06 ágúst 2008

Hei Björn hvað er að gerast?

Á ég að vera einn af þessum gaurum sem segir bless við bloggið sitt af því að hann hefur svo mikið að gera og netheimar eru ekki lengur líkir sjálfum sér, veröldin er grimm og vinnan hræðileg og veðrið skítt og konan farin og börnin þekkja mig ekki og hundurinn dó og bíllinn bilaði og skáldsögunni var hafnað og þetta gæti verið krabbamein og nýja Fantað er ekki eins á bragðið og gamla Fantað?

Til hvers að vera sá gaur. Ekkert af þessu er satt, nema þetta um Fantað, en ég drekk ekki Fanta. Ég hef bara ekki fundið neina þörf til að setja orð á blað. Nema núna í þetta skipti. Þetta er þversögn, þær eru svo nauðsynlegar. Sko:

Mér dettur ekkert í hug (nema það að mér dettur ekkert í hug -- og það að hugdettuleysið sé hugdetta).

Á þessu getur maður þrifist.

Svo er tvennt ólíkt að hafa ekkert að segja og að hafa ekkert um að tala.

Hvað um það. Hún þarna stelpa í bandi. Leiló. Hún var hérna rétt í þessu, gekk um og skoðaði. Hún barst í tal um helgina, við vorum að reyna að muna í hvaða bandi hún er, þessu sem við sáum á Airwaves þar sem Bassi spilar á trommurnar. Af því að við höfðum farið á þá á Organ og látið einsog hálfvitar og enginn í kringum okkur var að fíla það þegar við tókum að hrinda hvor öðrum í pínulitlum moshpit og Davíð fór oná herðarnar á Víði en þurfti að beygja sig til að rekast ekki uppí loftið. Og bandinu leist ekki á blikuna, eða svo sýndist Davíð; ég man óskup lítið eftir fólkinu í kringum okkur.

En svo hringdi Hlynur í Helgu og hún sagði að Leiló væri í Benny Krespós, en það var ekki bandið sem við sáum, heldur Nilfisk. Svoleiðis að það var allt í lagi. Hvernig getur maður ekki látið einsog fífl á Nilfisk tónleikum á Organ?

Ég gæti kannske reynt að segja eitthvað frá bústaðarferðinni, en það gerðist óskup fátt. Við spiluðum Djenga, Kubb, Petank, Actionary, Kana, Bíóbrot, Catan, Skrafl og Pictionary. Ég spilaði samt ekki þessi tvö síðastnefndu því ég var annaðhvort nennulaus eða að leggja mig. Ég uppskar tóma vanvirðingu þegar ég vann í Kubb, og svo furðar þetta lið sig á því að maður nenni ekki að spila við það.

Annars fann Hlynur (held ég alveg örugglega) fínasta Kubb-völl aðeins ofar í hlíðinni, sem var mun betri en þessi litli flati blettur bakvið bústaðinn. Það var stuð. Ég sendi Má mynd þaðan þangað sem hann var fastur í tilgangslausu barnaafmæli.

Við grilluðum helling. Pylsur, lambarifjur og svínakótilettur fyrir mig. Á laugardagskvöldi var brenna sem við nenntum ekki að kíkja á. Á sunnudaginn skutlaði ég Víði í rútuna á Borgarnesi. Mikið óskaplega var ég þreyttur þegar ég kom heim á mánudaginn.

...

Í gær flutti ég nokkra kassa yfir í nýju íbúðina, stelpurnar hjálpuðu aðeins til, en þær eru búnar að raða inní stofuna. Ég er svona að sirka út hvernig ég raða til í mínu herbergi. Ég virðist hafa fengið skrifborðið sem hjónin skildu eftir inní stofu, og er mjög sáttur við það.. Það er gott að hafa skrifborð en ég henti mínu þegar ég flutti til Köben. Stofustóllinn minn fer inní herbergi ef hann kemst, ég er ekki alveg búinn að finna útúr því hvernig ég raða bókahillunum.

Hei hann Orri kom og heilsaði uppá mig. Hann var að leita að nýja ritinu. Langt síðan ég hef séð hann..

Langt síðan ég hef séð nokkra úr bókmenntafræðinni. Nema kannske Atla Bollason, í sjónvarpinu. Ég fór niðrí skóla í dag að sækja vottorð um skólavist, leit inná Nemendaskrá og herbergið var fullt af ferðatöskum. Allskonar litar ferðatöskur á hjólum, sem stóðu uppréttar. Þetta var dálítið einsog installasjón sem maður nennir samt ekki að skoða alltof vel. Og ég mundi undireins að Nemskrá var færð yfir í Háskólatorg, þar fékk ég vottorðið mitt, nó próblem.

Fyrir utan var verið að skjóta eitthvað á filmu. Nýjan íslenskan spennuþátt?

...

Já og í gær, skondið smælki á forsíðu Fréttablaðsins:
Flestar þær hátíðir sem haldnar voru um verslunarmannahelgina gengu vel fyrir sig. Á Akureyri leituðu tvær konur á neyðarmóttöku vegna nauðgana, en þær hafa ekki verið kærðar til lögreglu enn sem komið er.

Já, ég hló bara víst.

-b.

2 ummæli:

Sævar sagði...

Ég hlæ!

Björninn sagði...

Eins gott!

Þetta er nefnilega hlægilegt.