Ég fór á Prikið, uppá aðra hæð, með flösku af maltextrakti og vatnsglas. Ég var með tölvuna, vinnutölvuna, í töskunni minni og þurfti að hlaða símann minn. Hann var í núll prósentum. Mér leið einsog ég væri sjálfur í núll prósentum. Djók.
Ég var ekki í núll prósentum. Ég var bara ekki í hundrað prósentum. Samband var takmarkað. Móða á skjánum. Símaskráin í lúppu. Sérstakt app fyrir myndlíkingar.
Ég þurfti aðallega að hlaða símann minn, til að hringja í Nönnu og segja henni frá því sem gerðist, jafnvel þó það hafi ekkert gerst þannig. Ég þurfti bara að fara úr vinnunni í smá stund.
Ég ákvað það sjálfur nota bene. Ég var ekki rekinn. Ekki einusinni í smá stund. Heyrðu það alheimur: ég er enn með vinnu. Gildi mitt í samfélaginu er ennþá yfir núlli.
Það eru ekki allir svo heppnir.
Ég ætlaði ekki að fara hingað en það leiðir sennilega allt hingað þessa dagana. Í dag að minnsta kosti.
Ég er að skrifa stuttar setningar án þess að stroka nokkuð út, bara af því að ég vil hafa það þannig núna.
Ég ætlaði að lýsa maltextrakt flöskunni minni. Hún er þung, bjórflöskur eru ekki svona þykkar. Stúturinn situr traustur á vörunum, sopinn er sömuleiðis þykkur, traustur, klístraður, sætur. Einhverntíma var miðinn úr pappír, nú er hann úr plasti. En flaskan er ennþá úr gleri, af því plast er rusl, en gler er rusl sem brotnar.
Já einsog annað sem brotnar. Appið fyrir myndlíkingar.
Plast brotnar í mesta lagi saman.
Þannig sér maður hvort maður sé með plast í höndunum, þegar maður stendur fyrir framan endurvinnslutunnurnar, og er ekki viss hvort þetta sé plast eða einhverskonar málmblanda, kannske pappír? Brjóttu það saman, ef það opnast aftur þá er það plast. Ógeðslegasta ruslið af öllu saman: maður brýtur það og það kemur bara aftur.
Gler brotnar.
Þegar fólk byrjar í heimabruggi spyr það stundum hvernig sé best að búa til maltextrakt. Það hafa nokkrir reynt það. Ég held að niðurstaðan sé sú að þú getir búið til eitthvað sem liggur ansi nærri maltextrakti, en það sé varla þess virði.. drekkur maður meira en eina flösku af malti á ári? Þegar manni líður illa og maður veit ekki hvað maður á að gera, og mann vantar að setjast einhverstaðar án þess að kaupa heitan drykk, og kannske er maður barn ennþá og langar í sykur, eða kannske er maltið nostalgíusopi og maður getur ekki sótt nostalgíuna beint í maltað korn og lakkrísrót. S04?
Maltextraktið er eitthvað sem hefur enga sérstaka merkingu en það er snertipunktur við fortíðina, og ekki bara fortíðina heldur hluti sem skiptu einhverntíma máli en gera það ekki lengur. Hverjum er ekki sama um maltextrakt? Engum, engum er sama um maltextrakt. Engum er uppsigað við maltextrakt.
Það er engin ástæða fyrir því að nota gler.
Ekki nota plast en þú getur notað ál. Það er nóg til af því. Ef maður brýtur saman álið þá helst það niðri, en það er snyrtilegt, þú pakkar dósinni saman oní lyklakippu og innum bréfalúgu einhverstaðar. Glerið brotnar. Það dreifist útum allt. Því víðar sem þú þarft að djöflast meira á því til að brjóta það.
Er ég að fara að ganga frá dánarbúi? En ég þekki engan sem hefur dáið.
Nýlega.
Er ég að fara að ganga frá dánarbúi? Hvað er það? Þarf ég svarta ruslapoka?
Ég er sennilega búinn að hlaða símann minn nóg í bili. Ég ætla að loka tölvunni og fara út og hringja í Nönnu. Ég fór úr vinnunni til að vera einn en maður getur ekki verið einn niðri í miðbæ. Og ef ég fer heim þá er ég of einn? Hvernig er það sem þetta virkar.
-b.