27 nóvember 2006

Hálfar sjálfsvísanir á HBO

Ég náði í nokkra þætti af Six Feet Under. Heil fjölskylda sem ríður hingað og þangað, fær ofskynjanir og reykir gras einsog það sé að fara úr tísku. Mjög vel heppnað í sjálfu sér, góðir punktar hér og þar, en ekkert sérstaklega spennandi.

Kannske vantar allar njósnir og metafiksjón í þetta fyrir mig?

Í byrjuninni á einum þætti sitja tveir gaurar og horfa á Oz. Það minnti mig á þátt í fjórðu seríu af The Wire, þarsem gaur situr á sjúkrabeði og horfir á Deadwood. Í báðum tilvikum eru þetta HBO þættir að sverja sig úr tengslum við þann ímyndaða heim sem birtist á þessari sömu rás. Meiningin sem liggur að baki er væntanlega sú að það sem við séum að horfa á núna sé raunverulegra en það sem var á dagskrá í gær. Því varla getur Fisher fjölskyldan í Six Feet Under átt von á því að sjá sjálfa sig á skjánum?

Auðvitað horfir fólk í kvikmyndum á aðrar kvikmyndir, og í bókum er minnst á aðrar bækur. Og svo framvegis. En um leið og tengslin fara að verða svona náin hýtur maður að velta því fyrir sér hver meiningin sé á bakvið þetta. Afhverju þetta frekar en eitthvað annað? Í öðrum þætti horfir heimasætan á þátt af Mr. Magoo, en það er ákveðið tímaleysi við svoleiðis lagað. Það er hlutlaust sjónvarp.. og sérstaklega afþví að þar er lifandi fólk að horfa á teiknimyndir.

Í The Wire sjáum við Al Swearengen kalla einhvern ,,cocksucker" á skjánum, og gaur í spítalarúmi hlær. Endurtekur orðið, ,,cocksucker." Honum finnst þetta mjög fyndið. Að öðrum þræði er semsagt verið að gera grín að Deadwood: Það er ekki séns að kasúal áhorfandi sjái hvaða tiltekna þátt er verið að sýna, því Swearengen segir orðið ,,cocksucker" nánast í hverri einustu senu í hverjum einasta þætti. Og það virðist heldur ekki skipta máli: Fólkið sem horfir er greinilega ekki að hlusta á það sem maðurinn segir á milli fúkyrðana, því finnst bara fyndið að heyra hann segja ,,cocksucker."

Við þekkjum ekki gaurinn sem er að horfa á Deadwood. Við þekkjum hinsvegar þann sem liggur á rúminu við hliðina, en hann fær ekki að horfa á HBO því hann hefur ekki nógu góða sjúkratryggingu. Í fyrsta lagi er skotið á bandaríska heilbrigðiskerfið og reglugerðir sem gefa hverjum sjúklingi sitt eigið sjónvarp, þannig að hægt sé að mismuna fólki í sem smæstum einingum. Í öðru lagi, og nátengt þessu auðvitað, er sú staðreynd að vænn hluti af fólkinu sem fjallað er um í The Wire gæti væntanlega ekki fylgst með sjálfu sér þótt það væri á skjánum, vegna þess að það hefur ekki efni á því að leyfa sér áskrift að kapalsjónvarpsrásum.

Tengingin á milli Oz og Six Feet Under er óljósari, en báðir þættirnir innihalda slatta af nöktum karlmönnum. Það mætti kannske segja að Six hafi haldið því elementi í gangi á HBO þegar Oz lognaðist útaf? Ég veit ekki..

Það virðist að minnsta kosti augljóst að fyrir Six og The Wire eru Oz og Deadwood skáldskapur og allt í plati, andspænis raunveruleikanum sem þeir fyrrnefndu eigna sér um leið.
Þetta er sérstaklega skemmtilegt þar sem The Wire á í hlut. Þættirnir gefa sig út fyrir að sýna lífið á götum og í skólum og í lögreglustöðum Baltimoreborgar á raunsannan hátt, en um leið eru mjög dramatískar breytingar gerðar á borgarskipulagi og stjórnsýslu. Að vísu mætti segja að það sé helst til að sýna fram á máttleysi slíkra tilrauna í núverandi umhverf efnahags- og stjórnmála.

Ég man eftir öðru samskonar dæmi, sem mér fannst einstaklega fyndið á sínum tíma. Í einhverju tölublaðinu af The Last Man fær einhver að sjá Zippo-kveikjarann hans Yoricks. ,,Fuck communism? What are you, a cossack?" Hann útskýrir að þetta sé úr myndasögu, honum hafi bara þótt þetta sniðugt. The Last Man er gefin út af Vertigo; og hver sem kannast við merkið þekkir til Preacher, þaðan sem þessi hugmynd kemur. Þá dettur mér reyndar í hug að í öllum þessum tilfellum er verið að vísa til verka sem hafa runnið sitt skeið. The Wire og Deadwood voru í gangi á sama tíma, en við sjáum ekki Swearengen á skjám Wire-Baltimorebúa fyrren þættirnir eru úti (ef við teljum fyrirhugaðar sjónvarpsmyndir ekki með, og ég ætla að ganga þá leiðina fyrst ég er kominn hingað).

Það er auðvitað hentugt að geta gert nett grín að þessum fyrri verkum, vitandi það að þau geta ekki slegið frá sér. En ef til vill má sjá einhverskonar kveðju í þessu. ,,Þú áttir góða spretti, en nú er þér lokið og þú átt heima í poppkúltúr-tilvísunum og wikipediu; þessi saga er ennþá í mótun."

,,Okkar er raunveruleikinn!"

,,Sjáið mig!"

,,Klukkan er að ganga".. Eee.. Klukkan er að ganga fimm. Ég get svo svarið það, þetta átti bara að vera þrjár línur um Six Feet Under.. Góðanótt.

-b.

Engin ummæli: