09 febrúar 2006

Þetta gæti verið auglýsing

Good Night, and Good Luck. er helvíti fín. Alveg helvíti fín.

Hún er svarthvít, engin brjóst, engar sprengingar, engir eltingarleikir, ekki einusinni brúðkaup í lokin.. og hún inniheldur mikið af nærmyndum af hvítum gaurum sem reykja einsog strompar. Og blaðra. En ég fílaði þessa mynd. Ég er náttúrulega svo mikill sökker fyrir þeirri hugmynd að fjölmiðlun og blaðamennska geti haft jákvæð áhrif á þjóðfélagið. Að fréttirnar geti í raun og veru skipt einhverju máli. Enda fer megnið af fjölmiðlunum sem ég sé í kringum mig þessa dagana virkilega í taugarnar á mér.. að miklu leyti vegna þess hversu illa skrifandi og/eða talandi sumt af þessu liði er, en óþægilegst finnst mér að þurfa sífellt að spurja hver sé að borga fyrir hitt eða þetta í fréttatímanum, eða hversvegna þessi póll sé tekinn í hæðina en ekki annar.

Þegar veggurinn á milli ritstjórnar og auglýsenda/eigenda er brotinn niður.

Fjandinn, það þarf ekki einusinni að vera svo alvarlegt.. 'Blaðið' hefur, að mig minnir, að minnsta kosti tvisvar sinnum selt forsíðuna og baksíðuna á öllu upplaginu þá dagana, undir auglýsingu. Auglýsingar eru að mínu viti ill nauðsyn, eitthvað sem maður notar til að koma því sem skiptir máli til lesenda.* En þegar auglýsingarnar taka meira pláss en efnið sjálft þá er ekki lengur hægt að tala um blaðamennsku.. þar eru á ferðinni auglýsendur sem hafa gefist upp, en neita að viðurkenna fyrir sjálfum sér að heilindi þeirra eru horfin útí veður og vind.

Enda er 'Blaðið' algert rusl. Mér finnst varla hægt að kalla það teikn, en það er engu að síður gaman að segja frá því, að þegar ég lagði inn beiðni á pósthúsinu um að póstkassinn minn fengi að vera í friði fyrir ruslpósti (og fékk svona fínan gulan límmiða og allt það) þá hætti 'Blaðið' að berast til mín, en 'Fréttablaðið' kemur enn. Nú er ég ekkert sérstaklega hrifinn af 'Fréttablaðinu' heldur, en það dylst varla neinum að í rauninni er það ekkert annað en 'Blaðið' með 'Frétta'-viðbót.

Kannske er útburðarfólkið sammála mér. 'Blaðið' sé rusl, en í 'Fréttablaðinu' megi þó endrum og eins finna eitthvað af viti. Hæ fæf á línuna, segi ég.

Hmm.. fór aðeins útaf sporinu þarna. En mér fannst þessi mynd frekar fjalla um málefni af þessu tagi heldur en McCarthy-fíaskóið í sjálfu sér. Auðvitað kom það að þessu, rétt einsog hver annar þáttur sem hefur að gera með almenningsálit, fjármagn, lobbýisma o.s.frv., en spurningin er hvernig á að vera hægt að halda úti almennilegri fjölmiðlun þegar batteríið sem heldur fjölmiðlunum uppi spyr bara um peninga.

Það er annars alltof stórt mál, og óðs manns æði að ætla að segja eitthvað af viti um það klukkan að ganga fimm að morgni. En er svo fráleitt að vilja halda því fram að hagsmunir eigenda fjölmiðla annarsvegar og fréttamanna hinsvegar séu hreint ekki sambærilegir, nema kannske einstaka sinnum, smávegis, og í mjög stutta stund?

Það að fréttamennirnir í þessari ágætu mynd séu strax farnir að spá endalokum sjónvarpsins sem fræðslumiðils á sjötta áratugnum segir kannske meira en margt annað.

Hvað um það. Tékkið allavega á þessari mynd. Hún er í draslinu, hér. (700mb, .avi , HI-net)

-b.

*(Hei Már) Þá á ég við auglýsingar í stóra geiranum, þarsem fólk hefur lífsviðurværi sitt af því að gera það sem það gerir á tilteknum fjölmiðli.. gaur sem heldur úti heimasíðu sér til gamans, þarf hvorki að borga fyrir hýsingu né lén, og er ekki að svelta, hefur ekkert að gera við auglýsingar. Ekki neitt.

1 ummæli:

Björninn sagði...

Tók myndina niður rétt áðan. Vona að einhver ykkar hafi séð sér fært að tékka á henni..