10 nóvember 2006

Hugsað upphátt um skrif í West Wing og 60

Studio 60 heldur áfram. Um sinn. Síðasti þáttur fannst mér sá versti hingaðtil en kannske nær það að klára sig.

Ég var líka að enda við að klára fjórðu seríu af The West Wing, en Sorkin hætti að skrifa þættina eftir það. Mér skilst að hann hafi skrifað eða kó-skrifað hvern einasta þátt af þessum fjórum þáttaröðum fyrir utan einn. Og sá var ekkert svo spes. Ekki það, ég tók eftir því a.m.k. í fjórðu þáttaröð að fimm til sex ,,staff writers" voru teknir fram í kreditlistanum.. en WGA fíflast ekkert með svonalagað; þú verður að hafa skrifað ákveðið stóran hluta af handritinu áður en það er hægt að titla þig fyrir því.

Munurinn á þessum tveimur þáttum er greinilegur og sá samanburður held ég að hafi farið með Studio 60 hvað varðar almenningsálit. Og það er meira en bara það að Sorkin getur skrifað góð brot úr tækifærisræðu eða kappræðum, en er alveg villtur þegar kemur að sketsum. Það eru fáir þættirnir þarsem það er ekki eitthvað að gerast í hernaðarmálum og alþjóðapólitík í The West Wing. Ég er ekki einusinni viss um að nokkur þeirra forðist það alveg. Og þannig ertu strax kominn með háfleygt-en-flókið veraldardrama til að fylgja innanhússrómantík og bröndurum um laglega repúblikana. Auðvitað tengist þetta allt á einhvern hátt, en það sem ég á við er að ef aðalpersónurnar væru einkaritararnir eða básalögfræðingar niðrí kjallara, og við færum aldrei inní ,,the situation room" til að taka ákvarðanir um sprengjuárásir og þessháttar, þá næði þátturinn aldrei sömu hæðum og hann gerir.

Þetta er það sem ég held að fólk hafi í huga þegar það spyr ,,hverjum er ekki sama?" Mér fannst þetta alltaf heimskuleg spurning til að leggja fram um sjónvarpsþátt, en kannske er hún ekki svo slæm. Það er ekki of mikið að ætlast til þess að eitt eða fleiri mannslíf hangi á bláþræði þegar maður horfir á sjónvarpsþátt. Sumstaðar er það eitthvað bölvað ástarsamband sem gæti farið á hvorn veginn sem er. Manni langar að sjá hvernig hlutirnir enda. Sjálfur er ég svo mikið meta ðég gæti horft endalaust á sjónvarpsþátt þarsem fólk skrifar sjónvarpsþátt og talar vel skrifaðan texta um það hvernig sjónvarpsþátturinn er skrifaður, en kannske myndi það ekki saka ef einhverstaðar nálægt væri einhver að bjarga berbrjósta konum úr gíslingu.

Sem leiðir yfir í punkt sem Ellis kom með fyrir ekki svo löngu síðan, og ég held hann hafi ekki tengt við 60 (en það gæti verið rangt), um hvað það er erfitt að skrifa um skrifara. Fyrstu þrjú blöðin af Transmet virka afþví að á meðan Spider situr og skrifar, þá danglar hann löppunum framaf húsþaki og á götunni fyrir neðan eru löggur að berja óbreytta borgara í spað. Hann bjargar lífum þeirra með því að rita á lappann sinn. En að öllu jöfnu skrifar fólk ekki svoleiðis.

Ímyndið ykkur æsispennandi senu í sjónvarpsþætti þarsem Björn Bjarnason situr og skrifar svarbréf til Guðna Elíssonar á bloggið sitt.

,,Quick, to the Bat-Fax!"

Ræðurnar sem verða til í The West Wing eiga sér langan aðdraganda, samkvæmt því sem þátturinn gefur upp. Stór ræða verður til á mörgum mánuðum og safnar saman punktum, þemum, uppástungum, línum og bröndurum frá fullt fullt af fólki. En við fylgjumst ekki með því vegna þess að það er ekki gaman að fylgjast með því. Það er ekki drama. Við fáum að fylgjast með aðalskrifurunum þegar eitthvað þarf að gerast einn tveir og núna; þegar það þarf að umskrifa eitthvað á hlaupum eða þegar eitthvað svakalegt ríður á ákveðnum kafla. Það gengur vegna þess að í þessu umhverfi er vel hugsanlegt að svoleiðis aðstæður komi upp endrum og eins. Það sama má segja um umhverfi einsog Studio 60 í samnefndum þætti. Tæp vika til að skrifa einn og hálfan klukkutíma af góðu stöffi? Fyndnu stöffi? Það er pressa. En í undanförnum þáttum hefur allt meira og minna snúist um skrifin, og þau valda því ekki.

Ræðuhöfundarnir í The West Wing gera ýmislegt og eru alltaf nálægir, en þeir taka ekki stóru ákvarðanirnar. Þannig virka skrif um skrif, að því er virðist.

...

Útfrá þessu væri reyndar hægt að fara útí metafiksjón, þarsem skrifin taka allar ákvarðanirnar, og það gengur upp. En virkar það í sjónvarpi? Kannske. En ekki hjá Sorkin. (Og hér hefði ég sko alls ekkert á móti því að hafa rangt fyrir mér, en aldur og fyrri verk benda til annars.)

-b.

Engin ummæli: