10 október 2008

Svo bregðast krosstré sem lánsfé

Það er gaman að taka eftir því hvað íslenskir ráðamenn eru vel í stakk búnir þegar þörf er á myndlíkingum og skemmtilegum orðatiltækjum. Þeir tala um að stemma á að ósi, að nú sé skammt stórra högga á milli (svo vægt sé til orða tekið), og tala um þessa blessuðu krísu sem fellibyl, jarðskjálfta, náttúruhamfarir, flóð og storm (allir í bátana!).

Það er auðvitað dálítið kúnstugt að líkja þessum ósköpum við náttúruhamfarir.. Það hefði þýtt eitt hér áður fyrr en þýðir nú annað, þökk sé ,,hverju reiddust goðin." Nú getur enginn heilvita maður haldið því fram að jarðskjálftar og snjóflóð orsakist af því að mennirnir hagi sér illa, þessar stærstu hörmungar koma okkur manneskjunum nánast undantekningalaust ekkert við - og það er e.t.v. það sem gerir þær hrikalegri en ella. Það er eitt að líta til baka og segja að maður hefði nú getað gert eitthvað í málunum áður en illa fór (ef maður er valdur af bílslysi t.a.m.), en annað að líta til baka og vita að maður hefði ekkert getað gert í þetta skiptið, og að maður komi ekki heldur til með að geta gert neitt næst þegar þetta hendir.

Það er að segja að maður geti ekki lært af reynslunni, reynsla manns skiptir jarðskjálftann engu máli.

Og þá er einmitt svo hentugt að setja þessa lánakrísu upp sem náttúruhamfarir: Við gátum ekkert gert vegna þess að öflin sem komu þessu af stað eru ólýsanlega stór og við svo ólýsanlega lítil. Nú er bara að bíta á jaxlinn og bjarga bankakerfinu, við getum fundið sökudólga seinna seinna. Og það sem meira er! Við þurfum kannske ekki einusinni að finna upp á orsökum eða reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, því það væri jú einsog að reyna að setja upp jarðskjálftavarnir.

Það yrði hlegið að okkur.

Eitt eða tvennt:

Nú tala bankastjórarnir um að ,,baklandið" hafi ekki verið nægilega sterkt, eða að það hafi ekki vaxið með bönkunum sem skyldi, þegar þeir sprungu út. Á maður að skilja þetta sem áfellisdóm á ríkið, ,,okkur hin", sem sátu ekki sveitt við að vefja sífellt sterkara öryggisnet, eftir því sem bankarnir klifruðu hærra? Eða er átt við öryggisnet bankanna sjálfra, að þeir hafi teygt sig lengra en þeir gerðu sér grein fyrir að öruggt væri? Síðara tilfellið er einfaldlega engin afsökun, og það fyrra er svo ósvífið að maður næstum gapir.

Rétt einsog sú takmarkalausa ósvífni eigenda bankanna að leyfa ríkinu að bjarga fyrirtækjunum sínum úr kröggum þegar þeir sitja enn á milljörðum.

Og ef þeir sitja ekki á milljörðum, nú þá hafa þeir einfaldlega ekkert með að vera að taka lán útá peninga eða eignir sem þeir eiga ekki til.

Og enn og aftur sú ósvífni ,,kynningarfulltrúa" þeirra að ætla að greina á milli eigenda bankans og bankans sjálfs þegar spurt er um laun sem bankinn greiðir út eða arð sem bankinn gefur af sér. Það er þessi grundvallarfirring kapítalismans að fyrirtækin geti gætt hagsmuna mannfólksins, beint eða óbeint, þegar eigendur fyrirtækjanna þurfa ekki að taka ábyrgð á þeim.

Samanber dómurinn yfir olíufyrirtækjunum núna fyrir skemmstu.

Þá er einmitt aftur gott að tala um náttúruhamfarir, því að ber jú enginn ábyrgð á þeim heldur. Sérstaklega ekki reglurnar sem við fylgdum eða kerfið sem við reistum í kringum viðskiptin. Þessir kónar hafa margítrekað það að kerfið sjálft hafi ekki brugðist, heldur séu hamfarirnar svo ofboðslegar, kringumstæðurnar svo óvenjulegar, að það hafi einfaldlega ekki verið komist hjá hruni.

En ef við bökkum aðeins og hrækjum á þetta kjaftæði um fellibyli og jarðskjálfta, og segjum sem rétt er að þetta orsakast af því að manneskjur voru gráðugar og gálausar, þá hljótum við að spyrja: Til hvers eru kerfin nema til þess að halda reglu þegar manneskjurnar bregðast?

Þetta var ekki jarðskjálfti. Manneskjurnar brugðust, kerfið brást og ef núverandi lagarammi dugar ekki til þess að draga skemmdarvargana til ábyrgðar og lágmarka skaðann fyrir þeim sem annars færu verst út úr þessu, þá hefur það tiltekna kerfi brugðist líka.

-b.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vandinn er líka að mínu mati að lagaramminn er verk manna sem eru með í spillingunni. Pældu í að Gordon Brown notaði lög sem sett voru gegn hryðjuverkamönnum til að frysta fjármuni íslenskra fyrirtækja í Bretlandi þangað til semst. Það er nokkuð til í því hjá honum bara. Kapítalisminn og Sjálfstæðisflokkurinn eru gjaldþrota og til lengri tíma litið er það bara fínt.

Björninn sagði...

Jú, það er líkt og lagasetningar síðust misserin hafi miðast að því að viðhalda vitleysunni sem leiddi til þessarra ,,hamfara". Maður hefði í máttleysi sínu vonað að þessir andskotar sæu hag í að reka nokkra varnagla í leiðinni, en það er einsog alltaf með íslenska stjórnmálamenn að þeir kunna hreinlega ekki að skammast sín.

Svo maður alhæfi ekki um ráðamenn annarra þjóða, sem maður sér ekki eins oft.

Og hryðjuverkamennska.. Það er mjög við hæfi. Eru ekki allir óvinir Browns núna hryðjuverkamenn?

Nafnlaus sagði...

Fokkings Hippi

kær kveðja
Víðir

Björninn sagði...

Tizzakk.

Björn.

Nafnlaus sagði...

The Penis
Mighty Earth
And this Horde!

Hah, pistill, ég vil hann í moggann -
HKH