Spooks er það besta sem ég hef séð lengi vel. Ég var að klára að horfa á fyrstu þáttaröðina og mig klæjar í puttana að komast í næstu. Skrýtnast við þetta finnst mér að allra fyrsti þátturinn er eiginlega frekar lélegur. Voða lítið í gangi. En 2 til 6 eru hver öðrum betri. Fyrir utan spæjaradjobbið sjálft þá er einstaklega skemmtileg vinnustaðapólitík í gangi, sem vegur mjög þungt en virkar samt einsog daglegt brauð fyrir fólkið í MI5. Tveir samstarfsmenn leigja t.a.m. íbúð saman, og stunda það að 'sweep'-a herbergi hvors annars eða stela hlutum án þess að hinn aðilinn taki eftir því.
Ranghalar skrifræðisins eru líka áberandi eftir því sem við kynnumst stofnuninni betur. Goggunarröðin virðist ekki skipta jafn miklu máli og hversu vel hver og einn heldur á spilunum, og hversu langt maður er tilbúinn að ganga til að ná sínu fram. Engum er treystandi, allra síst fólkinu sem þú átt að kalla kollega þína, og allir hafa mismunandi hugmyndir um það eftir hvaða reglum er spilað. England er líka svo óttalega smávaxið stórveldi að óvinirnir eru allt um kring og bræðraveldin þurfa fyrst og fremst að hugsa um sig sjálf. Og svo eru spæjararnir sjálfir upp til hópa meingallaðir einstaklingar.
Hugh Laurie er æðislegur sem stórkarl hjá MI6 og Peter Firth er kaldur líkkistunagli í hlutverki yfirmannsins á svæðinu.
Að vissu leyti minnir þetta á Queen and Country (sem allir ættu að lesa og njóta), sérstaklega í því hversu ódýrt og laust við allan glamúr líf spæjarans virðist vera, en einsog þau minnast á oftar en einusinni í þættinum þá hafa fjárveitingar til stofnuninnar stóraukist eftir WTC-árásirnar í BNA 2001, og fjársveltið sem einkennir stjórnsýsluna í Q&C er því einfaldlega ekki til staðar. Q&C er ennfremur meira og minna byggt á breskum sjónvarpsþáttum að nafni Sandbaggers, sem ég hef hvergi fundið á netinu allt frá því ég las um þá fyrst. Helvítis.
Það er líka bara hressandi að horfa á ,,lögguþátt" þarsem vondu kallarnir eru virkilega slæmir tappar. Ég tel mig ekki beint grænan í þessu glápi en oftar en einusinni trúði ég varla hvað skúrkarnir komast upp með. Nú sem áður er það hættan við að skemma hlutina fyrir þeim sem hafa ekki séð draslið sem hindrar nánari athugun. Mussju Klock á ágætis punkt um spojlera, þarsem hann segir að við getum horft á myndir einsog Psycho og Citizen Kane og haft gaman af, jafnvel þótt við vitum 'leyndarmálið' áður en myndirnar upplýsa það. - En maður skyldi ekki dirfast að spilla Lost fyrir grey manninum sem á eftir að sjá síðasta þátt.
En fyrir mér er þetta allt jafn mikilvægt. Ég efast ekki um að ég hefði meira gaman af því að sjá Citizen Kane (á það eftir) ef ég vissi ekki útá hvað málið snerist. Ég hef óvart eyðilagt sjónvarpsþætti fyrir sjálfum mér með því að sjá á netinu einhverstaðar að ákveðinn aðalleikari hafi bara verið í spilinu fyrstu þáttaröðina. Ef ég er að klára skáldsögu þarf ég að passa mig sérstaklega vel á því að lesa ekki síðustu orðin á blaðsíðunni óvart.
Og svo framvegis.
En það er semsagt breskt bjúrókrata-löggudrama í gangi núna. Spooks, The State Within og Edge of Darkness. Allt einstaklega gott stöff.
-b.
2 ummæli:
Ég get ekki orða bundist. Ég hef áhyggjur af þessu sjónvarpsglápi!
-ingi
Í alvörunni?
Þetta er bara miðill sem ég nota til að innbyrða skáldskap, margt einsog hvað annað. Ég hef verið í myndasöguhvarfi undanfarið og sjónvarpsþættirnir hafa e.t.v. verið að koma í staðinn fyrir það, og því meira sem ég sæki því fleiri tengingar sé ég hingað og þangað og langar þá að líta á aðra hluti.
Ég glápi eflaust meira en áður, en ég er líka talsvert meira einn hérna heldur en ég var heima. Og það er ekki einsog ég setjist fyrir framan kassann og glápi á það sem er í gangi.. Ég vel allt það sem ég horfi á hverju sinni og ég held það sé ákveðinn munur þar á.
En ég ætla ekki að fara útí einhverja langloku. Það er fallegt af þér að hafa áhyggjur. Takk fyrir það.
Skrifa ummæli