08 febrúar 2008

Úr Njálu

Síðan kvað hann [Mörður Valgarðsson] svo að orði: "Þórodd nefndi eg í vætti, annan Þorbjörn nefndi eg í það vætti að eg lýsti lögmætu frumhlaupi á hönd Flosa Þórðarsyni á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson hljóp lögmætu frumhlaupi til Helga Njálssonar þá er Flosi Þórðarson særði Helga Njálsson holundarsári eða heilundar eða mergundar því er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Taldi eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Taldi eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti eg til fjórðungsdóms þess sem sökin á í að koma að lögum. Lýsti eg löglýsing. Lýst eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar. Hafði eg þau orð öll í lýsingu minni sem nú hafði eg í framsögu sakar minnar. Segi eg svo skapaða skóggangssök þessa fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem eg kvað að þá er eg lýsti."

Mörður mælti: "Þórodd nefndi eg í vætti, annan Þorbjörn nefndi eg í það vætti að eg lýsti sök á hönd Flosa Þórðarsyni um það er hann særði Helga Njálsson holundarsári eða heilundar eða mergundar því sári er að ben gerðist en Helgi fékk bana af á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson hljóp til Helga Njálssonar áður lögmætu frumhlaupi. Taldi eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Taldi eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti eg til fjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsti eg löglýsing. Lýst eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti eg nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti eg handseldri sök Þorgeirs Þórissonar. Hafði eg þau orð öll í lýsingu minni sem nú hefi eg í framsögu sakar minnar. Segi eg svo skapaða skóggangssök þessa fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem eg kvað að þá er eg lýsti."

Lýsingarvottar Marðar gengu þá að dómi og kváðu svo að orði að annar taldi vætti fram en báðir guldu samkvæði "að Mörður nefndi sér Þórodd í vætti en annan mig en eg heiti Þorbjörn" - síðan nefndi hann föður sinn - "Mörður nefndi okkur í það vætti að hann lýsti lögmætu frumhlaupi á hönd Flosa Þórðarsyni er hann hljóp til Helga Njálssonar á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson veitti Helga Njálsson holundarsár eða heilundar eða mergundar það er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Taldi hann Flosa eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda, óráðanda öllum bjargráðum. Taldi hann sekt fé hans allt, hálft sér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti hann til fjórðungsdóms þess er sökin átti í að koma að lögum. Lýsti hann löglýsing. Lýst hann í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti hann nú til sóknar í sumar og til sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti hann handseldri sök Þorgeirs Þórissonar. Hafði hann þau orð öll í lýsingu sinni sem hann hafði í framsögu sakar sinnar og við höfum í vættisburð okkrum. Höfum við nú rétt borið vætti okkart og verðum báðir á eitt sáttir. Berum við svo skapað lýsingarvætti þetta fram í Austfirðingadóm yfir höfði Jóni sem Mörður kvað að þá er hann lýsti."


Þetta er náttúrulega stórmerkilegt og bráðnauðsynlegt innan veggja sögunnar. En þegar maður eru að hlusta á bókina á rúntinum, missir úr eitt og eitt orð og svona, þá hlýtur maður að spyrja sig hvort græjan sé eitthvað farin að hiksta.

Engin ummæli: