Þið vitið að Watchmen er aftur komin í gang? Nú ekki lengur sem The Watchmen, en ég hef engu að síður litla trú á þessu fyrirtæki, sem endranær.
Og ég kem alltaf aftur að því sem Terry Gilliam sagði, eftir að hann útilokaði að leikstýra kvikmynd byggðri á sögunni - að hann gæti hugsað sér að búa til tólf klukkustunda langa míníseríu úr efninu. Og núna þegar HBO þættir einsog Rome og Deadwood sprengja heiminn gæti ég vel hugsað mér að það gengi upp.
Góða draslið er í sjónvarpinu en þeir vilja fá myndasögurnar í lélegt bíó.
Talandi um HBO, horfði á fyrsta þátt af The Corner núna áðan. Sex þátta mínísería frá 2000, nokkurskonar undanfari The Wire. Mun hrárra á að líta einhvernvegin, og virðist eingöngu halda sig við botninn á eiturlyfjaheiminum, fíkla og dópsala á hornunum. Fullt af leikurum þarna sem koma fyrir í allt allt öðruvísi hlutverkum í The Wire, og það truflar dálítið. Mig allavega.
Extras heldur áfram að vera drepfyndið. Gaman að sjá líka hvernig farið hefur verið með þáttinn hans Andys, en það mætti segja að þar sé komin enn ein útgáfan af The Office. There but for the grace of God? Hver veit. Hefur annars nokkur horft á bandarísku útgáfuna af einhverju ráði? Ég sá fyrsta þáttinn þegar hann kom út og fannst hann hreint ekki merkilegur. En þeir virðast ætla að teygja svolítið á þessu, tvær temmilega langar þáttaraðir að baki og sú þriðja rétt byrjuð. Ætluðu ekki Sirkus eða einhver að sýna þetta heima, hvernig var það?
Meðleigjandinn minn er kominn vel inní aðra viku af OK Computer maraþoninu sínu. Ef hann er að uppgötva þessa plötu í fyrsta skipti þá veit ég sosum hvernig það er, en hún er bara svo gömul í hettunni.. Fer að verða tíu ára, blessunin. Maður spyr sig hvort það komi til 10 ára viðhafnarútgáfa næsta sumar, en það fer líklega eftir því hver ræður yfir efninu. Ef EMI á allt draslið þá er það ekki ólíklegt.
Mig minnir að ég hafi keypt mína í Skífunni í Kringlunni helgina eftir að ég fékk fyrstu útborgunina frá Landgræðslunni. Það hlýtur að hafa verið sumarið '98. Í sömu ferð keypti ég svarta albúm Metallicu og sándtrakkið úr Godzilla. Þær tvær eltust ekki eins vel.
-b.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli