01 nóvember 2006

Augnablik í Edge of Darkness

Hallur benti mér á breska míníseríu frá '85 sem heitir Edge of Darkness. Og hún er mjög bresk og hún er mjög eitís. Ég var að horfa á fyrsta þáttinn og ég skemmi ekkert fyrir neinum með því að upplýsa að í byrjun sögunnar er dóttir aðalsöguhetjunnar drepin með haglabyssu. Karlinn, sem er lögga, er augljóslega í sjokki, en lætur ekkert uppi. Eftir að löggurnar eru farnar og ró kemst á húsið hleður hann riffilinn sinn og röltir um húsið, að hugsa um dóttur sína. Hann heyrir hana tala við sig, fer í herbergið hennar og grípur í eitt og annað sem liggur frammi. Setur plötuspilarann í gang, les í skólabók, lyktar af fötunum í skápnum hennar. Opnar skúffu í kommóðunni og finnur geiger-teljarann hennar (?). Lokar opinni nærfataskúffu. Kíkir í skúffuna á náttborðinu og tekur upp veskið hennar. Skoðar myndina af henni í vegabréfinu. Tekur upp víbradorinn hennar, virðir hann fyrir sér, kyssir hann og leggur hann svo aftur niður. Rótar lengra aftur og finnur skammhleypu..

Vó vó vó! Eruði að ná þessu?

Hann tekur upp víbradorinn hennar. Virðir hann fyrir sér. Kyssir hann. Og leggur hann aftur frá sér.

Og gaurinn heldur andlitinu allan tímann.

Þetta gerist um miðbik þáttarins og maður er búinn að fylgja gaurnum í gegnum alltsaman alveg fram að því. Hann sækir dóttur sína í skólann, hún er skotin niður fyrir framan hann. Löggurnar taka sýni af höndunum á honum. Hann töltir um húsið í losti. Og svo kyssir hann víbradorinn hennar? Nú er öllum nákvæmlega sama um það að hann skuli hafa fundið byssu í framhaldinu. Hún skiptir ekki máli lengur. Ef þú ert að horfa á þetta í sjónvarpinu þá starirðu á skjáinn og spyrð Hvað var hann að gera? og ef þú ert ég þá spólarðu til baka og segir Já, mér sýndist það.

Eflaust er meiningin sú að fólk geri skrýtna hluti í svona ástandi. Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá nær gaurinn að selja þetta, kannske vegna þess að maður hefur fylgt honum eftir svo lengi fram að þessu. En hvernig þetta spilar saman við byssuna er líka athyglisvert vegna þess að einsog ég segi þá grípur þetta athyglina frá henni. Karlinn kippir sér ekkert upp við hana heldur; hún er bara enn einn hluturinn sem dóttir hans hefur látið eftir sig. En undir lok þáttarins kemur byssan aftur við sögu og þá er spurning hvort ætlunin hafi verið að leiða athygli áhorfandans frá henni á þennan furðulega hátt.

Ég er að minnsta kosti að ná í restina af þessum þáttum. Lúkkið er dálítið svipað og í fyrstu þáttunum af Cracker en tónninn jafnvel dekkri. England er dimmt og drukkið og það rignir allstaðar, London minnir á krabbamein, hetjan er sköllóttur gaukur í rykfrakka og í sjónvarpinu er Thatcher að tala um kjarnorkuvopn. Gerist ekki betra.

-b.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hljómar eins og endemis snilld! Bretarnir klikka ekki. Skyldi þetta hafa verið sýnt í sjónvarpi allra landsmanna RÚV, nokkurn tíman?
-Ingi

Nafnlaus sagði...

ég var alveg hlessa, átti hún geiger-teljara.?

Björninn sagði...

Það er spurning hvort þetta hafi verið á RÚV.. Vel hugsanlegt.

Og já, gellan var víst svo mikill aktivisti, hún var að mæla eitt og annað. Þetta er eiginlega svona rækilega klofin þrí-eind; geiger-teljarinn, víbradorinn og skammbyssan.