31 desember 2009

Áramótabréf

Ég svaf í svona þrjú korter áðan með Cryptonomicon í eyrunum og dósahláturinn í Friends barst dauflega gegnum svefnherbergisdyrnar. Ég er með smá verk í mjóbakinu eftir ræktina, bara svona eitthvað sem fylgir þessum ógurlegu harðsperrum, úr herðum niðrá bak og oní hásinar. Ég fékk mér te, bollinn er hérna við hliðina á mér, hann er blár og teið er á litinn einsog dauft kaffi. Hugsa að ég fái mér kaffibolla til hátíðarbrigða, en það verður á eftir.

Í dag fann ég treo í apóteki, og nýárshatt handa Nönnu. Við eigum afmæli á morgun en ég veit ekki hvað við gerum þarsem það verður allt lokað og líklega einhver þynnka í gangi. Auðvitað væri hentugast að halda uppá þetta í nótt.. kannske gerir maður það í huganum og heldur svo rólega áfram í fyrramálið. Eða eftirmiðdaginn. Allt eftir því hvernig Bakkus brosir.

Hérna inná gangi er Logi, labradorhundurinn af hæðinni fyrir ofan, að skoða kettlingana, Bjart og Glúm. Glúmur er nefndur eftir Glúmi Óleifssyni, öðrum eiginmanni Hallgerðar langbrókar. Ég er að vísu ekki viss um að þeir hefðu haft skap saman.. en jú jæja, Glúmur hugsa ég að gæti slegið einhvern í bræði og iðrast þess en haft grimm örlög af.

Bjartur er ekki nefndur í höfuðið á neinum, hann er bara alhvítur, hvergi dökkur blettur á honum þannig að þetta liggur mjög beint við. Hann á ekki heima í Sumarhúsum og hann er ekki á leið í Vetrarhús. Hálf-enskuþýðingarnar Bright og Gloomy eru tilviljun. Þeir eru ekki andstæður.

Nú rétt í þessu datt mér í hug að fletta nöfnunum upp í Snöru. Bjartur segir sig sjálft, en Glúmur er gamalt bjarnarheiti. Eða einhver með skuggalegt augnaráð.

Stefnan er semsagt tekin á efri hæðina í kvöld, þar er matur klukkan sjö, eftir svona fimmtíu mínútur. Við skálum á miðnætti hér í Breiðholtinu og svo er það partí á Vesturgötunni.

Þetta hefur verið viðburðaríkt ár. Ég fékk semsagt svona ektakærustu og var meira og minna fluttur inná hana áður en við fluttum í nýja íbúð saman. Þar (hér) er lágt til lofts og dálítið dimmt stundum en nóg pláss og leigan drepur mann ekki. Breiðholtið er næs og sambúðin góð. Ég er erfiður í umgengni en þetta gengur furðulega vel, enda er Nanna góð kona.

Ég fór aldrei í megrun en skar aðeins niður í þessu feita, hætti næstum að borða pasta og minnkaði brauðið. Og nú á ég nammidag á laugardögum og jólum. Ég hélt mig við ræktina þrisvar í viku og tók svo á sprett í sumar, alla virka daga í mánuð. Það kom mér dálítið á óvart að ég skyldi endast í því og halda svo áfram þegar sumarfríinu lauk en það var eiginlega ekki annað hægt þarsem ég var farinn að finna góðan mun á mér sjálfur. Ég er sterkari en ég var, hef meira þol, kann ýmislegt í salnum fyrir utan það að x-a við prógramm og svo hef ég misst 17 kíló síðan á jólunum '08.

Ég hef staðið mig að því, sérstaklega þegar ég er kominn í glas, að tala ekki um annað en ræktina hitt og þetta. Sem er hættulegt. Það sama á við um kettlingana, við Nanna stoppuðum okkur nokkur nokkrum sinnum af síðasta spilakvöld.

-------

Nei nú fór ég upp að borða, kíkti niður til að ná í trefil, klukkan er að fara að slá. Gleðilegt nýtt ár!

-b.

22 desember 2009

Ofninn er að hitna, ég er búinn að hræra pönnukökudeigið, pítsubotnsdeigið er að hefast, hvítlaukssmjörið að hlýna, pakkarnir komnir í viðeigandi pappír og á leiðinni austur með mömmu. Ég er búinn að fá mér tvo bjóra í kvöld, ætli meiningin sé ekki að halda sér slökum. Nanna skrapp til systur sinnar að sækja búr undir kettlingana fyrir svona einum og hálfum tíma síðan. En ég er orðinn svangur.

Kettlingana já, við ætlum að fá okkur kettlinga. Tvo högna. Það er komið búr fyrir þá undir stiganum. Við ætlum að sækja þá í Borgarnes á morgun. Kannske dálítið löng leið að fara eftir köttum en svona er þetta nú bara.

Ég kemst svo að segja ekki í jólaskap fyrren ég fatta að ég er orðinn seinn með jólakortin og hespa einhverju af síðustu dagana fyrir jól. Þetta er búið á áætlun núna en eftir að það var allt komið í umslög þá fékk ég fína hugmynd að kortum, sem ég hefði getað framkvæmt í gær, en ekki í dag. Vertu á sömu akrein og ég, heimur. Eða ekki, vertu frekar á hinni akreininni við hliðina á mér þannig að við getum benst á og lesið af vörum hvors annars.

Það eru fjórir dómar eftir mig komnir á bókmenntavefinn, það eru: Vormenn Íslands eftir Mikael Torfason, Himinninn yfir Þingvöllum eftir Steinar Braga, Síðustu dagar móður minnar eftir Sölva Björn Sigurðsson og svo Íslensk dægurlög og Alhæft um þjóðir eftir Hugleik Dagsson og Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur (í þeirri sömu röð).
Ég er nokkuð sáttur við þetta. Var pínu súr yfir að hafa ekki gripið líkindin við A Confederacy of Dunces í Síðustu dögum en það er ekkert nei nei nei, bara svona.. Uss, Bjöss. Best? Alhæft um þjóðir. En ef maður les ekki myndasögur? Himinninn yfir Þingvöllum hugsa ég. Annars er rugl að skipa í einhverja röð. Ég myndi ekki mæla með sömu bók við alla sem ég þekki.

Ætli ofninn sé orðinn heitur?

...

Jamm hann var það. Hvítlauksbrauðið fínt, Nanna komin heim, pítsan er í ofninum. Klukkan er korter yfir tíu, Þorláksmessa á morgun.

-b.

15 desember 2009

Fyrir alla þá sem lásu Harry Potter, mig þarmeðtalinn

Og jú, við gætum kannske sett myndasögur inní þetta skema líka. Ekki bara fyrir krakka (lengur)!


Adults Go Wild Over Latest In Children's Picture Book Series

,,Sounds like it gets a little darker.."

-b.

01 desember 2009

Vísa um mann og orð

Af gefnu tilefni (þ.e.a.s. að hægt er að skrifa um það) birti ég hér vísu sem ég orti á feisbúkksíðu Helga Bárðarsonar. Hún er að nokkru sannsöguleg, tilvitnunin er aktúal en aðstæðurnar sem ég dreg upp eru aðeins færðar í stílinn.

_____

Orð aldanna

Þjóðarskáld, um skuld og kvaðir,
skeleggur (en þvingaður)
sagði Guði og gumum ,,Það er
gott að vera elskaður."

_____

Mér finnst ekki við hæfi að merkja þetta ,,vinir mínir eru hálfvitar" einsog næsta ljóðabók á að heita, þannig að ég merki þetta titli gömlu bókarinnar. Það dugar.

-b.

Það kemur mér mjög á óvart að sumir skuli fá meiri peninga en aðrir

Nánast hílaríus: Feisbúkk hóparnir Verjum sjómannaafsláttinn og Burt með sjómannaafsláttinn. Í þeim fyrri eru sjómenn og meðhjálparar sem segja ,,Hefur þú verið á sjó? Þú ættir að prófa að fara á sjó og koma síðan aftur og bla bla bla." og ,,Alþingismenn eru með dagpeninga."

Ég bíð eftir Alþingismanninnum sem barmar sér og segir ,,Hefur þú setið á Alþingi? Þú ættir að prófa að sitja á Alþingi og koma síðan aftur og bla bla bla."

Ég veit ekki betur en að það sé bitist um bæði þessi störf. Spurningin hvort þeirra býður uppá stærri bónusa eða afslætti er langt, langt útaf korti. Ef við gætum nú öll bent á Alþingismenn til að sýna framá að við verðskuldum líka sérmeðferð eða meiri péning, og ætlast til þess að einhver taki mark á okkur..

Og seinni hópurinn. Mig langar að spyrja hvort sá tappi hafi ekkert betra að gera, en það er kannske ekki hægt að krítísera fólk fyrir það þessa dagana.. Þá bara fyrir þetta innlegg frá manni sem mér skilst að sé sjómaður:

,,Hefur þú verið á sjó drengur,ef ekki ættir þú að prófa það og sjá svo til hvað þú myndir segja,það ætti að hækka sjómannafslátinn,við sjómenn vinnum erfiðustu vinnu sem finnst á íslandi,auk þess erum við lengi frá konum okkar og börnum og á sjó í öllum veðrum og aldrei með sléttan flöt undir fót,þið ættuð að skammast ykkur fyrir að segja svona..."

Að kalla mann, sem er litlu yngri en þú sjálfur, ,,dreng" og segja honum að skammast sín vegna þess að þú ert ósammála því sem hann segir.. Það gerist bara litlu betra en það.

Jú jú jú, það er þessi bakkafulli lækur og ég er að bera feisbúkk athugasemdir í hann. Só vott. Þetta er minn lækur.

-b.