22 febrúar 2008

Einróma lof gagnrýnenda

Doktor Sævar Öfjörð, ljóðunnandi og ljóðgagnrýnandi til margra ára** hefur nú birt umfjöllun um nýútkomna ljóðabók mína, Ljóðskáld eru hálfvitar. Þar kemur Sævar fram af mikilli næmni og innsæi, sýnir leiftrandi snilld í meðförum tyrfinna texta og brýtur jafnvel þéttustu ljóðmúra á bak aftur. Hann brýnir penna sinn og ræðst til atlögu, skilur að endingu líkingavirkin eftir í rústum og sýnir lesendum sínum hvað hýrist bakvið sleipa veggi ljóðlínanna.

Og umfram allt þá er auðséð að hann skilur ljóð rétt. Sem er meira en að segja það.

Mér þykir gaman að sjá framtakssemi þessa tiltekna gagnrýnanda og ég vona að fleiri af hans sauðahúsi sjái sóma sinn í því að sækja til mín ljóðabók og skrifa lofsamlega um hana í hvívetna.

...

Og þá er víst rétt að varpa hulunni ofan af þessari síðu. Kæru lesendur, þessi blóksíða hefur allan tímann verið dulin auglýsingaherferð fyrir þessa æðislegu ljóðabók. Með þessu móti hefur mér tekist að lokka til mín hálfan annan tug lesenda, og geri aðrir betur. Héðan í frá munu öll skrif mín hér miða að frekari dreifingu á þessu bókmenntaverki, allt þangað til ég kýs að gefa frá mér næstu ljóðabók, sem ber nú vinnuheitið Gagnrýnendur eru hálfvitar (en ekki hvað?).

Takk fyrir.

-b.

**Athugasemd: Sævar Öfjörð er ekki ljóðagangrýnandi til margra ára og er ekki með doktorspróf. Hann er tölvunarfræðingur og meðleigjandi undirritaðs.

Engin ummæli: