23 ágúst 2019

Heimsljós

Úr fyrra bindi í útgáfu Vöku-Helgafells 1992.

Ég er alveg viss um það Magnína, að sönn ást getur átt heima í hverju kristnu hjarta, og það jafnvel nú á tímum ef hepnin er með.

Nei það er ekki hægt hér, sagði hún, einsog maður sem svarar uppúr svefni ef haldið er um litlafíngurinn á honum, og hélt áfram að stara útí bláinn hreyfingarlaus. Það eru svo margir í kríng. Það ætla allir öllum eitthvað ílt. En tvær manneskjur á eyðieyu þar sem aungvir eru í kring, það er alt annað mál. Það er einsog guð ætlaðist til þess í fyrstunni þegar hann skapaði tvær manneskjur og lét þær vera út af fyrir sig.
(81-2)

En má ég aðeins spyrja þig að einu áðuren þú berð mig, heldur þú að allir séu glæpamenn og lygarar sem trúa á guð og sálina; og á annan heim?

Annar heimur er billegur, það kostar ekki neitt að útbýta honum á báðar hendur. Þegar þeir eru búnir að sökkva skipunum fólksins til að geta borgað skuldir sínar með vátryggíngarfénu, þá gefa þeir okkur flota á himnum.

Mér er sama hvað þú segir um Pétur framkvæmdarstjóra, sagði skáldið. Ég trúi því ekki að hann sé vondur maður.

Um hvað ertu að tala, sagði [Örn Úlfar].

Í rauninni trúi ég ekki að neinir vondir menn séu til.

Hvað áttu við með vondum mönnum?

Ég veit það ekki, sagði Ljósvíkingurinn, – í rauninni ekki neitt.

Þú ert svo vitlaus að það er næstum frágangssök að tala við þig, sagði vinur hans. Þú kemur altíeinu upp með eitthvað sem þú þykist halda fram, og svo þegar farið er að syrja þig, þá veistu ekkert hvað þú átt við eða um hvað þú ert að tala. Þú segir Pétur Þríhross er ekki vondur maður, ég segi gott og vel, hver heldur því fram að hann sé vondur maður. Hér á Sviðinsvík eru til þrjár tegundir af vondum mönnum, það eru hjallþjófar, kjaftforir fylliraftar og kvennamenn sem eiga krakka á kostnað skattþegnanna. Einginn þeirra stelur neinu frá fátæklíngunum né lýgur að þeim. Saklausari fyrirbrigði eru ekki til í okkar hreppsfélagi en vondir menn. Ef ég ásakaði Pétur Þríhross fyrir að vera vondan mann væri ég fífl. Ég ásaka hann fyrir að vera góðan mann, kærleiksríkan mann, göfugmenni, andlegan frömuð, mentavin, trúarhetju og hálparhellu fátækra skálda.
(243-4)

Það er böns af laxnessískum línum hérna, en bókin nær oft flugi í lengri köflum. Ég veit ekki hversu vel þær ganga úr samhengi við restina af bókinni en til þess er skáldsagan að maður lesi hana. Sagan sem Örn Úlfar segir í framhaldi af þessu samtali, um Hólsbúðardísu, er hár punktur. Og kaflinn um miðilsfundinn í heild sinni, almáttugur.

Annars ætla ég ekkert að skrifa af viti um þessa bók, ég er bara að lesa hana þessa dagana. Las Íslandsklukkuna um daginn og var mjög hrifinn af henni, fíla þann stíl betur en þetta endalausa flæði í Heimsljósi en það hæfir sögunni náttúrulega ágætlega.

-b.