27 apríl 2020

Destroyed by Hippie Powers

Ég opnaði blogger, sá þennan titil efstan í röðinni og mundi ekki eftir að hafa vistað draft. Kíkti hingað inn til að sjá hvað ég skrifaði, þá var síðan tóm. Sem kemur ekki beint á óvart. En þá er kannske allt eins gott að skrifa eitthvað og sjá hvað gerist.

Ég hef kannske haft einhverja löngun til að skrifa um Car Seat Headrest, sbr. titilinn. Twin Fantasy (face to face) og Teens of Denial hafa verið í spilun hjá mér undanfarið, aðeins dottið niður í banninu reyndar.

Ansi margt sem hefur dottið niður í banninu, ég hef ekki verið að lesa neitt af viti til dæmis. Aftur á móti hef ég grisjað úr bókahillunum, svo færðum við hillurnar allar saman, það kemur ágætlega út. Það eru fleiri bækur í þessum hillum sem mig langar til að henda (en ekki nógu mikið til að henda þeim) heldur en bækur sem ég veit að mig langar til að kaupa.

Ég er búinn að vera heima síðan um miðjan mars held ég. Fékk kvef og kinnholubólgu eftir Danmerkurferðina og var heima nokkra daga, vann heima nokkra daga í viðbót, fór í vinnuna á föstudegi áður en safnið lokaði og já, síðan hefur safnið verið lokað. Vinna heima. Við fórum í sóttkví reyndar strax í kjölfarið. Síðan voraði.

Heimavinnustöðin er við borðstofuborðið og ég horfi á traffíkina oní dal.

Ég tók upp á því að afrita bunka af DVD diskum til að eiga á tölvunni. Þetta leiddi til þess að ég horfði þrisvar sinnum í beit á Zodiac. Við horfðum saman á Memento, Nanna hafði aldrei séð hana áður. Og Deadwood, af því mig langaði að renna í gegnum það aftur áður en ég horfði á myndina.

Hvað fór eiginlega úrskeiðis í þessari blessuðu Deadwood mynd? Einsog svo margt annað sem "snýr aftur" eftir að hafa verið elskað í tætlur þá gleymir myndin að fjalla um eitthvað. Það eru allir bara mættir aftur, sýna sig á skjánum og segja nokkur orð. Meira að segja í Deadwood, þar sem mesti hitinn kom frá persónunum, samskiptum milli þeirra og hvernig þær tala hver við aðra (og við sjálfa sig) þá voru þættirnir aldrei svona skotnir í sjálfum sér. Og þeir standa ennþá fyrir sínu, ég hafði mjög gaman af því að horfa á þættina aftur. Kvikmyndin er einhverskonar vaxmynd, mótuð eftir minni.

Við höfum verið að horfa á Patriot, fyrsta þáttaröð er með því skemmtilegra sem ég hef lengi séð. Kláruðum hana í gær og fórum strax í fyrsta þátt annarrar raðar og það hefur eitthvað hræðilegt gerst í millitíðinni. Framhaldið tekur frá okkur ætluðu endalokin, allt þetta sem hefði getað gerst eftir að klippt er á síðasta þáttinn þar á undan. Ekki bara með því að halda áfram þar sem frá var horfið en breyta því hvað persónurnar vilja, heldur bætir það við senum sem eiga að hafa gerst utan ramma daginn áður, en þær skjóta endalok sögunnar sem fyrri þáttaröðin er, algerlega í kaf. Ég er að tala um gæjann í lestinni, sem hefði aldrei verið þar og hefði aldrei verið beðinn um að vera þar af aðalpersónunni sem við skildum við í fyrstu þáttaröð. En svo líður ár í framleiðslutíma, við snúum aftur á sama stað í sögunni og allt er breytt.

Það er þetta með að snúa aftur, og ég veit að ég hef of upptekinn af þessu. Í ferðinni til Kaupmannahafnar fór ég aftur þangað sem ég bjó fyrir 13 árum síðan. Það er allt gerbreytt, það er allt eins. Ég þekki sjálfan mig þar en ég þekki engan. Það að snúa aftur hefur í raun ekkert að gera með það sem var áður heldur það sem er ennþá, þann hluta af sjálfum manni sem er ennþá þarna á þessum stað. Tengingin við fortíðina dugar ekki til að gefa heimsókninni merkingu, heimsóknin þarf að vera eitthvað í sjálfri sér. Þannig verður hún hluti af manni sjálfum í nútíðinni, einsog eldri minningarnar eru nú þegar.

Ég er að hugsa upphátt.

Síðasta heila daginn í Kaupmannahöfn núna um daginn vaknaði ég frekar seint, fór á Warpigs í hádegismat. Gekk svo meðfram höfninni, og í gegnum verslunarmiðstöðina þar sem við Ýmir sáum Borat!, alla leið að bókasafninu, sá oná kollinn á Nick Cave, gekk að styttunni þar sem ég tók myndina af Agli og gamla manninum fyrir 20 árum síðan. Fór svo oní metróið og lestina heim á hótel, sofnaði snemma.

-b.