08 febrúar 2008

Ljóðaslamm í gær: annað sætið

Svokallað ljóðaslamm var haldið hérna á safninu í gær, í tengslum við vetrarhátíð í Reykjavík. Það var þrælskemmtilegt, slatti af fínum atriðum. Gaurarnir í öðru sæti skildu eftir annan textanna sinna í púltinu og mér datt í hug að henda honum hingað upp, þarsem mér fannst persónulega að þeir hefðu átt að fá fyrsta sætið:

....

Við sprautum sílíkoni í konur svo þær seljist
Við sprautum hormónum í homma svo þeir kveljist
Við sprautum grænsápu í Geysi svo hann gjósi
Við sprautum genum í spenana útí fjósi
Við sprautum brundi yfir börnin yfir jólin
Við sprautum kolum útí loft svo skærar skíni,
rauðar setjist og heitar brenni sólin.
Grillveður um miðjan vetur!

Við sjúgum allt úr þessu lífi sem við getum
Við sjúgum sjúkdóma úr skítnum sem við étum
Við sjúgum líka seiðkarlinn sem okkur yngir
Við sjúgum hann með kokinu sem sæðið kyngir
sjúgum lífstóru úr liðinu í Asíu
og alla regnbogans litina úr fólksins fantasíu. VAÁ mar

Við seljum sálu okkar kölska fyrir fegurð
við seljum heilsu okkar Kröfum fyrir megurð
við seljum mömmu okkar Mammoni og frama
og ömmu í kaupbæti - hverjum er ekki sama?
seljum litlu systur okkar fokking drullusokkum
við seljum alla fyrir ekkert, aðeins fyrir okkur

Kaupum hamingju í niðursuðudósum
við kaupum varanlegar varir og við pósum
við kaupum banana og borgum barnabana
við kaupum margt en bara ekki marijúana
við kaupum sæti í krafna-maraþonhlaupi
við kaupum kæti í taflnaglasi og staupi

Við sprautum, við sjúgum, við kaupum, við seljum,
við sprengjum og reisum, við elskum og hötum
x2
Instrúmental

Við sprengjum Japana í tætlur fyrir friðinn
sprengjum milljarða fyrir mistökin og tímann sem er liðinn
og kransæðina í okkar skrokkaskrípi
og blæðum út inní okkur - drukknum í hjartans dýpi
sprengjum Araba fyrir gyðinga og uppdiktaðan guð
og fjöll og fallvötn fyrir háspennusuð
sprengjum meirihluta í minnihluta fyrir meiri völd
og ég sprengi hlustir ykkar hér í kvöld

Við reisum glerhallir og metorðastiga
við reisum mannorðið og byggjum við það lygar
við reisum vopnabúr og kvennabúr og blóðfyllta reðra
og heimsveldi í nafni okkar rasísku feðra
reisum helvíti á jörð sem enginn lifandi má sjá
og Karon upp frá dauðum þegar Amnesty fer á stjá
já nálgast hina forboðnu Akkaron-á.

Við hötum glyngrið í friðuðum hrafnalaupi
og allt sem ekki kaupa má með svartamarkaðskaupi
við hötum borgarstjórann, forsetann og Dorrit
og boð og bönn og forstjárhyggjuklámvarnarforrit
við hötum hið óþekkta og fólk sem er framandi
afætur á samfélaginu - hættulegar og lamandi

Ísland fyrir Íslendinga!

Við elskum alla nema alla nema okkur
og rennblaut ballarhöfin ef við sleppum smokknum
við elskum verkjalyf og andvana áramótaheit
við elskum herta fitu og stelpufrasann: ,,Ég er alltof feit!"
við elskum smiðinn fyrir viðinn - Ó! Gálgastokkur
við elskum engan nema engan nema okkur.

Við sprautum og sjúgum og kaupum og seljum,
sprengjum, reisum, elskum, hötum.

.....

Þetta hefði sjálfsagt þolað einhverja yfirferð, en það er margt gott þarna, fullt af fínum hendingum. Og flutningurinn ekki verri. Þetta var annars allt tekið upp og mér skilst að þrjú efstu sætin verði sett uppá netið. Sem er gaman.

Í kvöld er svo vetrarhátíð, og það þýðir að ég verð ekki laus úr vinnu fyrren um tíuleytið. En það er sosum í lagi því það er ekkert annað á dagskrá í kvöld..

-b.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

reðrum , það er nú meiri leirburðurinn.

Björninn sagði...

Jú það er rétt. Ég vildi nú ekki tína sérstaklega til það sem miður fór hjá karlinum, en ,,reðra" er leið beygingarmistök. Og það hefði í raun ekki verið svo erfitt að berja næstu línu að ,,reður".

En ,,reisum ... heimsveldi í nafni okkar rasísku feðra" er sterk lína.