06 janúar 2014

Best ársins 2013

Mister Kottke segir að bloggið sé dautt. Það er erfitt að andmæla því, nema maður sé haldinn þeim kvilla að taka öllu bókstaflega. Það sem hann á við er að bloggið er enn gott og gilt þannig séð, sem birtingarmiðill, en að einstaklingar noti það ekki lengur til að útvarpa hugsunun sínum til vina sinna og kunningja. Þeir sem hafa enga þörf fyrir að skrifa lengri texta bara af því bara hafa ekki notað blogg í háa herrans tíð. Það er komin miðstýrður, alltumlykjandi vefur sem sinnir pot- og deiliþörfum fólks frá degi til dags.

Það er ekki nema maður hafi eitthvað í lengra lagi að færa fram sem þessi stóri vefur dugar ekki. Mér finnst það allavega ekki vera. Það eru sumir sem láta dæluna ganga í stöðuuppfærslum en ég held að enginn þeirra sé fyrsti kontakt hjá mér.

Þetta fer að verða óþarflega langur inngangur. Ég hef semsagt yfirleitt samið persónulegan poppkúltúr-topp-fimm-til-tíu lista fyrir árið þegar það er á enda. Í hitteðfyrra skrifaði ég hann inn á feisbúkk, það virkaði engan veginn. Kom út eins og spam. Á hinn bóginn finnst mér það líka virka einsog spam að plögga sín eigin bloggskrif á FB..

Ahemm.

Maður er farinn að ranghvolfa augunum yfir pistlum sem tala um gullöld sjónvarpsins. Þetta eru viðtekin sannindi, hvort sem það er satt eða ekki að sú ætlaða öld sé akkúrat núna. (Sjá einnig: myndasögur eru ekki bara fyrir börn.) Það sem felst í þessu er sú ónotlega tilfinning að með því að njóta sjónvarpsins ekki sem allra mest séum við að missa af einhverju stórbrotnu; að endurreisnin fari framhjá okkur í hvert skipti sem við erum EKKI að horfa á sjónvarpið.

Ég ætti að hætta að segja "við" og segja "ég", því það er það sem ég á við.

Enn fremur ber þessi hugmynd það með sér að bráðum verði þessu öllu lokið, hvort sem ég fylgdist með eða ekki. Að þetta eigi aldrei eftir að verða eins og nú. Og þaðan kemur eftirsjáin sem á að verða.

Öld er líka óskaplega opið hugtak í þessari merkingu. Er árið í ár jafn gott og árið 2006? Ef ekki, þýðir það þá að öldinni sé þegar lokið eða erum við ennþá innan mengis?

Sennilega tekur enginn þessu svo alvarlega.

En þetta stuðar pínulítið núistann í mér, sem vill ekki kvitta fyrir horfnar aldir listarinnar, hvenær sem þeim er ætlaður tími. Nú eða fimmhundruð fyrir krist, alltaf skal mér gert að skilja að ég sé að missa af einhverju.

En semsé. Ég á erfitt með að skrúfa alveg niður í þessu þegar ég lít yfir listann af þeim sjónvarpsþáttum sem ég horfði á í ár. Ég held litla dagbók þar sem hver þáttur fær eina línu: Nafn þáttarins, númer seríu og svo plús eða mínus eða plúsmínus. Það er alltof mikið af góðu dóti hérna, og það sem er ekki svo gott er samt nokkuð gott. Ég veit ekki hvað ég á að hafa þennan lista langan, ætli fimm sé ekki passlegt?

Sjónvarp ársins 2013:

Comedy Bang Bang (1. og 2. þáttaröð, en 2. er betri)
Dálítið absúrd og dálítið kammó en samt einhver broddur í húmornum. Þættirnir eru ójafnir en þegar þeir ná flugi þá eru þeir með því besta sem ég hef séð.

Girls (aftur bæði 1. og 2. þáttaröð)
Ég veit ekki hvaðan þessir þættir eru sprottnir. Þeir stilla fram einhverskonar barnslegri gleði eða jákvæðni, kannske í einu orði bjartsýni, andspænis veröld sem er svo greinilega ekki á sömu línu og persónurnar. Það er eitthvað mannlegt og hrátt og ekta (að svo miklu leyti sem persónurnar eru jafn feik og poppkúltúrinn sem þær borða) í þessu fólki sem mér ætti að vera sama um.

Mad Men (6. þáttaröð)
Það eru rosalega margar góðar senur í þessari þáttaröð sem segja eitthvað um það hvernig fólk heldur bara áfram að lifa einsog það gerði áður, þrátt fyrir allt sem það hefur gengið í gegnum og það sem það ætti að hafa lært hingað til. Mad Men eru svo ekki bundnir einhverri narratívri línu eins og til dæmis Breaking Bad gengst upp í; að minnsta kosti ekki þannig að manni finnist þeir stefna að einhverju sem maður ætti e.t.v. að geta giskað á, eða í það minnsta að hlakka til. Allt það sem gerist hefur jafnmikla vigt, og það er eitthvað rétt við það. Þetta á sér hliðstæðu í því hvernig þátturinn nálgast períódu-hliðina: Fortíðin leyfir þeim að búa til hliðstæðan veruleika sem er framandi en kunnugur um leið, en mjólkar hinsvegar ekki dramatísku íróníuna sem liggur svo beint við: að blikka áhorfandann með feitletruðum vísunum í atburði sem við við þekkjum betur en persónurnar.

Hannibal (1. þáttaröð)
Stundum fáránlega gróteskir miðað við að þeir eru sýndir í sjónvarpi, en ofsalega fallegir þættir. Einhvernveginn verður persónan Hannibal Lecter ný og áhugaverð, eftir þessa vitleysu með kvikmyndirnar.

Breaking Bad (seinni hluti 5. þáttaraðar)
Mér dettur í hug brandarinn úr Family Guy þar sem faðirinn segist ekki fíla The Godfather. Ástæðuna segir hann vera eftirfarandi: "It insists upon itself." Þetta er það sem Breaking Bad gerir: Þættirnir eru með ímynd af sjálfum sér og þeir krefjast þess að maður mæli þá útfrá þessari ímynd. En þeir gera þetta bara svo vel. Framvinda sögunnar er svo vel unnin, það er nánast einsog hún hafi verið greypt í stein (þættirnir eru nánast andhverfa Mad Men í því tilliti), en án þess að vera nokkru sinni fyrirsjáanleg.

Þetta er allt bandarískt efni. Ég myndi líka nefna, í ensku deildinni, The Trip, The Fall, Luther og Hit & Miss. Ég þarf þá sennilega ekki að taka það fram að allt sem ég nefni í þessum lista varð til á þessu ári fyrir mig, það má hafa komið út áður fyrir öðrum.

...

Ég fór níu sinnum í bíó á árinu og ég sannfærðist alltaf frekar og frekar um að þetta væri ekki rétta leiðin til að horfa á kvikmynd. Ég efast um að sú reynsla að standa í troðningi eða (einstaka sinnum) röð fimm til sex sinnum á tveimur og hálfum tíma, og sjá þess á milli eina kvikmynd í tveimur lotum -- að þetta sé eitthvað verra núna en það var fyrir tíu árum, eða það hefði verið fyrir hundrað árum að öllu jöfnu, en ég hef sennilega minnkandi þol fyrir því. Ég á erfitt með að skilja áhorf kvikmyndarinnar frá umhverfinu og umgjörðinni.

Ég sá 51 kvikmynd í fyrsta skipti á þessu ári. Nærri tvöfalt fleiri en árið 2012. Þar tel ég með heimildamyndir og uppistönd, ég nenni ekki að sortera það frá. Ég horfði á 7 kvikmyndir í annað eða þriðja eða fjórða sinn. Það var misjafnt. Hudson Hawk var mun verri en mig minnti, en það eru líka orðin ansi mörg ár síðan ég tók hana á vídjó. American Beauty hefur elst frekar illa. Wet Hot American Summer er ennþá svona mynd sem mér finnst bara fín, en mér finnst einsog mér ætti að finnast hún miklu fyndnari. The Shining er alltaf jafn stórkostleg, og í þetta skipti drattaðist ég til að lesa bókina í kjölfarið, sem var plús. En ég skil þessi enduráhorf undan.

Bíó ársins 2013, í tímaröð:

The Master -- Paul Thomas Anderson ársins
Room 237 -- heimildamynd, innan nokkurra gæsalappa, um The Shining ársins
Upstream Color -- ástarsaga ársins
Into the Abyss -- dauða- og fangelsismynd ársins
We Steal Secrets -- kaldhæðnasti titill ársins

Ég tek eftir því að þarna eru þrjár heimildamyndir og tvær leikar kvikmyndir. Þær leiknu eru mjög lausar í reipunum þegar kemur að frásögn og strúktúr, en mjög heilsteyptar á sjónrænu hliðina. Höfundarverk, í eintölumerkingunni. Samt er ekkert að gerast hérna sem jafnast á við kvikmyndirnar sem mér þóttu bestar árið 2012. Var ég ekki að horfa á rétta dótið? Var 2013 með flensu?

Versta kvikmynd sem ég sá á árinu er Did You Hear About the Morgans. Hún er furðulega slæm. Það vakti í alvörunni með mér furðu; ég fór á stúfana að reyna að komast að því hvernig þessi óskapnaður hefði orðið til. Mér skilst að það sé til yfirspjall með aðalleikurunum og leikstjóranum, en forvitni mín er ekki svo sterk að ég sé til í að horfa á myndina aftur.

Gangster Squad var líka ofsalega slæm.

...

Á árinu 2013 hlustaði ég aftur á allar Song of Ice and Fire bækurnar á hljóðbók. Og hafði gaman af. Ég las líka Anathem eftir Neal Stephenson, en hafði áður hlustað á hana sem hljóðbók. Hún er ansi löng en ég óð í gegnum hana og hafði, aftur, gaman af. Ég hreinlega fann ekki nýjar spennandi hljóðbækur, eða það sem ég fann myndi ég ekkert endilega mæla með. Allar þessar hérna las ég með augunum.

Bestu bækur sem ég las á árinu 2013:

1491 eftir Charles C. Mann.
Um það hvernig Norður- og Suður-Ameríka kann að hafa litið út áður en landfundamenn komu þar. Rosalega áhugaverð, margþætt og grípandi. Í framhaldi byrjaði ég að lesa Guns, Germs and Steel eftir Jared Diamond, aðra stórsögubók sem er mjög skemmtileg, en ég er bara rétt hálfnaður með hana einsog er.

The Map of the Sky eftir Felix J. Palma.
Framhaldið af The Map of Time. Ég var rosalega spenntur fyrir þessari en vissi um leið að hún gæti aldrei fylgt MOT almennilega eftir. Palma notar svipaðan strúktúr fyrir þessa og það virkar alveg sæmilega, sagan er öll annars konar og gengur mjög vel upp -- sumt sem virkar frekar dauðyflislega í byrjun bókarinnar verður að einhverju stærra og meira undir lokin. Annað ekki. Ég var satt best að segja alltaf að bíða eftir því að lygasagan sem sögð er í fyrsta hluta rættist seinna meir, en það varð ekkert úr henni. Solid framhald samt.

Vince Vaughn í skýjunum og Hjartað er jójó eftir Halldór Armand Ásgeirsson.
Ég skrifaði ósköp langa umfjöllun um þessa fyrir Bókmenntavefinn, og það án þess að fjalla almennilega um síðari söguna í parinu. Ég læt hana duga. Þetta er flott bók.

Heimferðin: skýrsla handa akademíu eftir Jón Karl Helgason.
Ég er ekki aaalveg búinn með þessa enn. Ég greip hana á safninu og hef verið að lesa upphátt úr henni fyrir Nönnu þegar ég sit með henni í bíl. Vel skrifuð og ísmeygileg bók um áhugavert efni -- sem ég vissi greinilega ekkert um.

Anathem eftir Neal Stephenson.
segi ég bara til að fylla upp í fimmuna. Ég las ekkert annað rosaflott á árinu.

...

Ég las lítið af myndasögum á árinu; ég sá fjarska fáar myndasögur á árinu sem ég hafði nokkurn áhuga á að lesa. En nokkrar voru góðar:

Myndasögur ársins 2013:

Are You My Mother eftir Alison Bechdel -- sjálfsævisögumyndasaga ársins
Blacksad: A Silent Hell eftir Juan Díaz Canales og Juanjo Guarnido -- hei gaman að sjá þig hvar hefur þú verið ársins
Saga, fyrsta bók, eftir Brian K. Vaughan og Fiona Staples -- sæfæ myndasaga ársins
Red Handed eftir Matt Kindt -- myndasaga ársins

Jú svo las ég Flex Mentallo aftur á árinu, hún eldist sko ekki neitt. Dem.

...

Tónlist ársins 2013:

Ég heyrði enga tónlist á árinu.

...

Sennilega vegna þess að þegar ég hlusta ekki á hljóðbækur þá hlusta ég orðið á hlaðvarp. Það er líka af nógu góðu stöffi að taka.

Hlaðvarp ársins 2013:

Comedy Bang Bang
Þessi var rosalega sterkur á árinu. Þeir sendu oftar en ekki út tvo þætti á viku, misjafna eins og gengur en engan slæman og marga ofboðslega góða. Paul F. Tompkins ber af einsog venjulega, og mikið djöfull er leitt að hans eigið hlaðvarp skuli hafa lognast útaf. Besti þátturinn, sem er samt held ég alls ekki fyrir þá sem ekki hafa heyrt þáttinn áður, þar sem hann er framhald af þætti frá 2012: Time Bobby 2. Næstbestur: Two Thumbs & Not Much Else.

The Cracked Podcast
Það eru bara komnir sextán þættir og þeir eru sendir út með misjöfnu millibili, en það skiptir litlu máli þegar þeir eru svona fínir. Glúrin og fróðleg umfjöllun um poppkúltúr, en kynslóðabil virðist vera undirliggjandi þema í langflestum þáttunum þó það sé bara til tekið í þeim fyrsta. Besti þátturinn: Why Christmas Movies Are Political Propoganda.

Welcome to Night Vale
Ég var eitthvað tregur til að tékka á þessum þáttum þar sem mér sýndist þeir vera of vinsælir? Eða hugmyndin um gervi-útvarpsþátt eitthvað sem ég hefði ekki áhuga á að skoða. En það var bara helvítis vitleysa, þetta eru mjög flottir og vel unnir þættir. Ég get reyndar ekki fleiri en einn eða tvo í einu og á ansi marga eftir til að ná í skottið á þeim, en það er ekkert verra. Besti þátturinn (sem ég hef heyrt hingaðtil): The Candidate.

The Projection Booth
Hver þáttur er tileinkaður ákveðinni kvikmynd, og inniheldur langar samræður um myndina auk viðtala við fólk sem kom að henni á einhvern hátt. Flestar af þessum myndum hef ég ekki séð, svo ég hef ekki hlustað á megnið af þáttunum sem til eru. En nánast allir sem ég hef hlustað á eru algert nördát. Sá besti: The Adventures of Ford Fairlane.

Hollywood Handbook
Tveir gaurar leika Hollywood-ofurmenni og taka gerviviðtöl við kunningja sína. Heilmikill spuni, dálítið stúpid en oftast skemmtilegt. Bestur: Ben Schwartz held ég.

The History of English Podcast
Ég tók heilmikla skorpu í þessum en datt svo út og á eftir að klára það sem er komið út.. En þetta eru vel unnir og yfirgripsmiklir þættir um enska tungu. Þeir rekja sögu málsins frá indó-evrópska forföðurnum og fara svo niður í gegnum allar greinarnar þar til kemur að ensku eins og hún er töluð í dag. Dálítið heví, en hann tekur nóg af skemmtilegum dæmum til að útskýra þróun tungumálsins og tengsl mismunandi tungumála sem öll spretta upp úr þessu indó-evrópska.

Richard Herring's Leicester Square Theatre Podcast
Afslappaðir spjallþættir, ósköp breskir -- sem er vel þar sem mest af þessu hlaðvarpsdóti sem maður finnur á Itunes er bandarískt (ég er hlekkjaður við æfóninn, já). Bestur: Stephen Fry.

In Our Time
Mikið er ég feginn að þessir þættir skuli vera til. Mikið er ég feginn að BBC skuli vera til, til að búa til svona þætti. Ég hlustaði á ofboðslega marga af þessum þáttum eftir að mér var bent á þá fyrst, en sá besti sem kom út á þessu ári er sennilega Complexity. (Varúð, mp3-tengill.)

Harmontown
Ég hef á tilfinningunni að það sé vonlaust að reyna að selja einhverjum þessa þætti; að sannfæra einhvern um að þeir séu góðir eða þess virði að hlusta á. Þeir hafa aðeins misst dampinn í ár en ég get amk. ekki hætt að hlusta. Þættirnir túruðu um Bandaríkin í byrjun sumars og vörpuðu nýjum þáttum daglega, það var viss hápunktur en varla eitthvað sem hægt er að miðla eftir á.

...

Annað ársins:

Bill Burr í Hörpu 15. desember síðastliðinn. Sennilega viðburður ársins á mínu dagatali.

Takk fyrir góða nótt.

#útvarpsflugufrelsarinn #captainobvious