29 febrúar 2008

Að dansa eða ekki að dansa

Ég keypti bókina Reader's Block eftir David Markson um daginn. Hún er mjög svipuð This is Not a Novel, sem er náttúrulega besta mál. Þarna eru efnisgreinarnar ein, tvær eða þrjár línur, æviatriði skálda, fræðinga og listamanna í bland við lýsingar á persónunni Reader, bókatitlar án frekari útskýringa og tilvitnanir án heimilda og stundum án höfunda.

Ein af þessum tilvitnunum er svohljóðandi:

,,Only a lunatic would dance when sober, said Cicero."

(Og svo ég leggjist nú ekki í sömu póstmódern gryfju og Markson þá er þetta semsagt héðan: Markson 2007 (1996), bls. 22.)

Þetta er flott lína. Mig langaði að vita hvaðan hún kemur svo ég gúglaði hana. Tilvitnunin er náttúrulega ensk þýðing úr latínu, svo að hún er til í nokkrum myndum. En sú langalgengasta var þessi:

,,No sane man will dance."

Má maður þá ekki gerast drukkinn lengur eða hvað? Línan er náttúrulega stutt og laggóð, fimm skoppandi atkvæði. Ég fékk reyndar svo fáar niðurstöður þegar ég sló absolút kvótinu hans Marksons upp að mig grunar að hann hafi fundið sína eigin orðaröð og hrynjandi. Það er ekki hægt að segja hlutina bara svona hinsegin, ég er viss um að Síseró hefið verið sammála því. No sane man will dance. En þá spyr maður sig hverju Markson sleppi. Varla skrifaði Síseró þessi orð á blað og setti í möppu sem barst svo til okkar í gegnum aldirnar..

Eftir smá orðabókahjakk fann ég latínuna:

,,Nemo enim fere saltat sobrius, nisi forte insanit."

Eftir meira hjakk fann ég hvaðan hún kemur, en það er úr Pro Murena (enska). Þar mælir Síseró fyrir Lucius Murena, sem var ákærður fyrir mútuþægni. Eða mér sýnist það hafa verið fyrir mútuþægni, frekar en að múta öðrum.. ég játa að ég nenni ómögulega að kynna mér málavöxtu nokkuð frekar.

En já. Semsagt. Þá getum við lesið efnisgreinina sem línan er tekin úr:

VI.[13] Cato calls Lucius Murena a dancer. If this be imputed to him truly, it is the reproach of a violent accuser; but if falsely, it is the abuse of a scurrilous railer. Wherefore, as you are a person of such influence, you ought not, O Marcus Cato, to pick up abusive expressions out of the streets, or out of some quarrel of buffoons; you ought not rashly to call a consul of the Roman people a dancer; but to consider with what other vices besides that man must be tainted to whom that can with truth be imputed. For no man, one may almost say, ever dances when sober, unless perhaps he be a madman, nor in solitude, nor in a moderate and sober party; dancing is the last companion of prolonged feasting, of luxurious situation, and of many refinements. You charge me with that which must necessarily be the last of all vices, you say nothing of those things without which this vice absolutely cannot exist: no shameless feasting, no improper love, no carousing, no lust no extravagance is alleged; and when those things which have the name of pleasure, and which are vicious, are not found, do you think that you will find the shadow of luxury in that man in whom you cannot find the luxury itself?

(Héðan. Áherslan er mín.)

Þá sýnist mér að Kató hafi sagt Murena vera dansara, og reynt þannig að rægja hann eða láta hann líta illa út. Og Síseró slengdi þessu svona aftur í fésið á honum. Meiningin er þessi, ef mér skjátlast ekki:

Þú segir Lúsíus Murena vera dansara, en allir vita að menn dansa ekki nema vel fullir eða geðveikir, og þá gjarnan á hápunkti hömlulausra partía. Með því að nefna dansinn gefur þú í skyn allskyns lesti og syndir, án þess að nefna þær beint á nafn, og það hæfir varla málfærslumanni af þínum kalíber.

Maður spyr sig þá hvort þeir Kató og Síseró gefi sér báðir að dans sé fylleríissport, það þurfi ekki að ræða það neitt frekar, og að Síseró sjái þannig hverju Kató er að ýja að. Eða er þessi tenging ekkert viðtekin, er Kató að vísa til lægstu hvata mannsins á óbeinni hátt? Þá á ég við þetta: Er Síseró, með þessum orðum sínum um dans og drykkju og brjálæði, að endurtaka viðtekinn sannleik, eða er hann að færa lúmskar árásir Katós í orð, án þess að taka undir meininguna?

Það má vera að þessu sé auðsvarað fyrir þá sem hafa í raun og veru lesið málsvörnina. En ég nenni því ekki svo ég læt mér nægja að kasta fram spurningunni.

Rosalega er gaman að skrifa á netið.

...

Markson minnist líka á að það séu enn til skrár yfir sigurvegarana í allra fyrstu ólympíuleikunum, árið 776 fyrir Krist, og áfram næstu níuhundruð árin! Og maður hugsar. Þessu nenntu þeir að halda til haga, blessaðir.

-b.

Engin ummæli: