08 desember 2005

Tónlist vs. þögn

Gæti verið að það sé of mikið af tónlist í gangi hérna í kringum mig? Ég hef ekki pælt í því á þeim nótum áður, en ég sit hérna á Prikinu fyrir neðan hátalara sem spilar Aerosmith lag frá því einhverntíman fyrir aldamót og fer að hugsa um hvernig það væri að taka sneiðmynd af tónlistarlandslagi nútímans (hver sem sá nútími er, hvort það er fyrsti apríl '95 eða dagurinn í gær) og reyna að rýna í það nokkru seinna.

Þetta væri annað en það að taka saman hittara og setja á safnplötu, Pottþétt 3.1415926...* Vegna þess að það eru ekki bara hittarar sem maður heyrir í útvarpinu hvoru sinni eða úr hátölurum á kaffihúsi eða útúr bílum sem keyra framhjá, það er slatti af drasli sem heyrist nokkrum sinnum og svo ekki meir. Og þetta overlappar líka; það er ekki ákveðinn pakki í spilun eina vikuna og svo er skipt yfir í glænýjan pakka hvern einasta sunnudag.

Kannske er ég að hugsa þetta of mikið útfrá útvarpinu. En samt, bíðum við. Þetta var ekki pælingin.

Því það er rosalega mikið af tónlist allstaðar. Ég hef ekki spáð í þessu áður, held ég, en það er stöðugt áreiti af þessum toga allstaðar. Í hverri einustu búð, fjöldamörgum vinnustöðum, bílum og hverskonar samgöngutækjum (leigubílum, fólksflutningabifreiðum, skipum, flugvélum og svo framvegis). Ég labba heim á eftir með mínídiskinn í eyrunum og kem svo heim og smelli á pandóru. Um leið og dagskrá sjónvarpsins sleppir eru spiluð tónlistarmyndbönd á öllum stöðvum.

Ég er ekkert viss um að þetta sé hollt.

Á hinn bóginn þá gæti þetta bara átt við um mig. Ég er viss um að ég sæki í þetta meira en góðu hófi gegnir. Maður venur sig uppá að hafa alltaf eitthvað í eyrunum og þarmeð verður þögnin ónáttúruleg.

Hvað um það. Þessi morðverkur sem ég var með í hálsinum/herðunum í gær skánaði eitthvað í nótt og ég er með svona tvíplús-hálsríg einsog er. Var alveg ónýtur í allan gærdag og kom bókstaflega engu í verk. Núna hafði ég það hinsvegar að hlunkast niðrí bæ og sækja hjólið hans Helga úr viðgerð. Nýjir bremsuklossar og yfirhalning á bremsunum yfirhöfuð, 3.400krónur takk fyrir. Þetta er ekki gefins. Gott að geta bremsað aftur, samt. Alger munur.

-b.

*Það er reyndar ekki svo slæm hugmynd heldur. Patent pending.

Engin ummæli: