15 nóvember 2005

A-L

Mér sýnist þessi síða ekki koma neitt sérstaklega vel út í IE. Þetta fær maður fyrir að reyna að púsla hlutunum saman uppá pixel. (Hvernig er það annars, er ekki til neitt íslenskt orð yfir pixel? Orðabók aldamóta segir ,,punktur". Er það að ganga?)
..Þetta fær maður fyrir að reyna að púsla hlutunum saman uppá punkt. Jú, það gengur ágætlega. Spurning um að koma samhenginu til skila.

Dagurinn í dag fór í alls ekki neitt. Ég fór ekki að sofa fyrren að verða sjö í morgun og vaknaði ansi seint.. hef bara ekki komið mér að verki, enda búinn að vera ónýtur. Þynnka gærdagsins skildi eftir sig eftirþynnku sem ég er ekki alveg að meika. Mér líður einsog ég sé veikur en ég þykist samt vita að það sé ekkert að mér, þannig. Þetta er í höfðinu, svona mestallt.

Eða ég veit það ekki. Mér er illt í lungunum og ég get ekki dregið andann djúpt án þess að hósta. Gæti hafa náð mér í kvef þarna á slarkinu, eða þá að.. bara.. eitthvað. Það er eitthvað ekki einsog það á að vera.

Það er ekkert að gerast í fréttum. Nema þá þetta sem hann Már skrifar um í dag, Fox sýndu tvo þætti í röð af Arrested Development um daginn (eftir að hafa sett þáttinn á pásu í mánuð til að sýna hafnarbolta) og urðu fyrir svo miklum vonbrigðum með áhorfið að þeir ákváðu að stytta þriðju seríu niður í 13 þætti. Fyrsta sería var þessi staðlaði 22 þátta pakki, önnur var ekki nema 18 (svipað dæmi í gangi þá og núna, enda var óljóst með framhaldið eftir þá ákvörðun) og nú verður sú þriðja 13 stykki og punktur. (Ekki pixill samt.)

Ég vona bara að fyrst þetta er ákveðið núþegar, þá hafi þetta góða fólk tækifæri til að móta síðustu þættina með þetta í huga og klára dæmið almennilega. Eitthvað svipað og með The Ben Stiller Show, þarsem þau vissu öll að það væri búið að loka á framleiðslu þáttanna þegar þau gerðu 13. þátt (en hann fór aldrei í loftið). Því miður er lokaþátturinn á þeim bænum ansi slappur, en það er hinsvegar greinilegt að þau voru bara að gera það sem þeim datt í hug. Verst að það kom ekki betur út en það gerði á endanum..

Atli hóra óskar eftir kvenmanni til að brjóta í sér hjartað. Hver hefur ekki staðið í svoleiðis veseni spyr ég.

Í sjónvarpinu kyrjar skáldið: Ég vil ekki vera neinn annar en sá sem ég hef verið að reyna uppá síðkastið. Segiði svo að ljóðið sé dautt.

En svona í alvörunni, segið það með mér: Ljóðið er dautt.
Ljóðið er Dautt
(Smá meiri áherslu á endann þannig að maður geri líka heyrt það sem ,,autt", handa metistunum þarna úti) Ljóðið er dautt!

Ég tók myndavélina með mér austur en tók engar myndir á tónleikunum og engar myndir í brúðkaupsveislunni því ég tók myndavélina aldrei með mér. Kannske var það bara fyrir bestu.. hefði samt verið gaman að eiga góða mynd af Hjálmum. En ég á allavega þessa hérna af henni ömmu og Þorra bróður fyrir aftan módern léttmjólkurfernu:-b.

Engin ummæli: