29 desember 2008

Ég ætla ekki að segja upphátt að þar hafi komið vel á vondan

Þá vitum við hvaða lungu þú varst að sleikja Víðir..

-b.

Does compute?

Ég er búinn að vera einsog draugur í allan morgun. Var að koma úr hádegismat og er fyrst að skríða saman núna. Ég kvitta víst ekki undir það að kjúklingadúrúm lækni öll mein, en það hlýtur að lækna nokkur mein?

Svo er síðasta Testament bókin komin í plast niðrí aðfanga. Ég hlýt að renna mér í þann gaur.

Halló heimur!

-b.

Jólin í baksýn

Ég gat bara ekki sofnað í gær og vakti og vakti og núna er ég að vinna framá kvöld.

Ljósir punktar þessi jólin voru maturinn, góðar og praktískar jólagjafir handa mér og það að gjöfum frá mér var vel tekið. Svo tókum við strákarnir aðeins í spil, sem var gaman, og ég spilaði slatta af Magic við Óskar bróður.. í fyrsta sinn í langan tíma.

Hryllingurinn var hinsvegar sá að tölvan mín var fjarri góðu gamni og ég gat þessvegna ekki sónað mig útúr röflinu og rausinu og látunum á Heiðarveginum einsog venjulega.

Daginn fyrir Þorláksmessu sat ég við tölvuna og spjallaði við Helga tvíbura á msn, hann sendi mér tengil á eitthvað jólalag og ég var nýbyrjaður að spila það þegar ég teygði mig í vatnsflöskuna og sullaði vatni yfir lyklaborðið. Ég tók tölvuna úr sambandi, þurrkaði eins og ég gat og setti hana á hvolf. Daginn eftir kom ég heim úr vinnunni og kveikti á henni, hún virkaði fínt einsog vanter nema að lyklaborðið svaraði illa eða ekki neitt. Klukkan var orðin fjögur en ég keyrði undireins niður í Nýherja. Gæti ég fengið að prófa nýtt lyklaborð - ég gæti þessvegna skipt um það sjálfur á staðnum - og keypt það ef lyklaborðið væri eina vandamálið? Nei, ég þyrfti víst að kaupa það fyrst. Og líklega væri ráð að leyfa þeim að tékka á því hvort einhver bleyta hefði komist inní tölvuna sjálfa, bara til að vera viss.

Mér finnst kjánalegt að hugsa til þess en samt mjög rökrétt miðað við það hversu mikið ég nota gripinn: Að dauðsfalli eða alvarlegum slysum frátöldum þá var þetta það versta sem hefði getað gerst á Þorláksmessu. Fyrir mig. En gott og vel. Hún er semsé í viðgerð.

Þegar ég kom á Heiðarveginn greip ég í gömlu Thinkpad tölvuna hennar mömmu, sem hafði ekki verið notuð í einhvern tíma. Það var víst ekkert inná henni sem átti að halda uppá þannig að ég byrjaði að strauja hana - aðallega til að geta notað hana sjálfur þessa örfáu daga. En batteríið var hálfónýtt, og þegar uppsetningin á Windows var rétt að klárast hætti tölvan að taka inn rafmagn frá hleðslutækinu, batteríið tæmdist snarlega og tölvan slökkti á sér. Ég byrjaði uppá nýtt en það var sama sagan. Það virtist ekki vera hægt að setja upp Windows ef batteríið virkaði ekki í tíu mínútur eða svo.

Þannig að tölvan sem var ekki í notkun, en samt í lagi þannig séð, er nú ónothæf.

Og hin tölvan á heimilinu var full af einhverjum sora og gat ekki tengst netinu. Og var með DVD-drifið stillt á Reg.2.

Þegar ég kom heim í Mávahlíðina fékk ég hinsvegar aðeins að nota tölvuna hennar Ingibjargar, sem var óskup fallegt af henni.

Af þessu leiðir að ég er búinn að horfa á aðeins minna TNG og Deadwood en ella.

Ég las hinvegar hálft Algleymi og Nextwave: I Kick Your Face. Sú fyrrnefnda er helvíti spennandi og skemmtileg. Og Nextwave er eina bókin sem Ellis ætti að skrifa nokkurntíman, a.m.k. núna þegar hann er hættur að skrifa Planetary og Transmetropolitan. Rosagottstöff.

Í gær ætluðum við Ingibjörg að horfa á A History of Violence sem ég keypti í Kolaportinu um daginn, en diskurinn hökti einsog ég veit ekki hvað. Sást samt varla rispa á honum. Helvítis. Við horfðum á Drabet í staðinn sem var góð, dálítið langdregin undir lokin en reddaðist alveg í bláendann. Vel smíðuð. Smeið. Smeidd.

Bla.

-b.

19 desember 2008

Úr viðtali við Jason

Art is such a meaningless term. It's only when it comes to things that don't really have anything to do with the actual comics that it's a concern. Yes, comics are art, so that the state can give grants to cartoonists. Yes, it's art, so that libraries will put comics on their shelves. Yes, it's art, so that comics will be reviewed in newspapers. But when you're sitting with a comic in your hands, reading, is it art or not? Who cares?

18 desember 2008

Tíhí

BATAVIA, IL—In October, Fermilab scientists joined a growing number of physicists around the world in warning that the Very Large Earth Collider—a $117 billion electromagnetic particle accelerator built to study astronomical phenomena by colliding Earth into various heavenly bodies—could potentially destroy Earth when it sends the planet careening headlong into Mars, Jupiter, or even the sun.

Ég sem er allstaðar

Ég kom fyrir í mýflugumynd í innlit/útlit, þætti sem var sýndur einhverntíman um daginn. Þeim sjöunda í níundu þáttaröð. Sjáið hér, ég á rammann frá 4:16-21.

Á 'ann.

-b.

16 desember 2008

Myndugheit gærkvöldsins

Þegar maður bakar piparkökur þá tekur bakarinn fyrst fram steikarpottinn og 2x500gr af smjörlíki.

Svo sér hann að það er hvorki til hjartarsalt né hvítur pipar í húsinu, verður vonsvikinn í smástund en ákveður þá að baka engiferkökur í staðinn. En þá er ekki heldur til vog, og uppskriftin kallar á 500gr af hveiti og sama af púðursykri. Bakarinn fer á netið og gáir hvort hægt sé að umreikna þetta yfir í desilítra. Jú, það er hægt, en reiknilíkönin eru undarleg: Það er til dæmis ekki sama um hvað er rætt þegar breyta á úr bollum í desilítra, jafnvel þótt hvortveggja sé spurning um rúmmál. Hann fer því á hæðina fyrir neðan og fær lánaða vog.

Hann tekur allskonar hráefni og setur í skál, en þegar eggin og smjörlíkið eru komin útí þá er óskup lítið pláss eftir í skálinni, svo hann hellir öllu draslinu á eldhúsborðið og hnoðar. Hún Ingibjörg hleypur til og færir allskonar drasl af borðinu því hann er deigugur á höndunum. Bakarinn kann henni miklar þakkir fyrir.

Þetta hnoðast og hnoðast og verður að lokum hlunkur af deigi. Bakarinn hafði hugsað sér að geyma degið í ísskápnum eina eða tvær nætur og baka seinna, en þetta lítur allt svo vel út, hann ákveður að baka allavega smá núna strax. Hann kveikir á ofninum og fer að búa til kúlur.

Hann breiðir þetta deig semsé ekki út á fjöl.

Það komast 25 smákökur á hverja plötu, hann bakar minnir mig tæpar fimm plötur. Megnið fer oní kökukrús, smá affall í plastpoka á eldhúsborðið, og smá platti fer niður með voginni aftur þegar henni er skilað. Af því þannig gera bakarar.

Svo er heldur ekki úr vegi að sýna myndir af öllu saman:

Hér er uppskriftin, ég tók mynd af henni þegar ég skrapp heim á Selfoss um helgina. Án hennar hefði þetta aldrei getað gerst.Hér er deigið komið á borðið. Hlúnkur og svona.Kúlurnar á borðinu, ég týndi þær síðan á plöturnar..Og þegar plöturnar komu útúr ofninum þá litu þær svona út!Nærmynd af deigkúlu. Ekki ósvipuð deigkúlunni hér ofar, bara minni.Næsta plata tilbúin inní ofn, og bakaðar kökur í baksýn.-b.

Jafnt er sem þér sýnist, af er fóturinn

Við [Samfylkingin] orsökuðum ekki það hrun sem yfir okkur kom. [...] Stærsta orsökin liggur í þeirri ofsafrjálshyggju sem að hér réði ríkjum um langan tíma, ekki síst á síðasta kjörtímabili,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Þetta er sniðugt. Ég verð að prófa þetta sjálfur.

Hei Björn, fjölskyldan mín er dáin og þú segist vera morðingi. Berð þú ábyrgð á þessu?

Nei nei kæri vinur. Þetta er ofsamorðingjunum að kenna. Þessi venjulegu, gamaldags morð, sem ég stunda, þau eru óskup saklaus í samanburði.

...

Mér finnst Ingibjörg ekki koma neitt sérstaklega vel útúr þessu öllu saman, sama þótt hún sé auðvitað ekki nándar nærri jafn mikil skepna og Davíð og co.

-b.

12 desember 2008

Úbbs

Fyrir rúmum mánuði átti þessi síða þriggja ára afmæli.

Jei jei húrra.

-b.

11 desember 2008

Now You're Talkin' My Language

Skeddjúl

Þetta er það sem við erum að tala um gæskan:

Ræktin, sækja nagladekkin, þrífa herbergið mitt og baðherbergið, baka kryddbrauð, glápa á star trek.

Er þetta listi yfir hluti sem ég þarf að gera í nánustu framtíð? Ónei, þetta er það sem ég gerði eftir vinnu í dag, og er enn að.

Jésús Pétur á himnum með rósir um hálsinn.

Hei já, svo er eitt. ,,Bolli" af hinu og þessu er fáránlegasta mælieining sem ég veit um. Það eru til allskonar bollar í eldhúsum merkurinnar, afhverju notiði ekki metrakerfið andskotar?

En nei, þá er einn bolli samasem 2,36desilítrar.

Mér fallast hendur.

-b.

Fréttirnar gera mig hryggan, fjórtándi hluti

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna segir ný fjárlög verða blóðug samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar en þær séu dapurlegasta sending sem Alþingi hafi fengið í langan tíma. Forystumenn ríkisstjórnarinnar leggja á það áherslu að reynt hafi verið að verja þá sem lakast séu settir.

Ráðherrarnir sögðu að gerð væri þriggja prósenta krafa um niðurskurð á heilbrigðisstofnunum og menntastofnunum en fimm prósent krafa um niðurskurð á stjórnsýslustofnunum. Þrátt fyrir niðurskurðinn yrðu framkvæmdir þessa og næsta árs einhverjar þær mestu í sögu ríkisins til að verja atvinnustigið.

Fram kom að skattar hækka um eitt og hálft prósent, þar af fá sveitarfélögin hálft prósent. Persónuafsláttur hækkar um 2000 krónur.

Steingrímur segir merkilegt að ekkert í tillögunum geri ráð fyrir hátekjuskatti og hann sakar ríkisstjórnina um að ráðast á almannatryggingakerfið en gert er ráð fyrir að lágmarks framfærslutrygging hækki um tuttugu prósent en bætur þar fyrir ofan um tæp tíu prósent. Steingrímur segir þarna um kjaraskerðingu að ræða fyrir stóran hóp lífeyrisþega en gert sé ráð fyrir fjórtán prósenta verðbólgu.

Ráðherrarnir segja hinsvegar að kjör lægst settu lífeyrisþega hafi aldrei verið betri samanborið við lægstu laun.


Ergó: Besta leiðin til að bæta stöðu lífeyrisþega er að halda lágmarkslaunum eins lágum og hægt er.

Hálfvitar.

Og ekki minnst á hátekjuskatt?

Hálfvitar.

-b.

09 desember 2008

Ég veit enn ekki hvað hún á að heita

en þetta fer náttúrulega í þarnæstu ljóðabók, sem mun innihalda þýðingar héðan og hvaðan.

Ég heyrði semsé þetta lag um daginn og á leiðinni heim datt mér í hug að snara því yfir á Íslensku.

____

Til vinstri
til vinstri
allt sem þú átt er í kassanum þér á vinstri hönd

en ekki fara í skápinn,
þar er mitt drasl
ég keypti það sjálfur, vertu svo væn að láta það í friði.

Stendurðu í hlaðinu
og segir að ég sé flón?
Að ég finni aldrei aðra einsog þig
en þar hefurðu ruglast í ríminu.

Þú þekkir mig bersýnilega ekki nógu vel
það er auðséð að þú þekkir mig ekki nógu vel
ég gæti náð í aðra eins og þig á augabragði
já veistu hvað, hún kemur hér að vörmu spori.

Það er að segja þínu spori.

Þú þekkir mig greinilega ekki nógu vel
nei það er nokkuð ljóst að þú þekkir mig ekki eins vel og þú heldur
ég gæti fengið aðra eins og þig strax í fyrramálið
þannig að þú skalt aldrei halda að þér verði ekki
skipt út.

Til vinstri
til vinstri
allt sem þú átt er í kassanum þér á vinstri hönd
og þú skalt aldrei halda að þér verði ekki
skipt út.

Lag og texti: Bandarískt þjóðlag
Íslensk þýðing: Ég sjálfur.

_____

Hérna má sjá innfædda dömu syngja lagið við góðar undirtektir.-b.

Pakkinn þann þriðjudaginn

Hálf sólarsagan, dómur er uppi.

Ég var alltof lengi að skila honum af mér, einsog hinum.

Núna rétt áðan kom hann Yngvi askvaðandi með trek handa mér. Þessi gaur er á borðinu mínu núna:..pakkinn fær reyndar ekki góða dóma á amazon? Hvur fjárinn. Ég verð að komast í þetta sem fyrst.

Og það var ákveðið núna rétt í þessu að ég fengi frí föstudaginn 2. janúar, þannig að langa langa áramótahelgin er in effect. Einsog enskir frændur okkar vilja hafaða.

Snow Crash er að verða búin. Hún slappaðist aðeins niður þarna á skipinu en ég treysti því að hann klári með stæl. Ef hann gerir það þá þarf ég að tékka á Anathem.

Hei vá og svo kom kassi með myndasögum frá Nexus áðan. Eitthvað til að lesa: Doctor Sleepless og Scalped númer þrjú.

Og!

JCVD.

-b.

Alnæmislyfjahakk

Sáuði þáttinn hans Stephen Fry um alnæmisvandann í gær?

Anti-retroviral drugs used to treat HIV/Aids are being bought and smoked by teenagers in South Africa to get high.

Reports suggest that the drugs are being sold by patients and even healthcare staff for money.

Schoolchildren have been spotted smoking the drugs, which are ground into powder and sometimes mixed with painkillers or marijuana.

Aids patients themselves have been found smoking the drugs instead of taking them as prescribed.

Anti-retrovirals are used to boost the immune system of people with HIV and to suppress the virus in the blood.

"I couldn't believe it. I was shocked at first, these were school boys in their school uniforms," documentary-maker Tooli Nhlapo told the BBC World Service's Outlook programme.

"They take a pill and grind it, until it is a powder. Some also mix it with painkillers and others mix it with marijuana," said Ms Nhlapo. "They showed me how they roll it and smoke it."

When the South African Broadcasting Corporation documentary-maker first investigated the story, she was told to wait until school finished, so she could actually see how young some of the users were.

"I thought I was going to go to a tavern and see older drug addicts doing this, but I was shocked when I saw school children," she said.

"One who spoke to me very frankly was only 15 and the oldest person I spoke to was 21, but it's mainly youngsters, teenagers."

Smoking the pills has a hallucinogenic and relaxing effect.

08 desember 2008

The Librarian!

,,A nerdish bookworm is called upon to save the world after a powerful holy relic falls into the wrong hands..."

Saga lífs míns.

Nema hvað að Noah Wyle leikur bókaorminn. Í sjónvarpsmyndaröðinni The Librarian á TNT. Honum er sparkað úr skólanum sínum af því hann er kominn með fleiri háskólagráður en Sam Beckett (tímaflakkarinn, ekki leikskáldið) og lendir í ævintýrum?

Ég efast um að ég sjái þetta dót. En myndirnar eru skemmtilegar:

05 desember 2008

Atlas of the True Names

Þetta er náttúrulega best í heimi:Hér er búið að finna orðsifjar staðarheita og skella þeim inn í staðinn fyrir óskiljanlegt rugl á allskonar tungumálum sem enginn skilur og enginn man.

Sjáið meira hér,

og aðeins meira um kortin sjálf hér.

-b.

02 desember 2008

Kökukrúsarleikur

Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, vísar á bug kröfum um að hann segi af sér í viðtali við AP- fréttastofuna í dag en þar er greint frá því að mótmælasamkoma fari nú fram í Reykjavík áttundu helgina í röð.

Í viðtalinu vísar Geir því á bug að kenna megi yfirvöldum um hrun bankanna og það ástand sem af því hafi leitt. “Ég tel mig ekki persónulega ábyrgan,” segir hann. “Ég get ekki tekið ábyrgð á framferði bankamanna."

Þá segir hann rannsókn vera í undirbúningi sem miða muni að því að kanna hvort glæpsamlegt athæfi hafi átt sér stað. „Hafi fólk brotið lög verður það að sjálfsögðu sótt til saka,” segir hann.

Geir er ekki ábyrgur, ríkisstjórnin er ekki ábyrg, bankarnir eru ábyrgir. Verða ráðamenn bankanna dregnir til ábyrgðar? Tja, ef þeir gerðust sekir um glæp þá verða þeir það. En ef þeir brutu engin lög?

Þá bera þeir ábyrgðina sem sköpuðu og viðhéldu þessháttar lagaumhverfi. Það gefur auga leið. Ef það er ekki refsivert athæfi að setja þjóðina á hausinn þá bera ráðamenn þjóðarinnar ábyrgð á því sem úr verður.

Rétt einsog í Bandaríkjunum þá lítur út fyrir að eftirlitsstofnanir hér á landi hafi verið tólf til fjórtán skrefum á eftir þeim sem þær áttu að hafa auga með.

-b.

29 nóvember 2008

handinga

Hann Ingi Björn á afmæli í dag, ég fékk The Smiths til að syngja afmælissönginn fyrir hann á jútúb:Afmælissöngur Smiths tengist afmælum að vísu samasem ekki neitt, en það er þessvegna sem þeir eru snillingar.

-b.

28 nóvember 2008

Look at what they make you reeshoot

Skemmtó samanburður á einni og sömu senunni í Bourne Ultimatum/Supremacy:Ég var að leita að línunni sem ég minntist á um daginn, úr Bond: Quantum, og þá kemur í ljós að hún er ekki alveg einsog mig minnti, og merkir a.ö.l. eitthvað annað. En leim.

Föstudagur og ég er eitthvað slappur, að fá kvef kannske, þurfti að bakka útúr ræktinni í gær afþví ég fékk skringlega í bakið.. Svona þvert yfir það, í olnbogahæð sirka. Veit ekki hvað í fjandanum það getur verið, ætli maður reyni ekki að taka því rólega næstu daga bara.

Annars erum við búnir að vera í rétta þrjá mánuði núna, ég er búinn að bæta mig um rúmlega 20 kíló í bekknum og Davíð tekur rétt um eigin þyngd. Gaman gaman.

Mig langar í jólafrí.

-b.

26 nóvember 2008

Dragðu!

..nei, ég meina Stokkaðu!-b.

Laxness hvergi heima

Þeir segja það í fréttunum að enginn vilji kaupa Laxness vegna þess að enginn þykist geta selt hann aftur. Og þeir sem vilja selja hann núna til að byrja með vilja selja hann allan alltaf en ekki bara að hluta til hér og þar. Og þeir sem eru að selja hann keyptan núna akkúrat einsog er, þeir mega ekki selja hann lengur því þeir eru með yfirburðastöðu á markaði. Umfram þá sem vilja ekki kaupa Laxness, þessa sem ég minntist á í byrjun.

Nú eru rúm tíu ár síðan skáldið dó. Hann er því löngu hættur að rukka útgefendur sína. Ég legg til að útgáfurétturinn verði gefinn frjáls. Ekki laus heldur frjáls.

Forlagið getur þá haldið áfram að gefa karlinn út því þeir sitja ekki lengur einir að honum. Minni forlög (sem eiga ekki efni á stóru F-i) geta gefið hann út ef þau vilja, hugsanlega myndu þau einbeita sér að því sem Forlagið nennir ekki að prenta, og þá í minni upplögum. Og afkomendurnir geta haldið áfram að skrifa í blöðin, leikstýra kvikmyndum og gefa út sínar eigin bækur.

Nú þekki ég ekki höfundaréttarlög svo gjörla en hugsanlega mætti setja einhverskonar varnagla sem tekur til erlendra þýðinga, nokkra aura sem erlendir útgefendur greiða til Gljúfrasteins til dæmis.

Málið er leyst.

Og í anda lausnarinnar mun ég ekki krefja neina lifandi sálu um úrlausnarþóknun. Kannske handaband frá skáldinu þegar ég sé hann handan.

-b.

25 nóvember 2008

GO!

Aðeins um bækur

Dómur: Fjall og aftur fjall, og meira fjall. Ég var ánægður með bækurnar en ekki nógu ánægður með dóminn. Mér fannst hann bæði of langur og ekki nógu innihaldsmikill.

Las myndasögu í dag! Hún heitir Lex Luthor: Man of Steel, bara nokkuð fín. Azzarello mætti alveg slappa af í orðaleikjunum og endirinn er heldur snubbóttur (ég er reyndar enn að velta því fyrir mér, kannske virkar hann best þannig) en þetta er stutt og fín lesning.

Einhver minntist á árslista um daginn. Best of. Jeminn. Töggin sem ég bætti hérna inn áttu að hjálpa mér að muna hvað ég hafði lesið yfir árið en nú veit ég ekki hvort ég vil fara í gegnum það alltsaman?

Ég reddaði mér fríi helgina milli jóla og nýárs en þarf þess í stað að vinna næstu tvær helgar. Seinni helgina kemur Víðir í heimsókn. Þannig að verður næsta helgi ekki rólegheit og vesen? Fór einn í ræktina í gær og hlustaði á Snow Crash. Það er ekki eins gaman og ég var bara pínulítið fljótari.

Snow Crash er samt alveg að gera sig. Það er náttúrulega ósanngjarnt að bera hana saman við aðrar bækur bara afþví báðar hafa verið stimplaðar sæberpönk, en hún er endalaust skemmtilegri lesning en The Neuromancer.

Ég fór að hugsa um þetta í gær, þarsem ég sat og gerði magaæfingar og hlustaði á samtal Hiro og bókavarðarins, þeir tala lengi lengi um súmerskar mýtur og heimspeki, Thoruna, herpes og gagnaflutning -- þarna er bara verið að uppfræða lesandann, það er gersamlega ekkert aksjón í gangi, púra expósisjón. En samt virkar þetta svo miklu miklu betur heldur en samskonar senur í daVinci Code eða Sólkrossi. Má vera að áherslan á keyrsluna, að allt gerist á innan við sólarhring eða hvernig sem þetta er nú hugsað hjá þeim, grafi ennþá frekar undan köflum þarsem miklum tíma er eytt í útlistun á sagnfræði? Snow Crash gerist ekki á löngum tíma sýnist mér, en framrásin er afslappaðri. Og þessar sagnfræði/guðfræði-senur í bókinni gerast inní sæber-bókasafni, utanvið söguna í kjötheimum.

Ég held það sé eitthvað til í þessu.

Adventures in Exposition: Putting the 'thought' back into "..he explained thoughtfully."

-b.

18 nóvember 2008

Ingi Björn skikkaði mig til að lesa Atómstöðina:

Fátækum sakleysíngja tekst með hörkubrögðum að brjótast inní smáverslun og stela skóreimum og maltextrakti, sagði organistinn; eða hafa burt gamlan frakka úr fordyri; eða smjúga inn bakdyramegin í mjólkurbúð og ná lausu aurunum sem urðu eftir í kassanum í gærkvöldi, taka veskið af fullum sjómanni eða fara ofaní ferðakoffort hjá sveitamanni og hirða sumarkaupið hans. Tinkoppunum okkar er kanski hægt að stela, þó ekki nema fyrir sérstaka tilverkan guðs náðar. En það er ekki hægt að stela gullkoppunum okkar, ekki einusinni silfurkoppunum: þeir eru varðir. Nei, það væri gaman að lifa ef maður gæti geingið út og stolið miljón hvenær sem maður er blánkur.


Á þetta við? Þetta á við.

-b.

Ég fór á Bond í gær

En ég skemmi ekkert hérna held ég.

Quantum of Solace línan ,,we forgive each other" og eiginlega öll sú sena er ,,look at what they make you give" senan úr Bourne Identity. Nema að senan úr Bourne átti sér síðan hliðstæðu í Bourne Ultimatum, og þau samskipti urðu þungamiðjan í trílógíunni að mínu mati, eitt peð til annars. Ég er ekki viss um að Bond sé maður í svoleiðis.

Senan í Bond var samt sterk ein og sér. Það er náttúrulega ekki svona sem hann hugsar um vini sína (hann á enga vini), heldur er það svona sem hann hugsar um sjálfan sig.

Það er mjög mjög margt í Quantum sem er ofboðslega ofboðslega ýkt en það gengur allt upp vegna þess að Bond er Bond og maður hugsar bara ,,hva!" Það eina sem mér fannst ekki alveg virka var þessi makró-pólitíska sena á milli M og yfirmanns hennar.. mér fannst það ekki falla inní mítólógíuna. Er það vitleysa í mér? Ég hugsaði allavega bara að svoleiðis ætti heima í Queen and Country, ekki Bond.

Bond sjálfur var frekar litlaus í þessari mynd.. voru þeir að stóla á að maður myndi alveg eftir honum síðan síðast, og að hans persónulega saga í myndinni væri eðlilegt framhald þess sem kom á undan? Mér þætti það í sjálfu sér ekkert svo slæmt, framhaldsmyndir eru bara lélegar ef þær eru lélegar.. en ég hef ekki séð Casino Royale síðan hún var í bíó.

Mig langar að horfa á Casino Royale aftur.

-b.

16 nóvember 2008

Að eignast --viðbætt

Ég hugsa að það hafi verið um síðustu jól eða áramót, að ég spjallaði við Pál Þórarinsson niðrí Þingborg. Við vorum í jakkafötum einsog aðrir á staðnum, hann tók í nefið, ég ekki. Þetta var þessi gamli góði ,,hvar ertu að vinna, hvar býrðu?", það kemur fyrir að ég tala ekki um neitt annað í svona boðum, það er ágætt stundum.

En ég sagðist vera að leigja íbúð í Skaftahlíðinni með tveimur félögum mínum, það var gott og blessað en Páll vildi vita hvort ég ætlaði ekki að fara að kaupa. Ég held ég hafi talað eitthvað um að ég ætti ekki peninga og að fasteignamarkaðurinn væri heldur erfiður. Það væri varla hægt annað fyrir mig en að leigja, og mér þætti það í sjálfu sér ágætt. Jú, sagði Páll, en þú ert náttúrulega ekki að eignast neitt á meðan.

Ég man sérstaklega eftir þessu annarsvegar vegna þess að þetta var hárrétt hjá honum og ég hafði í rauninni aldrei hugsað út í það þannig. Ég vissi af fólki á mínum aldri sem var að borga mánaðarlegar afborganir af íbúðum sem það átti, eða var þannig að eignast, og að þær afborganir voru jafnvel lægri en það sem ég borgaði í leigu. Fyrir þeim (og Páli og mörgum öðrum býst ég við) voru þeir peningar að nýtast, en leiguféð mitt alls ekki. Ég gæti allteins fleygt þeim útum gluggann.

En hinsvegar kviknaði á því hjá mér að ég hafði aldrei lagt neitt sérstaklega mikið uppúr því að eignast fasteign. Mér þótti nóg að hafa þak yfir höfuðið, hvaða máli skiptir hvort ég á þakið eða einhver annar?

Þetta kemur náttúrulega líka inná þessa fóbíu mína gagnvart skuldum: Þegar ég leigi þá borga ég einhverja ákveðna summu í byrjun hvers mánaðar og þá erum við leigusalinn kvitt fram að næstu mánaðarmótum, ég er ekki að greiða niður einhverja gígantíska skuld í pínulitlum mánaðarlegum þrepum. Og svo er ég svo góðu vanur, ég held það hafi aldrei verið raunhæfur möguleiki í mínum huga að ég lenti á götunni.

En ég fór að hugsa um þetta þegar ég var fyrir austan síðustu helgi og Sigþór, bróðir hans Páls, spurði mig hvort ég ætlaði ekki að fara að kaupa (eða byggja!). Ég held ég hafi talað um það að ég ætti ekki pening o.s.frv. Hann þóttist nú halda að maður gæti fengið lán, ,,vilja ekki allir lána núna í dag?" Ég sagði að ég vildi hreint ekki fá lán hjá neinum sem vildi ólmur lána mér peninga.

Ég fattaði ekki fyrren ég hafði sagt þetta að þarna hafði ég súmmað upp mína afstöðu til þessarar lántökuvitleysu. Og nú er ég að reyna að hljóma ekki einsog dramblátur besservisser. En ef einhver bankar uppá hjá þér og vill endilega lána þér fullt af peningum, dettur þér engan veginn í hug að það sé maðkur í mysunni? Það á að vera erfitt að fá lánaða peninga, þannig veit maður að það eru alvöru peningar.

,,Everybody needs money. That's why they call it 'money'."

-b.

ps. Víðir gerir athugasemd og minnir mig á námslánin mín, þar tók ég ansi stórt lán sem ég kem til með að borga í litlum skrefum. En þarsem mitt svar var orðið frekar langt þá set ég það inn hér frekar en í athugasemdirnar:

Jújú, það var heldur alls ekki auðveld ákvörðun. Ég ætlaði á tímabili að seinka því að fara í háskólann þannig að ég gæti unnið í nokkra mánuði og átt peninga yfir veturinn svo ég þyrfti ekki að fá lán - og vinna þá væntanlega með skólanum líka. En fólk sem ég tek mark á sannfærði mig um að námslánin væru þau öruggustu og hagstæðustu sem ég ætti völ á. Og ég er feginn því að ég reyndi ekki að vinna fyrir skólagöngunni jafnóðum vegna þess að ég efast um að það hefði hafist. Ég er ekki nógu duglegur í því að leggja fyrir.

En það er tvennt í þessu: Í fyrsta lagi það að námið mitt, það sem ég keypti fyrir þessa lánspeninga, verður ekki tekið af mér. Annað en segja má um bíla eða íbúðir sem eru keyptar fyrir lánsfé. Þarna er ég ekki að ,,eignast" eitthvað sem fellur svo í verði á sama tíma og lánsafborganirnar hækka, og ég get með engu móti selt uppí kostnaðinn því það vill enginn kaupa.

Í öðru lagi að það er alls ekki auðvelt að fá námslán. Það er auðvelt að sækja um og það er ekkert mál að fá yfirdrátt útá umsóknina hjá bankanum, en til þess að fá lánsféð frá LÍN þá verðuru að sýna fram á námsárangur. Þetta er vegna þess að lánasjóðurinn er ætlaður til þess að fólk læri og klári sitt nám, ekki til þess að græða á því að lána krökkum peninga.

Þetta er það sem ég held að einkavæðingasinnar fatti ekki: Ríkisstofnanir af þessu tagi eru ekki settar á laggirnar með það að markmiði að berja einkaframtakið niður í svaðið. Þær eru ríkið, fólkið, að hjálpa sjálfu sér. Sú er hugsjónin að minnsta kosti. Og ég treysti þeim frekar sem lána mér peninga, varlega, af hugsjónarástæðum heldur en hinum sem vilja ólmir lána mér fé til þess eins að fá það aftur með vöxtum.

-b. (aftur)

13 nóvember 2008

Maður deyr

Ég var að lesa það núna áðan að afinn sem ég þekkti ekki dó fjórða september síðastliðinn. Og sannast þar hið fornkveðna að fólk sem maður þekkir ekki skiptir mann engu máli.-b.

11 nóvember 2008

Þriðjudag fyrir þúst þaddna

Það er ekki svo langt síðan að ég hélt að annar Björgólfsfeðga héti Björgúlfur, en ég mundi ekki hvor það var þannig að þegar ég sagði nafnið/nöfnin þeirra upphátt þá lagði ég bara litla áherslu á ó/ú-ið, nema einhver annar hefði þegar sagt -ólfur og þá notaði ég sama staf, en gleymdi síðan við hvorn var átt.

Ég keyrði austur um helgina og spilaði Call of Cthulhu með Halli, Gunnari og Danna. Helvíti var það gaman. Við ætlum að reyna að gera þetta aftur sem fyrst.. verst að ég er að vinna næstu helgi. Í gær, mánudag, vaknaði ég heldur slappur og tilkynnti mig veikan í vinnuna. Ég er með einhvern sting í hálsinum sem leiðir uppí haus, ég held ég hafi klemmt eitthvað í ræktinni á laugardaginn.

Hafsteinn setti okkur á nýtt prógramm þá, það þriðja á frekar skömmum tíma. En það er líklega ekki mjög sniðugt að hanga í sama farinu mjög lengi. Dóttir hans átti afmæli um daginn, einsog sonur hans Ívars. Börn börn börn. Svo vildi ég fara í ræktina í gær einsog alla mánudaga, en Davíð vildi ekki. Í svoleiðis tilvikum ætti ég náttúrulega að deila við hann, fyrst rólega, þá hatrammlega, og rjúka síðan út með þjósti og fara einn í laugar. En ég var hálffeginn.. þetta var þá alger frídagur. Við förum í kvöld hvorteðer.

Það er ekki svo langt til jóla. Á ég að vera að hugsa um jólagjafir? Mamma gaf mér aur í afmælisgjöf, kannske ég noti hann til að kaupa jólagjafir.

Eða jólaskyrtu svo ég fari ekki í jólakött.

Ég held ég hafi fattað hvað það er við Sólkross Abrahams sem fer svona í taugarnar á mér. Sem er plús. Verst að maðurinn tók undir sófa með mér í haust, það eru ekki þægileg hagsmunatengsl.

-b.

03 nóvember 2008

Má ég kynna nýjan gamlan vinHún amma mín gaf mér þennan bangsa í afmælisgjöf. Hann heitir Nyarlathotep. Hann segist hafa risið uppúr tuttugu og sjö alda svartnætti, og að hann heyri skilaboð frá stöðum sem liggja utan við þessa plánetu. Hann sankar að sér allskonar furðulegum tækjum og tólum úr járni og gleri, og smíðar úr þeim enn skrýtnari hluti. Það fer hrollur um þá sem mæla nafn hans, og síðan ég kom með hann heim höfum við varla sofið: við gerum ekki annað á næturnar en að öskra uppúr martröðum okkar.

Við köllum hann Teppa.

-b.

31 október 2008

Vídjó tæm

Ég er búinn að vera með þetta lag á heilanum.Líka drulluflott myndband.

-b.

30 október 2008

Farvel Skjár einn (farið hefur fé betra)

Ég sá frétt um það í dag að starfsfólki Skjás eins hefði verið sagt upp. Fólk talaði um þetta í vinnunni, en viðbrögðin voru svipuð því ef íslenska briddslandsliðið hefði dottið úr keppni í fjórðungsúrslitum á heimsmeistaramótinu í Fjarskanistan. Æ, var það. Jæja.

Á www.skjarinn.is má nú lesa þennan texta hér:

___________

VILTU HAFA ÁFRAM AÐGANG AÐ ÓKEYPIS SJÓNVARPSSTÖÐ Á ÍSLANDI?
Í ljósi samdráttar á auglýsingamarkaði, ójafnrar samkeppni frá RÚV og óvissu um innkaupsverð á sjónvarpsefni frá útlöndum hefur Skjárinn tilkynnt öllum starfsmönnum sínum að þeim verði sagt upp frá og með 1. nóvember.
Vonast er til að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi en til þess að starfsemi SkjásEins geti haldið áfram þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um að hér ríki eðlilegt samkeppnisumhverfi, sambærilegt við það sem er til staðar á öðrum Norðurlöndum.
Á hverju ári fær RÚV 3.000 milljónir króna í forskot frá okkur skattgreiðendum og getur því notað þann pening til að yfirbjóða aðrar stöðvar við kaup á efni.
Einnig undirbjóða þeir frjálsu stöðvarnar við sölu auglýsinga.
Stjórnendur og starfsmenn munu taka höndum saman á næstu vikum til þess að starfsemin geti haldið áfram, áhorfendum og auglýsendum til heilla.
Áhorf á SkjáEinn er í sögulegu hámarki og við treystum því og trúum að landsmenn allir og stjórnvöld styðji áframhaldandi veru frjálsra fjölmiðla á Íslandi.
Við biðjum þig því að setja nafn þitt á listann og ganga til liðs við okkur svo að SkjárEinn megi lifa sem lengst.

Starfsmenn Skjásins
Ég undirritaður/undirrituð skora á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og ríkisstjórn Íslands að leiðrétta þessa skökku samkeppnisstöðu og tryggja þar með veru frjálsra fjölmiðla á Íslandi.

_________

..og svo er pláss fyrir undirskriftir. Þeir eru líka að keyra á auglýsingum með svipuðu inntaki á skjánum sjálfum, þarsem fólk er hvatt til að fara á skjarinn.is.

Það er tvennt í þessu. Annarsvegar er nokkuð til í því að RÚV ætti ekki að bítast við einkareknu stöðvarnar um auglýsingatekjur, ekki vegna þess að það er ósanngjarnt gagnvart þeim einkareknu heldur vegna þess að skattgreiðendur eru að borga þessar x mörgu milljónir til að halda úti Ríkisútvarpi/sjónvarpi, og ættu ekki að þurfa að sitja undir auglýsingum í ofanálag.

Hinsvegar ættu allar sjónarpsstöðvar, hvort sem þær eru einkareknar eður ei, að bítast um besta sjónvarpsefnið, og það þýðir að þeir sem hafa minni pening milli handanna geta bara sest niður og haldið kjafti á meðan fullorðna fólkið ræðir málin. Það hvernig stjórnendur stöðvanna skilgreina ,,besta sjónvarpsefnið" hlýtur þá að koma inní myndina; það er deginum ljósara að áherslurnar eru gerólíkar hjá RÚV og hjá Skjá einum. En ef tveir vilja sama hlutinn þá ræður krónutalan (eða dollaratalan), það er ekkert hægt að rífast um það.

Það er bara svo neyðarlega mikil frjálshyggjubræla af þessu orðalagi að mann svimar:

,,Á hverju ári fær RÚV 3.000 milljónir króna í forskot frá okkur skattgreiðendum og getur því notað þann pening til að yfirbjóða aðrar stöðvar við kaup á efni."

Hvaða skattgreiðendur ertu að tala um? Fyrirtækin, einkareknu sjónvarpsstöðvarnar sem borga jú væntanlega einhverja skatta af sínum auglýsingatekjum, eða Íslendinga, venjulegt fólk sem greiðir sína skatta og horfir á sjónvarp?

Í rauninni kemur það niður á sama stað: Skattgreiðendur, sama hverjir þeir eru, eru ekki að borga einhverju fyrirtæki útí bæ til þess að það geti farið illa með þá. Þeir eru að borga skatta til að geta lifað í siðmenntuðu þjóðfélagi, og hluti af því er að halda úti (tiltölulega) óháðu ríkissjónvarpi. Sjónvarpsstöð sem þarf ekki að reiða sig á endalausar auglýsingatekjur og auglýsingahlé á sjö mínútna fresti, sjónvarpsstöð sem þarf ekki að biðja um fjárframlög eða undirskriftir á lista þegar harðnar í ári, sjónvarpsstöð sem þarf ekki að skila hagnaði.

Ég skal skrifa undir það að RÚV mætti slappa aðeins af í auglýsingageiranum og gera betur úr því fé sem það hefur. En ef þú ætlar að reyna að segja mér að fyrirtækið okkar, sem við rekum og við höldum gangandi, sé að fara illa með okkur þegar það kaupir efni sem okkur langar að horfa á, þá ert þú fífl og hálfviti. Hver sem þú ert.

Vil ég áfram hafa aðgang að ókeypis sjónvarpsstöð hér á landi? Já og nei.

Ef þú átt við sjónvarpsstöð sem metnað og þor í íslenskri dagskrárgerð, og innkaupum á erlendu efni, í staðinn fyrir að drekka endalaust sama skólpið úr rennum bandarískra auglýsingastöðva og spýta því síðan á skjáinn minn? Já takk.

En ef þú átt við sjónvarpsstöð sem leggur meira uppúr því að vera í gangi allan daginn alla daga heldur en að leggja út fyrir einhverju sem mann langar í alvörunni til að sjá; sem sýnir auglýsingar til að geta haldist í loftinu til að geta sýnt auglýsingar til að geta haldist í loftinu til að geta sýnt auglýsingar..? Nei takk.

Það má vera að Skjár einn hafi nýslegið einhver áhorfendamet, mér dettur þá helst í hug að það séu allir þessir glænýju atvinnuleysingjar, þeir sem sitja fastir yfir sjónvarpinu á meðan ekkert er í gangi. Ég gleðst síður en svo yfir því að nokkur maður eða kona skuli missa vinnuna þegar Skjár einn kveður, en þau eru samt sem áður dropi í hafið. Og fyrir mitt leyti segi ég vertu bless Skjár einn. Þú varst stöðin sem hægt var að skipta á þegar ekkert var að gerast á RÚV, en veistu ég finn mér eitthvað annað að gera.

-b.

27 október 2008

Söngurinn um sjálfan mig (hann er ekki langur)

Hei Björn, þú áttir fínasta afmælisdag í dag. Já það má með sanni segja.

Þú vaknaðir í morgun og fékkst þér súrmjólk og te, sáttur við að vera með frí í vinnunni. Kíktir á netið og svona, opnaðir pakka frá sambýliskonum þínum: Eitt sokkapar. Í annan sokkinn var saumað ,,H" og í hinn ,,V". Brjálað. Þú ert í þeim núna. Svo fórstu í kaupleiðangur með honum Halli.

Í Kokku á Laugaveginum fannstu pönnukökupönnu sem virkar á spanhellu, hún var rosa næs. Í Kringlunni keyptirðu hádegismat, te, DVD disk og dót í bakstur. Egg og mjólk og svona. Þú reyndir að sækja jakkann þinn úr viðgerð en hann var ekki kominn klukkan að verða eitt þannig að þú renndir heim með Hall og fórst að steikja pönnuna upp.

Ingibjörg var lúnkin við það, þetta hefði varla hafst án hennar hugsa ég. Slatti af smjöri og salti í pönnuna og hitinn stilltur á einn. Svo tvo. Þrjá eftir smá stund og svo koll af kolli, hitinn hækkaður hægt og rólega þartil við vorum komin uppí svona sjö átta, en þá var pannan farin að reykja dálítið vel, þá helltirðu smjörinu af og þurrkaðir með pappír. Pannan kólnaði, og svo gerðuði þetta allt aftur. Gerum langa sögu stutta: þú skelltir í deig og steiktir nokkrar pönnsur. Það fór hægt og illa af stað en endaði vel. Næsta skál af deigi gekk líka miklu betur.

Það er smá eftir inní ísskáp, þú getur gert meira á morgun. Einsog konan í búðinni lagði til: Nota pönnuna einusinni tvisvar í viku fyrstu vikurnar, þá verður hún geggjað speis. (Konan sagði ekki ,,geggjað speis", það eru þín orð. En pannan batnar við hverja notkun, það er víst alveg málið.)

Í afmæliskaffi: Þið Þórunn, Ingibjörg, Hallur og Davíð, í öfugri stafrófsröð.

Svo sóttirðu jakkann í Kringluna. Komst með hann heim og það vantaði eina tölu á hann, þessa innri. Bömmer maður. Fórst með hann aftur, fékkst ekki að rukka bankann um neinn pening, jafnvel þótt þú hafir farið yfir byrjunarreitinn. Skutlaðir Halli í rútuna. Varðst þreyttur. Nenntir ekki að elda kjúkling.

Því þetta þurfa ekki að vera endalaus veisluhöld neitt. Gott fólk, góður matur, temmilegt ævintýr og smá undanlæti.

Já og svo sátuð þið Ingibjörg fyrir Þórunni þegar hún var að koma úr sturtu. Þið voruð grímuklædd, með hendur á lofti og réðust hrópandi að henni þegar hún opnaði hurðina. Það er einhver grundvallarhúmor í því að hræða þann sem er hálfnakinn og grunlaus.

-b.

23 október 2008

Herra spandexgalli

Ég las The Amazing Remarkable Monsieur Leotard í gær. Þetta er falleg bók, það er ýmislegt að gerast á þessum síðum, en það er nokkuð augljóst að Campbell hefur engan áhuga á hefðbundnu plotti. Nema væri þá and-plotti? Bókin inniheldur litríkar glefsur úr miklu stærri sögu, en það er enginn þráður sem liggur á milli, nema þá helst það að sömu persónurnar koma fyrir aftur og aftur. Atburðirnir sjálfir leiða ekki hvor í annan. Hér og þar eru síður úr dagbók Leotards, sem er illlæsileg sökum vatnsskemmda, en þar mætti e.t.v. finna nokkurskonar míníplott: Hvernig skemmdist dagbókin?

Þetta er eiginlega svo meðvitað að það er hálfóþægilegt. Campbell getur ekki stillt sig um að koma sjálfur fyrir í bókinni, á meðan Leotard dreymir; Abberline úr From Hell kemur fyrir á einum stað; hver einasti kafli heitir ,,næsti kafli" og svo framvegis.. Og heitasta ósk bæði Leotards og frænda hans er að ,,ekkert gerist", í næsta kafla eða í lífinu yfir höfuð. ,,May nothing occur." Þannig að farsæll endir þýðir ekkert annað en að allir deyja að lokum og ganga útí hvítt og atburðasnautt himnaríki. Hann nær að kreista úr þessu alveg þrusufín móment engu að síður, en sagan sjálf liggur á milli línanna.

Var ég að enda við að tengja þetta inní BA verkefnið mitt? Díses.

-b.

22 október 2008

Goodtime Jesus, man ég allt í einu

Ég gleymdi að stilla vekjaraklukkuna mína í gær þannig að ég vaknaði aðeins of seint í morgun, en mér leið einstaklega vel. Talaði í símann, lónaði uppí rúmi, fór svo á fætur og mætti klukkutíma of seint í vinnuna. En mér hefði ekki getað verið meira sama. Og þetta er virkilega góður dagur.

Snjór úti líka.

-b.

20 október 2008

Das Weakend

Það var óskup erfitt að gera mér til geðs á þessari Airwaves hátíð. Half Tiger var eina bandið sem ég minnist þess að hafi gert eitthvað af viti uppá sviði, og þó voru þau alls ekki að sprengja huga minn. Þetta orsakaðist að hluta til af því, hugsa ég, að við vorum yfirleitt dálítið seint á ferðinni og gátum ekki hugsað okkur að bíða í endalausum röðum.

Á föstudaginn: Röðin inná Tunglið náði á einum tímapunkti að dyrum Grillhússins, og hreyfðist samasem ekki neitt.

Á laugardaginn: Röðin inná Listasafnið á meðan Boys in a Band voru að spila náði út Hafnarhúsið, yfir götuna og að Tollstjórahúsinu.

Bönd sem ég sá en gerðu samasem ekkert fyrir mig: Space Vestite, <3 Svanhvít, For a Minor Reflection, Florence & the Machine, Fuck buttons, FM Belfast, Retro Stefsson, Pnau, Crystal Castles og Yelle. Þá á ég ekki við að mér hafi dauðleiðst allan tímann en það var ekkert við tónlistina eða performansinn sem fékk mig til að vilja hlusta á þau aftur.

Ég hugsa að það hafi heldur ekki bætt úr skák að Tunglið og Organ eru báðir afspyrnulélegir tónleikastaðir, á Tunglinu var fólki hrúgað inn svo það stóð maður við mann, og bjórinn var allstaðar bjánalega dýr.

Og þetta er erfitt maður. Ég var uppgefinn á sunnudaginn, svaf helling um nóttina en vaknaði þreyttur. Ég er góður í dag. Rækt á eftir.. ég er marinn á vinstri ökkla og sköflungi eftir að hafa dottið niður tröppur í Baðhúsinu, sár á vinstri fæti eftir að hafa gengið í alltof litlum skóm laugardagsnóttina - ég gleymdi skónum mínum í TBR. Og ég er dálítið óvirkur enn í hægri úlfliðnum eftir.. vitleysu. Harðsperrur útum allt eftir badmintonið og maxxsið í ræktinni þar á eftir.

En nú er vinna næstu helgi og yndisleg rólegheit. Ég er að hugsa um að taka mér frí mánudaginn eftir og baka pönnukökur.

-b.

13 október 2008

En það sem ég vildi segja er þetta hér

Ég geri grín að þeim sem flykktust í nýju verslunarmiðstöðina og biðu í röðum til að kaupa drasl á meðan skuldir alheimsins féllu á þjóðina. En þó fór ég í Kringluna á laugardaginn og keypti mér föt. Nýjan jakka meira að segja. Sem þýðir að ég hef keypt mér tvo jakka á þessu ári, sem er um það bil átján þúsund prósent aukning síðan árið það áður. Og tvær peysur.

Peysur!

Á ég nú að ganga í peysu? Annarri en þeirri sem ég gekk í þegar?

En ferðin var ekki alger vísindaskáldskapur: Ég keypti líka tvær flöskur af Móra, þessum nýja úr Ölvisholtinu - hann er bara seldur í hálfslíters flöskum, hvað á það að segja manni? - og eina flösku af Jökli, sem kemur úr Stykkishólmi. Ég á enn eftir að smakka þá, þeir bíða inní kæli.

Svo vann ég niðrá safni frá sjö til eitt eftir miðnætti, hún Hrafnhildur var að fagna þrjátíu ára afmæli sínu og mannsins síns, fékk til þess salinn uppi á sjöttu hæð og þurfti þá að leigja húsvörð. Það var tíðindalítið, allt mjög dannað fólk. Svo var ég leystur út með kippu af bjór, sem var ekki amalegt.

Annars var helgin fín og tíðindalítil. Það er verið að setja upp nýja síma í vinnunni, robbosslegga er gaman að fá ný tól. Og nú er matur!

-b.

10 október 2008

Brennur enn.. [1100](Úr Jarðið okkur.)

Svo bregðast krosstré sem lánsfé

Það er gaman að taka eftir því hvað íslenskir ráðamenn eru vel í stakk búnir þegar þörf er á myndlíkingum og skemmtilegum orðatiltækjum. Þeir tala um að stemma á að ósi, að nú sé skammt stórra högga á milli (svo vægt sé til orða tekið), og tala um þessa blessuðu krísu sem fellibyl, jarðskjálfta, náttúruhamfarir, flóð og storm (allir í bátana!).

Það er auðvitað dálítið kúnstugt að líkja þessum ósköpum við náttúruhamfarir.. Það hefði þýtt eitt hér áður fyrr en þýðir nú annað, þökk sé ,,hverju reiddust goðin." Nú getur enginn heilvita maður haldið því fram að jarðskjálftar og snjóflóð orsakist af því að mennirnir hagi sér illa, þessar stærstu hörmungar koma okkur manneskjunum nánast undantekningalaust ekkert við - og það er e.t.v. það sem gerir þær hrikalegri en ella. Það er eitt að líta til baka og segja að maður hefði nú getað gert eitthvað í málunum áður en illa fór (ef maður er valdur af bílslysi t.a.m.), en annað að líta til baka og vita að maður hefði ekkert getað gert í þetta skiptið, og að maður komi ekki heldur til með að geta gert neitt næst þegar þetta hendir.

Það er að segja að maður geti ekki lært af reynslunni, reynsla manns skiptir jarðskjálftann engu máli.

Og þá er einmitt svo hentugt að setja þessa lánakrísu upp sem náttúruhamfarir: Við gátum ekkert gert vegna þess að öflin sem komu þessu af stað eru ólýsanlega stór og við svo ólýsanlega lítil. Nú er bara að bíta á jaxlinn og bjarga bankakerfinu, við getum fundið sökudólga seinna seinna. Og það sem meira er! Við þurfum kannske ekki einusinni að finna upp á orsökum eða reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, því það væri jú einsog að reyna að setja upp jarðskjálftavarnir.

Það yrði hlegið að okkur.

Eitt eða tvennt:

Nú tala bankastjórarnir um að ,,baklandið" hafi ekki verið nægilega sterkt, eða að það hafi ekki vaxið með bönkunum sem skyldi, þegar þeir sprungu út. Á maður að skilja þetta sem áfellisdóm á ríkið, ,,okkur hin", sem sátu ekki sveitt við að vefja sífellt sterkara öryggisnet, eftir því sem bankarnir klifruðu hærra? Eða er átt við öryggisnet bankanna sjálfra, að þeir hafi teygt sig lengra en þeir gerðu sér grein fyrir að öruggt væri? Síðara tilfellið er einfaldlega engin afsökun, og það fyrra er svo ósvífið að maður næstum gapir.

Rétt einsog sú takmarkalausa ósvífni eigenda bankanna að leyfa ríkinu að bjarga fyrirtækjunum sínum úr kröggum þegar þeir sitja enn á milljörðum.

Og ef þeir sitja ekki á milljörðum, nú þá hafa þeir einfaldlega ekkert með að vera að taka lán útá peninga eða eignir sem þeir eiga ekki til.

Og enn og aftur sú ósvífni ,,kynningarfulltrúa" þeirra að ætla að greina á milli eigenda bankans og bankans sjálfs þegar spurt er um laun sem bankinn greiðir út eða arð sem bankinn gefur af sér. Það er þessi grundvallarfirring kapítalismans að fyrirtækin geti gætt hagsmuna mannfólksins, beint eða óbeint, þegar eigendur fyrirtækjanna þurfa ekki að taka ábyrgð á þeim.

Samanber dómurinn yfir olíufyrirtækjunum núna fyrir skemmstu.

Þá er einmitt aftur gott að tala um náttúruhamfarir, því að ber jú enginn ábyrgð á þeim heldur. Sérstaklega ekki reglurnar sem við fylgdum eða kerfið sem við reistum í kringum viðskiptin. Þessir kónar hafa margítrekað það að kerfið sjálft hafi ekki brugðist, heldur séu hamfarirnar svo ofboðslegar, kringumstæðurnar svo óvenjulegar, að það hafi einfaldlega ekki verið komist hjá hruni.

En ef við bökkum aðeins og hrækjum á þetta kjaftæði um fellibyli og jarðskjálfta, og segjum sem rétt er að þetta orsakast af því að manneskjur voru gráðugar og gálausar, þá hljótum við að spyrja: Til hvers eru kerfin nema til þess að halda reglu þegar manneskjurnar bregðast?

Þetta var ekki jarðskjálfti. Manneskjurnar brugðust, kerfið brást og ef núverandi lagarammi dugar ekki til þess að draga skemmdarvargana til ábyrgðar og lágmarka skaðann fyrir þeim sem annars færu verst út úr þessu, þá hefur það tiltekna kerfi brugðist líka.

-b.

08 október 2008

Ég hlusta á hugmyndir fólks í kringum mig

Þetta er bara eitthvað sem ég heyrði útundan mér, og ég sel það ekki dýrara en allt hitt, og ég er heldur ekki viss um að þetta geti virkað en bíðum við: Hugmyndin er sú að hópa saman temmilega mörgum** MBA-um (það sem við köllum uMBA: ,,Hei umbi") og sópa þeim oní eldinn***. Syngja síðan eitthvað órætt hinum og þessum guðum til dýrðar, um að gera að kasta nógu víðu neti svo við náum sem flestum (og ef einhverjir af öllum þessum guðum skyldu nú ekki vera til þá er náttúrulega öruggast að heyra í öllum sem við þekkjum), og gera það nógu hátt. Sýna smá lit sko. Þetta gæti orðið til þess að efnahagurinn rétti sig af fyrr en menn og konur þora að vona.

Nei ég veit það ekki, ég var ekki alveg að fatta pælinguna þegar ég heyrði þetta sjálfur, en svo fór ég að hugsa sko og hverju höfum við sosum að tapa?

-b.

** Þ.e.a.s. nógu mörgum, og þarsem við vitum ekki hvað nógu margir eru margir þá er líklega best að hafa þá bara nógu helvíti marga.

*** NB: við myndum væntanlega þurfa að byrja á því að byggja eldstæðið, það þyrfti að vera á vídd og breidd sem innilaugin í Sundhöll Reykjavíkur en talsvert dýpra, og með grindum í botninn til að frárennslið höndli botnfallið.. Eflaust ekki flókið verk fyrir þá sem til þekkja, en þetta gæti jú skapað atvinnu handa einum eða tveimur á þessum viðsjárverðu tímum.
 

07 október 2008

Ísland brennur

Smellið, njótið, brennið.

Það er kannske dálítið ú ú æ æ marmelaði ég er farinn að fljúga flugvélinni minni að ætla að tengja þetta lag við atburði líðandi stundar, en hvað gerir maður ekki svo pönkið nái fram að ganga.

Eða hlaupa. Gengur pönk?

-b.

03 október 2008

Gettógetraun

Hún Þórunn fór niður í geymslu áðan til að sækja gettóblasterinn minn, það vantaði mússík í stofuna. Hann var soldið tregur í gang en það hafðist á endanum. Og það var diskur í honum!

Getið nú hvaða diskur það var.

Já getið.

Allir mega vera með, nema Davíð.

(Sorrí Davíð það er komin hefð á þetta.)

-b.

01 október 2008

Eitt ár á safninu

Ég hef verið hérna í eitt ár. Og dag.

Mér fannst ég ekki hafa breyst að neinu ráði, en ég hugsaði fyrir því: Eftir fyrsta vinnudaginn teiknaði ég mynd af mér í tölvuna, og núna áðan teiknaði ég aðra mynd af mér. Og jeminn eini Björn, þetta hefur verið viðburðaríkt ár! Er þetta sami maðurinn??:Svona er tíminn fljótur að líða.

-b.

30 september 2008

Ég er (fjármála/ríkisstjórnar)snillingur

Hei ég veit. En ef við byggjum virkjanir og seljum þær síðan, og svo þegar þær eru orðnar gjaldþrota, þá getum við keypt þær aftur?

Við getum notað peningana til að byggja sendiráð og halda stólapartí í Sameinuðu þjóðunum.

-b.

Kreppan er hálfviti

Ég hafði ekki áhyggjur af peningunum mínum fyrr en Davíð sagði í sjónvarpinu að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af peningunum mínum. Stjórnmála-Davíð, ekki alvöru Davíð.

...

En DV sagði að sparifé landsmanna væri tryggt upp að þremur milljónum, ef ég skildi það rétt. Á haus sko, ekki í heildina.

Nýi DVD spilarinn virkar fínt. Hann lá við hliðina á sjónvarpinu heima á Heiðarvegi og hafði aldrei verið notaður, svo hún móðir mín vissi til. Hún hafði keypt hann handa strákunum í jólagjöf, en þeir héldu áfram að nota ps2-inn sinn.

Blöðin eru full af fréttum og fréttaskýringum um Íslandsglitni en ég nenni ekki að lesa um það.

Það sem ég nenni að lesa er tímaritið mitt, í septemberblaðinu af The Believer er viðtal við Tim og Eric, lesendabréfadálkur með Bob Odenkirk og nokkuð bitastæð grein um sjálfið í non-fiction. Ég er ekki búinn með hana ennþá en mig hálflangar að henda upp nokkrum bútum úr henni. Seinna.

Núna bendi ég á Fyrsta tölublað veftímaritsins Tíu þúsund tregawött, þarsem lesa má tvo kafla úr Áræði, bókinni sem tíminn gleymdi. Og gleymdi síðan aftur.

Ég bakaði pítsu í gær og Davíð kom að borða með okkur og svo bara fór hann ekki..? Alvöru Davíð, ekki Stjórnmála-Davíð.

En ef ríkið kaupir Glitni, getum við þá látið Ólaf Ragnar hafa hann og notann til að leysa úr ágreiningsmálum þjóðarinnar? Eða er það brandari sem fáir fatta og engum finnst fyndinn.

Það eru bækur í töskunni minni sem koma aldrei uppúr henni.

-b.

Þessi þungu kíl

Ég kem heim örþreyttur þrjú kvöld í viku, dæsi einsog ég fái borgað fyrir það og bíð eftir að vera spurður. Síðan, þegar ég er ekki spurður, þá segi ég við sjálfan mig en samt nógu hátt til að heyrast framí eldhús ,,djöfull tók ég mörg kíl" eða ,,á ég að segja þér hversu mikið við tókum á því? Við tókum geðveikt á því."

Og þá segja stelpurnar eitthvað í líkingu við ,,kíl? hvað er það?" og ég útskýri língóið, en ég vil frekar halda áfram og kafa dýpra oní aðalmálið, sem er hversu mikið við tókum á því það kvöldið.

Svona ganga dagarnir fyrir sig.

Þeir fluttu Símsenhúsið á staðinn sinn í dag, eða ég býst við að þeir hafi gert það; það var búið að ryðja öllu úr Grófinni þegar ég lagði af stað heim. Ljósastaurar og umferðarskilti, keðjur og keðjustaurar, bílar sem voru lagðir í götunni og nokkrum bílastæðum við Sæbrautina, allt var þetta fjarlægt. Tveir massívir kranabílar komnir í startholurnar.

Á föstudaginn var málþing starfsmanna í safninu, á laugardaginn skrapp ég austur og endaði á einhverju soraballi í Hvíta húsinu, í gær horfði ég á einn eða tvo West Wing þætti og í morgun keypti ég og allir hinir Íslendingarnir bankann minn.

Svo settumst við Davíð og Ingibjörg niður eftir pítsuát og horfðum á The King of Kong, sem er algert æði.

-b.

19 september 2008

Eitthvað sem ég skrifaði og gleymdi að birta

Ég komst að því um daginn að ég get ekki bixað DVD-drifið í tölvunni minni svo ég geti horft á myndir frá öllum mögulegum svæðum. Matshita er víst hundleiðinlegt þegar kemur að svoleiðis. Þetta er eitthvað sem ég þarf að hafa í huga næst þegar ég kaupi mér tölvu.

Þetta er náttúrulega ekkert stórmál en ég á samt nokkra Reg2 diska sem mig langar að kíkja á, þætti sem mig langar til að liggja yfir einn en ekki sitja undir í sjónvarpi.

Og svo hætti spilarinn minn að svara mér um daginn. Við Ingibjörg vorum búin að velja okkur bíó fyrir kvöldið en svo kviknaði ekki á Elfunk. ,,Elfunk, hvað er að?" sagði ég. ,,Ertu búinn að missa taktinn?" ... Ekkert svar.

En hann var orðinn fimm ára gamall, eða rúmlega það. Ég hlýt að þakka honum fyrir góða þjónustu og sleppa honum lausum í Sorpu við látlausa athöfn.

-b.

17 september 2008

Byrjum á stafarugli

Eða ég gæti líka sagt að þessar tvær línur séu stafarugl hvor af annarri:

A DREAM WITHIN A DREAM

og

WHAT AM I, A MIND READER

Mér þótti þetta sniðugt. Ég heyrði það í þessum útvarpsþætti, sem hægt er að hlusta á á netinu. Þessi tiltekni þáttur fjallar um spurningaþætti og annarskonar þrautir. Nýjasti þátturinn heitir ,,Enforcers" og fjallar um fólk sem sér til þess að aðrir fylgi settum reglum, hvort sem það hefur löglegt umboð til þess eður ei. Svo var þessi hérna, ,,Tough Room", þarsem við heyrum m.a. hvað gengur á í ritstjórnarskrifstofu The Onion.

Og þátturinn ,,The Giant Pool of Money", sem fjallar um tilurð húsnæðislánakrísunnar í BNA. Það er gaman að heyra skiljanlega útskýringu á því hvernig ástandið gat orðið einsog það er í dag, og að hlusta á sögur frá gaurum sem tóku þátt í dæminu, hvort sem þeir vinna á Wall Street, fyrir lánasjóði eða hjá eftirlitsstofnunum ríkisins, eða bara fólk sem tók lán og er nú í djúpum skít. Og hvernig í helvíti þetta fer að hafa áhrif á okkur hér fyrir austan.

Gaman af þessu semsagt. Svona til að sjóða þetta alltsaman niður í fjögur orð.

Ég reyndi að hringja í Víði núna rétt í þessu. Í augnablikinu næst ekki í farsímann. Kannske er slökkt á honum, hann utan þjónustusvæðis eða eigandinn kominn á þriðja bjór suður í London og ekki farinn að spá í að kaupa sér nýtt símanúmer.

Önnur vikan í ræktinni hálfnuð og ég er með smá hálsríg. Ég ætti að teygja betur eftir átökin. Hvílík átök! En við þurfum að fara að skrifa niður hvað við gerum hverju sinni, ég man aldrei kílóafjölda vikna á milli.

Þeir sem elska mig og dá, og muna allt sem ég hef nokkurntíman sagt eða skrifað, vita að ég hef unun af góðri sturtu, en sturturnar í Laugum eru æðisgengnar. Ég ýti á takka og alltíeinu er ég umlukinn mátulega heitu vatni. Vatnsflæðið minnir ekki á sturtuhaus heldur úrhellisdembu, en ég stend þá útí rigningunni á adamsklæðum og opna sjampóbrúsa og á erfitt með að bera hendurnar uppað höfðinu, mikið er það góð tilfinning. Þannig að ef ég ætti að segja nokkrum hvað mér finnst best við þennan stað þá eru það sturturnar. Og handklæðin sem maður fær í tækjasalnum, og þarf þessvegna ekki að taka með sér að heiman.

Þarna er komið allt það sem ég vil: Að þurfa ekki að taka drasl með mér, og að fá góða sturtu.

Og að hlæja lágt og kurteisislega að kjöthrúgum sem öskra þegar þær lyfta 220 kílóum í hnébeygju.

Ég hef ekki spilað civ í vikunni, en hef hinsvegar horft tvisvar á Gone Baby Gone og þrisvar á Zodiac. Já þrisvar vegna þess að það eru jú tvær commentary-rásir á þeirri síðarnefndu. Nemahvað.

David Foster Wallace hengdi sig um daginn. Ég hef aldrei lesið neitt eftir hann. Það er ekkert til á safninu eftir hann.

Tveir kaflar úr Áræði verða birtir í veftímariti Tíuþúsund tregawatta núna bráðum. Nota þeir enn gömlu slóðina? Hér er allavega eitthvað.

Á mánudaginn komst ég að því að yfirmaður minn, ritstjórinn, var farinn til Danmerkur. Það vissu allir af þessu nema ég. Lét hún mig vita og ég gleymdi að muna eftir því? Sú næsta henni er nýhætt, og í gær fór þriðja vef-konan í vikulangt frí. Þannig að núna er ég eini gaurinn með vefina. Það er ekki beint brjálað að gera, en ég er ykkar gó-tú gæi.

Gaman af þessu semsagt.

Hei já og sjáið þessa mynd af Agli og Hafsteini, úr afmælisrúntinum sem við tókum með þeim síðarnefnda:-b.

10 september 2008

Ég er ekki að lesa Leyndarmálið, sama hvað hann skrifaði um hana í Lesbókinni núna síðast

Ég kenni einkirningssóttinni um! Og Warren Ellis!

Skor í dag, fékk How to be an Artist eftir Campbell fyrir slikk. Hversvegna vill enginn lesa þessar bækur nema ég?

Og í kvöld ætla ég að henda í pítsu, því pítsur eru góðar og það geta margir borðað eina svoleiðis. Eftir að við höfum borðað pítsuna þá kíki ég kannske á vídjó? Ég á ennþá eftir að horfa á Zodiac, direkktors köttið.

Entourage byrjaði nokkuð vel, kannske bara besta leiðin til að grafa strákana uppúr holunni sem endirinn á síðustu þáttaröð var. Eða öllu heldur byrja að grafa. Og hvar annarstaðar en í Entourage: allt í volli, engin vinna og engir peningar, en samt fer hálfur þátturinn í að skvera baðstrandagellur og grilla banana.

Dexter fór líka nokkuð vel af stað. Ekki alveg sami krafturinn í þessum byrjunarþætti einsog fyrri tveimur, en það er eitthvað við þessa þætti sem tengir.

Annar dagurinn í ræktinni í gær. Lappir. Og ég er ekki ónýtur í bakinu, mér líður þvert á móti þrælvel. Hvílíkar ógeðis dásemdir. Við erum hinsvegar að sjá að vinnan er lengri á föstudagskvöldum og við þurfum líklega að sleppa þeim. En þrír dagar í viku eru ágætis byrjun.

Lifum drauminn krakkar.

-b.

09 september 2008

Danskar karamellur og sjór

Mér finnst undarlegt hvað ég er latur við að skrifa. Það hefur ekkert breyst nema bara það. Jæja.

Þessa dagana spyrja allir hvernig sambúðin gangi, ég veit ekki hvort veröldin er að bíða eftir því að sjóði uppúr og allt brenni í átökum og vitleysu. En það er ekkert sem bendir til þess, enn sem komið er. Hún Ingibjörg kom heim frá Danmörku í gær (í annað skiptið síðan við fluttum inn) og færði okkur karamellur frá Bornholm.

Hafsteinn átti afmæli á föstudaginn og fékk okkur í Laugar með sér á laugardeginum, okkur Egil og Bjarka. Ég var að vinna til rúmlega fimm, komst loks af stað klukkan hálfsex en var kallaður tilbaka útaf einhverju helvítis rugli í öryggiskerfinu, bölvaði, keyrði heim og sótti bjór og stuttbuxur, náði strákunum þegar þeir voru að fara að skrá sig inn. Við dembdum í okkur einum bjór og fórum í sturtu, þaðan í gufu. Á dagskránni var semsagt að fara í rúmlega 60gráðu heita gufu í korter og þaðan beint í kar fullt af ísköldum sjó (eða söltu vatni). Helst í kaf. Ég átti ekki von á að ég kæmist lengra en rétt með tærnar oní, en hafði það af.. ég veit ekki í hversu margar sekúndur ég hélt út en náði að minnsta kosti þessum tíu fimmtán sem miðað var við.

Undarleg tilfinning, að halda niðrí í sér andanum og þurfa um leið að halda fyrir nefið vegna þess að líkaminn bregst við kuldanum með því að taka andköf, eða reynir það a.m.k. Þetta gerðum við tvisvar, og fórum svo á barinn við hliðina. Þennan við hliðina á gufunni á ég við. Svo í einhverja aðra gufu, þaðan í boltaleik oní lauginni og á leiðinni uppí búningsklefa eftir leikinn.. já, ég veit ekki alveg hvort ég má segja hvað gerðist en það reddaðist allt og við vorum enn kátir. Víðir hitti okkur í búningsklefanum og við pöntuðum bíl á Vitabar.

Þar hafði Hafsteinn aldrei borðað, en mamma hans var að vinna þar svo við fengum bjór og hambó og svona, fórum svo í karókí á Frakkastíg, þaðan í partí í Samtúni. Áfengið okkar kláraðist og okkur var ekki boðið úr flöskum hússins, eða kannske var ekki tóm til þess vegna þess að við vorum beðnir um að yfirgefa pleisið eftir að Víðir stóð uppá stofuborði og fékk viftuna í hausinn. Við stigum útfyrir og réðum ráðum okkar, Hafsteinn sagðist þurfa að skreppa aftur í húsið og kom svo ekki aftur. Við röltum niður í bæ og ég kvaddi strákana fyrir utan Celtic.

Það tók mig óeðlilega langan tíma að komast heim.

Ég var að vinna á sunnudaginn líka, nett þunnur en aðallega ósofinn. Ég skreið í rúmið einhverntíman á bilinu átta og níu um kvöldið og svaf til ellefu daginn eftir. Eða í gær. Tók mér semsagt frí á mánudegi, fór í skólann og sótti strætókortið mitt, notaði það til að komast uppí Laugar og sækja bílinn minn, dólaði framá kvöld og kíkti svo með Davíð í ræktina í Laugum (enn og aftur). Nú á semsagt að byrja á því aftur. Guði sé lof.

Bamm daramm.

En það er kominn nýr gaur hingað í safnið á móti okkur Finni, og hann tekur aðeins fleiri tíma en Ólafur gerði, þannig að núna er ég bara niðri á fyrstu hæð fimmtudagsmorgna og föstudagskvöld, og fjórðu hverja helgi. Vinnuhlutfallið er þannig komið uppí 80/20 (eða niður í 80/20, eftir því hvernig á er litið).

Hvað annað? Spooks: Code 9 og NewUniversal (eftir Ellis) byrja bæði hrikalega illa, og á nákvæmlega sömu línu einhvernvegin: Einhver hrikalegur heimsviðburður verður til þess að slatti af unglingum verður að hetjum. Hversvegna fara unglingar í heimsenda-poppkúltúr svona mikið í taugarnar á mér? Ég entist a.m.k. ekki út fyrsta þáttinn/heftið. Dexter er að byrja aftur (jei), Entourage er byrjaður aftur (jei?). Ég er með þrjár bækur hérna á borðinu mínu sem mig langar til að lesa eða ætla að lesa: Ultimate X-Men, vol. 1 eftir Mark Millar, sem virðist vera tóm froða; I Shall Destroy All the Civilized Planets! eftir Fletcher Hanks, sem er forvitnileg; og The Strongest Man in the World eftir Louis Cyr og Nicholas Debon, sem ég veit ekkert um.

Mig hálflangar í X-Box bara til að geta spilað Bionic Commando.

Og endurreisn bókmenntavefsins gengur vel.

Mikið er tíminn annars fljótur að líða. Hafiði tekið eftir þessu?

-b.

03 september 2008

We're in the money

Ég er alveg dottinn í Civ. Þessar viðbætur bera nafn með rentu, þarna er heilmiklu bætt við.. Mér fannst einmitt alltaf dálítið skrýtið að maður skyldi ekki geta þjálfað og gert út njósnara fyrren komið væri inní 20. öldina, en þarna er komið helvíti skemmtilegt system og það byrjar með stafrófinu takk fyrir.

Mér finnst ég vera í endalausu veseni með peninga þessa dagana. Þá á ég ekki við að ég rambi á barmi gjaldþrots og sultar, heldur bara að það er einsog allar stofnanir sem ég skipti við vilji annaðhvort rukka mig um peninga eða gefa mér peninga. Skatturinn, bankinn, gagnaveitan, orkuveitan, pósturinn, verkalýðsfélagið.. Þetta gæti ært óstöðugri mann en mig.

En ég er klettur í hafinu. Ef hafið er skrifborðsstóllinn minn og hann er fyrir framan tölvuna og í tölvunni er Civ IV. Einsog ég hef áður snert á.

Hei og amasón pakki kom í dag. Gleði?

-b.

02 september 2008

Um buxur og skort á buxum

Það eru svona hnappar á gallabuxunum mínum, nema að þeir eru ekki beint hnappar. Meira svona einsog boltar sem ganga í gegnum efnið á ákveðnum stöðum, þar á meðal við hvorn endann á vösunum að framan. Og aftari boltarnir, þessir sem liggja nær mjöðminni en ekki maganum, hafa krækst utaní hluti einsog hurðarkarma og svoleiðis, og beyglast uppávið. Þannig að núna eru tvær beittar járnskífur utaná gallabuxunum mínum, þarsem hendurnar eru helst að þvælast, við framanávasana. Ég er búinn að skera mig nokkrum sinnum á þessum andskotum. Ekki alvarlega, en þetta er dálítið þreytandi.

Ég er að hugsa um að rífa þá úr. Detta buxurnar í sundur? Hver veit.

Ég veit hinsvegar að í morgun var gengið inná mig þar sem ég var að stíga uppí sturtuna heima. Það var nett óþægilegt. Hann Frikki benti á að það hefði líklega verið óþægilegra hefði stöðunni verið snúið við, og ég gengið inná viðkomandi. Ég held það sé nokkuð til í því.

Auðvitað var þetta trassaskapur í mér að læsa ekki dyrunum, en ég hef einhvernvegin aldrei vanist því, ég veit ekki hvers vegna. Þá hugsaði ég með mér að eitthvað í þessa veru hlyti að koma fyrir fyrr eða síðar.. Svona einsog þegar franski herinn hefur vetursetu í Moskvu: það skiptir minnstu máli hvað veldur, borgin brennur áður en vorar. Þá er kannske fínt að koma því frá, taka því sem víti til varnaðar (fyrir þá sem muna svoleiðis) og snúa sér að öðru.

Hei vinnudagurinn er úti. Hjóla heim Björn.

-b.

01 september 2008

Halló vinnuheimur

Mikið hef ég verið latur við þetta undanfarið. Þó hef ég verið í sumarfríi, og hefði faktískt getað blaðrað og blaðrað í netið endalaust og botnlaust og aldrei þurft að líta uppúr tölvunni nema til að sofa og drekka kaffi. Er þetta þá ástæðan fyrir því að fólk hættir að blóka og vefsíður þorna upp? Að manneskjurnar hafi ekki lengur nóg að gera og hætta að slæpast?

Ég meina, ég hef alveg hangið í tölvunni í þessu sumarfríi, ég hef bara verið að gera eitthvað annað. Glápti á Studio 60 aftur og nei, þótt það hafi verið ljósir punktar hér og þar þá voru þættirnir sem slíkir aldrei góðir. Generation Kill náði aldrei neinu hámarki en kannske var það heldur ekki meiningin. Svo spilaði ég smá Civ IV. Hlakka til að prófa Beyond the Sword viðbótina.

Ég fór ekki á Súganda. Hugmyndin hafði verið að fara til að vera einn útaf fyrir mig, og mér leist ekki á blikuna þegar ég komst að því að hann Bjössi yrði þarna á sama tíma. Mér er allsekkert illa við hann, þvert á móti, en ég fór að hugsa útí það sem myndi sitja á hakanum á meðan ég væri í burtu og hvað ég gæti gert hérna heima. Og ég ákvað að fara ekki fet. Svo hringdi hún Mamma í mig morguninn eftir og sagði að karlinn hefði líka hætt við. Jæja.

En ég setti fötin mín í þvott og braut saman í rólegheitunum, eldaði kjúkling, kíkti austur og hitti fólk, kíkti til Keflavíkur og sá nýju íbúðina hans Óskars bróður. Sem hann keypti af pabba sínum, sem hann hafði áður keypt af Sigga bróður. Við borðuðum bakkelsi og ég drakk mjólk á meðan Óskar raðaði í ísskápinn. Hann er farinn að vinna á KFC í Keflavík, býr með konunni og tveimur pínulitlum hundum, borgar minna af tveggja herbergja íbúð en ég geri í leigu af 1/3 af fjögurra herbergja íbúð, en hann er jú í Keflavík.

Reykjanesbrautin er reyndar nokkuð góð. Það breytir ótrúlega miklu að geta tekið framúr sleðunum án þess að bíða og kíkja í korter á undan.

Annað sem gaman er að taka fram fyrir Björn framtíðarinnar: Núna áðan gekk ég endanlega frá skattaveseninu (góða veröld gefi að það standist). Í þetta sinnið strandaði það á verktakagreiðslu frá bókasafninu, en ég borga bara þann gaur og fæ síðan endurgreitt það sem ég hef þegar greitt umfram rétta upphæð. Þá ætti ég að vera í nokkuð góðum málum um næstu mánaðarmót.

Skólinn byrjar núna rétt bráðum. Ég þarf að hætta í kúrsinum sem ég er skráður í og fá einhvern til að hafa umsjón með rannsóknarverkefninu mínu.

Ég byrjaði aftur að vinna í dag og á sama tíma kemur nýr gaur í staðinn fyrir hann Ólaf, sem er fluttur á Reyðarfjörð. Nú kem ég bara til með að vinna eina kvöldvakt á viku og fjórðu hverja helgi. Hvílíkt næn tú fæv.

Ég ætla að byrja í ræktinni aftur. Reyna að endast aðeins lengur í þetta skiptið?

Ég setti nokkrar myndir inná flickr, eina tvær úr innflutningspartíinu (hei takk fyrir komuna þið sem mættuð), nokkrar úr keilu og eitthvað. Hér er ein:þarsem ég fagna eftir fellu.

En ég ætla að kíkja út í hádegismat núna.

-b.

24 ágúst 2008

SúgandiEinn tveir: Ég gæti flogið vestur á morgun og komið aftur á fimmtudag eða föstudag fyrir rúman sautjánþúsundkall. Ég gæti nuðað í Inga Birni til að koma mér á Suðureyri og tilbaka.

þrír fjórir: Það verður rigning næstum allan tímann, samkvæmt veðurstofu.

fimm sex: En það verður rigning um allt landið meira og minna, svo það skiptir kannske ekki svo miklu máli hvar maður verður.

sjö átta: Jú og mér er eiginlega farið að leiðast þetta aðgerðarleysi hérna í Reykjavík, kannske er ráð að gera ekkert einhverstaðar annarstaðar.

níu tíu: Svo var ég reyndar að frétta að það verður annar gaur þarna frá þriðjudegi til föstudags.. Ég þekki hann lauslega, en þetta er aðeins minna freistandi fyrir vikið.

ellefu tólf: Já ég veit ekki alveg með þetta. Sjáum til nokkrar mínútur í viðbót.

-b.

22 ágúst 2008

Hei þið sundkallar

Sagði ég einhverntíman frá honum Bjarti Loga, sem ég leigði með á stúdentagörðum? Skrifborðin okkar lágu sitthvoru megin að sama veggnum og á kvöldin sat ég við tölvuna og hlustaði á hann hlusta á rólegt og rómantískt og syngja með. Celine Dion og Michael Bolton og fleiri góðir. Sú var nú tíðin.

Mér varð hugsað til hans núna þarsem á hæðinni fyrir neðan er kona og hún á dóttur og dóttirin er í söngnámi. Hún er að æfa sig býst ég við, hún er búin að vera að syngja síðustu klukkutímana. Endrum og eins heyrist píanósláttur.

Það er gaman að búa í samfélagi við fólk, þarsem manneskjur gera hluti.

Í gær kom hún Þórunn aftur að austan og þær Ingibjörg dönsuðu við einhverja mússík sem ég hafði ekki heyrt áður. Gólfið í stofunni er ekki mikið en það dugði þeim. Ég flúði inní herbergi, þarsem ég er ekki mikið fyrir sporið, en það var óneitanlega gaman að fylgjast með þessu útundan öðru auganu.

Ég sýð meira drasl í potti og drekk appelsínusafa og borða hollan mat, en ég er samt eitthvað stíflaður. Góð vinkona mín benti mér á að detta í það, ég veit ekki hvort hún meinti það í hálfkæringi. En ég á hvorki viskí né romm, bara bjór. Varla dugar það. Önnur vinkona mín sagði mér að fara snemma að sofa en ég veit ekki hvernig það er gert.

Amma sagði þetta um daginn þarsem við mamma og hún sátum og borðuðum, eftir að hafa flutt draslið mitt í nýju íbúðina: Heimurinn er lítill þegar fólk er að tala saman. Sem er alveg rétt. Og hann stækkar þegar maður talar ekki við annan en sjálfan sig í nógu langan tíma, og minnkar dálítið aftur þegar maður heyrir fólk syngja í gegnum veggi.

Hei já, ólympíuúrslitaleikur í handbolta á sunnudaginn? Áfram Ísland.

-b.

21 ágúst 2008

,,Ráðgátan" ,,"leyst"" ,,",,!",,"

Lesið hér frétt í heild sinni af mbl.is:

Rannsóknarmenn lýstu því yfir í dag að þeir hefðu leyst ráðgátuna frá 11. september 2001: Hvers vegna hrundi World Trade Center bygging númer 7? Hrunið hefur verið uppspretta margra samsæriskenninga síðan það varð.

Byggingin sem var 47 hæðir var hinum megin við Vesey Street á Manhattan. Þann 11. september 2001 barst eldur að byggingunni með braki úr tvíburaturnunum en efasemdamenn hafa haldið því fram að eldurinn og brakið eitt og sér nægi ekki til að útskýra hrun byggingarinnar sem var byggð úr stáli og steypu.

Vísindamenn við National Institute of Standards and Technology segja að þriggja ára rannsókn þeirra leiði í ljós að í fyrsta skipti í sögunni hafi verið sýnt fram á að eldur hafi eyðilagt skýjakljúf.

„Ástæða hrunsins á World Trade Center 7 er ekki lengur ráðgáta,“ segir Dr. Shyam Sunder, aðal rannsóknarmaður teymisins.

Rannsóknarmennirnir komust einnig að því að hrun turnanna í nágrenninu hafi rofið aðal vatnsæð borgarinnar og því hafi úðakerfi á neðstu hæðum byggingarinnar ekki virkað sem skyldi.

Byggingin hefur verið uppspretta margra samsæriskenninga undanfarin sjö ár, ekki síst í ljósi þess að hrunið átti sér ekki stað fyrr en sjö klukkustundum eftir að tvíburaturnarnir hrundu. Það vakti grunsemdir um að einhver hefði vísvitandi sprengt bygginguna í loft upp.

Meðal þeirra sem ekki trúa útskýringum rannsóknarmannanna er Mike Berger úr samtökunum 9/11 Truth.

„Skýring þeirra er einfaldlega ekki fullnægjandi. Það er verið að ljúga að okkur,” segir hann og bendir á að til séu gögn sem gefi til kynna að sprengiefni hafi komið við sögu.

Sunder segir að hópur hans hafi kannað möguleikann á því að sprenging hafi átt sér stað í byggingunni og valdið hruninu. Hins vegar hafi ekki verið neinn hvellur eða annar hávaði sem hefði fylgt slíkri sprengingu. Hópurinn bjó líka til tölvugert líkan af hruninu, byggt að hluta til á myndskeiðum frá CBS News og segir að það sýni súlur í húsinu hrynja sem orsaki síðan hrun byggingarinnar í heild sinni.

Þeir útilokuðu einnig að hrunið hefði orðið vegna elda út af dísilolíu sem geymd var í byggingunni. Var hún geymd þar vegna vararafstöðvar.

Í niðurstöðum skýrslunnar sem er 77 síður segir að náðarhöggið hafi orðið þegar 13. hæðin hrundi og þar með veikt burðarsúlur nægilega til þess að byggingin hrundi algerlega.


WTC bygging nr. 7, sem var fjörutíu og 7 hæðir, hrundi fyrir 7 árum og skýrslan er 77 síður? Og náðarhöggið kom þegar 13. hæðin hrundi? (En sjáið að ef þið leggið saman 1 og 3 og bætið þeirri tölu við 13 þá fáið þið 17. Og ef þið leggið 17ið við hinar sjöurnar fáið þið 52, en 5+2 eru 7!)

Þetta er klárlega eitthvað vúdú. Aldrei að treysta útskýringum.

-b.

20 ágúst 2008

Drasl sem ég sýð í potti

er þetta hér: engiferrót, sítrónur, hvítlaukur, blóðberg. Smá hunang með kannske. Ég átti reyndar engan hvítlauk í þetta skiptið, svo hitt varð að duga. Þrusugott stöff sko, en ég er nú samt eitthvað stíflaður.

Fór og sótti hjólið mitt úr viðgerð. Allt annað líf.

Er enginn á lífi í miðbænum?

Eða annarstaðar?

Ég gefst ítrekað upp á Nihil obstat.

-b.

19 ágúst 2008

JESSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSSS LOKSINS INTERNET *KYSS KYSS*

Jei ég er kominn með net heim í Mávahlíð. Og heimasíma líka. En ég vil ekki nota heimasímann, þannig að ekki biðja mig um að hringja í ykkur úr honum. Netið samt, ég nota það. Jei.

Mér fannst ég vera að verða kvefaður í morgun þannig að ég fór útí búð og keypti allskonar c vítamín og drasl til að sjóða í potti svo mér líði betur.

Mér finnst tíminn líða hratt í dag.

Og ég veit ekki hvað tekur við í kvöld.

-b.

18 ágúst 2008

Í netspreng

Ég setti nokkrar myndir upp á flickr, þar á meðal þessa hér:

Hana kalla ég ,,Hallur horfist í augu við skríðandi óreiðuna, en heldur ró sinni og kemst lifandi undan."(Einsog kunnugir vita þá er skríðandi óreiðan enginn annar en Nyarlathotep, og þónokkuð afrek af Halls hálfu að sleppa útaf Dillon með höfuð og hreðjar. Á hinn bóginn hefur hann væntanlega misst ansi mikið san og hlýtur að teljast vopnaður, sturlaður og stórhættulegur mannfólki og náttúru.)

...

Nú er netið enn ekki komið í Mávahlíðina (eftir því sem ég best veit) og ég sit því á Prikinu. Hérna á ská á móti, fyrir utan Sólon, sá ég hvar mótorhjólalögga sat og spjallaði við félaga sína, einsog hann gerði líka síðast þegar ég var hérna. Sirka klukkutíma eftir að ég settist niður, núna rétt í þessu, stóð hann upp og talaði í síma eða talstöð, setti á sig hjálminn, stökk á hjólið og brunaði niður gangstéttina með sírenu og ljós í gangi.

Mér þætti gaman að vita hvaða ósköp gengu á svo þessi gaur skyldi hætta á að keyra niður hóp af gangandi vegfarendum á Bankastrætinu..

...

Við Davíð og Víðir kíktum á X-Files myndina og hún var hörmuleg. Ég er hinsvegar alltaf á leiðinni á Dark Knight aftur. Núna í kvöld?

Og mig langar að kíkja austur alltíeinu.

Ég er búinn að koma mér fyrir í Mávahlíð, það síðasta var að tengja græjurnar og ég gerði það í gær. Ég á reyndar eftir að fara með gamla magnarann og plötuspilarann niður í geymslu, en ég geri það í einhverri ferðinni. Standlampanum kem ég hvergi fyrir. Og við þurfum að hugsa stofuna eitthvað aðeins betur. Bíðum samt með það þangað til við erum öll komin saman.

Gleraugun mín beygluðust í smávegis vingjarnlegum ryskingum um helgina. Ég fór með þau í Gleraugnasmiðjuna og þau löguðu þau fyrir mig endurgjaldslaust. Kannske var það ekkert til að tala um fyrir þetta ágæta fólk, en mér þótti það samt fallegt af þeim.

Og ég fór með hjólið mitt í viðgerð. ,,Stilla og yfirfara" einsog gaurinn kallaði það. Eftir nokkrar vikur má ég fara að nota það aftur.

...

Ég vissi ekki að fólk fylgdist með Ólympíuleikunum. Er ég firrti gaurinn sem vill ekkert vita?

...

Þrem korterum síðar er mótorhjólalöggan komin aftur á staðinn sinn. YP-556. Varið ykkur.-b.

15 ágúst 2008

Þriðji frídagurinn, þar sem sögumaður okkar fer í Kringluna

Nú sit ég á kaffihúsi í Kringlunni, og gæti náttúrulega verið að gera ýmislegt annað, en ég kýs að gera þetta akkúrat núna. Drekk grænt te, las moggann áðan, kíki á netið. Maður er hálflamaður án internetsins heima. Hérna er allstaðar fólk með kerrur og í kerrunum eru staflar af pappakössum, það er endalaust verið að bera draslið inn í búðirnar sem selja draslið.

Ég er eitthvað slappur, líklega er það bara eftir gærdaginn. Best væri að koma sér heim og leggjast í nokkrar mínútur.

Það eru einhverjir satans gaurar að vinna í húsinu þarsem ég bý, að setja upp nýjar þakrennur og ég veit ekki hvað. Þeir byrja klukkan átta níu á morgnana.

Nú er ég loksins búinn að hitta alla þá sem búa í húsinu. Þetta er indælis fólk. Kona á fimmtugsaldri á fyrstu hæð og dóttir hennar, sem er í söngnámi. Ungt par í kjallaranum, þau eiga litla stelpu og kettling (sem mér skilst að heiti Kisulóra). Og lögreglumaðurinn Eiríkur á loftinu, en hann er frá Egilsstöðum. Eiríkur sagnfræðinemi, sem ég leigði með á stúdentagörðum, hann var líka frá Egilsstöðum. En þessir tveir menn eru ekki sami maðurinn.

Ég er ánægður með hvað sturtan er góð í nýju íbúðinni. Og að maður geti fengið volgt vatn úr eldhúskrananum, ekki bara heitt og kalt.

Afgreiðslufólkið hérna lætur einsog ég sé fyrir því. Það vill líklega að ég eyði meiri peningum.

Mig hálflangar að kíkja á Selfoss en það er langt komið á föstudag og ég þarf að vera hérna á morgun og ég á enn eftir að raða uppí hillurnar. Í gluggasyllunni eru staflar af bókum sem byrgja mér sýn. Ég blindast!

Krakkar eru fyndnir en þeir eru líka hálfvitar. Sumir fullorðnir eru þannig líka.

Fólkið í Amnesty göllunum er alltaf að reyna að stoppa mig og segja mér eitthvað. Kannske ég ætti að staldra við einhvern daginn og vita hvað það er að tala um. Það eru bara ósjálfráð viðbrögð að stoppa ekki á gangi þegar einhver er að biðja mig um peninga.

Geispi geisp. Voðalega er ég orkulítill. Það er eitt eða tvennt sem ég þarf að gera hérna í viðbót og svo er heim heim, kannske Zeppelin á fóninn á meðan ég legg hillurnar á typpin og raða bókum og diskum á þær. Fyrst í huganum, svo í heiminum. Og set drasl á veggina. Finn einhvern góðan stað fyrir L'Ours.

Hef ég minnst á Fyrirætlunina? Mér býðst íbúð á Suðureyri frá þarnæsta mánudegi og út fimmtudaginn. En málið er: Mig langar að fara þangað til að vera einn, en ég nenni varla að keyra þessa leið einsamall. Hún er löng og köld og löng. En ef ég flýg á Ísafjörð þá þarf ég að taka leigubíl á Suðureyri?

Við hugsum málið, ég og kóngurinn og presturinn.

Hlýtur byr að ráða?

Með Páli Óskari í forsvari? Get ég bankað uppá og spurt hann útí þetta augliti til auglitis?

Eða á maður að salta þetta í einn tvo daga og kíkja á X-Files myndina.

...

Í gær þrifum við Sævar Skaftahlíðina, svona einsog við gátum. Það er ennþá eitthvað í eldhússkápunum og svona, en herbergin okkar eru tandur og allt hitt að minnsta kosti betra en það var þegar við tókum við því. Nei heyrðu ég gleymdi að taka hjólið mitt úr kjallaranum. Bölvað. Freyja er búin að leggja inná mig samt. Og ég held ég hafi klárað skattavesenið í gær.. það var nú eitt.

Hollráð, góð ráð til þeirra sem fara út í skiptinám og fá styrk frá nordplus eða erasmus: Þegar kemur að því að færa styrkinn inn í skattframtalið þá á hann að fara í reitinn sem er merktur ,,aðrar skattfrjálsar tekjur". EKKI í ,,styrkir til náms, vísinda eða rannsókna". Þetta fer undir sama hatt og dreifbýlisstyrkurinn vinsæli.

Og það skrýtna er að e.t.v. kemur þetta rugl í skattinum til með að lækka álagninguna mína, vegna þess að þegar skattlega heimilisfestin var komin á hreint -- þeas. ég hafði fengið að vita hvað ég þyrfti að senda og hvert til að fá það leiðrétt -- þá benti hún Sigurlín blessunin mér á að ég gæti sent inn rekstrarreikning fyrir flugferðum, leigu og námsgögnum, og að það myndi dragast frá reiknuðum skatti af Nordplus-styrknum. Þetta vissi ég ekki þegar ég borgaði skatt af styrknum sem ég fékk haustið 2006. Þá fór ég að spá í þessu frekar og hringdi í Alþjóðaskrifstofu og fékk þar að vita að ég þyrfti ekki að skila inn neinum reikningi; ég hefði bara sett upphæðina í vitlausan dálk. Úbbs og svo framvegis.

En semsagt. Hefði skatturinn ekki ætlað að rukka mig um alltof alltof mikið fé þá hefði ég aöl. ekki kippt mér upp við að borga smávegis óþarfa skatt af styrknum góða.

Ekki það, ég eyði þessu öllu í bús og kvensur. En það verður MITT bús og MÍNAR kvensur. Erum við í sovjetríkjunum eða hvað?

-B.

11 ágúst 2008

Horfið á myndirnar mínar!

Ég er ekki enn búinn að benda á myndir af versló??! Hérna eru þrjár, sjáið eina eða tvær í viðbót með því að smella á mynd....

Ég flutti slatta af drasli í dag. Þessi sunnudagur var helvíti fínn. Og svo tveir dagar í viðbót fram að sumarfríi? Í nýju íbúðinni minni? Geggjað.

-b.

10 ágúst 2008

Klámið hans Kafka

Les brot:

Even today, the pornography would be "on the top shelf", Dr Hawes said, noting that his American publisher did not want him to publish it at first. "These are not naughty postcards from the beach. They are undoubtedly porn, pure and simple. Some of it is quite dark, with animals committing fellatio and girl-on-girl action... It's quite unpleasant."

"Academics have pretended it did not exist," Dr Hawes said. “The Kafka industry doesn’t want to know such things about its idol."

He added: "Perhaps Kafka's biographers simply don't like the idea that their literary idol was helped out in this... way in the vital early stages of his career... Of the world's authors, only Shakespeare generates more PhDs, more biographies, more coffee-table books... Everything Kafka wrote, every postcard he ever sent, every page of his diary... is regarded as a potential Ark of the Covenant... Yet no-one has ever shown his readers Kafka's porn."

Ég las þetta og hugsaði að ég væri nú alveg til í að lesa klámið hans Kafka. En svo er þetta bara klám sem hann keypti! Hann skrifaði ekkert af þessu sjálfur. Pah.

Mig rámar í brandara sem Bill Hicks sagði um það ef hann myndi nú deyja í bílslysi eða þvíumlíkt, og foreldrar hans kæmu eftir jarðarförina til að hreinsa útúr íbúðinni, og innanum barnamyndirnar og skólabækurnar finndu þau stóra svarta ruslapoka af óhugnalegu klámi. En það hefði verið eftir sviplegan dauða, hann hefði ekki haft tækifæri til að hreinsa til hjá sér. Nú dó Kafka eftir langvarandi veikindi.. Var þetta meiningin?

Og í Rant minnir mig, er talað um dauða/kláms-samninga á milli fólks. Við tveir (eða tvö eða tvær) gerum samning okkar á milli um að ef annað okkar fellur frá þá fari hitt í gegnum íbúðina og rusli út öllu kláminu og ,,leikföngunum" og öðru sem hjartveikar syrgjandi mæður ættu ekki að þurfa að raða í kassa. Góð hugmynd. En Kafka las ekki Palahniuk. Átti hann kannske enga vini heldur?

En ú ú, maðurinn átti klám. Jei. Hvar eru Lókbreytingarnar þarsem Gregor Salza vaknar einn morguninn og er orðinn að risastóru typpi sem skríður á veggjum og hrellir fjölskyldu sína? Eða Kaxxxtalinn, þarsem Jizza Q. er handtekin einn góðan veðurdag og látin ganga á milli fangavarða og dómara (sumir þeirra eru griparmaskrímsli), og hún skilur ekki hversvegna henni hefur verið fleygt í þessa kynlífsdýflissu og því síður hversvegna henni finnst það svona unaðslegt!!

?

-b.

09 ágúst 2008

Til að bræða hjarta hennar í lífi þínu

Sungið við Beegees lagið:

Meira en kvensa
þú ert meira en kvensa fyrir mér
meira en kvensa
þú ert annað og meira en kvensa í mínum augum

Ja þú ert náttúrulega kvensa líka,
við vitum bæði að þú ert kvenkyns
en það sem ég á við er að af þessum hundrað prósentum þínum þá ertu sirka 65% kvensa, og það er nokkuð gott hlutfall.


-b.

hall??!!ur

íbúð?!??!

08 ágúst 2008

This is the way the world ends

Það sem ég er búinn að pakka: bækurnar, dvd-diskarnir og geisladiskarnir. Og góða skapið. Rooosalega er ég þunglyndur.

Toj-hoj.

En ég get alltaf opnað kassann smá og bústað.

Og það leika allir í The Hunt for the Red October. Meira að segja Timothy Carhart. Og Peter Firth! Þetta er The Thin Red Line níunda áratugarins. Og Connery fær að tala ensku því annars getur hann ekki schándað schwalur.

Ég tók ekki eftir því þegar ég sá hana fyrst: Myndin skiptir úr rússnesku í ensku á orðinu ,,armageddon", væntanlega afþví það er eins í báðum tungumálum? Komið úr hebresku. Og auðvitað snýst þetta alltsaman um heimsendi eða möguleikann á heimsendi eða óttann við heimsendi.

Fimm dagar í sumarfrí!

(Ég skrifaði fyrst ,,Fimm dagar í heimsendi". Úbbs.)

-b.

07 ágúst 2008

Sumarfrí

Ég er búinn að panta mér frí frá og með 13. ágúst og út mánuðinn. Jafnvel aðeins inní hann. Þá get ég flutt, þrifið gömlu íbúðina og komið mér fyrir í þessari nýju. Og kannske gert eitthvað annað líka.. Lesið?

-b.

Á meðan ég man: titill

Næsta ljóðabók mín mun heita Vinir mínir eru hálfvitar.

Titillinn kom uppúr samræðum á pallinum niðrí bústað á sunnudeginum. Og mér finnst hann bestur.

Hendum hérna inn einu geðveiku ljóði.

...

Alvarleg mál í myndlíkingum líðandi stundar

Hei ríkisskattstjóri!
Ekki teisa mig bróðir, með rukkunum
og draga af laununum mínum einsog löggan dregur Saving Iceland niður af Heiðinni
því þá verð ég einsog skotinn ísbjörn í veskinu
og sífellt líkari Kára Stefáns eða Hannesi Hólmsteini eða öryrkjunum (því þeir eru alltaf í fréttunum).

...

Milljónir!

-b.

Blikkandi hjörtu eru ekkert gei

Nýja uppáhaldsblókið mitt. Passið að hafa kveikt á hátölurunum eða heyrnartólum.

Crazy ball!

-b.

06 ágúst 2008

Hei Björn hvað er að gerast?

Á ég að vera einn af þessum gaurum sem segir bless við bloggið sitt af því að hann hefur svo mikið að gera og netheimar eru ekki lengur líkir sjálfum sér, veröldin er grimm og vinnan hræðileg og veðrið skítt og konan farin og börnin þekkja mig ekki og hundurinn dó og bíllinn bilaði og skáldsögunni var hafnað og þetta gæti verið krabbamein og nýja Fantað er ekki eins á bragðið og gamla Fantað?

Til hvers að vera sá gaur. Ekkert af þessu er satt, nema þetta um Fantað, en ég drekk ekki Fanta. Ég hef bara ekki fundið neina þörf til að setja orð á blað. Nema núna í þetta skipti. Þetta er þversögn, þær eru svo nauðsynlegar. Sko:

Mér dettur ekkert í hug (nema það að mér dettur ekkert í hug -- og það að hugdettuleysið sé hugdetta).

Á þessu getur maður þrifist.

Svo er tvennt ólíkt að hafa ekkert að segja og að hafa ekkert um að tala.

Hvað um það. Hún þarna stelpa í bandi. Leiló. Hún var hérna rétt í þessu, gekk um og skoðaði. Hún barst í tal um helgina, við vorum að reyna að muna í hvaða bandi hún er, þessu sem við sáum á Airwaves þar sem Bassi spilar á trommurnar. Af því að við höfðum farið á þá á Organ og látið einsog hálfvitar og enginn í kringum okkur var að fíla það þegar við tókum að hrinda hvor öðrum í pínulitlum moshpit og Davíð fór oná herðarnar á Víði en þurfti að beygja sig til að rekast ekki uppí loftið. Og bandinu leist ekki á blikuna, eða svo sýndist Davíð; ég man óskup lítið eftir fólkinu í kringum okkur.

En svo hringdi Hlynur í Helgu og hún sagði að Leiló væri í Benny Krespós, en það var ekki bandið sem við sáum, heldur Nilfisk. Svoleiðis að það var allt í lagi. Hvernig getur maður ekki látið einsog fífl á Nilfisk tónleikum á Organ?

Ég gæti kannske reynt að segja eitthvað frá bústaðarferðinni, en það gerðist óskup fátt. Við spiluðum Djenga, Kubb, Petank, Actionary, Kana, Bíóbrot, Catan, Skrafl og Pictionary. Ég spilaði samt ekki þessi tvö síðastnefndu því ég var annaðhvort nennulaus eða að leggja mig. Ég uppskar tóma vanvirðingu þegar ég vann í Kubb, og svo furðar þetta lið sig á því að maður nenni ekki að spila við það.

Annars fann Hlynur (held ég alveg örugglega) fínasta Kubb-völl aðeins ofar í hlíðinni, sem var mun betri en þessi litli flati blettur bakvið bústaðinn. Það var stuð. Ég sendi Má mynd þaðan þangað sem hann var fastur í tilgangslausu barnaafmæli.

Við grilluðum helling. Pylsur, lambarifjur og svínakótilettur fyrir mig. Á laugardagskvöldi var brenna sem við nenntum ekki að kíkja á. Á sunnudaginn skutlaði ég Víði í rútuna á Borgarnesi. Mikið óskaplega var ég þreyttur þegar ég kom heim á mánudaginn.

...

Í gær flutti ég nokkra kassa yfir í nýju íbúðina, stelpurnar hjálpuðu aðeins til, en þær eru búnar að raða inní stofuna. Ég er svona að sirka út hvernig ég raða til í mínu herbergi. Ég virðist hafa fengið skrifborðið sem hjónin skildu eftir inní stofu, og er mjög sáttur við það.. Það er gott að hafa skrifborð en ég henti mínu þegar ég flutti til Köben. Stofustóllinn minn fer inní herbergi ef hann kemst, ég er ekki alveg búinn að finna útúr því hvernig ég raða bókahillunum.

Hei hann Orri kom og heilsaði uppá mig. Hann var að leita að nýja ritinu. Langt síðan ég hef séð hann..

Langt síðan ég hef séð nokkra úr bókmenntafræðinni. Nema kannske Atla Bollason, í sjónvarpinu. Ég fór niðrí skóla í dag að sækja vottorð um skólavist, leit inná Nemendaskrá og herbergið var fullt af ferðatöskum. Allskonar litar ferðatöskur á hjólum, sem stóðu uppréttar. Þetta var dálítið einsog installasjón sem maður nennir samt ekki að skoða alltof vel. Og ég mundi undireins að Nemskrá var færð yfir í Háskólatorg, þar fékk ég vottorðið mitt, nó próblem.

Fyrir utan var verið að skjóta eitthvað á filmu. Nýjan íslenskan spennuþátt?

...

Já og í gær, skondið smælki á forsíðu Fréttablaðsins:
Flestar þær hátíðir sem haldnar voru um verslunarmannahelgina gengu vel fyrir sig. Á Akureyri leituðu tvær konur á neyðarmóttöku vegna nauðgana, en þær hafa ekki verið kærðar til lögreglu enn sem komið er.

Já, ég hló bara víst.

-b.