12 desember 2005

Ikon: A

Síminn minn er orðinn lélegur.

Eða kannske er hann núna fyrst farinn að gera eitthvað af viti?

Hann er nefnilega hættur að vara mig við áður en hann verður batteríslaus.. þetta venjulega bíb bíb sem leyfir manni að tilkynna rosahratt heyrðuégerbatteríslaus áður en það drepst á honum. Hinsvegar hef ég tekið eftir því að hann slekkur gjarnan á sér jafnóðum og viðmælandi minn gerir eitt af tvennu:
  • Kallar mig illum nöfnum (þó það sé í léttu gamni, einsog það er nú oftast); tildæmis Þú ert nú meira flónið eða Þú þarna drullusokkur.
  • Biður mig um greiða eða spyr hvort ég geti komið að vinna.
Mig langar til að útskýra fyrir honum að hvortveggja sé í góðu lagi mín vegna, og að hann þurfi ekki að 'koma mér til bjargar' með því að binda skjótlegan enda á samtalið, en ég hef það bara ekki í mér.

Þetta er einsog þegar kötturinn kemur heim með fugl í kjaftinum handa fjölskyldunni. Það er ekki alveg við hæfi, og eiginlega frekar óþægilegt, en hugsunin er valid og hjartað er greinilega á réttum stað. Getur maður nokkuð kvartað yfir því?

-b.

Engin ummæli: