16 desember 2005

King Hung

Ármann Jakobsson hálftók óyrtan brandarann úr kjafti mér. Eftir að hafa séð King Kong í gær vildi ég sagt hafa að Jackson hefði sannarlega eipsjittað á öllum hugsanlegum vígstöðvum. (Og pönnið til ætlað alveg lengst aftur í síðustu viku.)

En hún var slöpp. Minnir mig að vissu leyti á Corpse Bride, sem ég gleymdi að setja á listann ,,Lélegt ársins" í gær. Báðar myndirnar eru flottar, vel gerðar og allt það (Kong er vissulega tilkomumikill), en handritið er í báðum tilfellum afspyrnu lélegt. Mér var nákvæmlega sama um allar persónurnar. Og ég stóðst ekki mátið og flissaði að frekar lélegum brandara um miðbik Kong þarsem Baxter segir ,,I'm an actor who's just lost his motive."

Hvaða mótif? Sá eini sem hafði einhverja ástæðu fyrir því að gera það sem hann gerði var leikstjórinn, leikinn af Jack Black. (Fyrir utan lokalínuna hans, sem meikaði ekkert sens.) Og það voru ekki bara manneskjurnar. Þegar fólkið lendir á flótta undan ráneðlum sem eru að hlaupa uppi hjörð af grameðlum, þá halda þessi rándýr áfram að elta eina og eina manneskju á meðan það bíður fjall af dauðum risaeðluskrokkum eftir þeim nokkrum skrefum aftar. Án gríns, það hrynur hver risaeðlan á fætur öðrum á þessum hlaupum, ein svoleiðis væri nóg í allar ráneðlurnar í marga daga (og þær voru jú einmitt að veiða þær til að byrja með) og hvað gera þær? Stökkva yfir skrokkana og fara að eltast við myndatökumanninn þarsem hann prílar upp fjallshlíð.

Kjaftæði.

..og nota bene þá er ég ekki að kvarta yfir einhverjum kvikmyndakraftaverkum einsog hvernig í andskotanum þeir komu górilluni fyrir á bátnum og héldu honum sofandi alla leiðina heim, og komu honum síðan inní leikhúsið. Skrifum það bara á Hollívúdd-galdra. En mer finnst það alveg lágmark að menn og dýr hagi sér einsog menn og dýr. Er ég að biðja um of mikið?

Svo var hún alltof alltof löng. Þeir hefðu getað klippt burt a.m.k. korter með því að skera burtu helminginn af skotunum af hausnum á aðalleikonunni, þarsem hún starir útí tómið eða framaní Kong eða framaní rithöfundinn eða framaní skipstjórann..

*spoiler*

Það var ein góð sena. Svona virkilega góð, eitthvað sem fékk mig til að kalla ,,Ó já!" Eftir alveg rosalega langdreginn bardaga við 3-5 T-rexa stendur einn slíkur uppi á móti Kong (hann heldur áfram að berjast við tröllið yfir hálfum munnbita af mannakjöti þó svo að górillan hafi þegar drepið þrjár eða fjórar svoleiðis eðlur ein síns liðs.. *geisp*). Kongarinn tekur á móti honum, ræðst strax á kjammann, glennir hann í sundur og rífur úr honum tunguna með kjaftinum. Þá fer eðlan strax í vörn, berst um og reynir að komast í burtu en Kong hefur hann undir, kýlir hann í smettið nokkrum sinnum og heldur áfram að reyna að rífa af honum neðri kjálkann, þartil það tekst loksins með braki, og þá snýr hann fantinn úr hálsliðnum í leiðinni.

Það sem er svo flott við þessa senu er að þarna var Kong einstaklega vel stýrt. Hann er ekki monster sem slengir eðlunum hvorum utaní aðra eða stendur í loftfimleikum á meðan hann reynir að koma höggum á þær um leið og hann djögglar kellingunni á milli lausra handa og fóta. Hann ætlar að slátra þessum fýr, miðar á ákveðinn stað og berst við að rífa helvítið í sundur einsog hann sé að reyna að rífa lokið af stífri krukku og líf hans liggi við. Hann lemur og slær, grípur og togar, og maður heyrir hann næstum muldra, drullupirraðan en ákveðinn ,,svona helvítið þitt, gefðu eftir." Síðan tekst það og þá er einsog hann viti ekki hvað hann eigi að gera. Spennufallið sem kemur yfir hann þegar skrímslið liggur dautt er beinlínis áþreifanlegt. Þarna var hann í essinu sínu.

En svo tekst þeim að skemma þennan alfa-meil með ofur-gei skautaferð í Central Park.

*spoiler endar. held ég*

Ég veit samt ekki. Tek eiginlega í sama streng og Már: Þessi mynd var nákvæmlega það sem ég hélt að hún væri, en einhverstaðar innst inni vonaði ég að hún væri meira. Og það bara var ekki svo.

-b.

Engin ummæli: