30 september 2008

Þessi þungu kíl

Ég kem heim örþreyttur þrjú kvöld í viku, dæsi einsog ég fái borgað fyrir það og bíð eftir að vera spurður. Síðan, þegar ég er ekki spurður, þá segi ég við sjálfan mig en samt nógu hátt til að heyrast framí eldhús ,,djöfull tók ég mörg kíl" eða ,,á ég að segja þér hversu mikið við tókum á því? Við tókum geðveikt á því."

Og þá segja stelpurnar eitthvað í líkingu við ,,kíl? hvað er það?" og ég útskýri língóið, en ég vil frekar halda áfram og kafa dýpra oní aðalmálið, sem er hversu mikið við tókum á því það kvöldið.

Svona ganga dagarnir fyrir sig.

Þeir fluttu Símsenhúsið á staðinn sinn í dag, eða ég býst við að þeir hafi gert það; það var búið að ryðja öllu úr Grófinni þegar ég lagði af stað heim. Ljósastaurar og umferðarskilti, keðjur og keðjustaurar, bílar sem voru lagðir í götunni og nokkrum bílastæðum við Sæbrautina, allt var þetta fjarlægt. Tveir massívir kranabílar komnir í startholurnar.

Á föstudaginn var málþing starfsmanna í safninu, á laugardaginn skrapp ég austur og endaði á einhverju soraballi í Hvíta húsinu, í gær horfði ég á einn eða tvo West Wing þætti og í morgun keypti ég og allir hinir Íslendingarnir bankann minn.

Svo settumst við Davíð og Ingibjörg niður eftir pítsuát og horfðum á The King of Kong, sem er algert æði.

-b.

Engin ummæli: