10 desember 2005

Íslandsbanki: Forsíða

Nýja Íslandsbankasíðan sem var opnuð fyrir nokkrum vikum fer mikið í taugarnar á mér vegna þess að þar er allt keyrt á samskonar myndum, og ég get ekki adblokkað auglýsingarnar án þess að þurrka líka út tenglana sem ég nota að staðaldri. Ég hef hingaðtil látið hafa það; þurrkað út allar myndirnar og lagt á minnið hvar ég smelli til að opna netbankann o.s.frv. En ég var að fikta í þessu áðan og opnaði fyrir myndirnar aftur, og sá þá þessa auglýsingu hérna:,,Ekki núna, ég er að kaupa hlut í Microsoft í Netbankanum."

Já er það.

Ekki núna hvað? Er verið að kalla á hana til að gera eitthvað, en hún kemst ekki í það vegna þess að hún er að standa í viðskiptum, athafnakonan sem hún er? Það að hún skuli vera í baði kemur því náttúrulega ekkert við að hún er vant við látin.
En hún er auðvitað ekkert í baði: hárið er einsog nýgreitt beint úr kassanum, og hún er nógu þurr á puttunum til að leggja hendur á lyklaborð. Staðreyndin er sú að hún er ekki þarna til að þrífa sig eða til að slappa af í karinu, heldur fer hún ,,í bað" til þess að hanga á netinu: lesa tölvupóst, skoða blóksíður, dánlóda klámi og eiga í verðbréfaviðskiptum. Og hversvegna ætli hún geri það? Vegna þess að hún hefur séð annað fólk gera það í heimskulegum auglýsingum rétt einsog þessari.

Hversvegna í ósköpunum er sífellt verið að reyna að sannfæra fólk um að það sé kúl að draga fartölvurnar með sér útí sveit og uppá fjöll eða á djammið eða á stefnumótið eða útí geim? Ég er kannske ekki sá sem ætti helst að rífa sig yfir þessu, þarsem ég tek tölvuna mína með mér hvert á land sem er, en þetta er bara orðið svo absúrd. Ég fer ekki með tölvuna mína í sturtu og ég get alveg skilið við hana rétt á meðan ég fer til tannlæknis eða í vínsmökkun*.

Þessi kerling getur það líka. Hún er bara orðin of kúl til að geta opnað tölvuna sína við skrifborð eða uppí sófa. Greyið.

-b.

*Ég hef reyndar bara einusinni farið í vínsmökkun.. afhverju í ósköpunum er mér ekki boðið í fleiri vínsmakkanir? Ég væri góður í svoleiðis.

Engin ummæli: