Í
Cat's Cradle segja fylgismenn Bokonons eftirfarandi áður en þeir fremja sjálfsmorð: ,,Now I will destroy the whole world." Þeir eiga semsagt til standard línu sem þykir við hæfi á slíkri stundu. Það er varla hægt að segja að sjálfsmorð sé svo mikið tabú á meðal þeirra sem eiga svona hversdagslegt ritúal í kringum það. Dálítið einsog að gera krossmark yfir kertisloga eða spyrja útlendinga hvernig þeim læks æsland.
Núna mætti ég á Prikið áðan og settist hjá Frikka á gamla staðnum. Hjá honum sat kona sem ég þekkti ekki, en sagðist kannast við mig. Hún sagðist heita Heiðrún. Jú, ég mundi eftir henni, hafði hitt hana einusinni eða tvisvar á Krúsinni í den, hún þekkti Hall. Nú sagðist hún vera í útileyfi af hælinu, þyrfti að fara klukkan fimm. Ókei, sagði ég. Og ég sagði voða lítið annað það sem eftir lifði þessari heimsókn hennar. Hún talaði hinsvegar nógu mikið fyrir okkur þrjú. Geymdi sígarettubox og kveikjara inná brjóstahaldaranum sínum og þreyttist ekki á því að benda okkur á það. Sagðist vera norn sem hræddist ekki eld, og myndi lifa af kjarnorkuvetur. Sagði lygasögur.
Þetta er tvíeggjað fyrirbæri, að hlusta á lygasögur. Annarsvegar er gaman að heyra fólk leggja grunninn að einhverju með fyrstu orðunum, brjóta hann síðan niður með næstu setningu og halda bara áfram að byggja.. það skorðar nýjan múrstein í lausu lofti og tekur annaðhvort ekki eftir því eða vill ekki taka eftir því að hann tollir ekki. Hinsvegar er þetta neyðarlegt og verður sífellt óþægilegra eftir því sem viðkomandi heldur áfram. Ætlastu í alvörunni til þess að ég trúi því sem þú segir? Hvað liggur að baki? Þetta versnar eftir því sem viðkomandi krefst þess frekar að maður gleypi þetta. Kaupi húsið sem liggur í hrúgu fyrir framan mann.
Kannske er það jafnvel skárra ef það er verið að reyna að selja manni eitthvað. Maður býst við því að sölumenn reyni að pretta mann og það er ekkert mál að segja ,,nei takk." En það er erfiðara þegar einhver er að reyna að selja manni sjálfan sig, einhverja skýjamynd af manneskju sem viðkomandi heldur að höfði til manns.
Merkilegast finnst mér að í þessu tilfelli runnu sögurnar saman við annað og langtum verra fyrirbæri, þarsem einhver hefur komist að Sannleikanum, fundið útá hvað málið snýst í alvörunni, og er að útskýra fyrir manni. Þá er ekki verið að reyna að selja manni neitt, að fá mann til að trúa, heldur er sá upplýsti að fleygja viskuumolum neðan af fjalli þekkingar sinnar. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða votta Jehóva, AA-gúrúa eða heiðingja með verndarrúnir og tarotspil.
Fjandinn, ég er bara að hugsa upphátt. Engin niðurstaða hér. Og ég er ekki að fella neinn dóm yfir þessari stelpu, hún er bara að leita sér að vinum.
Hei jú bíddu við. Það var eitt sem sló mig, og þessvegna byrjaði ég nú á þessari tilvitnun í Vonnegut. Þessi sessunautur okkar sagðist nefnilega hafa krafta til að lækna fólk, gæti hreinsað það af veirum og þessháttar, en tæki þá um leið allt inná sig. Nema hún mætti ekki leyfa sér að deyja, því þá færist veröldin. Þetta er auðvitað bilaður sólipsismi: ,,ég er
svo merkileg manneskja að ef ég kveð þennan táradal þá fellur hann um sjálfan sig."
Þessi Bokonon-lína lýsir hinsvegar annarskonar viðhorfi. Að veröldin sé bara það sem við skynjum, hvert fyrir sig, og að með því að fyrirfara þér sértu að binda enda á þessa tilteknu veröld. En heimar annarra halda áfram að vera til. Þetta gengur það tvístigi að vega mannslífið, heimssýn og skynjun hverrar manneskju, ofar öllu, og um leið að draga tennurnar úr þessu tabúi sem sjálfsmorðið er. Og kannske dauðinn yfir höfuð. Heimurinn er allra, og ef þeir vilja binda enda á hann þá hljóta þeir að ráða því. Hvað sem manni sjálfum kann að finnast um þá ákvörðun.
Fylgjendur Bokonons halda þessu a.m.k. ekki yfir höfði hvors annars, að þeir gætu nú bara stútað sér hvað og hvenær, og tekið heiminn með sér. Það þykir mér frekar heilbrigt.
Annars eru þessi Bokonon fræði sem Vonnegut setur fram stórmerkileg í sjálfu sér.
Cat's Cradle er æði, og inniheldur einmitt frekar kasúal heimsenda.
-b.