02 september 2008

Um buxur og skort á buxum

Það eru svona hnappar á gallabuxunum mínum, nema að þeir eru ekki beint hnappar. Meira svona einsog boltar sem ganga í gegnum efnið á ákveðnum stöðum, þar á meðal við hvorn endann á vösunum að framan. Og aftari boltarnir, þessir sem liggja nær mjöðminni en ekki maganum, hafa krækst utaní hluti einsog hurðarkarma og svoleiðis, og beyglast uppávið. Þannig að núna eru tvær beittar járnskífur utaná gallabuxunum mínum, þarsem hendurnar eru helst að þvælast, við framanávasana. Ég er búinn að skera mig nokkrum sinnum á þessum andskotum. Ekki alvarlega, en þetta er dálítið þreytandi.

Ég er að hugsa um að rífa þá úr. Detta buxurnar í sundur? Hver veit.

Ég veit hinsvegar að í morgun var gengið inná mig þar sem ég var að stíga uppí sturtuna heima. Það var nett óþægilegt. Hann Frikki benti á að það hefði líklega verið óþægilegra hefði stöðunni verið snúið við, og ég gengið inná viðkomandi. Ég held það sé nokkuð til í því.

Auðvitað var þetta trassaskapur í mér að læsa ekki dyrunum, en ég hef einhvernvegin aldrei vanist því, ég veit ekki hvers vegna. Þá hugsaði ég með mér að eitthvað í þessa veru hlyti að koma fyrir fyrr eða síðar.. Svona einsog þegar franski herinn hefur vetursetu í Moskvu: það skiptir minnstu máli hvað veldur, borgin brennur áður en vorar. Þá er kannske fínt að koma því frá, taka því sem víti til varnaðar (fyrir þá sem muna svoleiðis) og snúa sér að öðru.

Hei vinnudagurinn er úti. Hjóla heim Björn.

-b.

Engin ummæli: