04 janúar 2006

Svartar umgjarðir

Núna áðan reif ég upp flestalla takkana á lyklaborðinu mínu og þreif undirlagið. Hellingur af drasli þarna. Verkfæri: fingurnir mínir, plokkari, naglaklippur og kennaratyggjó. En núna er sko gaman að vélrita. Vildi að ég hefði eitthvað til að vélrita af viti.

Það eru tveir tímar í að alþjóðaskrifstofan opni og ég verð að fá einhverja aðstoð við þetta dótarí. Kaupmannahafnarháskóli? Hellingur af drasli þar á ensku, en óvíst með masterinn.. Og vorönnin í þessum skóla hérna rétt hjá, Háskóla Íslands, gæti bara orðið fín. Módernisminn hjá honum Sveini Yngva, útópíur hjá Benedikt oooog eitthvað. Mig langar að tékka á þessari kvikmyndafræði, en ég veit ekki hvort ég get tekið þessa fræðilegu grunnkúrsa þarsem ég er þegar búinn með eitthvað svipað í bókmenntafræðinni.

Ekki að ég sé svooo búinn með þetta dót heldur bara að ég er ekki viss um að ég fái það metið (fyrir nú utan að fá það metið inní masterinn.. Djöfuls vesen alltaf).

Kvikmynd: Mysterious Skin. Helvíti fín.. Virkilega óþægileg á köflum en mjög falleg samt. Einhvernvegin. Einstaka hræðilegar línur, en mestallt vel skrifað og á heildina mjög vel leikið. Ég gæti nú hent henni uppá heimasvæðið mitt.. ég er annars mjög latur við að sækja bíómyndir og ennþá latari við að horfa á þær, en ég mæli með þessari.

Djöfulsins eilífa nótt er þarna úti. Ég er algerlega kominn með yfirdrifið nóg af þessu. Nei ókei, nóttin er góð í sjálfri sér. Ekkert að henni. En myrkrið er alveg að fara með mig. Gefðu mér frekar sumarnótt, þarsem það er þannig séð ennþá dagur en við vitum öll betur.
Ég hefði eiginlega ekki búist við því en minningin um Essósumarið hérna í Reykjavík er mjög þægileg. Vogar voru allt í lagi, en ef ég eima sumarið niður í nokkur augnablik þá er ég annaðhvort á leiðinni í vinnuna eða úr henni á hjólinu (jafnvel labbandi), léttklæddur í mismikilli sól en jöfnum hita.. eða staddur á Austurvelli með pilsner og myndavél. Kannske bók.

Sumrin í Gunnarsholti voru ágæt, en hver hafði sosum tíma til að njóta þeirra? Gemmér Reykjavík hvern dag. (Ókei næstum því hvern dag. Stundum var vinnan þar aðeins meira spennandi en bensínbransinn.) Og þaráður var ég á Klaustri, þarsem næturnar voru frábærar, en ég var alltaf vinnandi inní hótelinu á meðan þær liðu yfir sveitina fyrir utan. Bömmer.

-b.

Engin ummæli: