24 júní 2012

Adventures in High Gravity

Eftirfarandi atriði fóru úrskeiðis í gær, þegar ég lagði í stout:

Ég gleymdi að kaupa hafra. Fattaði það þegar ég var langt kominn með að hita meskivatnið. En það reddaðist, gáði upp í skáp og þar var til stór krús af þeim. Slapp líka fínt, uppskriftin vildi 620gr, allir hafrarnir á hæðinni töldu 610gr.

Ég byrjaði meskinguna á alltof háum hita. Ég vildi hitta á 67 gráður en byrjaði í rúmum 69. Sem betur fer var ég nýbúinn að redda mér þessum fína grillspaða, svo ég gat hrært í öllu saman án þess að brenna á mér puttana einsog áður. (Það er alls ekki hlaupið að því að finna 60cm gataskeið í svonefndum sérverslunum með eldhúsáhöld.)
Samt þurfti ég að hræra ansi lengi áður en ég hafði nóg pláss til að bæta köldu vatni útí. Ég var með 7,8kg af korni og 21 lítra af vatni, svo hrostinn náði nánast upp á brún á kæliboxinu. Eftir svona tíu mínútur af stanslausum hræringi gat ég sett tæpan líter í viðbót af ísköldu vatni og hóf meskingu í svona 67,3 eða svo.



Ég gleymdi að festa fléttuna í botninn á meskitunnunni. Þetta voru sennilega tímafrekustu mistökin. Fattaði þetta þegar meskingin var hálfnuð og ég var að hræra í henni til að jafna hitann. Þetta kennir manni að nota tékklistann.
Þá þurfti ég að sækja stóra kæliboxið (sem ég átti þó til, sem betur fer), hita það aðeins upp með 80 gráðu heitu vatni þannig að hrostinn myndi ekki snöggkólna í því, og moka svo hrostanum yfir líter fyrir líter. Þegar meskitunnan var svo gott sem tóm festi ég fléttuna í botninn og mokaði yfir aftur. Ég veit ekki hversu miklum hita ég tapaði þarna, en það er nokkuð öruggt að eitthvað korn hefur setið eftir í gegnumtakinu því bæði fyrsta afrennslið og skolunin gengu ofboðslega hægt.

Ég gleymdi að það er búið að girða fyrir svefnherbergisgluggann (út af köttunum), svo ég gat ekki leitt rafmagnið út um hann. Þá ætlaði ég að láta annað elementið í tunnunni duga, sem fær rafmagn úr þvottahúsinu. Það tók eilífð. Á endanum gafst ég upp, leiddi þvottahúss-rafmagnið í annað elementið með tveimur fjöltengjum og notaði löngu framlengingarsnúruna til að leiða úr eldhúsinu. Suðan kom upp svona fimm mínútum seinna, nema hvað.



(Áður en ég skipti þá sló öðru elementinu út, ég veit ekki hvers vegna. Veit líka ekki hversu lengi það var dautt, sennilega ekki mjög lengi.. svo fór það aftur í gang þegar ég tengdi bæði, en var þá búið að hvíla aðeins.)

Ég gleymdi að setja kælispíralinn í suðuna til að sótthreinsa hann. Fattaði það þegar 2 mínútur voru eftir af suðu og lét hann bara flakka.. Ekki alveg nógu sniðugt. Sennilega hefði ég frekar átt að demba honum oní starsanið og láta liggja í svona fimm mínútur, starta kælingunni aðeins seinna. Það hefði líka verið í góðu lagi því súkkulaðið og kaffið þurftu smá tíma í heitri virt, en það fór alltsaman útí á núlli.

Og kaffið. Ég hefði betur græjað þessa blessuðu síu aðeins betur . Ég var með svona bómullarefni, 50x25cm. Lét það liggja í sótthreinsi lengi vel, setti svo kaffið í miðjuna og tók endana upp í hnapp. Nema að þegar það var komið oní og ég var að draga það til yfir suðutunnunni þá fór ég að missa niður hluta og hluta, svo endarnir voru einhvernveginn alltaf komnir oní tunnuna. Frekar furðulegt í rauninni, maður ætti að geta haldið í klút? Ég held það hafi sloppið samt, þetta var allt blautt og fallið saman.



Eitt óvissuatriði: Ég hefði mögulega getað sett kakónibburnar út í suðuna svona einni mínútu fyrir lok, í staðinn fyrir á núlli. Þær bráðnuðu ekki svo glatt. En kannske bráðna þær ekki yfirhöfuð? Mælisýnið var stútfullt af kaffi en lítið af súkkulaði.. Kaffið á samt sennilega eftir að dofna, annað við súkkulaðið. Skv. uppskriftinni þá er öðru eins af kaffi bætt við við flöskun, en ég er ekki viss um að hann þurfi þess með.

Annars gekk þetta mjög vel! Þetta var svona allskonar dulítið vesen en ekkert hrikalegt. Það sem skipti mestu máli var að ná réttu magni, sem ég gerði, og að OG væri á réttum stað, sem það var. 1,084 takk fyrir, þetta verður gaman að sjá. Reikna með FG 1,020. Nýtnin var svona sirka 67%, sem ég held að sé ekki svo slæmt fyrir þetta stóran bjór. Ég reiknaði með 60% til að vera öruggur, þannig að amk. á þann kant gekk þetta fínt.


 (Myndin sýnir 1,082 en ekki 84, en þar er ég búinn að leiðrétta m/v hitastig.)

Hann er kominn af stað inní geymslu. 2 pakkar af S-04 (átti víst að vera US-05 en ég átti þetta til) og ég þarf að reyna að halda honum dálítið köldum. Það er alltof gott veður fyrir þetta dót.

-b.

13 júní 2012

Fyrst núna

Jei, ég valdi nýtt standard lúkk af blogger.

Nú mega jólin koma.

-b.

05 júní 2012

Hérna, það er búið að loka á HI heimasvæðið mitt og ég man ekki hvernig .css skráin leit út. Þannig að þetta er ósköp litlaust þessa dagana. Kannske er það bara ágætt. Eða ég gæti prófað að finna eitthvað lúkk af lager. Nema ég var eitthvað búinn að fikta í blogger-templatinu líka. Hér er moli: Það var hætt að jarða fólk í Fógetagarðinum í lok ársins 1838. Það eru næstum því tvö hundruð ár síðan. Samt er ennþá reimt þar, úúúú. Þetta síðasta var ekki hluti af fróðleiksmolanum, heldur bara ályktun sem ég dreg af áralangri reynslu. -b.