31 október 2008

Vídjó tæm

Ég er búinn að vera með þetta lag á heilanum.Líka drulluflott myndband.

-b.

30 október 2008

Farvel Skjár einn (farið hefur fé betra)

Ég sá frétt um það í dag að starfsfólki Skjás eins hefði verið sagt upp. Fólk talaði um þetta í vinnunni, en viðbrögðin voru svipuð því ef íslenska briddslandsliðið hefði dottið úr keppni í fjórðungsúrslitum á heimsmeistaramótinu í Fjarskanistan. Æ, var það. Jæja.

Á www.skjarinn.is má nú lesa þennan texta hér:

___________

VILTU HAFA ÁFRAM AÐGANG AÐ ÓKEYPIS SJÓNVARPSSTÖÐ Á ÍSLANDI?
Í ljósi samdráttar á auglýsingamarkaði, ójafnrar samkeppni frá RÚV og óvissu um innkaupsverð á sjónvarpsefni frá útlöndum hefur Skjárinn tilkynnt öllum starfsmönnum sínum að þeim verði sagt upp frá og með 1. nóvember.
Vonast er til að uppsagnirnar þurfi ekki að taka gildi en til þess að starfsemi SkjásEins geti haldið áfram þurfa stjórnvöld að taka ákvörðun um að hér ríki eðlilegt samkeppnisumhverfi, sambærilegt við það sem er til staðar á öðrum Norðurlöndum.
Á hverju ári fær RÚV 3.000 milljónir króna í forskot frá okkur skattgreiðendum og getur því notað þann pening til að yfirbjóða aðrar stöðvar við kaup á efni.
Einnig undirbjóða þeir frjálsu stöðvarnar við sölu auglýsinga.
Stjórnendur og starfsmenn munu taka höndum saman á næstu vikum til þess að starfsemin geti haldið áfram, áhorfendum og auglýsendum til heilla.
Áhorf á SkjáEinn er í sögulegu hámarki og við treystum því og trúum að landsmenn allir og stjórnvöld styðji áframhaldandi veru frjálsra fjölmiðla á Íslandi.
Við biðjum þig því að setja nafn þitt á listann og ganga til liðs við okkur svo að SkjárEinn megi lifa sem lengst.

Starfsmenn Skjásins
Ég undirritaður/undirrituð skora á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og ríkisstjórn Íslands að leiðrétta þessa skökku samkeppnisstöðu og tryggja þar með veru frjálsra fjölmiðla á Íslandi.

_________

..og svo er pláss fyrir undirskriftir. Þeir eru líka að keyra á auglýsingum með svipuðu inntaki á skjánum sjálfum, þarsem fólk er hvatt til að fara á skjarinn.is.

Það er tvennt í þessu. Annarsvegar er nokkuð til í því að RÚV ætti ekki að bítast við einkareknu stöðvarnar um auglýsingatekjur, ekki vegna þess að það er ósanngjarnt gagnvart þeim einkareknu heldur vegna þess að skattgreiðendur eru að borga þessar x mörgu milljónir til að halda úti Ríkisútvarpi/sjónvarpi, og ættu ekki að þurfa að sitja undir auglýsingum í ofanálag.

Hinsvegar ættu allar sjónarpsstöðvar, hvort sem þær eru einkareknar eður ei, að bítast um besta sjónvarpsefnið, og það þýðir að þeir sem hafa minni pening milli handanna geta bara sest niður og haldið kjafti á meðan fullorðna fólkið ræðir málin. Það hvernig stjórnendur stöðvanna skilgreina ,,besta sjónvarpsefnið" hlýtur þá að koma inní myndina; það er deginum ljósara að áherslurnar eru gerólíkar hjá RÚV og hjá Skjá einum. En ef tveir vilja sama hlutinn þá ræður krónutalan (eða dollaratalan), það er ekkert hægt að rífast um það.

Það er bara svo neyðarlega mikil frjálshyggjubræla af þessu orðalagi að mann svimar:

,,Á hverju ári fær RÚV 3.000 milljónir króna í forskot frá okkur skattgreiðendum og getur því notað þann pening til að yfirbjóða aðrar stöðvar við kaup á efni."

Hvaða skattgreiðendur ertu að tala um? Fyrirtækin, einkareknu sjónvarpsstöðvarnar sem borga jú væntanlega einhverja skatta af sínum auglýsingatekjum, eða Íslendinga, venjulegt fólk sem greiðir sína skatta og horfir á sjónvarp?

Í rauninni kemur það niður á sama stað: Skattgreiðendur, sama hverjir þeir eru, eru ekki að borga einhverju fyrirtæki útí bæ til þess að það geti farið illa með þá. Þeir eru að borga skatta til að geta lifað í siðmenntuðu þjóðfélagi, og hluti af því er að halda úti (tiltölulega) óháðu ríkissjónvarpi. Sjónvarpsstöð sem þarf ekki að reiða sig á endalausar auglýsingatekjur og auglýsingahlé á sjö mínútna fresti, sjónvarpsstöð sem þarf ekki að biðja um fjárframlög eða undirskriftir á lista þegar harðnar í ári, sjónvarpsstöð sem þarf ekki að skila hagnaði.

Ég skal skrifa undir það að RÚV mætti slappa aðeins af í auglýsingageiranum og gera betur úr því fé sem það hefur. En ef þú ætlar að reyna að segja mér að fyrirtækið okkar, sem við rekum og við höldum gangandi, sé að fara illa með okkur þegar það kaupir efni sem okkur langar að horfa á, þá ert þú fífl og hálfviti. Hver sem þú ert.

Vil ég áfram hafa aðgang að ókeypis sjónvarpsstöð hér á landi? Já og nei.

Ef þú átt við sjónvarpsstöð sem metnað og þor í íslenskri dagskrárgerð, og innkaupum á erlendu efni, í staðinn fyrir að drekka endalaust sama skólpið úr rennum bandarískra auglýsingastöðva og spýta því síðan á skjáinn minn? Já takk.

En ef þú átt við sjónvarpsstöð sem leggur meira uppúr því að vera í gangi allan daginn alla daga heldur en að leggja út fyrir einhverju sem mann langar í alvörunni til að sjá; sem sýnir auglýsingar til að geta haldist í loftinu til að geta sýnt auglýsingar til að geta haldist í loftinu til að geta sýnt auglýsingar..? Nei takk.

Það má vera að Skjár einn hafi nýslegið einhver áhorfendamet, mér dettur þá helst í hug að það séu allir þessir glænýju atvinnuleysingjar, þeir sem sitja fastir yfir sjónvarpinu á meðan ekkert er í gangi. Ég gleðst síður en svo yfir því að nokkur maður eða kona skuli missa vinnuna þegar Skjár einn kveður, en þau eru samt sem áður dropi í hafið. Og fyrir mitt leyti segi ég vertu bless Skjár einn. Þú varst stöðin sem hægt var að skipta á þegar ekkert var að gerast á RÚV, en veistu ég finn mér eitthvað annað að gera.

-b.

27 október 2008

Söngurinn um sjálfan mig (hann er ekki langur)

Hei Björn, þú áttir fínasta afmælisdag í dag. Já það má með sanni segja.

Þú vaknaðir í morgun og fékkst þér súrmjólk og te, sáttur við að vera með frí í vinnunni. Kíktir á netið og svona, opnaðir pakka frá sambýliskonum þínum: Eitt sokkapar. Í annan sokkinn var saumað ,,H" og í hinn ,,V". Brjálað. Þú ert í þeim núna. Svo fórstu í kaupleiðangur með honum Halli.

Í Kokku á Laugaveginum fannstu pönnukökupönnu sem virkar á spanhellu, hún var rosa næs. Í Kringlunni keyptirðu hádegismat, te, DVD disk og dót í bakstur. Egg og mjólk og svona. Þú reyndir að sækja jakkann þinn úr viðgerð en hann var ekki kominn klukkan að verða eitt þannig að þú renndir heim með Hall og fórst að steikja pönnuna upp.

Ingibjörg var lúnkin við það, þetta hefði varla hafst án hennar hugsa ég. Slatti af smjöri og salti í pönnuna og hitinn stilltur á einn. Svo tvo. Þrjá eftir smá stund og svo koll af kolli, hitinn hækkaður hægt og rólega þartil við vorum komin uppí svona sjö átta, en þá var pannan farin að reykja dálítið vel, þá helltirðu smjörinu af og þurrkaðir með pappír. Pannan kólnaði, og svo gerðuði þetta allt aftur. Gerum langa sögu stutta: þú skelltir í deig og steiktir nokkrar pönnsur. Það fór hægt og illa af stað en endaði vel. Næsta skál af deigi gekk líka miklu betur.

Það er smá eftir inní ísskáp, þú getur gert meira á morgun. Einsog konan í búðinni lagði til: Nota pönnuna einusinni tvisvar í viku fyrstu vikurnar, þá verður hún geggjað speis. (Konan sagði ekki ,,geggjað speis", það eru þín orð. En pannan batnar við hverja notkun, það er víst alveg málið.)

Í afmæliskaffi: Þið Þórunn, Ingibjörg, Hallur og Davíð, í öfugri stafrófsröð.

Svo sóttirðu jakkann í Kringluna. Komst með hann heim og það vantaði eina tölu á hann, þessa innri. Bömmer maður. Fórst með hann aftur, fékkst ekki að rukka bankann um neinn pening, jafnvel þótt þú hafir farið yfir byrjunarreitinn. Skutlaðir Halli í rútuna. Varðst þreyttur. Nenntir ekki að elda kjúkling.

Því þetta þurfa ekki að vera endalaus veisluhöld neitt. Gott fólk, góður matur, temmilegt ævintýr og smá undanlæti.

Já og svo sátuð þið Ingibjörg fyrir Þórunni þegar hún var að koma úr sturtu. Þið voruð grímuklædd, með hendur á lofti og réðust hrópandi að henni þegar hún opnaði hurðina. Það er einhver grundvallarhúmor í því að hræða þann sem er hálfnakinn og grunlaus.

-b.

23 október 2008

Herra spandexgalli

Ég las The Amazing Remarkable Monsieur Leotard í gær. Þetta er falleg bók, það er ýmislegt að gerast á þessum síðum, en það er nokkuð augljóst að Campbell hefur engan áhuga á hefðbundnu plotti. Nema væri þá and-plotti? Bókin inniheldur litríkar glefsur úr miklu stærri sögu, en það er enginn þráður sem liggur á milli, nema þá helst það að sömu persónurnar koma fyrir aftur og aftur. Atburðirnir sjálfir leiða ekki hvor í annan. Hér og þar eru síður úr dagbók Leotards, sem er illlæsileg sökum vatnsskemmda, en þar mætti e.t.v. finna nokkurskonar míníplott: Hvernig skemmdist dagbókin?

Þetta er eiginlega svo meðvitað að það er hálfóþægilegt. Campbell getur ekki stillt sig um að koma sjálfur fyrir í bókinni, á meðan Leotard dreymir; Abberline úr From Hell kemur fyrir á einum stað; hver einasti kafli heitir ,,næsti kafli" og svo framvegis.. Og heitasta ósk bæði Leotards og frænda hans er að ,,ekkert gerist", í næsta kafla eða í lífinu yfir höfuð. ,,May nothing occur." Þannig að farsæll endir þýðir ekkert annað en að allir deyja að lokum og ganga útí hvítt og atburðasnautt himnaríki. Hann nær að kreista úr þessu alveg þrusufín móment engu að síður, en sagan sjálf liggur á milli línanna.

Var ég að enda við að tengja þetta inní BA verkefnið mitt? Díses.

-b.

22 október 2008

Goodtime Jesus, man ég allt í einu

Ég gleymdi að stilla vekjaraklukkuna mína í gær þannig að ég vaknaði aðeins of seint í morgun, en mér leið einstaklega vel. Talaði í símann, lónaði uppí rúmi, fór svo á fætur og mætti klukkutíma of seint í vinnuna. En mér hefði ekki getað verið meira sama. Og þetta er virkilega góður dagur.

Snjór úti líka.

-b.

20 október 2008

Das Weakend

Það var óskup erfitt að gera mér til geðs á þessari Airwaves hátíð. Half Tiger var eina bandið sem ég minnist þess að hafi gert eitthvað af viti uppá sviði, og þó voru þau alls ekki að sprengja huga minn. Þetta orsakaðist að hluta til af því, hugsa ég, að við vorum yfirleitt dálítið seint á ferðinni og gátum ekki hugsað okkur að bíða í endalausum röðum.

Á föstudaginn: Röðin inná Tunglið náði á einum tímapunkti að dyrum Grillhússins, og hreyfðist samasem ekki neitt.

Á laugardaginn: Röðin inná Listasafnið á meðan Boys in a Band voru að spila náði út Hafnarhúsið, yfir götuna og að Tollstjórahúsinu.

Bönd sem ég sá en gerðu samasem ekkert fyrir mig: Space Vestite, <3 Svanhvít, For a Minor Reflection, Florence & the Machine, Fuck buttons, FM Belfast, Retro Stefsson, Pnau, Crystal Castles og Yelle. Þá á ég ekki við að mér hafi dauðleiðst allan tímann en það var ekkert við tónlistina eða performansinn sem fékk mig til að vilja hlusta á þau aftur.

Ég hugsa að það hafi heldur ekki bætt úr skák að Tunglið og Organ eru báðir afspyrnulélegir tónleikastaðir, á Tunglinu var fólki hrúgað inn svo það stóð maður við mann, og bjórinn var allstaðar bjánalega dýr.

Og þetta er erfitt maður. Ég var uppgefinn á sunnudaginn, svaf helling um nóttina en vaknaði þreyttur. Ég er góður í dag. Rækt á eftir.. ég er marinn á vinstri ökkla og sköflungi eftir að hafa dottið niður tröppur í Baðhúsinu, sár á vinstri fæti eftir að hafa gengið í alltof litlum skóm laugardagsnóttina - ég gleymdi skónum mínum í TBR. Og ég er dálítið óvirkur enn í hægri úlfliðnum eftir.. vitleysu. Harðsperrur útum allt eftir badmintonið og maxxsið í ræktinni þar á eftir.

En nú er vinna næstu helgi og yndisleg rólegheit. Ég er að hugsa um að taka mér frí mánudaginn eftir og baka pönnukökur.

-b.

13 október 2008

En það sem ég vildi segja er þetta hér

Ég geri grín að þeim sem flykktust í nýju verslunarmiðstöðina og biðu í röðum til að kaupa drasl á meðan skuldir alheimsins féllu á þjóðina. En þó fór ég í Kringluna á laugardaginn og keypti mér föt. Nýjan jakka meira að segja. Sem þýðir að ég hef keypt mér tvo jakka á þessu ári, sem er um það bil átján þúsund prósent aukning síðan árið það áður. Og tvær peysur.

Peysur!

Á ég nú að ganga í peysu? Annarri en þeirri sem ég gekk í þegar?

En ferðin var ekki alger vísindaskáldskapur: Ég keypti líka tvær flöskur af Móra, þessum nýja úr Ölvisholtinu - hann er bara seldur í hálfslíters flöskum, hvað á það að segja manni? - og eina flösku af Jökli, sem kemur úr Stykkishólmi. Ég á enn eftir að smakka þá, þeir bíða inní kæli.

Svo vann ég niðrá safni frá sjö til eitt eftir miðnætti, hún Hrafnhildur var að fagna þrjátíu ára afmæli sínu og mannsins síns, fékk til þess salinn uppi á sjöttu hæð og þurfti þá að leigja húsvörð. Það var tíðindalítið, allt mjög dannað fólk. Svo var ég leystur út með kippu af bjór, sem var ekki amalegt.

Annars var helgin fín og tíðindalítil. Það er verið að setja upp nýja síma í vinnunni, robbosslegga er gaman að fá ný tól. Og nú er matur!

-b.

10 október 2008

Brennur enn.. [1100](Úr Jarðið okkur.)

Svo bregðast krosstré sem lánsfé

Það er gaman að taka eftir því hvað íslenskir ráðamenn eru vel í stakk búnir þegar þörf er á myndlíkingum og skemmtilegum orðatiltækjum. Þeir tala um að stemma á að ósi, að nú sé skammt stórra högga á milli (svo vægt sé til orða tekið), og tala um þessa blessuðu krísu sem fellibyl, jarðskjálfta, náttúruhamfarir, flóð og storm (allir í bátana!).

Það er auðvitað dálítið kúnstugt að líkja þessum ósköpum við náttúruhamfarir.. Það hefði þýtt eitt hér áður fyrr en þýðir nú annað, þökk sé ,,hverju reiddust goðin." Nú getur enginn heilvita maður haldið því fram að jarðskjálftar og snjóflóð orsakist af því að mennirnir hagi sér illa, þessar stærstu hörmungar koma okkur manneskjunum nánast undantekningalaust ekkert við - og það er e.t.v. það sem gerir þær hrikalegri en ella. Það er eitt að líta til baka og segja að maður hefði nú getað gert eitthvað í málunum áður en illa fór (ef maður er valdur af bílslysi t.a.m.), en annað að líta til baka og vita að maður hefði ekkert getað gert í þetta skiptið, og að maður komi ekki heldur til með að geta gert neitt næst þegar þetta hendir.

Það er að segja að maður geti ekki lært af reynslunni, reynsla manns skiptir jarðskjálftann engu máli.

Og þá er einmitt svo hentugt að setja þessa lánakrísu upp sem náttúruhamfarir: Við gátum ekkert gert vegna þess að öflin sem komu þessu af stað eru ólýsanlega stór og við svo ólýsanlega lítil. Nú er bara að bíta á jaxlinn og bjarga bankakerfinu, við getum fundið sökudólga seinna seinna. Og það sem meira er! Við þurfum kannske ekki einusinni að finna upp á orsökum eða reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, því það væri jú einsog að reyna að setja upp jarðskjálftavarnir.

Það yrði hlegið að okkur.

Eitt eða tvennt:

Nú tala bankastjórarnir um að ,,baklandið" hafi ekki verið nægilega sterkt, eða að það hafi ekki vaxið með bönkunum sem skyldi, þegar þeir sprungu út. Á maður að skilja þetta sem áfellisdóm á ríkið, ,,okkur hin", sem sátu ekki sveitt við að vefja sífellt sterkara öryggisnet, eftir því sem bankarnir klifruðu hærra? Eða er átt við öryggisnet bankanna sjálfra, að þeir hafi teygt sig lengra en þeir gerðu sér grein fyrir að öruggt væri? Síðara tilfellið er einfaldlega engin afsökun, og það fyrra er svo ósvífið að maður næstum gapir.

Rétt einsog sú takmarkalausa ósvífni eigenda bankanna að leyfa ríkinu að bjarga fyrirtækjunum sínum úr kröggum þegar þeir sitja enn á milljörðum.

Og ef þeir sitja ekki á milljörðum, nú þá hafa þeir einfaldlega ekkert með að vera að taka lán útá peninga eða eignir sem þeir eiga ekki til.

Og enn og aftur sú ósvífni ,,kynningarfulltrúa" þeirra að ætla að greina á milli eigenda bankans og bankans sjálfs þegar spurt er um laun sem bankinn greiðir út eða arð sem bankinn gefur af sér. Það er þessi grundvallarfirring kapítalismans að fyrirtækin geti gætt hagsmuna mannfólksins, beint eða óbeint, þegar eigendur fyrirtækjanna þurfa ekki að taka ábyrgð á þeim.

Samanber dómurinn yfir olíufyrirtækjunum núna fyrir skemmstu.

Þá er einmitt aftur gott að tala um náttúruhamfarir, því að ber jú enginn ábyrgð á þeim heldur. Sérstaklega ekki reglurnar sem við fylgdum eða kerfið sem við reistum í kringum viðskiptin. Þessir kónar hafa margítrekað það að kerfið sjálft hafi ekki brugðist, heldur séu hamfarirnar svo ofboðslegar, kringumstæðurnar svo óvenjulegar, að það hafi einfaldlega ekki verið komist hjá hruni.

En ef við bökkum aðeins og hrækjum á þetta kjaftæði um fellibyli og jarðskjálfta, og segjum sem rétt er að þetta orsakast af því að manneskjur voru gráðugar og gálausar, þá hljótum við að spyrja: Til hvers eru kerfin nema til þess að halda reglu þegar manneskjurnar bregðast?

Þetta var ekki jarðskjálfti. Manneskjurnar brugðust, kerfið brást og ef núverandi lagarammi dugar ekki til þess að draga skemmdarvargana til ábyrgðar og lágmarka skaðann fyrir þeim sem annars færu verst út úr þessu, þá hefur það tiltekna kerfi brugðist líka.

-b.

08 október 2008

Ég hlusta á hugmyndir fólks í kringum mig

Þetta er bara eitthvað sem ég heyrði útundan mér, og ég sel það ekki dýrara en allt hitt, og ég er heldur ekki viss um að þetta geti virkað en bíðum við: Hugmyndin er sú að hópa saman temmilega mörgum** MBA-um (það sem við köllum uMBA: ,,Hei umbi") og sópa þeim oní eldinn***. Syngja síðan eitthvað órætt hinum og þessum guðum til dýrðar, um að gera að kasta nógu víðu neti svo við náum sem flestum (og ef einhverjir af öllum þessum guðum skyldu nú ekki vera til þá er náttúrulega öruggast að heyra í öllum sem við þekkjum), og gera það nógu hátt. Sýna smá lit sko. Þetta gæti orðið til þess að efnahagurinn rétti sig af fyrr en menn og konur þora að vona.

Nei ég veit það ekki, ég var ekki alveg að fatta pælinguna þegar ég heyrði þetta sjálfur, en svo fór ég að hugsa sko og hverju höfum við sosum að tapa?

-b.

** Þ.e.a.s. nógu mörgum, og þarsem við vitum ekki hvað nógu margir eru margir þá er líklega best að hafa þá bara nógu helvíti marga.

*** NB: við myndum væntanlega þurfa að byrja á því að byggja eldstæðið, það þyrfti að vera á vídd og breidd sem innilaugin í Sundhöll Reykjavíkur en talsvert dýpra, og með grindum í botninn til að frárennslið höndli botnfallið.. Eflaust ekki flókið verk fyrir þá sem til þekkja, en þetta gæti jú skapað atvinnu handa einum eða tveimur á þessum viðsjárverðu tímum.
 

07 október 2008

Ísland brennur

Smellið, njótið, brennið.

Það er kannske dálítið ú ú æ æ marmelaði ég er farinn að fljúga flugvélinni minni að ætla að tengja þetta lag við atburði líðandi stundar, en hvað gerir maður ekki svo pönkið nái fram að ganga.

Eða hlaupa. Gengur pönk?

-b.

03 október 2008

Gettógetraun

Hún Þórunn fór niður í geymslu áðan til að sækja gettóblasterinn minn, það vantaði mússík í stofuna. Hann var soldið tregur í gang en það hafðist á endanum. Og það var diskur í honum!

Getið nú hvaða diskur það var.

Já getið.

Allir mega vera með, nema Davíð.

(Sorrí Davíð það er komin hefð á þetta.)

-b.

01 október 2008

Eitt ár á safninu

Ég hef verið hérna í eitt ár. Og dag.

Mér fannst ég ekki hafa breyst að neinu ráði, en ég hugsaði fyrir því: Eftir fyrsta vinnudaginn teiknaði ég mynd af mér í tölvuna, og núna áðan teiknaði ég aðra mynd af mér. Og jeminn eini Björn, þetta hefur verið viðburðaríkt ár! Er þetta sami maðurinn??:Svona er tíminn fljótur að líða.

-b.