06 júní 2006

Áfram Ísland

Lost-málum hefur verið reddað. Takk Marvin.

Búinn að vera í GTA í dag og þar er allt á fullu. Vantar einn Virgo til að klára annan bílalista og svo er hellingur af ævintýrum eftir. Ef ekki væri fyrir þessa helvítis þyrlu þá væri ég vel settur.

(Gaman að þurfa ekki að hafa áhyggjur af stærri hlutum en þessum..)

Kvefið ætlar að vera með vesen. Ég man óljóslega eftir löngu hóstakasti einhverntíman í nótt, en ég get allavega kyngt án þess að fá rýting í hálsinn orðið. Röddin hvarf á aðfararnótt sunnudags og eftir sat ryðgaður sandpappír í vikurhaug. Krakki í pylsuvagninum bað mig um að segja ,,ring of fire" en ég gerði honum ekki til geðs. Ég er bara þannig gerður.

Íslendingar voru að enda við að sigra Dani í handbolta. Stundum er gaman af boltanum. Ég er t.a.m. illur útí Sýn fyrir að taka HM úr greipum hins reglulega Íslendings. RÚV hefði átt að taka þetta með valdi.. eiga þeir ekki byssur og barefli og svona? Símtal í Björn nafna minn Bjarnason og þetta hefði verið komið.

Ég missi reyndar engan svefn yfir þessu eða neitt, en það hefði óneitanlega lífgað uppá vinnudaginn að geta glápt á leikinn í sumar. Þetta er þannig djobb, já.

Fagurfræðingurinn Geoff Klock virðist vera orðinn reglulegur gestur hér á liðhlaupi.. annaðhvort hann eða vefstóllinn hans. Fyndið, þarsem ég skil ekki að þau lesi íslensku þarna fyrir sunnan.

Annar fagurfræðingur, Atli Fannar hórusöngvari, skrifaði fína grein í annaðhvort Blaðið eða Fréttablaðið um daginn sem mér fannst gaman að sjá. Hann talaði um það hversu gamalt drasl væri verið að flytja hérna inn, og að það væri í raun ekkert skrýtið að 'Reykjavík Rokkar' skyldi hafa fallið niður. Langar einhvern ennþá að sjá The Darkness eða David Gray hérna á Íslandi?

Þetta er náttúrulega ekkert nýtt.. á síðustu árum hafa bönd einsog The Strokes og Franz Ferdinand verið fengin hingað löngu eftir að kúlið sem lýsti af fyrstu plötunum þeirra hefur horfið inní móðuna. Að maður tali nú ekki um súrhey einsog KoRn eða Metallicu sem toppuðu fyrir lifandis löngu síðan.
Skilin á milli elli og klassíkur eru kannske óljós, ég veit ekki, en þau eiga a.m.k. ekki við í fyrrgreindum dæmum. Roger Waters ætlar að koma og spila The Dark Side of the Moon, sem hann gæti eflaust gert með lokuð augun og hendur bundnar fyrir aftan bak.. Fínt fyrir þá sem fílaða, rétt einsog með allt hitt, en þetta er síður en svo spennandi gigg. Það sama má segja um hinn gamlingja mánaðarins, flautuleikarann úr bandinu þarna.

Hvað næst? Weezer? Smashing Pumpkins? Eminem?
Hvernig væri að reyna að ná í fólk sem er að gera eitthvað af viti?

Ég vil líka viðra þá skoðun mína að TM auglýsingarnar sem eru sýndar á undan veðurfréttum á RÚV eru með því fáránlegasta sem ég hef lengi séð og ganga engan veginn upp með því sem á eftir kemur. Ég legg því til að höfuðstöðvar TM verði lagðar í rúst.

-b.

Engin ummæli: