er punkturinn sá að allir velji sér áhorfendur, bara á misjafna vegu, eða með misjöfnu markmiði?

Maður hættir ekki bara að hugsa um heiminn utanvið mann sjálfan heldur líka sína eigin ævi, svona eins og hún líður dag frá degi. Sennilega er stærsti áhrifavaldurinn að þessu slútti sá að ævin tekur meira pláss en áður. Það mætti kalla það kaldhæðni. Sennilega bara einföldun samt.

Köllum þetta alltsaman aðfararorð. Númer 1334; rétt að byrja.

-b.

01 janúar 2012

Best ársins 2011

[Birt 27. des 2017. Klippt og límt úr óminnisdjúpi facebook, þar sem ég birti þennan stuttorða lista í bútum í lok des 2011 / byrjun janúar 2012.]

SJÓNVARP

Game of Thrones

The Shadow Line

Louie

Black Mirror

KVIKMYNDIR

Black Swan

Source Code

Swan

Þrjár verstu: Hereafter, You, Me and Dupree, og Anamorph.

BÆKUR

Rafbók: The Last Ringbearer eftir Kirill Eskov

Erlenda skáldsagan: Jonathan Strange & Mr. Norrell eftir Susanna Clarke

Annað sæti: Underworld eftir Don DeLillo

Íslenska skáldverkið: Níu þjófalyklar eftir Hermann Stefánsson

MYNDASÖGUR

Stop Forgetting to Remember eftir Peter Kuper

Annað sæti: Pyongyang: A Journey in North Korea eftir Guy Delisle