Einsog vant er byrjaði ég að punkta eitthvað niður laust fyrir áramót og svo klára ég sjálft verkið, rausið, aðalatriðið, einhverju síðar. Núna erum við að detta í endaðan febrúar svo ég stend mig kannske betur en stundum áður.
Megnið af þessu ári er í þoku fyrir mér einsog sjálfsagt fleirum. Sumarið var ósköp eðlilegt inná milli einangrunar og ég er þakklátur fyrir það. Þriggja mánaða heimavinnutörn í lok árs var ekki það besta sem ég hef upplifað. Ég fór til Kaupmannahafnar langa helgi í byrjun mars rétt áður en Danmörk skellti í lás og mikið óskaplega var ég þakklátur fyrir það. Það var einsog ég fengi að draga djúpt andann fyrir fyrsta kafið í vor, einn hringur í umheiminum fyrir einangrun. Ekki að okkur fjölskyldunni hafi liðið illa, við sluppum vel með eina sóttkví saman í tvær vikur, og Kjarrhólminn er engin prísund. En það var gott að hafa ferska minningu um meginlandið í höfðinu samt sem áður. Og svo horfði maður bara á
Sjónvarp
Ég horfði aftur á Deadwood á árinu. Meiningin var að rifja þættina upp áður en ég horfði á kvikmyndina (sjónvarpsmyndina?) sem kom út um daginn. Ég veit ekki hvað er langt síðan ég horfði á þættina, mér finnst nú eins og ég hljóti að hafa gert það síðan þeir voru í sýningum.. En þeir eru stórkostlegir. Æðislegir leikarar, æðisleg handrit, æðisleg veröld.
Allt endar í háalofti í svona hálf endaslepptri en samt ekki þriðju seríu og sennilega var það bara fullkomið. Vegna þess að kvikmyndin er hörmung. Rakið dæmi um það hversu skemmandi það er þegar leikarar/framleiðendur taka ákvarðanir út frá því hvað þeim finnst vænt um persónurnar sínar, OG hvað nostalgía er vonlaust bragðefni í dramatík. Bullock og Swearengen eru nú vænstu grey, allar uppáhalds persónurnar okkar eru enn á sama stað að gera sama hlutinn, alveg eins og var í gamla daga manstu þegar við horfðum á þennan þátt um skúrka í villta vestrinu þar sem enginn var óhultur, mikið er nú gott að þau eru öll heil á húfi.
Bú!
En þættirnir eru ennþá til og þeir eru ennþá æði, alveg einsog bækurnar hans Chandlers.
Og talandi um gullaldarþættina frá HBO, ég horfði aftur á The Wire á einhverjum tímapunkti. Var það í fyrra? Ég hafði séð þá amk. 4 sinnum áður en horfði nú í fyrsta sinn á widescreen hd útgáfuna og það var sömuleiðis stórkostlegt. Minnið bregst mér, eða kannske er það þetta ár sem bregst minninu; þetta kann að hafa verið í fyrra eða hitteðfyrra. Samt æði.
Og meira enduráhorf: Við Nanna höfum verið að horfa á Star Trek: The Next Generation. Rétt einsog með The Wire þá er ég að sjá HD útgáfuna í fyrsta skipti og það er gullfallegt stöff. Ég horfði á þetta alltsaman fyrir sirka 11-12 árum síðan, í Mávahlíðinni. Tryggvi frændi lánaði mér DVD settin sín eitt af öðru. Margt mundi ég vel, en minna en ég hélt. Við erum stödd í miðri 7. seríu núna og það líður undir lok, mig langar helst að segja að þetta er svona sjónvarp sem er bara ekki búið til lengur. Mikið óskaplega er ég feginn að fá þennan rímaster.
Það er böns af vídjóum á youtube sem sýna samanburðinn á upplausn og VFX í gömlu þáttunum annarsvegar og rímasterinu hinsvegar. Áhrifin eru svakaleg, ég mæli með því að kíkja á það. Eins er gaman að sjá útskýringar á því hversvegna þættirnir voru ekki færðir í widescreen, einsog var gert með The Wire til dæmis.
Mr. Robot horfði ég á, frá upphafi til enda á árinu, og var besta nýja sjónvarpið. Ég sá fyrstu tvo þættina þegar þeir voru fyrst sýndir, minnir mig, en nennti ekki að halda áfram. Ég man ekki hvað fékk mig til að kíkja á þá aftur núna. En þótt þeir hafi byrjað pínu brasaralega þá ná þeir takti í annarri seríu og halda dampi alveg út í gegn.
Sagan sem þættirnir segja er kannske ekki sérlega spennandi, hún er allt í lagi, en er meira svona fúnksjónal þráður sem við lesum okkur í gegn. En það vantar ekki metnaðinn hjá þessum andskotum þegar kemur að formi sjónvarpsþáttarins. Þetta er high concept meira og minna út í gegn, þar sem heimur þáttanna tekur breytingum í hverri seríu, og fjölmargir einstakir þættir eru brilljant rannsökun og listsköpun í forminu þar sem ramminn skiptir augljóslega máli. Þeir eru ekki gallalausir! En það er nokkuð ljóst að fólkið á bakvið var óhrætt við að láta vaða, gera eitthvað nýtt. Mér fannst aldrei skipta nokkru máli ef það var óljóst um hvað sagan fjallaði eða hvert hún stefndi, vegna þess að svo margir þættir spurðu frekar hvað er ég núna og hvernig og mér fannst endalaust gaman að sjá þeim landa því.
The Ripper er heimildamynd í nokkrum þáttum um fjöldamorðingjann sem var kallaður The Yorkshire Ripper (Jórvíkur-Kobbi?) og réðst á og myrti fjöldamargar konur á því svæði í lok áttunda og byrjun níunda áratugar.
Ég horfði á Red Riding myndirnar fyrir margt löngu síðan og hafði gaman af. Ég veit ekki hvort ég áttaði mig á tengingunni við þetta alvöru mál á sínum tíma, eða hvort það kemur minna við sögu í myndunum. Myndirnar eru byggðar á fjórum skáldsögum sem eru (að hluta til) bersýnilega byggðar á Ripper málinu, ég er að lesa þær núna. Og svo poppuðu þessir heimildaþættir upp á netflix.
"True Crime" er endalaust vinsælt genre (sjanra?) og mér sýndist á vinsældarlistanum að þetta ætti vel uppá pallborðið hjá íslenskum notendum Netflix. Þættirnir fara yfir málið frá upphafi og gera nokkuð vel í að lýsa andrúmsloftinu sem það skapaði á svæðinu (geri ég ráð fyrir, það virkar allavega sannfærandi). Stóri punkturinn er sá að uppivaðandi karlremba í þjóðfélaginu hafi snúist í kringum sjálfa sig í málinu: þarna er karl sem ræðst á og drepur konur; karlarnir sem rannsaka málið dæma fórnarlömbin sem vændiskonur eða lauslátar píur, ergó konur sem áttu það skilið meira og minna; og vegna þess að vændiskonur = fórnarlömb morðingjans, þá verða fórnarlömb morðingjans = vændiskonur.
Þetta hrekkur í fókus þegar jafnan gengur ekki upp í fyrsta skipti, þegar "saklaus" unglingsstelpa er myrt og þá fyrst sjáum við viðtöl við fólkið í hverfinu sem dásamar fórnarlambið. En það virðist ekki hafa áhrif á rannsókn málsins, niðurstaðan er sú að morðinginn hafi tekið feil.
Ég gæti sjálfsagt haldið áfram en þetta eru flottir heimildaþættir um áhugavert mál, sjá líka eldri heimildamynd á youtube sem fyllir aðeins útí eyðurnar.
Og!
Patriot sá ég líka á árinu. Fyrri þáttaröðin er meistaraverk, sú síðari er skemmtileg. Frábærlega skrifað stöff, vegur salt á mjög undarlegum, hálf ónotalegum tón. Ég gleymdi þessum þáttum í fyrsta kasti þessa bréfs til framtíðarinnar og ég er að bæta því inn núna. Ég ætla ekki að lýsa Patiot í lengra máli en vildi bara koma því til skila. Ok bæ.
Tónlist
El Pintor með Interpol var nokkuð hampað á sínum tíma, en það sem ég man helst eftir er lína frá AV Club eða Pitchfork um næstu plötu hljómsveitarinnar (Marauder), eitthvað á þá leið að Interpol hafi verið á niðurleið frá Antics, og að já El Pintor hafi verið fín en hvenær hafir þú lesandi góður hlustað á hana síðast?
Jæja einsog öll önnur tónlist sem ég hlusta á þá poppaði eitthvert laganna upp á Spotify og ég fór að hlusta á plötuna. Ég kynntist henni ekki á sínum tíma, tékkaði á henni en hreifst ekki með. Í þetta skiptið lá ég í henni einsog heitum potti dögum saman. Hún er frábær og já það besta sem þeir hafa gert síðan Antics. Ég hef ekkert sérstakt lag í huga, en það er taktur og stemning í henni sem átti vel við í ár.
Önnur plata sem ég hlustaði á á sínum tíma en kveikti ekki: The Boatman's Call með Nick Cave. Ég held áfram að uppgötva poppkúltúr sem hefur verið ausinn lofi marga hringi í kringum sólina. Einsog Ghosteen er sorg þá er The Boatman's Call þunglyndiskast. Hei af hverju ætli það hafi passað í vasa árið 2020? Ég held að þráðurinn sem ég elti í þetta skiptið hafi verið Black Hair. Einsog Morrisey en ekki einsog Morrisey þá kemst Cave upp með það að vera absúrd og innilegur í sömu andrá. Svart hár, svart hár, ó hárið svo svart, einsog svart haf sem er svart. Þetta er fyndið og alvarlegt einsog hugsýki er fyndin og alvarleg. Ég horfði á tvær læf upptökur af laginu þar sem Cave segist hafa ort það sem einhverskonar galdur, ákall til æðri máttarvalda um að skila aftur til sín þessari svarthærðu dömu. Sem gefur endurtekningunni aðra og ákveðnari vídd. Hann segir um leið að þessi seiður hafi alls, alls ekki skilað árangri, sem er fyndið án þess að draga úr tilfinningunni sem lifir í augnablikinu.
Allavega, platan er þannig.
RTJ4 er það sem ég miðaldra skrifstofumaðurinn í Kópavogi spila í jepplingnum mínum á leiðinni í Krónuna og það er ekkert betra.
Punisher með Phoebie Bridgers er plata sem allir elska og ég líka. Stranger in the Alps er stórkostleg, þessi er svo allt allt önnur og ekki eins grípandi alveg í fyrsta kasti. Hvaða lag vil ég nefna, Kyoto?
Getur verið að Car Seat Headrest hafi verið þetta ár? Ég sé þá ekki á lista síðasta árs. Ok. Twin Fantasy er ótrúleg, massíf high-concept plata um unglingsástir. Ég er að tala um endurupptökuna, sem er sú sem ég heyrði fyrst. Upprunalega platan er fínt demó (!). Og Teens of Denial er líka góð, ekki jafngóð en góð, hún er líka á listanum já.
Ég datt líka oní Metric aftur á árinu, aðallega Fantasies.
Lagið Not með Big Thief
Please Please Let Me Get What I Want með The Smiths -- ekki uppáhalds Smiths platan mín og ég hafði aldrei kveikt neitt sérstaklega á þessu lagi, en nú var ég að fikta á ukulele og allt þetta yndislega fólk á youtube vildi kóvera þetta lag. Og það er æðislegt og nú spila ég það líka.
Hlaðvarp
Directorpiece Theater er eitt gott, það er hluti af Small Beans rásinni.Double Threat er eina nýja hlaðvarpið sem mig langar að mæla með held ég.. Scharpling og Klausner eru dásamleg og svo svo góð saman.
Nei! Stay F. Homekins er hitt nýja hlaðvarpið. Tompkins-hjónin fá sér í glas á föstudagskvöldi í sóttkví og spjalla um daginn og veginn. Það er ekkert betra í henni veröld.
Kvikmyndir
The Color Out of Space er flott sæfæ, ég hef ekki sérstakan smekk fyrir Cage en níhílískt horror og tortíming fjölskyldunnar innan og utanfrá er vel framkvæmt hér á þessari filmu.
The Lighthouse er besta kvikmynd sem ég sá á árinu. Ég verð að taka fram að ég sá kannske svona fimm kvikmyndir á árinu, en ég er nokkuð viss um að hún væri enn á toppnum hefðu þær verið jafnvel tíu. Það er ekkert einsog hún.
In Search of a Flat Earth er einhverskonar heimildamynd á youtube frá gæa sem ég byrjaði að horfa á í vor. Skýr og fyndinn gaur hann Olson, hérna tengir hann afneitun á viðteknum vísindalegum sannindum við samsæriskenningakúltúr sem virðist einhverra hluta vegna eiga heima á hægri væng stjórmálanna -- amk. í bandarísku samhengi. Þetta er vel rannsökuð og rökstudd athugun á poppkúltúr og kúltúr yfirhöfuð.
Bækur
Rivers of London serían, ég var að mæla með Jonathan Strange & Mr. Norrell (af því það er alltaf óhætt að mæla með hanni) og fékk meðmæli til baka, þennan krimma-galdra-bálk sem hefur víst verið nokkuð vinsæll. Það kom ný bók út á árinu svo það passaði ágætlega. Bækurnar eru skemmtilegar, spennandi, oft fyndnar. Prótókóllinn á bakvið allt sem viðkemur þessu lifaða lögreglustarfi með rannsóknum og þessháttar, blandast vel saman við kalda framkvæmd og stúdíu á göldrum. Aaronovitch notar þetta yfirskilvitlega mjög vel í bókunum, þar sem veröldin stækkar smátt og smátt og kemur sífellt á óvart. Á móti kemur að stóra sagan í gegnum allar bækurnar (hingað til) gerist mjöööög hægt.
Red Riding fjórleikurinn eða kvartettinn. Þetta eru skáldsögurnar 1974, 1977, 1980 og 1983. Ég minntist á þær áðan, höfundurinn tekur Yorkshire Ripper málið og notar það sem hluta í stærra máli og dreifir sögunni yfir á fjórar bækur. Það er eiginlega ekki fyrren í þeirri síðustu sem allt smellur saman í eina heild og manni finnst eiginlega einsog fyrri þrjár bækurnar séu ókláraðar eftir á að hyggja. En þær eru þannig upp byggðar að mér fannst það ekki meðan á lestrinum stóð.
Prósinn er oft á tíðum tilgerðarlegur og endurtekningasamur en bækurnar eru samt sem áður leiftrandi og mjög mjög spennandi. Ég hef ekki legið jafn sleitulaust í einni frásögn síðan ég las 2666 síðast. Söguhetjurnar eru nær undantekningalaust óforbetranlegir skíthælar, enginn á sér viðreisnar von. Og þetta er kaldasta, drykkfelldasta lýsing á ógeðslegri vinnustaðamenningu sem ég hef nokkurntíma lesið.
Piranesi er bók sem mér finnst ég verði að minnast á bara vegna þess að það var spennandi að fá nýja bók frá Clarke. Ég hugsa að hún hafi verið oflofuð og með of löngum fyrirvara, það var ekki nokkur leið fyrir hana að standa undir væntingum. Hún er allt önnur skepna en Jonathan Strange & Mr. Norrell, er alls ekki að reyna að vera nokkuð í líkingu við hana, tekst alveg ágætlega það sem hún vill gera.. Ég vildi fá eitthvað meira, eða kannske vildi ég bara fá að heyra sama lagið aftur. Ég þori ekki að fara með það.
Leikir
Leikur ársins hlýtur að vera Tabletop Simulator. Við vinirnir höfum spilað Battlestar Galactica, Scythe, Dead of Winter, Gloomhaven, Forgotten Waters, Terraforming Mars og Catan, mögulega eitthvað fleira. Það er rosa fínt Mansions of Madness modd sem við vildum prófa en ves að keyra það og stjórnanda-appið á sama tíma.
Af þessum þá virka BSG og Scythe sennilega best; laumupokaleikurinn í BSG er alveg kjörinn fyrir TS og moddið mjög vel gert. Scythe á sennilega besta moddið af þeim sem ég hef spilað, enda faglega unnið og selt sem slíkt.
Ég datt oní Magic Arena um það leyti sem Zendikar Rising kom út, og draftaði það nógu mikið til að ná öllu heila settinu úr pökkum sem ég fékk í "verðlaun". Draftaði líka Core '21 og Kaladesh Remasterinn en ekki nærri eins mikið. Zendikar var mjög skemmtilegt draft.
Ég datt oní Magic Arena um það leyti sem Zendikar Rising kom út, og draftaði það nógu mikið til að ná öllu heila settinu úr pökkum sem ég fékk í "verðlaun". Draftaði líka Core '21 og Kaladesh Remasterinn en ekki nærri eins mikið. Zendikar var mjög skemmtilegt draft.
Ég spilaði aðeins Dimir Rogues í ladder sem var líka gaman en ekki eins gaman. Ég held það gæti verið meira gaman að spila standard eða þessháttar við alvöru manneskjur en einsog komið er þá eru þetta hauslaus nöfn að spila Omnath aftur og aftur, og ég er ekki nógu vel inní leiknum til að bregðast við umhverfinu.
Og svo fékk ég Stellaris í jólagjöf frá leynivini, og hef aðeins verið að spila hann. Nú er ég frekar vel kunnugur Civ og þessháttar leikjum en það kom mér skemmtilega á óvart hvað ég var týndur í upphafi leiksins. Nú hef ég bakkað út úr fyrsta leiknum og spilað annan leikinn ansi lengi, og það eru ennþá að koma upp ný element, nýjar flækjur sem maður þarf að bregðast við. Samlíkingin sem mér dettur í hug, og sem enginn á eftir að skilja, er sú að fara úr The West Wing yfir í K Street.
En svo á ég eftir að spila hann aftur og þá á þetta allt eftir að vera ósköp eðlilegt? En það var skemmtileg upplifun að vera hent svona út í geim.
-b.