03 desember 2013

Hagræn áhrif þess að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin

Íslensku bókmenntaverðlaunin sem forseti Íslands afhendir voru fyrst afhent af honum (þá henni) á hundrað ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda árið 1989.

Eða nei, þau voru fyrst afhent árið 1990, fyrir bók sem kom út árið 1989: Yfir heiðan morgun: ljóð '87-'89 eftir Stefán Hörð Grímsson. Köllum það samt Íslensku bókmenntaverðlaunin 1989.

Þá var tilnefndum bókum ekki skipt upp í flokka fagurbókmennta og fræðirita, svo það var einungis einn verðlaunahafi. Hann fékk eina kalda milljón (1.000.000) krónur í verðlaun.

Í umfjöllun sem birtist um fyrirhugaða verðlaunaafhendingu í Tímanum þann 22. september 1989 segir:

„Verðlaunaféð er ein milljón króna og verða þau veitt í fyrsta skipti í janúarmánuði næstkomandi og verður valið úr bókum sem út komu á yfirstandandi ári. Unnið er að því að fá verðlaunin, sem munu fylgja verðlagi, undanþegin opinberum gjöldum eins og gert hefur verið þegar Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og Nóbelsverðlaun í bókmenntum hafa fallið í hlut íslendinga.“

Nú veit ég hreinlega ekki hvort verðlaunaféð sé undanskilið opinberum gjöldum. Ég ætla rétt að vona það. En þó skattleysið sé þarna vafaatriði er því hinsvegar slegið föstu að verðlaunin komi til með að fylgja verðlagi. Þetta er hvorugt tekið fram í greinum Moggans og DV um málið. Um þetta stendur ekkert í reglugerð FÍBÚT, en þar segir í 5. grein:

„Verðlaunafjár er aflað samkvæmt stofnskrá settri af Félagi íslenskra bókaútgefenda.“

En Stefán Hörður Grímsson fékk semsagt í sinn vasa eina milljón króna þann 25. janúar 1990. Það má vera að hann hafi líka tekið við einhverskonar viðurkenningu eða verðlaunagrip, en það segir okkur ekkert um hagræn áhrif þess að yrkja ljóð; það eru ástsælir handboltamenn sem selja verðlaunapeninga, ekki ljóðskáld.

Án þess að fara út í alltof mikil smáatriði þá var fyrirkomulagi verðlaunanna breytt strax árið eftir. Veturinn 1990 voru kynntar tilnefningar í tveimur flokkum: Í flokki „frumsaminna íslenskra skáldverka, lauss máls eða ljóða“ og flokki „annarra íslenskra ritverka, fræðirita, frásagna, handbóka og hverra þeirra verka sem að jafnaði teljast ekki skáldverk eða fagurbókmenntir.“ Þá var verðlaunafénu skipt á milli þeirra tveggja höfunda sem tóku við verðlaununum úr hendi forseta Íslands, Fríða Á. Sigurðardóttir og Hörður Ágústsson fengu hálfa milljón hvort. Og jú, sitthvorn verðlaunagripinn.

Verðlaunin héldust óbreytt næstu tíu árin þannig að það má segja að Stefán Hörður hafi verið aberrasjón eða undantekning; Íslensku bókmenntaverðlaunin sem forseti Íslands afhendir sem hann hlaut voru ekki þau sömu og Fríða og Hörður hrepptu vegna þess að þau þurftu ekki að keppa hvort við annað.

Það má nefnilega segja að verðlaunin hafi fylgt verðlagi að vissu leyti því upphæð verðlaunafésins hefur tvisvar verið hækkuð. Árið 2001 fengu Gyrðir Elíasson og Guðmundur Páll Ólafsson hvor um sig 750.000 krónur. Árið 2012 fengu Guðrún Eva Mínervudóttir og Páll Björnsson hvort sína milljónina. Nú nýlega voru tilnefningar kynntar í þremur flokkum og tekið fram að verðlaunaféð næmi einni milljón í hverjum flokki. Þannig að næstu þrír verðlaunahafar þurfa ekki að láta sér nægja 667.000 krónur hver. Það má þakka fyrir minna. Þau ná samt ekki með tærnar þar sem Stefán hafði hælana, né heldur Fríða og Hörður.

Það er að segja ef við mælum verðleika skálda – og fólks almennt – út frá því hversu mikla peninga þau þéna og hversu mikinn sykur og brauð og belgískar vöfflur þau geta keypt fyrir þessa peninga, eins og vera ber.

Þegar Fríða Á. Sigurðardóttir tók við búnti af tiltölulega lítið notuðum og vel með förnum fimm þúsund króna seðlum þá stóð gengistala neysluverðs í 150 stigum. Þegar Gyrðir tók sitt stóð vísitalan í 202 stigum. Guðrún Eva tók við útprentaðri nótu fyrir millifærslu (held ég) þann 25. janúar 2012 og þá stóð vísitalan í 387,1 stigi. Ef vísitalan helst óbreytt næsta mánuðinn mun hún standa í 416,7 stigum þegar næstu þrír verðlaunahafar taka í aðra hönd forseta Íslands á meðan hann afhendir þeim verðlauninn með hinni.

Semsagt, ef við ýtum Stefáni Herði til hliðar í bili og við miðum við verðlaunafé Fríðu í þessum útreikningum þá er það eitt á móti einu, sléttar 500.000 krónur.

Miðað við vísitölu neysluverðs taldi 750.000 króna verðlaunafé Gyrðis heilar 557.000 krónur. Árið áður hafði Andri Snær Magnason tekið við 384.000 krónum, sem heita áttu 500.000 krónur.

Í sama skilningi var upphæðin sem Guðrún Eva hlaut 387.000 krónur, þó hún ætti að heita milljón. Og árið áður hafði Gerður Kristný tekið við 306.000 krónum, sem á stóð „750.000kr.“

Loks telur milljón verðlaunahafanna næstkomandi janúar sirka 360.000 krónur, að öllu þessu gefnu. Nú þegar verðlaunahafarnir verða þrír mun heildarsumman standa í 1.080.000 krónum, eða liðlega einni milljón í matarkörfu og íbúðaverði ársins nítján hundruð níutíu og eitt. Þannig að það má kannske segja að Tíminn hafi ekki verið alveg út af korti þarna í september '89, hverjum svo sem hann hafði þetta eftir.

-b.

13 september 2013

Planið fyrir státinn

Planið er semsagt þetta.

Ég er með malað korn og allar græjur hérna inni í geymslu. Næst á dagskrá í bjórgerðinni er að leggja í stát. Ég hef gert það tvisvar áður (plús einusinni þegar ég gerði sterkan kaffi/súkkulaðistát sem er sennilega svona þriðji versti bjór sem ég hef gert) og mér þykir gott að eiga stát til reiðu. Í fyrsta skiptið gerði ég uppskrift beint eins og hún kom fyrir í Brewing Classic Styles, fyrir þurran (írskan) stát. Í annað skiptið skipti ég virtinum í tvennt og gerjaði með tveimur mismunandi gerjum, það var mjög fróðlegt.

Sér í lagi vegna þess að þegar það kom í ljós að "hitt" gerið var betra en það sem ég hafði notað áður, þá var ég löngu búinn að henda því. Hefði getað geymt eina krukku og notað áður, en það gengur svona.

Í þetta skipti er ég að hugsa um að skipta á milli tveggja gerja aftur: Að nota hefðbundna gerið, Irish Ale, og svo annað breskt ölger, afbrigði sem er til sölu í takmarkaðan tíma eitthvað eitthvað.

Enn fremur bætti ég við uppskriftina heilum 60gr af sýrumalti, sem ætti að gefa öörlítið súran keim.

Og svo eru það byggflögurnar. --

Ég tók þátt í bjórgerðarkeppninni sem haldin var í vor. Bjórarnir mínir fengu fínar einkunnir, ég bjóst satt best að segja ekki við mjög miklu. Státinn var orðinn pínu gamall og IPA-inn kom einfaldlega ekki nógu vel út hjá mér. En ein athugasemd kom upp oftar en einu sinni hjá dómurunum sem smökkuðu státinn, og hún var sú að bjórinn væri vatnskenndur. Það gæti verið að hann hafi bara verið borinn fram of kaldur -- og þar með nánast flatur, en það er lítil kolsýra í honum til að byrja með. En ég fór að hugsa hvort þetta væri samt eitthvað sem ég gæti fiffað.

Byggflögurnar sem ég hef notað eru þær einu sem ég hef fundið hér til sölu. Nema að þær eru ekki eins og þær sem talað er um í uppskriftinni sem ég fór eftir, eða í neinni af þessum bandarísku uppskriftum. Þar eru byggflögunum lýst svo að þær séu flattar út með glóandi heitum völsum, svo að sykrurnar í korninu hlaupi eða gelist (?). Byggflögurnar sem ég hef notað eru hins vegar kaldvalsaðar, og ætti því frekar að tala um grófmalað bygg.

Það hefur einhver umræða skapast um þetta á Fágunarspjallinu, og flestir á því að láta bara vaða. En enginn hefur sagst hafa gert nokkurn samanburð, og ég leyfi mér að efast um að nokkur hafi nennt því. Það er að segja samanburð á því annarsvegar að meskja flögurnar einsog þær koma fyrir, og hinsvegar að elda flögurnar fyrir meskjunina. Þannig að ég ætla að prófa það.

Þetta er örlítið meira vesen en normal mesking en mér sýnist þetta gæti bara verið gaman. Það helsta er að ég veit hreinlega ekki hvort þetta skiptir nokkru máli. Flögurnar eiga að bæta áferðina á bjórnum, en hvað er það í flögunum sem á að sjá til þess? Eru það prótínin, sykrurnar eða vatnsleysanlegu trefjarnar? Ef það eru trefjarnar þá á þetta sennilega ekki eftir að breyta nokkrum hlut. Ef það er eitthvað annað, þá kannske.

Skemmir varla fyrir samt.

Og ég á enn þrjár, fjórar flöskur af fyrri uppskriftinni til að bera saman við.

Þannig að ég þarf bara að ná mér af þessari flensu og þá er þetta gó.

... Og ég fatta það núna að ég hef ekkert hugsað bjórgerðina umfram þennan stát. Hvað gerist næst?

-b.

Hleð myndum

Ég hef á tilfinningunni að án mynda séu orðin ekki sjáanleg lengur. Að lesa efnisgrein einsog þessa er svipað og að setjast til borðs með hníf en engan gaffal. Hér er myndatextinn, já, ég sé hvar hann byrjar og endar, og ég renni yfir hann þegar ég hef skoðað myndina, en hvar er myndin? Það er eitthvað að þessari síðu, eða tengillinn á myndina ónýtur. Imgurl liggur niðri.

Hvað á ég nú að lesa?

Ég ætlaði bara að skima yfir eitthvað meðan Ási sækir gaffla upp til sín.

Spyr hann hvort netið sé ekki í lagi þegar hann kemur.

Og svo framvegis.

Ég fór að hugsa um þetta því mig langaði að skrifa niður eitthvað um fyrirhugaða bjórlögun. Eðli málsins samkvæmt get ég ekki birt myndir af einhverju sem hefur enn ekki gerst, og skrifin eru því tví-ómerkileg: Fyrst vegna þess að þau lýsa einhverju sem hefur ekki gerst og á sennilega ekki eftir að gerast einsog því er lýst, og svo vegna þess að það fylgja engar myndir.

Aftur á móti skýrist myndaleysið af því að umfjöllunarefnið er óorðið.

Ja, ég ætti ekki að ofmetnast; ég hefði sennilega gleymt að taka myndir hvort eð er.

...

Að hugsa sér að ég skuli bölva The Glass Bead Game fyrir að vera eintómt forspjall og koma sér aldrei að efninu, eða snúa sér aldrei að neinu sem skiptir máli. Aftur á móti hef ég ekki fengið Nóbelsverðlaun fyrir ras mitt. Ennþá.

En málið er semsagt þetta. Ahemm. Ég ætla bara að byrja upp á nýtt.

-b.

12 september 2013

Það sem ég ræddi

Ég sit heima með flensu.

Það gæti verið að ég hafi ýtt sjálfum mér útúr eigin höfði. Það gæti líka verið að þetta hafi gerst fyrir löngu síðan, og að það sem hefur hringlað þar inni uppá síðkastið sé minningin um röddina einsog hún hljómaði þar áður. Bergmálandi meðfram taugaboðum sem hugsa eitthvað allt annað.

Mér dettur í hug að skrifa nokkur orð. Ég gerði það síðast fyrir helgina sem leið; mér var sett það verkefni að skrifa og flytja ræðu en mér datt ekkert í hug. Það eina sem sá til þess að ég gerði það sem ég hafði sagst ætla að gera var skilafresturinn. („Banalínan“ segir mjólkurfernan, notar það nokkur? Mér finnst það ekki alslæmt.)

Það er sena í West Wing þar sem forsetinn þarf að flytja skálarræðu við afmælisveislu konu sinnar. Veislan er hafin og hann bregður sér út til að flytja ræðuna fyrir aðstoðarmann sinn. Ræðan er að uppistöðu saga af þeim hjónum, eða brandari öllu heldur, sem hljóðar svo: Þau er á ferðalagi; festa bílinn í skurði; forsetinn (þá fylkisstjóri) getur ekki losað hann; lókal gaur kemur til bjargar; forsetinn (þá fylkisstjóri) spyr konuna sína hvort hún hefði frekar viljað giftast lókal gaurnum; konan segir „pah, hefði ég gifst honum væri hann fylkisstjóri.“

Aðstoðarmaðurinn hefur heyrt söguna áður, forsetinn spyr hann einfaldlega hvort hann ætti ekki að segja „söguna af skurðinum“. Aðstoðarmaðurinn segir að það sé fín saga, en hún fjalli samt aðallega um hvað forsetinn sé sniðugur. Forsetinn jánkar því.

Í skálarræðunni segir hann söguna samt sem áður.

Hver er þá tilgangurinn með því að spyrja aðstoðarmanninn álits? Mögulega sá að þegar við heyrum forsetann segja söguna, seinna í þættinum, hafi þessi gagnrýni þegar komið fram og broddurinn þannig brotinn af henni. Og sá að jafnvel þó maður heyri gagnrýni og sé sammála henni þá sé stundum einfaldlega komið að banalínu (!) og maður verði að láta vaða.

Þetta kann líka að vera einhverskonar viðurkenning á því að athygli þeirra, sem yfirleitt hafa sig út í það semja svona ræður og flytja, sé gjarnan bundin þeirra eigin tilveru og að stundum verði bara að hafa það.

Einhverstaðar segir að mikilmenni ræði hugmyndir, meðalmenn ræði atburði og að smáborgarar ræði fólk. Neðar þeim öllum standa þeir sem semja svona bon mot.

Í öllu falli skáldaði ég sögu og sagði hana upphátt. Það var alveg gaman, mér fannst samt lélegt af mér að hafa ekki getað skrifað eitthvað raunverulegt.

19 júní 2013

Vér erum allir jafnir og þegiðu þarna

Vegna sögu þjóðarinnar þolum við illa órétt. Sigurður Nordal skrifar í bók sinni Íslenzk menning: „Í gamalli frakkneskri heimild er sagt, að einu sinni hafi sendimaður verið gerður á fund víkinga, er lágu við land þar syðra með mikinn flota. Hann spurði um höfðingja liðsins. Honum var svarað: „Vér erum allir jafnir.“[“] Íslendingar, afkomendur þessara víkinga, hafa löngum verið sjálfstæðir í hugsun og þolað illa yfirvald, hvað þá kúgun. Það sýndi sig vel í Icesave deilunni þar sem þjóðin felldi samkomulag sem hún taldi ósanngjarnt. Alþjóðlegur dómstóll staðfesti síðan þessa niðurstöðu sem sýndi að réttlætistilfinning þjóðarinnar var góður vegvísir.
Úr ávarpi forsætisráðherra 17. júní 2013. Mínar áherslur.

Sigmundur Davíð hnýtir ávarp sitt saman með ljóði Huldu um okkar fagra föðurland. Það segir mögulega sitt að hann hefji mál sitt á fyrstu línum fyrsta erindis og ljúki því á síðustu línum annars erindis: Hann hefði vel getað fundið tilefni til að koma þriðja erindinu að, en þá hefði ræðan öll verið svo til óþörf. Það er hægt að prjóna ýmislegt við fegurð landsins og frelsi þjóðar við ysta haf en hverju getur framsóknarmaðurinn bætt við þetta harmakvein:
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.
Nema kannske amen?

Annar möguleiki er sá að Sigmundi** hafi þótt þessar línur aðeins of afhjúpandi fyrir rómantíkina sem kemur fram í lokauppkasti ávarpsins. Með öðrum orðum, að þær gefi orðunum „hún unir grandvör, farsæl, fróð / og frjáls – við ysta haf“ eitthvert samhengi. Færi áheyrandinn mögulega að spyrja við hvers konar aðstæður ljóðið er ort, og hvers vegna? Það er dálítill munur á hugmyndinni um Ísland óspillt og einangrað (og óháð! Og óháð!) nú og fyrir sjötíu árum síðan. Það er ekki að finna sama öryggið í því nú að býli hér á landi séu „svo langt frá heimsins vígaslóð“, eða sömu hræsnina í því að óska þess, á dögum heimsstyrjaldar, að Drottinn geymi „okkar dýra land / er duna jarðarstríð“ eins og nú þegar við tökum þátt í stríðum annarstaðar og heimskringlan minnkar ár frá ári.

Ætli það hafi freistað Sigmundar Davíðs, þrátt fyrir þetta alltsaman, að láta alla íróníu og samhengi hlutanna lönd og leið, og beisla niðurlag ljóðsins fyrir sitt eigið Icesave harmakvein? Í Icesave er veröldin svart/hvítust. Þar er Ísland heilt og hreint og saklaust, og umheimurinn níðingur sem við erum fegin að þurfa ekki að hlýða. Mögulega kitlaði það pínulítið. En það er snertur af örvæntingu falinn í því að lýsa yfir og endurtaka óhæði þjóðarinnar  eftir Icesave deiluna öfugt við að gera það áður en maður vísar áralangri milliríkjadeilu til EFTA-dómstólsins.

Þá er betra að segja eitthvað um víkingana.

Hugsar Sigmundur Davíð.

...

Hann leiðir okkur að Icesave deilunni með tilvitnun í Sigurð Nordal. Þetta örstutta brot úr Íslenzkri menningu kemur fyrir í byrjun umfjöllunar Sigurðar um lagaumhverfi Íslendinga og Alþingis. Sigmundur Davíð má eiga það að hann getur sinnar heimildar, öfugt við Sigurð sjálfan. – Hins vegar mætti segja mér að Sigurður hafi á einhverjum tímapunkti lesið frumheimildina, jafnvel þótt hann geti hennar hvergi í bókinni öðruvísi en þarna kemur fram. Frakkneska heimildin sýnist mér vera Historia Normannorum eftir Dudo frá Saint-Quentin (f. 965). Hér eru orðaskiptin eins og þau koma fyrir í endurprentun, sem til er á Google Books:
Qui venientes super ripam fluminis, steterunt dicentes: "Regiæ potestatis comites mandant vobis ut dicatis qui estis, et unde estis, et quid quæritis." Ipsi vero responderunt: "Dani sumus, Dacia advecti huc. Franciam expugnare venimus." Illi autem: quo nomine vester senior fungitur? Responderunt: Nullo, quia æqualis potestatis sumus." tunc Alstignus scire volens quid de se dicerent, dixit: "Cujus fama huc advecti advenistis? Si unquam de quodam Alstigno vestræ patriæ nato, huc cum plurimo milite adnavigato, aliquid audistis?" Responderunt: "Audivimus. Ille enim bono omine auspicatus est, bonoque initio cæpit: sed malum finem exitumque sortitus est." Iterum Alstignus: "Vultis Karolo, Franciæ regi, colla submittere, ejusque servitio, incumbere, atque ab eo quam plurima beneficia capere?" Responderunt: "Nunquam cuilibet subjugabimus, nec cujuspiam servituti unquam adhærebimus, neque beneficia a quoquam excipiemus. Illud beneficium optie complacebit nobis, quod armis et labore præliorum vindicabimus nobis." Tunc Francigenæ: "Quid acturi estis?" Hinc Dacigenæ: "Quantocuis abscedite et amplius nolite stare, qua vestris abagibus non curamus, nec quid acturi sumus vobis indicabimus."
Mínar áherslur.

Nú er ég ekki læs á latínu en eftir að hafa lesið þetta í gegnum Google Translate sýnist mér að endursögnin sem birtist í Sögunni af Göngu-Hrólfi sem inntók Norðmandíið (1884, bls. 14-15) eftir Halldór Jacobsson sé nokkuð nákvæm. Hún hljóðar svo (áherslur eru mínar):
Hinir lágu öðru megin við fljótið Othura með sinn her. Sendimenn fóru á bakkann á móts við þá og kölluðu yfir um, segjandi: "Kóngsins herrar af Frakklandi láta oss spyrja yður, hvaðan þið séuð og hverjir og hvað þér viljið." Þeir svöruðu: "Vér erum Norðmenn og Danskir og komum til að yfirvinna Frakkland, og inntaka það með hernaði." Hinir svöruðu: "Hvað heitir yðar höfðingi?" Norðmenn segja: "Vér erum allir jafnir maktar." Hasting [sendimaðurinn] vildi vita, hvað þeir segði um sig og sagði: "Eptir hverju rykti eruð þér hingað komnir? Eður hafið þér heyrt getið um Hasting, yðar landsmann, sem hingað herjaði fyrir nokkrum árum með mörgu stríðsfólki?" "Hans höfum vér heyrt getið," segja þeir, "hann byrjaði sína herför vel og lukkulega, en endaði hana illa og með mestu minkun." Hasting svaraði: "Vilji þér gjörast Karli (enum einfalda) Frakklands kóngi undirgefnir og þjóna honum, þá mun hann sýna yður mikla náð og gjöra vel til yðar?" Þeir svöruðu: "Aldrei gjörumst vér neinum undirgefnir og einskis þrælar viljum vér vera, vér óskum og ekki velgjörða af neinum: það látum vér heita mestu góðgjörðir, að vera sjálfráðir." Frakkar svöruðu: "Hvað ætli þér að gjöra?" Danir segja: "Farið brott sem fljótast og standið ekki þar á bakkanum, yðar flækjur varðar oss ekki um, og ekki heldur segjum vér yður framar vora fyrirætlan."
Halldór sleppir orðinu „nullo“, eða „ekkert“, úr svari víkinganna, sennilega vegna þess að það hljómar betur þannig. En ef við færum það aftur inn þá er svo spurt og svarað:
- Hvað heitir höfðingi ykkar?

- Ekkert, við erum allir jafnir að völdum.

Og þetta er auðvitað ósatt. Eins og bent er á í þessari grein (aftur Google Books), "Translating 'Feudal' Vocabulary: Dudo of Saint-Quentin" eftir Felice Lifshitz:
This assertion was never meant by Dudo to be taken seriously. The quoted interview at Damps between Rollo's band and three messengers from the Franks (namely Anstign [sem Halldór kallar Hasting og Dudo nefnir Alstignus] and two bilingual warriors) takes place after the reader has repeatedly seen Rollo recognized (both by sui and by others such as King Alstem of the Angles) as the senior of the warriors gathered around him; the reader knows that these Vikings have a 'lord', and the reader knows that they know they have a 'lord'. The verbal exchange at Damps recorded/invented by Dudo shows the Vikings playing a particularly infuriating diplomatic game with Anstign, whom they continue to torment, refusing to answer properly any of his questions; when they claim to have no lord, they are quite simply lying, a fact which is not obvious to someone who has not attentively read the entire narrative.
Víkingarnir, menn Hrólfs (sem þar kallast Rollo), láta ekkert uppi og gefa hvergi færi á neinum samræðum. Hverjir eruð þið? Við erum Danir. Jú, ókei, við vissum það reyndar en allt í lagi. Hvað viljið þið? Allt þetta land, og við ætlum að taka það með valdi. Þið segið það já. Getum við á einhvern hátt mútað ykkur til að fara og láta okkur í friði? Nei, við erum frjálsir, okkur skortir ekkert. Jæja, hvað ætlið þið þá að gera núna? Kemur ykkur ekki við, við nennum ekki að tala við ykkur lengur.

Og lítum frekar á spurningu Hastings um sjálfan sig. Sá er sjálfur víkingur sem kom í hernaði (eins og hann tekur fram í spurningunni) en gekkst síðan á vald konunginum. Er hann einfaldlega að forvitnast um sinn eigin orðstír meðal fyrrum samlanda sinna? Eða er hann að gefa í skyn að konungurinn hafi not fyrir vígfæra menn, og að þeir gætu haft betur af því að ganga til liðs við hann en að stríða gegn honum – líkt og hann sjálfur? Svarið sem þeir gefa er eftir því, og nokkuð beitt. Engu líkara en að þeir viti vel við hvern þeir séu að tala: Jú, Hasting byrjaði vel (með árásum) en endaði í skömm (sem senditík yfirvaldsins). Þeir eru að hæðast að honum.

Hasting svarar með því að spyrja spurningarinnar hreint út: Viljið þið ganga í þjónustu konungsins? En svarið breytist ekki.

Spurningin "Hvað heitir höfðingi ykkar?" er þannig samskonar endurtekning á spurningunni strax á undan. Þegar spurt er "Hverjir eruð þið?" segjast víkingarnir vera Danir, og þarna er auðvitað átt við þjóðflokkinn en ekki nútíma landsvæði Danmerkur. Þetta vissu sendimennirnir fyrir, þeir eru jú valdir sérstaklega til að ræða við Danina vegna þess að þeir tala dönsku. Og víkingarnir vita að þeir vita þetta, þar sem þeir eru að tala dönsku. Hasting biður þá um nánara svar: "Hvað heitir höfðingi ykkar?", eða með öðrum orðum: Getum við fengið að tala við þann sem ræður? Og þá er svarið "Við erum allir jafnir að völdum", eða Uuu nei, við ráðum okkur sjálfir.

Þetta er skætingur.

...

Í einum skilningi hefði maður ekki þurft að fara út í neinn nánari lestur en þann sem Sigurður Nordal eða Sigmundur Davíð bjóða upp á í þessari smækkuðu mynd sögunnar. Sendiboði konungsins er ekki að spyrja út í stjórnskipan innrásarhersins, hann vill bara fá að vita við hvern sé hægt að semja. En víkingarnir vita að með því að gefa kónginum nafn (jafnvel rangt nafn eða tilbúið) gefi þeir mögulega höggstað á sér. Þá er betra að afneita spurningunni alveg, með því að vísa heimssýn kóngsins á bug.

„Hersing heiti ég, vér erum margir.“

„We are the Borg. Resistance is futile.“

Og það er gott og blessað að hæla víkingunum fyrir orðleikni ef maður kýs að gleyma því að þeir eru mættir á árbakka kóngsins með innrásarher. Það er að segja: Ef maður hunsar hið víðara samhengi sögunnar sem er svo gaman að vitna til.

En þegar Sigmundur Davíð (og Sigurður, en hann dregur þó frekar úr) segir þessa sögu til marks um það að Íslendingum sé illa við yfirvald og kúgun þá langar mann að tína þetta til í nokkrum liðum:

i) Víkingarnir eru ekki að segja „við erum allir jafnir“ heldur „nei, þú færð ekki að tala við yfirmann minn, fokkaðu þér.“

ii) Jafnvel þó maður kjósi ekki að lesa á milli línanna eru víkingarnir heldur ekki að segja „við eigum enga höfðingja“, nema þeir séu einfaldlega lygarar, og það ræðst af stærra samhengi sögunnar.

iii) Víkingunum kann að vera illa við yfirvald konungsins, en geta vel hugsað sér að kúga aðra undir sitt vald. Enda myndu þeir nefnast nýlenduherrar í dag, og vel við hæfi að vitna til þeirra á þjóðhátíðardaginn.

iv) Tengslin á milli víkinganna sem þar um ræðir og Íslendinga eru í besta falli óljós. Víkingarnir (eða Norð-mennirnir) settust að í Normandí og ólu upp normanska jarla. Íslendingar eru ekki afkomendur þeirra. Sigurður Nordal heldur því ekki fram, hann telur söguna vera til marks um það hvaða augum normenskir afkomendur þessara víkinga litu forfeður sína. Í heimssýn Sigmundar Davíðs eru Íslendingar komnir af öllum þessum víkingum í gamla daga, sem sögurnar fara af, en ef það ætti að heimfæra þennan skæting og þessar fleipur, sem Dudo hefur eftir Dönunum, yfir á þjóðir dagsins í dag þá væri Íslendingar síst nefndir á undan Frökkum, Bretum, Dönum, Norðmönnum, Svíum, Finnum, Rússum og svo framvegis. Þessi litla saga sem Sigmundur Davíð grípur á lofti frá Sigurði Nordal, án þess að vita hvað hún táknar eða hvert hún leiðir, hefur ekkert að segja um sögu þjóðarinnar, réttlætiskennd hennar né sjálfstæði.

...

Fyrir nú utan það fyrsta sem öllum dettur í hug, og til þess þarf maður ekki að hafa lesið stafkrók af þessari langloku hér á undan: Víkingarnir! Erum við í alvörunni ekki hætt að púkka upp á víkingana?

Það er fátt andlausara, fátt jafn vita vonlaust merki um dúkkulísuþjóðerniskennd og menningarvitund uppúr powerpoint-glósum, nema þá kannske að hefja þjóðhátíðarávarp á því að spyrja hver eigi sitt fegra föðurland.

-b.

_______
** og ræðuhöfundum hans, auðvitað. Það er ekkert óeðlilegt við það að forsætisráðherra verji tíma sínum í annað en að skrifa ræður, á hinn bóginn er skrýtið að nefna hann einan í þessu samhengi, á þriðja bóginn tekur hann auðvitað ábyrgð á því sem hann segir í svona ávarpi, og svo framvegis.