30 nóvember 2005

Kaffihúsabrölt

Nú sit ég á Kaffibrennslunni. Það er aldeilis nýtt. Prikið er ennþá lokað vegna viðgerða (en svoleiðis er einmitt ídeal efni til að setja á heimasíðuna, kæra Prik), og verandi með mína ókunnu-staða-fóbíu þótti mér ráðlegast að fara hingað í staðinn.

Reyndar er aðeins fleira sem kemur þar að, en ég hef nokkur viðmið þegar kemur að svona löguðu:
  • Ég þarf að geta setið upp við vegg.
  • ..allra helst í horni, en það er bara bónus í rauninni.
  • Það má hvorki vera of bjart né of pússað. Timbur og skökk málverk vekja oft lukku.
  • Þetta á sérstaklega við um stólana. Plast- eða málmstólar eru alveg síðasta sort.

Annað sem ég tel staðnum til góða en finnst samt ekki dauðnauðsynlegt er t.a.m. gott borðpláss, þráðlaust internet, rafmagnsinnstungur (sem hægt er að nýta til að hlaða síma eða tölvu, til dæmis), útsýni, almennileg þjónusta og reykleysi.

Mér finnst líka gott að geta ekki séð allan staðinn frá því þar sem ég sit, en það kemur inná það sem mér finnst skipta kannske mestu máli, og það er að ég geti fengið að vera í friði. Ég gæti verið með góðan drykk í hönd, umkringdur betra fólki á besta kaffihúsi sem ég hefði nokkurntíman stigið inná, en ef þjónustuliðið kæmi til mín á hálftíma fresti til að gá hvernig ég hefði það þá væri ég farinn á nótæm. Ef þú vilt endilega hafa stöðuga róteringu á borðunum þá ættirðu að vera að reka skyndibitastað, ekki kaffihús.

En þessi staður er fínn. Tebollinn er í minni kantinum, en það er hinsvegar mátulega stórt hald á honum.. eitthvað sem ég get í raun og veru komið vísifingrinum inní, ekki einhver nybba sem ég þarf að grípa á milli þumals, vísifingurs og löngutangar. Hata svoleiðis.

Þannig hafa þeir það á Te og kaffi. Og þar er líka alltof alltof bjart. Og það eru krakkar þar! Börn! Og þess utan stanslaus hávaði í vélunum bakvið borðið.. bókstaflega ekki samræðufriður.

Ég er að spá í að gefa sjálfum mér svona límmiða í jólagjöf:-b.

Engin ummæli: