23 mars 2012

Orð stóðu

Við Nanna fórum á Orð skulu standa í gærkvöld, í Þjóðleikhússkjallaranum. Það var mjög gaman. Skemmtileg stemning, einn lítill, bjór, krossgátuþrautir og kveðskapur og svona.

Í byrjun kvöldsins gaf stjórnandinn fyrri part:

Elskulega kæra króna,
við komumst ekki af án þín.


Ég man ekki hvað keppendurnir gerðu við þetta nákvæmlega, annað en að Guðmundur og Valgeir áttu einn, kannske tvo góða botna hvor en stilltu sig þó ekki um að lesa færri en fimm á mann.

Hér er það sem ég barði saman:

Elskulega kæra króna,
við komumst ekki af án þín.
Þú klyfjabykkja kaldra dóna
– kóna sem að sárir góna
austur e ess bé til zóna –
en auðnast ekki evran fín.

Þetta fer í þar-þar-þarnæstu ljóðabókina mína: Vísur hvorki tækar né færar.

21 mars 2012

Sally Fields bjargar jólunum

Mér finnst eins og Brothers and Sisters sé alltaf í sjónvarpinu. Þetta er vegna þess að það er á dagskrá þau kvöld sem ég kem seint heim úr vinnunni og Nanna er inní stofu að horfa á sjónvarpið. Önnur kvöld er ekki kveikt á sjónvarpinu þegar ég kem heim, og svo fer ég að gera eitthvað annað.

Það er ekki svo langt síðan mér fannst Ugly Betty alltaf vera í sjónvarpinu. Sennilega var ég á öðrum kvöldvöktum þá? Eða eru þeir kannske ekki í gangi lengur?

Jæja.

Brothers and Sisters var semsagt í sjónvarpinu um daginn þegar ég kom heim. Það var jólaþáttur. Og þar sem þetta var jólaþáttur þá voru þau að stæla A Christmas Carol. Mamman fer eitthvað í burtu með kærastanum sínum í staðinn fyrir að halda jólin með börnunum. Börnin rífast um það hvert þeirra fær að halda jólin "einsog mamma" og það er fyndið af því að annað þeirra er kona og hitt er hommi. (Þriðja er einhver gaur þannig að honum er alveg sama.) Mamman fær móral yfir því að börnin fái ekkert að éta o.s.frv. en lendir síðan á þeirri skoðun að hún hefði átt að kúpla sig útúr lífi þeirra fyrir löngu síðan. Svo dreymir hana Christmas Carol-drauminn sinn. Hann er svona:

Draumurinn sýnir það hvernig börnin hennar myndu vera í dag, ef hennar hefði ekki notið við. Stelpan sem annars er þvengmjór pólitíkus er í draumnum síétandi sófabarn sem muldrar oní bringuna á sér. Homminn er enn í skápnum, með konu og tvö börn, en káfar á viðhaldinu inní eldhúsi. Gaurinn er stefnulaus bytta og kvennabósi. Þau hata öll mömmu sína, sem flúði til Flórída (eða eitthvað) fyrir löngu síðan, og eru í miklu betra sambandi við stjúpmömmu sína. Svo halda þau jólaboð þar sem mamman, hún sjálf, ætlar að mæta, og þau ætla að drepa hana.

Þannig að þau eru morðingjar oní allt saman.

Þetta er allt dálítið yfirdrifið og húmorískt, þátturinn spilar það upp. En hádramatíkin er alltaf til staðar, ó hvað það er erfitt að vera manneskja.

En það er eitthvað rotið við þessa sýn: Mamman sér þarna hversu miklu máli hún skiptir í lífi barnanna sinna, jólakraftaverkið hennar er að hún sannfærir sjálfa sig (í draumi) um að hún hafi ekkert nema jákvæð áhrif á fólkið í kringum sig. En ekki nóg með það, heldur sér hún (hugsar hún, trúir hún) að ef hennar nyti ekki við þá myndi veröldin meira og minna hrynja til grunna. -- Vegna þess að veröld þáttanna er þessi tiltekna fjölskylda. Og eins og áhorfandinn fylgist með þeim frá viku til viku er mamman þarna hlutverki áhorfandans, þar sem hún fylgist með börnunum sínum frá stofu í stofu án þess að þau taki eftir henni.

Semsagt: Skilrúmið á milli fullkomnu fjölskyldunnar annarsvegar, sem Brothers and Sisters sýnir í hverri viku, og klikkuðu fjölskyldunnar hinsvegar, sem einkennist af sundrung, ýmisskonar fíkn og misnotkun, leyndarmálum, hatri, ofbeldi og morðtilræðum, er mamman. Það er að segja áhorfandinn, ég. Ef mín nyti ekki við þá væri mín fjölskylda einsog hyskið á forsíðu DV.

Kannske er þetta meira og minna það sem Capra segir í It's a Wonderful Life, en það er á stærri skala, það er (finnst mér) meiri eða sannari ljómi yfir því að vilja hysja bæjarfélagið upp úr svaðinu heldur en að líta á sjálfan sig sem bjargvætt fjölskyldunnar. -- Fyrir nú utan það að engillinn er sannarlega til í veruleika myndarinnar, á meðan draumur mömmunnar í Brothers and Sisters er ímyndun sem kemur til af sektar- og minnimáttarkend.

Fyrir nú utan það: jólaþáttur um miðjan mars. Hvað á það að þýða? Er ekki hægt að bíða með hann þar til í júní einsog í gamla daga?

-b.

20 mars 2012

Ég var búinn að gleyma þér

Ekki lengi. En samt alveg. Ekki bara smá.

Að gleyma smá. Speisað!

En ég er semsagt búinn að vera slappur og orkulaus í nærri mánuð, sennilega mest líklegast útaf vírus sem Nanna var með á undan mér. Ég hef ekkert getað reynt á mig án þess að gefast strax upp.

Kollegi minn í vinnunni spurði mig hvernig þetta lýsti sér, ég sagði að þetta væri alls ekki einsog að verða þreyttur eftir átak, heldur einsog að vera ekki alveg vaknaður. Þarna þegar maður er að fara á fætur og er ekki kominn með kraft í útlimina ennþá, vaknaður af svefni. Tilfinningin er ekki svo sterk, en hún er meira í ætt við það en annað. Máttleysi.

Og svo heldur maður að maður sé bara ekki búinn að borða nóg, en svo verður maður enn þreyttari af því að borða.. Sem er furðulegt útaf fyrir sig. Að meltingin geri mann örendan.

Eitthvert skiptið var ég að tala við Hall í síma og hann spurði mig hvað væri að gerast, ég sagðist vera með kvef, og hann stoppaði mig af. Nei nei nei nei, sagði hann, við erum ekki orðnir gamlir karlar sem hringjast á og tala um það hvað þeir eru veikir. Þannig að við fórum að tala um annað.

Nú sit ég fyrir framan internetið og tala um það í staðinn. Röflið vill út!

Á morgun fer ég í viðtal hjá Víðsjá til að tala um myndasögusamkeppnina.

Í gær var ég í vondu skapi og fór að fara í gegnum gamla pappíra og drasl, sortera, henda, geyma. Það væri færsla útaf fyrir sig, eða nokkrar. Þar á meðal var dagblað sem ég mundi ekki eftir, eða skildi ekki afhverju ég hafði viljað geyma. Aftarlega í því fann ég mynd af okkur Agli og Ými á Halló Akureyri 1999. Við erum ungir. Rosalega ungir.

Á netinu finn ég 'blaðaklippu' frá því þegar ég var aðeins eldri, að ausa vatni yfir busa. Er ég með augnskugga?

-b.

06 mars 2012

Topp fimm atburðir sem ég missti af þar sem ég lá veikur heima alla síðustu viku og þar til í dag

- Keiluspil ásamt vinum þarsíðustu helgi.

- Námskeið í verkefnastjórnun hér í vinnunni.

- Bjórhátíð á Kex, fimmtudag til laugardag síðastliðinn.

- Ráðstefna um rafbækur í gær, mánudag.

- Síðasta helgi yfirhöfuð.

-b.