25 janúar 2006

Sambland: dót og dótarí

Ég ætlaði að hitta Má í ræktinni klukkan tíu í morgun, en svaf svona rækilega yfir mig. Það var reyndar voða þægilegt. Mig dreymdi eitthvað bæði yfirnáttúrulegt og stressandi. Herbergi full af ekta-hlutum sem ég var að fela mig í og flýja til, milli þess að myrða minjona.

Já og það var nokkurskonar oval-laga hringur utanum BSÍ, breiður malarvegur sem var þéttsetinn herflugvélum og þessháttar. Varabyrgðir. En kanarnir voru í krísu og stóðu í ströngu við að tappa bensíninu af þessum skrímslum. Ég sagði einhverjum frá því og hann gapti. Þvínæst settist ég í sætið mitt, einn af sex flugmönnum í einhverri vélanna. Tveir framar, fjórir aftar. Sá hægri-fremri skipaði okkur að taka ofan hjálmana, en þeir voru jafnframt beltin okkar.

Eldur í kexkökum sem áttu að virka einsog eldspýtur en ég náði ekki glóð, bara snarki. Spriklandi skordýralappir málaðar á postulín. Ljónið átti að sofa í poka í herberginu á móti og ég beið eftir að það vaknaði þangað til að ég vaknaði.

.....

Í gær fórum við hinsvegar í ræktina klukkan hálfellefu, eftir að hafa labbað niðrí bæ að sækja póst og blóðþrýstingslyf. Þvínæst fékk ég bílinn lánaðan hjá mömmu, nýja Land Cruiserinn þeirra:

sko kallinn


..eða eitthvað í áttina.

Keyrði til Völla og tók græjurnar og stofuborðið sem ég hafði sett í pant hjá þeim í desember. Gaf Völla start, kvaddi karlinn og sá svo á eftir honum þarsem hann brunaði niðrá næstu bensínstöð með honum afa sínum. Sævarinn (Volvóinn) bæði rafmagns- og bensínlaus. Svei því. Hann lítur annars einhvernvegin svona út, nema bara kremlitaður:

sko kaaaallinn


Keyrði heim á Eggertsgötuna með sólina í bakið og henti draslinu inn. Var að endurraða pleisinu núna áðan og það virkar sæmilega. Vantar samt einhvern stakan stól hérna skáhallt á móti mér. Þá væri þetta strax betra.

.....

Bráðum verður kosið til nýrrar stjórnar í Torfhildi, og um leið reynt að finna einhvern til að taka við vefsíðunni góðu. Það hlýtur að hafast. Ég hélt, þegar ég bauð mig fram til þessa á fyrstu önninni minni, að fyrst enginn annar hefði gefið sig fram kynni einfaldlega enginn annar á svonalagað. En ég trúi því varla lengur. Líklegra þykir mér að þeir sem þekktu til verka hafi vitað hversu mikinn tíma þetta dótarí tekur alltsaman, og haldið sig til hlés.

Ekki veit ég hversu mörgum klukkutímum ég hef eytt í að breyta þessari vefsíðu, lagfæra, bæta við og stússa almennt.. að maður tali nú ekki um þessar endalausu póstsendingar.. en þær eru orðnar ansi margar.

En það er náttúrulega bara vitleysa. Ég hef gaman af þessu.

.....

Í gær spurði Völli mig í framhjáhlaupi hvort mig vantaði eldhúsborð. Ég sagði nei. Núna sé ég meira eftir því en ég get tjáð í tvívíðum orðum.

-b.

Engin ummæli: