04 júlí 2018

mtg

Ég er semsagt búinn að vera að spila dálítið Magic the Gathering uppá síðkastið.

Hvernig vill það til?

Davíð sýndi mér Hearthstone fyrir rúmum fjórum árum síðan, ég spilaði helling af því. Blizzard negldi akkúrat rétt jafnvægi í leiknum, þar sem hann virkar einsog spila-leikur mestanpart, en rennslið í leiknum er hannað fyrir nokk hnökralausa stafræna upplifun. Þannig getur eitt spil á borði tekið breytingum eða breyst í annað hratt og auðveldlega, sem er eitthvað sem Magic leikur á stofuborði á í vandræðum með. Þegar annar spilaranna á leik getur hinn ekkert gert þar til röðin kemur að honum, sem útilokar allskonar fram-og-tilbaka virkni.. Allt útlit, stemning og vigt í leiknum passar akkúrat fyrir þetta umhverfi og kasúal spil. En það þýðir líka að leikurinn hefur takmarkaða dýpt.

Ég byrjaði að hlusta á podcastið hans Mark Rosewater, Drive to Work, um svipað leyti, held ég? Það var að hluta nostalgía en mig langaði líka að vita hvar leikurinn væri staddur. Á YouTube er hægt að horfa á heeeelling af Magic leikjum. Ég gerði það.

Ef Hearthstone er blokkflauta þá er MTG Online einsog.. theramín? Kannske ekki alveg. MTGO gæti verið meira fráhrindandi fyrir byrjendur heldur en theramín. Ég prófaði að spila Magic Duels, sem var tilraun til að pakka Magic inní kassa sem var einsog Hearthstone í laginu. Wizards hættu að þróa það síðasta sumar eða í haust og einbeittu sér að Magic Arena, sem reynir sömuleiðis að pakka Magic oní samskonar kassa. Ég skráði mig í biðröð eftir lokuðu beta en biðröðin var löng. Í millitíðinni ákvað ég að prófa MTGO.

MTGO kemur heldur ekki vel út í samanburði við Magic á stofuborði. Hearthstone verður til á tölvuskjá, Magic verður til á prenti. Allar styttri leiðir, shorthand og flæði sem spilarar þróa með sér á frekar stuttum tíma andspænis hver öðrum þýðist hreint ekki vel í tölvuleik, þar sem þarf að gera ráð fyrir allskonar breytum sem gætu mögulega skipt máli, hvort sem spilararnir vilja nýta þær eða ekki. Þetta skiptir engu máli í Hearthstone en öllu í MTGO.

En! Þegar ég var búinn að eyða smá tíma í MTGO komst ég inní rythmann á leiknum, og síðan þá virðist allt gameplay í Magic Duels og Magic Arena óþarflega loðið. MTGO er ekki fallegur leikur en hann er praktískur og hann virkar.

Allavega. Eftir að hafa spilað hann í dálítinn tíma ákvað ég að prófa að taka þátt í draft móti í Nexus. Það var verið að spila Dominaria, í lok maí. Það var dálítið skrýtið að koma inní þetta batterí en ég var mjög blátt áfram með það að ég vissi ekki hvað ég væri að gera, og allir sem ég spilaði við voru mjög almennilegir. Skömmuðu mig fyrir að stokka illa, sem var vel þegið. (Í gamla daga vorum við vanir að raða löndunum saman við hin spilin, eitt á móti tveimur, áður en við síðan stokkuðum. Þetta er víst mjög mjög illa séð.) Ég keypti engin plöst þetta fyrsta skipti sem var frekar vandræðalegt og bauð einmitt uppá vesen í stokkun, en ég passaði uppá það næst.

Ég er búinn að fara nokkrum sinnum síðan og finnst alltaf mjög gaman. Á laugardaginn er prerelease sealed mót fyrir Magic 2019 og ég er skráður.

Eftir þetta fyrsta draft mót keypti ég mér nýjar möppur fyrir spilin sem ég átti heima. Ég varði lunganum úr mándags-frídegi í að fara yfir kassann, sortera og raða. Ég henti gömlu grænu möppunni með plastvösunum sem voru úr sér gengnir, raðaði í nýju möppurnar eftir seríum, litum og stafrófsröð. Ekki að ég ætli að fara að bjóða skipti úr þessu, það eina sem er einhvers virði er bara spilað í Legacy og Vintage. Það er meira fyrir flokkarann í sjálfum mér, mér finnst gaman að renna yfir þetta. Ég gæti mögulega mögulega tekið einhver af gömlu basic löndunum mínum með mér á næsta mót, en ég fór aldrei svo langt í dentíð að safna júníform löndum, og þá er kannske betra að láta það vera.

Um leið og ég fór yfir gömlu spilin var ég að rifja upp nákvæmlega hvenær ég hefði verið að spila þegar ég var strákur. Miðað við að fyrsti stokkurinn minn var Ice Age starter, og ég man vel eftir því þegar Homelands kom út, þá hef ég byrjað í kringum Ágúst 1995. Og ég keypti slatta af Exodus, og spilaði með þeim spilum, en það kom út miðjan júní 1998. Ég keypti nokkra pakka af Unglued, sem kom út í byrjun ágúst sama ár, en ég var alveg hættur þegar Urza's Saga kom út í byrjun október. Þannig að setjum endalokin við lok ágúst 1998.

Þrjú ár.

Þrettán ára til sextán ára.

Gerðist eitthvað annað í lok ágúst 1998? Tja jú ég byrjaði í framhaldsskóla.

Ég var með einhverja hálfkláraða hugmynd um það hvort þetta væri eingöngu nostalgía, samanber annað misjafnlega spennandi sem hálffertugir karlmenn gera til að verða aftur sextán. Ég held ég nenni samt ekki að eyða tíma í það? Nostalgían er bundin í spilunum sem ég á uppí hillu og sem ég spilaði með þegar ég var strákur. Og hún er bundin í minningum um spil á Baldursgötunni og við bróður minn og vini mína, og stokkana sem ég smíðaði og reglubókina sem ég lærði utanað, og fyrsta skiptið sem ég keypti kassa (til helminga við Ými) og fyrsta mótið sem ég tók þátt í, og pakkana sem maður gat keypt í Jack 'n Jones í Kjarnanum (úff Selfoss). Og minningar tengdar þessu spili eru fyrirferðameiri í nostalgíu þessara ára vegna þess að mér þótti það skemmtilegra en flest annað og það meikaði sens.

Írónískt að einhverju leyti að ég skuli byrja að spila aftur þegar Dominaria kemur út, sem er hreinlega yfirlýst nostalgíusett. En það er eitthvað til að skoða í því líka: umhverfi spilsins er svipað, og það eru allskonar tilvísanir í gömlu dagana, einstaka endurprentanir, en spilið er allt allt annað en það var fyrir tuttugu árum síðan. Sem betur fer.

-b.