16 nóvember 2008

Að eignast --viðbætt

Ég hugsa að það hafi verið um síðustu jól eða áramót, að ég spjallaði við Pál Þórarinsson niðrí Þingborg. Við vorum í jakkafötum einsog aðrir á staðnum, hann tók í nefið, ég ekki. Þetta var þessi gamli góði ,,hvar ertu að vinna, hvar býrðu?", það kemur fyrir að ég tala ekki um neitt annað í svona boðum, það er ágætt stundum.

En ég sagðist vera að leigja íbúð í Skaftahlíðinni með tveimur félögum mínum, það var gott og blessað en Páll vildi vita hvort ég ætlaði ekki að fara að kaupa. Ég held ég hafi talað eitthvað um að ég ætti ekki peninga og að fasteignamarkaðurinn væri heldur erfiður. Það væri varla hægt annað fyrir mig en að leigja, og mér þætti það í sjálfu sér ágætt. Jú, sagði Páll, en þú ert náttúrulega ekki að eignast neitt á meðan.

Ég man sérstaklega eftir þessu annarsvegar vegna þess að þetta var hárrétt hjá honum og ég hafði í rauninni aldrei hugsað út í það þannig. Ég vissi af fólki á mínum aldri sem var að borga mánaðarlegar afborganir af íbúðum sem það átti, eða var þannig að eignast, og að þær afborganir voru jafnvel lægri en það sem ég borgaði í leigu. Fyrir þeim (og Páli og mörgum öðrum býst ég við) voru þeir peningar að nýtast, en leiguféð mitt alls ekki. Ég gæti allteins fleygt þeim útum gluggann.

En hinsvegar kviknaði á því hjá mér að ég hafði aldrei lagt neitt sérstaklega mikið uppúr því að eignast fasteign. Mér þótti nóg að hafa þak yfir höfuðið, hvaða máli skiptir hvort ég á þakið eða einhver annar?

Þetta kemur náttúrulega líka inná þessa fóbíu mína gagnvart skuldum: Þegar ég leigi þá borga ég einhverja ákveðna summu í byrjun hvers mánaðar og þá erum við leigusalinn kvitt fram að næstu mánaðarmótum, ég er ekki að greiða niður einhverja gígantíska skuld í pínulitlum mánaðarlegum þrepum. Og svo er ég svo góðu vanur, ég held það hafi aldrei verið raunhæfur möguleiki í mínum huga að ég lenti á götunni.

En ég fór að hugsa um þetta þegar ég var fyrir austan síðustu helgi og Sigþór, bróðir hans Páls, spurði mig hvort ég ætlaði ekki að fara að kaupa (eða byggja!). Ég held ég hafi talað um það að ég ætti ekki pening o.s.frv. Hann þóttist nú halda að maður gæti fengið lán, ,,vilja ekki allir lána núna í dag?" Ég sagði að ég vildi hreint ekki fá lán hjá neinum sem vildi ólmur lána mér peninga.

Ég fattaði ekki fyrren ég hafði sagt þetta að þarna hafði ég súmmað upp mína afstöðu til þessarar lántökuvitleysu. Og nú er ég að reyna að hljóma ekki einsog dramblátur besservisser. En ef einhver bankar uppá hjá þér og vill endilega lána þér fullt af peningum, dettur þér engan veginn í hug að það sé maðkur í mysunni? Það á að vera erfitt að fá lánaða peninga, þannig veit maður að það eru alvöru peningar.

,,Everybody needs money. That's why they call it 'money'."

-b.

ps. Víðir gerir athugasemd og minnir mig á námslánin mín, þar tók ég ansi stórt lán sem ég kem til með að borga í litlum skrefum. En þarsem mitt svar var orðið frekar langt þá set ég það inn hér frekar en í athugasemdirnar:

Jújú, það var heldur alls ekki auðveld ákvörðun. Ég ætlaði á tímabili að seinka því að fara í háskólann þannig að ég gæti unnið í nokkra mánuði og átt peninga yfir veturinn svo ég þyrfti ekki að fá lán - og vinna þá væntanlega með skólanum líka. En fólk sem ég tek mark á sannfærði mig um að námslánin væru þau öruggustu og hagstæðustu sem ég ætti völ á. Og ég er feginn því að ég reyndi ekki að vinna fyrir skólagöngunni jafnóðum vegna þess að ég efast um að það hefði hafist. Ég er ekki nógu duglegur í því að leggja fyrir.

En það er tvennt í þessu: Í fyrsta lagi það að námið mitt, það sem ég keypti fyrir þessa lánspeninga, verður ekki tekið af mér. Annað en segja má um bíla eða íbúðir sem eru keyptar fyrir lánsfé. Þarna er ég ekki að ,,eignast" eitthvað sem fellur svo í verði á sama tíma og lánsafborganirnar hækka, og ég get með engu móti selt uppí kostnaðinn því það vill enginn kaupa.

Í öðru lagi að það er alls ekki auðvelt að fá námslán. Það er auðvelt að sækja um og það er ekkert mál að fá yfirdrátt útá umsóknina hjá bankanum, en til þess að fá lánsféð frá LÍN þá verðuru að sýna fram á námsárangur. Þetta er vegna þess að lánasjóðurinn er ætlaður til þess að fólk læri og klári sitt nám, ekki til þess að græða á því að lána krökkum peninga.

Þetta er það sem ég held að einkavæðingasinnar fatti ekki: Ríkisstofnanir af þessu tagi eru ekki settar á laggirnar með það að markmiði að berja einkaframtakið niður í svaðið. Þær eru ríkið, fólkið, að hjálpa sjálfu sér. Sú er hugsjónin að minnsta kosti. Og ég treysti þeim frekar sem lána mér peninga, varlega, af hugsjónarástæðum heldur en hinum sem vilja ólmir lána mér fé til þess eins að fá það aftur með vöxtum.

-b. (aftur)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þú ert hinsvegar búinn að kaupa þér á hellings lánum alveg dobíju af menntun, nema þú sért að leigja hana út mánuð fyrir mánuð og svo ef þú gleymir að borga þá verðurðu að skila inn gráðunni þinn.

Víðir

Þinn afturgengni sonur sagði...

já það er vandlifað. Ég man nú eftir því þegar ég hafði borgað tvær 90.000 króna greiðslur af mínu námsláni, sem var að heildarupphæð uþb 500.000 og hugsaði nú um að eftirstöðvarnar væru það litlar að varla tæki að hafa þetta hangandi yfir sér, svo ég hringdi og spurði í sakleysi mínu um eftirstöðvarnar sem voru þá þær sömu og höfuðstóllinn var,eftir að LÍN borgaði mér síðast.

En eignarmyndunin sem Palli var að tala um hefur síðustu árin ekki verið nein, þar sem lántakendur borga yfirleitt meira fyrir verðtrygginguna og vextina sem kalla mætti "að henda peningunum út um gluggann" Auk þess hækkar höuðstólinn í stað þess að lækka og verðmæti eignarinnar mun minnka næstu árin svo að við getum alltént þakkað fyrir að hafa ekki tekið þátt í "góðærinu".

Björninn sagði...

Já ég er mjög þakklátur fyrir það um þessar mundir. Og það er ein ástæða þess að ég kvitta ekki undir kröfur hinna og þessa að ,,skuldir almennings verði felldar niður". Sem er í mínum huga ekki svo frábrugðið því að fella niður skuldir þeirra auðmanna sem komu landinu í þessa krísu, ef marka má fréttaskýringar.**

Ég tók ekki þátt í þessari vitleysu vegna þess að ég vildi ekki skulda. Ætla þessir andskotar síðan að segja mér að þeir vilji ekki skulda lengur, af því þeir skulda of mikið? Fariði til helvítis.

**Það er svo aftur mun líklegra að þeir sem skulda mest fái sínar skuldir fyrirgefnar. Besta leiðin til að losna undan ábyrgð er að verða nógu stór til að geta dregið þjóðfélagið niður með þér ef þú verður nokkurntíman dreginn til ábyrgðar.

Björninn sagði...

Já og hei Birgir. Gaman að sjá þig.